15.03.1960
Efri deild: 43. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

41. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Fram. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Mál þetta, frv. um breyt. á lögum um framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl., var til 2. umr. hér fyrir nokkrum dögum, og við máliðhöfðu komið fram nokkrar brtt. og ein þeirra, brtt. á þskj. 157, var tekin aftur til 3. umr., vegna þess að það voru tilmæli hæstv. landbrh., að máliðyrði athugað betur á þeim grundvelli, hvort það væri hægt að fá samstöðu um það að gera breyt. á 3. gr. eins og hér er lagt til.

Þetta mál er þannig vaxið, að frv. hefur verið lengi í undirbúningi og margir menn um það fjallað, og á endanum varð það samningamál, að það væri lagt fram í því formi, sem það var lagt fram. Nú kom þessi brtt. fram við 2. umr. málsins, og taldi landbrh. þá eðlilegt, að leitað væri enn eftir því, hvort um samkomulag gæti verið að ræða um að breyta 3. gr. í þá átt sem hér er lagt til.

Landbn. hafði fund um þetta mál í morgun og ræddi það lítillega, en fundurinn var ekki vel sóttur. Það vantaði einn nm., og í öðru lagi gat sá maður ekki komið á fundinn, sem n. hafði óskað eftir viðræðum við, sem var einn sá maður af hálfu neytenda, er um þetta mál hafði mjög fjallað í vetur, Eðvarð Sigurðsson alþm. Hins vegar hef ég átt tal við Eðvarð um þetta mál tvívegis, og telur hann, eins og meiri hl. landbn. raunar taldi áður, að það hefði verið hluti af samkomulagi því, er fulltrúar neytenda og framleiðenda gerðu með sér um þetta mál, að ekki yrði tekið upp í lög ákvæði um það, sem þessi till. fjallar um. Þetta voru ekki formlegar viðræður, en þar sem þetta allt lá þó fyrir, kom landbn. sér saman um að gera ekki frekar í málinu, en láta atkvgr. fara fram um þessa till. hér við þessa umr., en henni var, eins og ég sagði áðan, frestað við 2. umr. málsins.

Ég hef ekki fleira um þetta að segja. Ég tel og hef talið í n. eðlilegt að gera ekki efnisbreyt. á þessu frv. frá því, sem samkomulag hafði náðst um, og ég er þeirrar skoðunar enn.