08.02.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

42. mál, fjárlög 1960

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þegar ríkisstjórnin var mynduð 20. nóv., hafði frv. til fjárlaga fyrir árið 1960 verið fullsamið og prentað. Frv. var vandlega undirbúið og vel úr garði gert af hálfu hæstv. fyrrverandi fjmrh., Guðmundar Í. Guðmundssonar, og ráðunauta hans. Það var byggt á því kerfi útflutningsbóta og innflutningsmála, sem í lögum hefur verið síðan í maí 1958, og var miðað við undangengna reynslu og þær horfur um afkomu og efnahag, sem næst varð komizt.

Núverandi ríkisstj. var það ljóst, að hverfa yrði frá uppbóta- og styrkjakerfinu og taka upp annað efnahagskerfi, sem að því miði að draga efnahag og atvinnulíf landsmanna úr sandbleytunni og upp á fastan grunn. Þær róttæku umbætur, sem í ráði er að gera, hafa víðtæk og gagnger áhrif á fjármál ríkisins. Í stað þess að bera fram brtt. við svo að segja sérhvern liðfjárlagafrv., þóttu það hagkvæmari vinnubrögð að semja nýtt frv. til fjárlaga fyrir árið 1960. Það var gert og var því útbýtt á fyrsta degi Alþingis, er það kom nú að nýju saman til funda. En rétt þótti, að 1. umr. um efnahagsmálafrv. ríkisstj. færi fram, áður en fjárlögin kæmu til umræðu.

Áður en rætt er um fjárlagafrv., mun ég gefa þingheimi nokkurt yfirlit um afkomu ríkissjóðs á árinu 1959, en í því sambandi þykir mér rétt að víkja nokkrum orðum að ríkisreikningi almennt, framlagningu hans á Alþingi og endanlegri afgreiðslu.

Samkvæmt stjórnarskránni skal leggja fyrir Alþ. frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningi hverju sinni, en áður skulu yfirskoðunarmenn, kjörnir af Alþ., endurskoða ríkisreikninginn. Þá er þeir hafa lökið starfi og gert athugasemdir og tillögur og ríkisstjórnin svarað, skal leggja fyrir Alþ. frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningnum. Flest þau fyrirtæki, sem þykja sæmilega rekin, telja sér skylt að ljúka ársuppgjöri sínu sem fyrst eftir lok reikningsársins, sem hér á landi er yfirleitt almanaksárið. Þessi aðferð þykir sjálfsögð reglusemi í fjármálum og ekki aðeins nauðsynleg vegna skattaframtala, heldur gagnleg og í rauninni óhjákvæmileg fyrirtækinu sjálfu til að fylgjast vel með fjárhag sínum, tekjum og gjöldum. En hjá íslenzka ríkinu hefur annar háttur verið hafður á. Þar hefur sá ósiður verið landlægur um langt skeið að ganga ekki endanlega frá reikningum ríkis og ríkisstofnana, fyrr en 2–3 ár eru liðin frá lokum reikningsársins. Nú standa málin svo t.d. í byrjun ársins 1960, að frv. um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1957 hefur ekki enn verið unnt að leggja fyrir Alþingi. Á þessu verður nú gagngerð breyting. Ráðstafanir hafa verið gerðar til að hraða þessum störfum svo, að ríkisreikningar fyrir árin 1957, 1958 og 1959 verði allir lagðir formlega fyrir Alþingi á þessu ári til afgreiðslu, og sú fasta regla þarf að komast á, að ríkisreikningur sé endanlega afgreiddur og lögfestur á næsta ári eftir reikningsár. Ég vænti þess, að fyrir hv. alþm. og ekki sízt hv. fjvn. ætti þessi breyting að geta orðið til mikilla bóta.

Bráðabirgðayfirlit hefur nú verið gert yfir afkomu ríkissjóðs á árinu 1959, og skal ég nú rekja það.

