15.03.1960
Efri deild: 43. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

41. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls var brtt. á þskj. 157 tekin aftur til 3. umr. fyrir tilmæli hæstv. landbrh. Fyrri flm. brtt. gerði við þá umr. skýra grein fyrir efni till. og þeim áhrifum, sem henni er ætlað að ná. Mér þykir þó rétt, áður en till. kemur nú til atkv., að benda á nokkur atriði í sambandi við þetta mál.

Hæstv. landbrh. talaði vinsamlega um þessa till. og efni hennar hér við 2. umr. málsins. Hann viðurkenndi, að það væri réttmætt, að í löggjöf kæmi ákvæði svipað því eða efnislega samhljóða því, sem segir í þessari tillögu. En hæstv, ráðh. vék að því, að betur færi á að flytja um það sérstakt frv. vegna þess samkomulags, sem að baki liggur því frv., sem nú er hér til afgreiðslu. Ég get ekki fallizt á þessa röksemd hæstv. ráðh., því að vitanlega hefur það ekki gildi, hvort efni ákvæðis sem þessa er prentað á eina eða aðra pappírsörk, heldur hefur það eitt gildi, hvort það eru lög eða ekki og hvort það á að koma til framkvæmda eða ekki. Og nú er gert ráð fyrir í þessu frv., sem hér er fjallað um, að lögin um framleiðsluráð landbúnaðarins verði gefin út með þeim breyt., sem á þeim verða nú gerðar. Það verður varla gert fyrr en eftir að þessu þingi lýkur, og ef ákvæði sem þetta yrði tekið upp í sérstöku frv. á þessu þingi og lögleitt, yrði það að sjálfsögðu tekið inn í heildarlöggjöfina, þegar hún verður gefin út með áorðnum breytingum.

Þá vék hæstv. landbrh. að því, að hann áliti, að betur færi á að taka fram í ákvæði sem þessu, að einhver maður úr 6 manna nefndinni skyldi verða kvaddur í yfirnefndina. Ég get ekki heldur fallizt á þessi rök. Mér virðist eðlilegra að hafa þetta óbundið í lögunum, leggja það á vald hæstaréttar, sem tilnefnir manninn. Ef það færi svo, að þau félagasamtök, sem velja fulltrúa í 6 manna nefnd, sviptu þá umboði, þá finnst mér jafnvel fremur ólíklegt, að þeir menn, sem ekki ættu þess kost að vinna að þessum störfum í undirnefnd, yrðu fáanlegir til þess að taka að sér þessi störf í yfirnefnd, a.m.k. sé ég ekki, að fyrir því sé nein trygging, og þess vegna sé eðlilegra að hafa þetta óbundið í lögunum.

Að því var vikið við 2. umr. þessa máls, að eins og till. er orðuð, mundi það verða á valdi landbrh., hvaða mann hann skipaði í n., þrátt fyrir það ákvæði, að hæstiréttur skuli tilnefna mann. Ég held, að það sé regla við stjórnarathafnir, að þegar fram er tekið í þáltill. eða lögum, að ákveðinn aðill skuli tilnefna mann og ráðh, skipi samkv. þeirri tilnefningu eða eftir þeirri tilnefningu, telji ráðh. sig í framkvæmd bundinn af því. Ég held, að þetta yrði því ótvírætt þannig í framkvæmd, að raunverulega réði hæstiréttur skipun mannsins, þó að landbrh. að formi til framkvæmi skipunina.

Það hefur verið um það rætt, að till. sem þessi muni ekki samrýmast því samkomulagi, sem náðist milli fulltrúa framleiðenda og neytenda í 6 manna nefnd og frv. það, sem hér er fjallað um, er byggt á. Samkomulagið og samningurinn um afurðaverðið gildir til eins árs. Hann er uppsegjanlegur og meira að segja gert ráð fyrir því, að verðlagsgrundvöllurinn sé endurskoðaður ár hvert. Það liggur í augum uppi, að ákvæði þessarar till. hafa ekki áhrif á það samkomulag um verðlagsgrundvöllinn, sem náðst hefur og gildir þetta yfirstandandi verðlagsár, enda er alls ekki að því stefnt af hálfu okkar flm., en hér erum við að endurskoða löggjöf á þessu sviði, sem á að gilda framvegis. Það er löggjöf, sem á framvegis að vera grundvöllur undir nýja samninga, þar sem jafnvel aðrir og nýir menn kunna að koma til samningagerðar og fjalla þar um ný og önnur ágreiningsatriði en þau, sem ágreiningi ollu s.l. haust. Með tilliti til þessa sjónarmiðs er brtt. flutt. Ég get ekki ætlað, að þeir, sem skipa 6 manna nefnd, líti svo á, að það sé á þeirra valdi að segja löggjafarvaldinu fyrir verkum í þessu efni.

Í þeirri grein, sem brtt. á að verða þáttur af, eru ákvæði um dóm, sem á að fella úrskurði í verðlagsmálum landbúnaðarins. Dómar eru fyrst og fremst byggðir á lögum fremur en samningum, og það er algild regla og talin nauðsynleg í löggjöf bæði að fornu og nýju að búa svo um hnúta í löggjöfinni, að dómur verði starfhæfur. Ákvæði, sem að því lúta, má finna í löggjöf, t.d. gagnvart landamerkjadómi, félagsdómi, og meira að segja í lögum um hæstarétt eru ákvæði, sem tryggja það, að hæstiréttur verði fullskipaður, þó að dómari víki þar sæti. Þessi tillaga fer því alls ekki í bága við venju að þessu leyti.

Öll þessi atriði, sem ég hef bent á, eru gild rök fyrir því, að þessi brtt. verði samþykkt.