Það er fyrst rekstrarreikningur, og til þess að spara allt of mikinn talnaupplestur mun ég lesa aðeins tölur í reikningi, en sleppa tölum í fjárlögum. Teknamegin eru skattar og tollar samkv. 2. gr. 769 millj. 134 þús., 3. gr. A, ríkisstofnanir, 252 millj. 99 þús., 3. gr. B, tekjur af fasteignum, 10 þús., 4. gr., vextir, 2 millj., og 5. gr., óvissar tekjur, 14 millj. Samtals eru því tekjur samkv. reikningi ársins 1959 áætlaðar 1037.2 millj. kr. Gjaldamegin eru fyrst vextir 3.1 millj., forsetaembættið 1.4 millj., alþingiskostnaður 8.7 millj., stjórnarráðið 17 millj., utanríkismál 14.6 millj., dómsmál 65.8 millj., innheimta tolla og skatta 26 millj.; sameiginlegur embættiskostnaður 1.5 millj., heilbrigðismál 41.1 millj., vegamál 87.5 millj., samgöngur á sjó 14.9 millj., vitamál 24.6 millj., flugmál 11.3 millj., veðurþjónusta 4.6 millj., ýmis mál 4.7 millj., kennslumál 142 millj., opinber söfn, bókaútgáfa o.fl. 11.2 millj., kirkjumál 13.1 millj., landbúnaðarmál 75.6 millj., sjávarútvegsmál 17.9 millj., iðnaðarmál 3.5 millj., raforkumál 22.3 millj., rannsóknir í þágu atvinnuvega 8.6 millj., félagsmál 152 millj., eftirlaun og tillag til lífeyrissjóða 25.8 millj., til útflutningssjóðs 152.1 millj., óviss útgjöld 9 millj. Þá koma samkv. 22. og 23. gr. greiðslur samkv. heimildum og sérstökum lögum, það eru 2.8 millj. og 2.3 millj., væntanleg fjáraukalög 17 þús., þingsályktanir 49 þús. Það þýðir, að útgjöldin á rekstrarreikningi er gert ráð fyrir að verði 965 millj. og rekstrarhagnaður 72.2 millj.

Þá kemur yfirlit um eignahreyfingar, og mun ég þar einnig lesa niðurstöðutölur reiknings, en sleppa fjárlagaáætlun.

Fyrst eru innborganir í eignahreyfingum: útdregið í bankavaxtabréfum 35 þús., endurgreidd lán og andvirði seldra eigna 1200 þús., sala fiskiðjuversins 22.5 millj., endurgreitt útlagt fé vegna ríkisábyrgða 1.2 millj., lán hjá Landsbanka vegna framlags til alþjóðagjaldeyrissjóðs 8.1 millj., lán hjá Tryggingastofnun til byggingar landsspítala 1 millj., innheimtur stóreignaskattur 37.5 millj. Innborganir eru því á eignahreyfingum 71.5 millj. Útborganir eru hins vegar sem hér segir: Það eru fyrst afborganir ríkissjóðslána: innlend lán 10.8 millj., lán í dönskum bönkum 487 þús., lán í Bandaríkjunum 126 þús., lán landssímans 3.5 millj., greitt vegna ríkisábyrgðarlána í vanskilum 28.6 millj., til eignaaukningar landssímans 8.5 millj., til húsagerðar á jörðum ríkisins 1.8 millj., til ræktunar á jörðum ríkisins 200 þús., til smíði skips vegna Vestmannaeyja og nálægra hafna 2.5 millj., viðbótarhúsnæði við ríkisspítalana 4.5 millj., bygging fávitahælis 428 þús., til að byggja nýja vita 1.7 millj., til flugvalla og flugöryggistækja 12.5 millj., viðbótarhúsnæði á Keldum 785 þús., sjúkraflugvellir 492 þús., heimavistarhús við menntaskólann á Akureyri 100 þús., bygging sjómannaskólans 500 þús., bygging kennarabústaðar á Hólum 68 þús., bygging menntaskólahúss á Laugarvatni 428 þús., bygging kennaraskólans 950 þús., til framkvæmda á Hvanneyri 570 þús., til bygginga á prestssetrum 1.5 millj., til greiðslu heimtaugargjalda á prestssetrum 150 þús., útihús á prestssetrum 876 þús., bygging embættisbústaða héraðsdómara 500 þús., bygging lögreglustöðvar í Reykjavík 760 þús., bygging lögreglustöðvar á Keflavíkurflugvelli 260 þús., mjólkurhús á Hólum 35 þús., bygging á skólajörðinni Eiðum 100 þús., til kaupa á dísilrafstöðvum 200 þús., til byggingar dvalarheimilis fyrir afvegaleidd börn 342 þús., tilraunagróðurhús á Varmá 95 þús., til atvinnu- og framleiðsluaukningar 15.2 millj., til byggingar Kjarvalshúss eða Listasafns ríkisins 500 þús., til byggingar embættisbústaðar fyrir dýralækna 342 þús., til aukningar landhelgisgæzlu 6 millj. Síðan koma hér útborgunarmegin til jöfnunar nokkrir liðir, sem áður voru lesnir: Framlag til alþjóðagjaldeyrissjóðs 8.1 millj., til byggingar landsspítala með lánsfé 1 millj., skuldabréf stóreignaskatts 33.2 millj., lán vegna sölu á fiskiðjuverinu 19 millj. og önnur lán 11.1 millj. Niðurstaðan verður því útborganamegin á eignahreyfingareikningi 178.9 millj. kr.

Ég skal til glöggvunar gera hér nokkurt yfirlit um afkomu ársins 1959 í stórum dráttum.

Rekstrartekjurnar voru áætlaðar í fjárlögum 1030.6 millj. Í þeirri áætlun eru 25 millj. af greiðsluhagnaði frá árinu 1958, en þar sem sú fjárhæð var talin í rekstrartekjum það ár, er hún ekki talin í rekstrartekjum reikningsins 1959. Miðað við þetta má segja, að rekstrartekjur fjárlaganna fyrir 1959 hafi verið áætlaðar 1005.6 millj., en urðu 1037.2 millj., eða 31.7 millj. umfram áætlun. Þeir tekjuliðir, sem fóru fram úr áætlun, voru: tekju- og eignarskattur 10.4 millj., aukatekjur og stimpilgjald 10.4, söluskattur 12.8, hagnaður ríkisfyrirtækja 12 millj., óvissar tekjur 4 millj., aðrir ]iðir samtals 5.4 millj. Samtals eru þeir liðir, sem fóru fram úr áætlun, 55 millj: En undir áætlun urðu: vörumagnstollur 8.7 millj., tollar og skattar Sogsvirkjunar 14.7 millj. Þetta eru samtals 23.4 millj. Urðu því umframtekjur samtals, þegar frádráttarliðir hafa verið dregnir frá, 31.6 millj. kr.

Rekstrarútgjöldin voru áætluð í fjárlögum 947.1 millj., en urðu 17.9 millj. umfram. Þessar urðu aðalumframgreiðslur: dómsmál, vegna landhelgisgæzlu 2 millj., vegamál, fyrirhleðsla á Mýrdalssandi 4 millj., eftirlaun og tillag til lífeyrissjóða 2 millj., óviss útgjöld 4 millj., greiðslur samkv. heimildarlögum og sérstökum lögum 5 millj. Aðrir fjárlagaliðir hafa ekki farið teljandi fram úr áætlun og sumir jafnvel orðið undir áætlun, svo sem vaxtagreiðslur um 2.2 millj. Það stafar af hagkvæmari vaxtajöfnun af viðskiptum við Landsbankann en gert var ráð fyrir. Sömuleiðis urðu útgjöld samkv. 17. gr. 2.7 millj. undir áætlun vegna þess, að kostnaður við berklaveiki og langvarandi sjúkdóma varð minni en áætlað var.

Þetta er varðandi rekstrarreikninginn. En varðandi eignahreyfingar vil ég taka þetta fram:

Fyrst eru innborganir. Niðurstöður fjárlaga voru þar 2.45 millj., en reiknings 71.5 millj., og hefur skýring komið fram á því í þeim tölum, sem ég las hér áður. Útborganir: Þar voru greiðslur samkv. 20. gr. áætlaðar í fjárlögum 85.87 millj. Þessir fjárlagaliðir urðu 106.4 millj. eða 20.57 millj. umfram. Hér er aðallega um að ræða umframgreiðslur vegna ábyrgðarlána 8.6 millj., vegna flugmála tæpar 6 millj. og vegna atvinnuaukningarlána 5.15 millj. Til viðbótar þessum fjárlagaliðum, sem verða í reikningnum 106.4 millj., eru svo færðar nokkrar fjárhæðir á 20. gr. utan fjárlaga, svo sem framlagið til alþjóðagjaldeyrissjóðs og fleiri atriði, sem ég ræddi hér áðan.

Varðandi svo að lokum greiðslujöfnuð ríkissjóðs fyrir árið 1959, þá lítur það svo út: Rekstrarhagnaður varð 72.2 millj., þar við bætast fyrningar 4 millj., samtals 76.2, þar við bætast innborganir á 20. gr. 9.3 millj., samtals 85.53 millj. Eins og ég gat um, er í fjárlögum 1959 teknamegin gert ráð fyrir 25 millj. af greiðsluafgangi ársins 1958, en sú tala mun hafa verið áætlunartala, þar sem ekki lágu fyrir endanleg reikningsskil, þegar fjárlögin fyrir 1959 voru samþykkt. Nú reyndist þessi greiðsluafgangur 43.5 millj., þegar búið var að jafna greiðsluhalla frá árinu 1957. Þegar þessi upphæð, 43.5 millj., leggst við framangreindar 85.5 millj., koma út 129.06 millj. Til frádráttar koma svo samkv. 20. gr. fjárlagaliðir og veitt lán, samtals 121.04 millj. Þannig verða eftir 8.02 millj. af greiðsluafgangi, þegar búið er að jafna milli áranna 1957, 1958 og 1959.

Þetta yfirlit er bráðabirgðauppgjör, og geta því niðurstöður breytzt nokkuð.

Um leið og efnahagskerfi þjóðarinnar í heild er endurskoðað og endurbætt, þarf einnig að endurskoða og endurbæta allt starfskerfi og starfshætti ríkisins sjálfs: stjórnarráð og ríkisstofnanir. Tilgangurinn með slíkri endurskoðun er sá að tryggja hvarvetna það bezta skipulag og bezta starfslið, sem völ er á. Skortur á skipulagi, óhagkvæm, úrelt vinnubrögð, veik verkstjórn, óhentug húsakynni, allt þetta veldur oft og tíðum í ríkisrekstrinum, að afköstin verða lélegri, starfsemin dýrari, starfsfólkið fleira en þörf er á. Einnig þarf að athuga, hvaða starfsemi ríkisins má að skaðlausu leggja niður. Með hyggilegri vinnubrögðum, meiri vélakosti, rösklegri verkstjórn væri oft hægt að fá miklu meiri vinnu og betri fyrir minna fé. Til eru vissulega þær skrifstofur og stofnanir ríkisins, sem eru til algerrar fyrirmyndar um stjórnsemi, stundvísi og vinnuafköst, en víða eru þverbrestir í innviðum, og mikið skortir á, að árvekni, stundvísi, vinnusemi og afköst séu með þeim hætti, sem vera bæri. Hér þarf að verða breyting á.

Þrem starfsmönnum stjórnarráðsins var fyrir nokkru falið að gera till. um strangara eftirlit með því, að starfsmenn í ríkisþjónustu mæti stundvíslega til starfs, skili fullum vinnustundafjölda og eðlilegum afköstum. Þeir hafa skilað till. sínum, sem fela í sér mjög aukið aðhald, að starfsmenn skuli m.a. skrá sig með stimpilklukku til vinnu og frá, ákvæði um viðurlög við óstundvísi og annarri vanrækslu og fastara eftirlit með því, að þessum reglum sé hlýtt. Þessi nýja skipan mun bráðlega upp tekin, eftir að samráð hefur verið haft um framkvæmd reglnanna við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja.

En hverjar leiðir á að fara við allsherjarendurskoðun ríkisrekstrarins, til þess að sem beztum árangri verði náð? Að mínu viti koma þar einkum tvær leiðir til greina.

Önnur leiðin, gamla aðferðin, sem flestar ríkisstjórnir hafa gripíð til, er að skipa sparnaðarnefndir, þar sem nefndarmenn vinna að því í hjáverkum og venjulega fyrir einhverja þóknun að gera till. um sparnað í ríkisrekstrinum, skila þeim síðan eftir hæfilegan tíma til ríkisstj., sem framkvæmir stundum eitthvað af þeim, oftar sáralítið, en oftast ekkert. Þetta er ekkert sérstakt íslenzkt fyrirbæri, heldur alþekkt víða um heim. Sparnaðarnefndir eru skipaðar með brauki og bramli. Nú skal bruðlið úr sögunni, sukkið stöðvað, spillingin afmáð og upprætt, bitlingar skornir niður. Það skal sparað og sparað. En því miður verður oftast svipuð niðurstaða, að fátt kemst í framkvæmd og árangurinn verður lítill.

Ég hef að undanförnu kynnt mér álit og till. nokkurra sparnaðarnefnda, sem ríkisstj. hafa skipað undanfarinn einn og hálfan áratug. Í þessum álitsgerðum er oft mikinn fróðleik að finna og margar till. skynsamlegar. En þegar litið er yfir störfin og árangurinn í heild, hlýtur maður að undrast, hve fátt af þessum till. hefur í raun og veru komizt í framkvæmd. Ég skal ekki rekja hér hvers vegna, hvort það stafar af skilningsskorti og viljaleysi valdhafanna eða af því, að önnur stór þjóðmálaverkefni hafa altekið hug ráðamanna og orðið að sitja í fyrirrúmi á hverjum tíma eða tillitssemi til þeirra starfsmanna, sem sparnaðurinn þarf að bitna á. En að minni skoðun er aðalástæðan þó sú, að hér þarf önnur vinnubrögð, ekki skyndiáhlaup í sparnaðarskyni, heldur stöðuga starfsemi, nákvæma rannsókn, þrotlaust starf.

Og þá er ég kominn að nýju leiðinni, sem margar aðrar þjóðir eru að fenginni langri reynslu farnar að nota. Og hún er þessi:

Til þess að ná raunhæfum árangri um sparnað í opinberum rekstri, aukna hagkvæmni og betra skipulag þarf að vinna að þessu að staðaldri af hinum færustu kunnáttumönnum. Yfirstjórn slíks starfs er þá oftast í höndum einhvers starfsmanns ríkisins. Hann hefur sér til aðstoðar verkfræðinga, rekstrarfræðinga, hagfræðinga og aðra, sem gert hafa slík störf að sérgrein sinni, enda er nú svo komið við ýmsa háskóla, að sérstök kennsla og námskeið eru höfð í þessum fræðum. Þá er ýmist, að slíkir sérfræðingar eru fastir starfsmenn ríkisins eða sjálfstæðir ráðunautar, sem fá sérstaka greiðslu fyrir hvert verk, sem þeim er falið, og eru margar slíkar ráðunautaskrifstofur til í nágrannalöndunum. Þessi starfsemi, sem kölluð er á norrænum tungum „rationalisering“, hefur verið kölluð hagsýsla á íslenzku. Reykjavíkurborg setti slíka skrifstofu á stofn hjá sér fyrir 2 árum, og hefur hún þegar gefið góða raun. Og enda þótt einhverjir kunni að kalla þetta undarlegan sparnað, að byrja á því að setja á stofn skrifstofu eða skrifstofudeild, þá er reynslan sú alls staðar, að þessi kostnaður borgar sig upp í beinhörðum peningum á stuttum tíma og það margfaldlega. Kostnaður við strangara eftirlit og umbætur í vinnubrögðum er vanur að skila hagnaði fljótlega.

Á vegum fjmrn. er hafinn undirbúningur að skipulagðri hagsýslu í þágu ríkisrekstrarins og aflað gagna og upplýsinga víða. Eftir því sem ég hef kynnt mér slíka starfsemi, tel ég, að fordæmi Norðmanna henti okkur Íslendingum einna bezt. Í 12 ár hefur sérstök deild í fjmrn. norska unnið að þessum málum að staðaldri. Ég hef ritað fjmrh. Norðmanna um þessi mál, og hefur hann heitið allri aðstoð til að koma slíkri starfsemi á fót hér, m.a. boðizt til að senda okkur til ráðuneytis hagsýslustjóra norska ríkisins til leiðbeiningar við að byggja upp starfið hér. Þegar undirbúningi þessa máls er lengra á veg komið, mun það að sjálfsögðu lagt fyrir Alþingi. Og það ætla ég að allir góðir Íslendingar séu sammála um, að nauðsynlegt sé að hafa sívökult auga á öllu því í rekstri ríkisins, er til sparnaðar má horfa, bættra vinnubragða og aukinnar hagsýni.

Á þeim skamms tíma, sem liðinn er frá myndun stjórnarinnar, hefur mestur hluti dagsins að jafnaði farið í undirbúning efnahagsmálafrv. Tími hefur því ekki unnizt til að koma fram sparnaði í einstökum greinum, og er fjárlagafrv. því að verulegu leyti byggt á og reiknað út með kostnaði og útgjöldum við ríkisreksturinn eins og hann er nú. Margir eru þeir útgjaldaliðir í þessu frv., sem ríkisstj. telur sjálfsagt að reyna að lækka. En slíkt krefst undirbúningsvinnu. Það þýðir ekki að áætla þá lægri í fjárlögum, fyrr en komin er niðurstaða um hvert einstakt atriði varðandi nýtt skipulag og hvern sparnað það leiðir af sér.

Nokkur slík atriði skal ég þó nefna hér, sem verður að endurskoða á árinu og ætti að vera hægt að lækka í fjárlögum næsta árs.

Fyrst vil ég taka það fram, að utanrrn. hefur að undanförnu haft til sérstakrar athugunar, með hverjum hætti mætti koma við sparnaði varðandi utanríkisþjónustuna.

Í öðru lagi skal ég nefna framkvæmd skattamála, þ.e.a.s. fyrirkomulag við álagningu og skattheimtu. Í sambandi við endurskoðun á skatta- og útsvarslögum er til athugunar að gerbreyta öllu því kerfi frá grunni. Nú eru undirskattanefndir 219 að tölu og 3 menn í hverri nefnd, samtals 657 menn. Yfirskattanefndir eru 24 og 3 menn í hverri, samtals 72 menn. Kostnaður við þessar nefndir og ríkisskattanefnd nemur nær 3 millj. kr. á ári. Það er nú til athugunar, hvort eigi sé rétt að leggja niður það skipulag, sem verið hefur, og hafa í staðinn nokkrar skattstofur, t.d. eina fyrir hvert núverandi kjördæma, með hinum færustu starfsmönnum, löggiltum endurskoðendum og öðrum, sem tækju við framkvæmd skattamálanna. Þetta mál er á athugunarstigi.

Í þriðja lagi má nefna, að rekstrarhalli Skipaútgerðar ríkisins er áætlaður 15 millj. kr. í þessu frv. Þetta mál hefur oft verið til umræðu, og verður tekið til sérstakrar athugunar, hvort ekki er hægt að draga verulega eða að öllu leyti úr þessum miklu útgjöldum ríkissjóðs án þess að draga úr þeirri þjónustu, sem veita þarf í þessum efnum fyrir landsbyggðina.

Í fjórða lagi: Innflutningsskrifstofan, sem kostað hefur allmikið fé, verður lögð niður samkv. frv. um efnahagsmál. Bankar og viðskmrn. taka við störfum hennar, og verður kostnaður væntanlega við það nýja skipulag ekki nema hluti af núverandi kostnaði.

Í fimmta lagi: Kostnaður við skyldusparnað og alla skriffinnskuna í sambandi við hann er 2 millj. og 150 þús. Þetta skipulag þarf allt að endurskoða.

Í sjötta lagi: Kostnaður við framkvæmd orlofslaga er áætlaður 625 þús. kr. Lagafrv. til að draga stórlega úr þessum kostnaði var flutt á síðasta þingi, en náði ekki fram að ganga. Hér má vafalaust lækka útgjöld verulega.

Í sjöunda lagi: Kostnaður við eyðingu refa og minka er samkv. núgildandi lögum og skipulagi hvorki meira né minna en 3 millj. kr. á ári. Með endurskoðun á þessu skipulagi hlýtur að mega færa þessi útgjöld stórlega niður.

Í áttunda lagi: Oftast hefur verið töluverður halli á rekstri póstsjóðs. Ætlunin er nú að láta hann bera sig.

Í níunda lagi þarf að endurskoða bílakostnað ríkisins og starfsmanna þess og setja um það fastari reglur.

Í tíunda lagi er vafalaust hægt að leggja niður ýmsar launaðar nefndir.

Og í ellefta lagi skal ég loks geta þess, að bráðnauðsynlegt er að ganga fastar og betur eftir innheimtu ríkistekna og útistandandi skulda, eins og yfirskoðunarmenn ríkisreikninga hafa ár eftir ár bent greinilega á.

Því fer fjarri, að þessi upptalning hér sé tæmandi, aðeins gripið á örfáum atriðum. En í sambandi við bætt skipulag og vinnubrögð vil ég strax hreyfa á þessu stigi einu máli, og það er varðandi framkvæmdir í vegamálum. Það er venja að áætla í frv. til fjárlaga eina heildarupphæð til nýrra akvega, nýrra þjóðvega, en Alþingi skiptir svo þessu fé milli einstakra vega að till. fjvn. Þessar fjárveitingar hafa undanfarin ár verið 220—230 að tölu. Um helmingur fjárveitinganna er að upphæð milli 10 og 50 þús. kr. í hvern stað. Eins og nú er háttað vegagerð hér á landi með stórvirkum vélum og tækjum, þá er það ljóst og óumdeilanlegt, að við þessar smáu fjárveitingar fer a.m.k. önnur hver króna til ónýtis, er beinlínis fleygt í kostnað við flutninga á vélum og mannskap til og frá. Það væri til hagsbóta fyrir alla aðila, fyrir ríkissjóð og fyrir það fólk í byggðum landsins, sem á að njóta þessara vega, að upphæðirnar væru stærri og færri, þannig að hver króna nýttist betur.

Ég veit, að það er viðkvæmt mál í hverri sýslu og hverri sveit, að vegurinn þeirra fái eitthvað á hverju ári. En væri ekki hugsanlegt að leysa málið með því t.d. að gera 4 ára áætlun um vegagerð og í stað þess að tiltekinn vegur fengi t.d. 25 þús. kr. á hverju ári í 4 ár, þá fengi hann 100 þús. kr. fjárveitingu í ár eða á næsta ári eða einhvern tíma á þessu 4 ára tímabili?

Þetta mál hefur verið rætt í ríkisstj. og einkum við hæstv. samgmrh. og vegamálastjóra, og menn eru á einu máli um, að rétt sé að stefna í þessa átt. Ég vil nú beina því eindregið til hv. fjvn., þegar hún fer að skipta vegafénu, að hafa þetta sjónarmið í huga og reyna að ná samkomulagi um að fækka stórlega þeim vegum, sem fá fjárveitingu á hverju ári, en hafa upphæðirnar þeim mun stærri. Þessi breyting er vel framkvæmanleg. En vegna þess skipulags, sem verið hefur, má vera, að það taki nokkur ár að koma hér verulegum umbótum á.

Sama sjónarmið, sem hér var gerð grein fyrir varðandi vegina, kemur einnig til greina um margvíslegar aðrar framkvæmdir, og vil ég þar sérstaklega nefna hafnirnar. Reynum að hafa stærri og myndarlegri átök á hverjum stað, á hverju ári en verið hefur, í stað þess að peðra smáupphæðum hingað og þangað, sem koma að litlu gagni og verulegum hluta af fjárveitingunum fleygt í súginn.

Við samanburð á þessu fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, og fjárlögum fyrir árin 1958 og 1959 verður að hafa í huga, að þau ár hefur ríkissjóður verið klofinn í tvennt, hluti af honum hefur verið kallaður útflutningssjóður. Nú verður útflutningssjóður lagður niður og ríkissjóður tekur við ýmsum tekjum hans og gjöldum. Af þessum ástæðum m.a. hækka tekju- og gjaldahliðar fjárlaganna.

Ég skal nú rekja helztu breytingar á tekju og gjaldaliðum þessa frv. frá fjárlögum 1959. Hækkun á tekjuliðum frá fjárlögum 1959 er 431.6 millj. kr. samtals. Það sundurliðast á þessa leið: Innflutningsgjald, sem flyzt frá útflutningssjóði, 119 millj., ýmsar aðrar tekjur útflutningssjóðs 107 millj., hækkun á tollum og öðrum aðflutningsgjöldum, sem leiðir af gengisbreytingu, 92.1 millj., hækkun á ýmsum gjöldum í sambandi við efnahagsráðstafanir 37.4 millj., nýr almennur söluskattur 224 millj., aðrar breytingar 17.1 millj.

En til frádráttar þessum liðum koma lækkun tekjuskatts, sem er 75 millj. frá fjárlögum 1959, brottfall 9% söluskatts á innlendri framleiðslu og þjónustu 35 millj., tolla- og skattagreiðslur Sogsvirkjunar 30 millj. og greiðsluafgangur í fjárlögum 1959 25 millj.

Niðurstaðan verður sú, að hækkun tekna í þessu frv. frá fjárlögum 1959 verður rúmar 430 millj. kr.

Gjöldin hækka um svipaða upphæð frá fjárlögum 1959. Fyrst eru niðurgreiðslur á vöruverði, sem flytjast frá útflutningssjóði, 265 millj., nýjar niðurgreiðslur í sambandi við efnahagsráðstafanir 37.9 millj., sérstök aukning á bótum almannatrygginga, fjölskyldubætur o.fl. 152.5 millj., aukning útgjalda vegna efnhagsráðstafana 43.6 millj., og ýmsar aðrar hækkanir, sem verða skýrðar hér á eftir, 83 millj. En frá þessu dregst brottfall greiðslu til útflutningssjóðs samkv. fjárlögum 1959, að upphæð 152.1 millj. Nánar tiltekið er því hækkun gjalda frá síðustu fjárlögum 429.9 millj. kr.

Ég skal nú víkja nokkru nánar að einstökum greinum fjárlagafrv. og skýra þau atriði, sem ég tel að helzt þurfi skýringar við.

Það var reiknað út sérstaklega, hver áhrif fyrirhuguð gengisbreyting hefði á útgjöld fjárlaganna. Með aðstoð Hagstofu Íslands var farið nákvæmlega yfir alla útgjaldaliði fjárlaganna, þeir raktir sundur til ákvörðunar um, hver áhrif gengisbreytingin hefði á þá. Niðurstaðan varð sú, að útgjöld fjárlaganna hækka vegna gengisbreytingar um 43.6 millj. kr. Ég skal taka það fram, að eins og á stóð við undirbúning fjárlaga og efnahagsmálafrv., var ekki hægt að hafa samráð við forustumenn einstakra ríkisstofnana um þennan útreikning, og má því búast við, að einhverra lagfæringa kunni að vera þörf við meðferð frv. hjá fjvn. að þessu leyti.

7. gr. frv. fjallar um vaxtagreiðslur af lánum ríkissjóðs. Þær eru nú áætlaðar 9.9 millj. kr. og hækka um 41/2 millj. Það, sem veldur þessari hækkun, eru í fyrsta lagi vextir af föstu láni, sem nú hefur verið samið um við Landsbanka Íslands vegna kaupa á 10 togurum í Bretlandi á sinum tíma, 3 millj. 150 þús. kr. Í öðru lagi er hækkun vaxta af láni vegna framlags til alþjóðabanka og alþjóðagjaldeyrissjóðs, rúm 1/2 millj. Loks er hækkuð áætlun um vaxtagreiðslur ríkissjóðs af viðskiptareikningi við Seðlabankann, og nemur það 1 millj. kr. Þetta stafar af því, að búast má við, að yfirdráttarskuld ríkissjóðs við Seðlabankann geti fyrri hluta ársins orðið nokkru hærri en venjulegt er vegna minni innflutnings, og einnig er hér reiknað með fyrirhugaðri almennri vaxtahækkun.

9. gr. frv. fjallar um alþingiskostnað, og er hann áætlaður 101/2 millj., hækkun um 11/2 millj. Þetta stafar bæði af fjölgun þingmanna og of lágri áætlun 1959.

11. gr. frv., um dómgæzlu og lögreglustjórn, hækkar um 6.3 millj. kr. Þar veldur um mestu rekstur hins nýja varðskips, sem áætlað er að kosti á árinu 41/2 millj. kr. Þá er einnig færður á þessa grein málskostnaður, 700 þús. kr. Þetta er ekki nýr kostnaður, en hefur áður verið færður á óviss útgjöld á 19. gr., en virðist eiga hér fremur heima.

12. gr. frv. fjallar um læknaskipun og heilbrigðismál. Þar er langmesta hækkunin á rekstrarhalla ríkisspítalanna, 2.9 millj. kr., þrátt fyrir það að daggjöld verða hækkuð um 15% til þess að mæta hækkunum vegna efnahagsaðgerða. Þessi aukni halli stafar af ýmsum ástæðum, svo sem óhjákvæmilegri aukningu starfsfólks á spítölunum og áhaldakaupum í hina nýju viðbyggingu landsspítalans.

13. gr. fjallar um samgöngumál. Framlag til nýrra akvega er hið sama og í fjárlögum 1959, eða um 16 millj. kr. Vegaviðhald er hins vegar hækkað um 8.2 millj., upp í 50 millj. Til brúargerða er áætluð sama upphæð og í fyrra, um 10 millj. Af þeirri hækkun benzínskattsins, sem gert er ráð fyrir í frv. um efnahagsmál, eiga 3 aurar af hverjum lítra að renna til brúasjóðs og 3 aurar til nýrra akvega milli byggðarlaga. Nema þessar fjárhæðir 21/2–3 millj, kr.

Framlag ríkissjóðs til Skipaútgerðar ríkisins er áætlað 15 millj., hækkar um 5 millj. frá því, sem var í fyrra. Þessi hækkun stafar einkum af því, að flokkunarviðgerðir þurfa að fara fram á fjórum skipum á þessu ári, 12 ára flokkun á Heklu og Skjaldbreið, 16 ára flokkun á Þyrli og 20 ára flokkun á Esju. Hins vegar er gert ráð fyrir, að útgjaldaaukningu vegna væntanlegra efnahagsaðgerða verði mætt með hækkun far- og farmgjalda.

14. gr. fjárlaganna fjallar um menntamál, og hækka framlög til þeirra um 16.2 millj. kr., upp í 160.3 millj. Þessi hækkun er aðallega á tveim liðum: almenn barnafræðsla hækkar um rúmar 8 millj. og gagnfræðamenntun um 6.6 millj. Af þessari fjárhæð er 4.6 millj. kr. hækkun á framlagi til byggingar barnaskóla, en 2 millj. hækkun til gagnfræðaskólabygginga. Samkv. lögum skal ríkissjóður ljúka greiðslu framlaga til hverrar skólabyggingar miðað við upphaflega kostnaðaráætlun innan 5 ára, frá því er fyrsta framlag var innt af hendi. Eru þessar fjárhæðir miðaðar við, að ríkissjóður standi við skuldbindingar í :þessu efni.

Þá hækka heildarútgjöld vegna kennaralauna og hluti ríkissjóðs af rekstrarkostnaði skólanna vegna fólksfjölgunar í landinu, nemendum fjölgar ár frá ári. Einnig er gert ráð fyrir, að lög um ríkisútgáfu námsbóka komi að fullu til framkvæmda nú, en svo hefur ekki verið til þessa, og veldur það nokkrum útgjaldaauka.

15. gr. fjárlaga fjallar um kirkjumál. Þar eru nú m.a. ætluð laun til eins prests, sem er ætlað það verkefni að skipuleggja æskulýðsstarf þjóðkirkjunnar. Einnig er framlag til byggingar Skálholtskirkju hækkað um 450 þús. kr., þar sem rétt þykir að reyna að ljúka byggingu hennar hið fyrsta.

16. gr. frv. er um atvinnumál. Framlög til landbúnaðarmála hækka um nær 2 millj. kr. Er þar einkum um að ræða hækkun á jarðræktarstyrk og bótum vegna sauðfjárveikivarna. Varðandi sjávarútvegsmál hafa verið hækkaðir liðir til að gera tilraunir með nýjar síldveiðiaðferðir, til síldarleitar og fiskirannsókna og til leitar að nýjum fiskimiðum. Nýr liður er tekinn upp, 1/2 millj. til að leita að vetursetustöðvum síldarstofnanna. Varðskipinu Ægi er ætlað þetta leitarstarf, sem er hin brýnasta nauðsyn. Framlög til raforkumála hækka um nær 13 millj, kr., og veldur þar mestu um, að tekin er upp að nýju 10 millj. kr. fjárveiting til nýrra raforkuframkvæmda, sem felld var niður í fjárlögum 1959. Þessi fjárveiting er nauðsynleg, ef takast á að ljúka framkvæmd 10 ára áætlunarinnar um rafvæðingu landsins á tilsettum tíma. Þá eru einnig teknar upp 2 millj. kr. til rekstrar á jarðbor til jarðhitarannsókna á Norðurlandi, en í 20. gr. er gert ráð fyrir 1 millj. kr. fjárveitingu til kaupa á slíkum bor. Þá er hækkað um 100 þús. kr. framlag til laxaklaks og eldistilrauna á vegum veiðimálastofnunarinnar. Hér er um að ræða verkefni, sem of lítill skilningur hefur verið sýndur. Á því er enginn vafi, að hægt er að auka stórkostlega og margfalda veiði í vötnum og ám á Íslandi. Það er ekki aðeins gert til gamans og heilsubótar fyrir laxveiðimenn og búbót fyrir þá, sem veiðiréttindi eiga, heldur er hér einnig um útflutningsverðmæti að ræða, gjaldeyrisöflun. Á síðustu árum hefur verið fluttur út lax fyrir hátt á aðra millj. króna, og kunnugir menn telja, að hægt sé að margfalda þann útflutning.

17. gr. fjallar um félagsmál. Framlag til almannatrygginga hækkar um 165.5 millj. kr. Þessar breytingar á einstökum liðum eru helztar: 1) Framlag til lífeyristrygginga hækkar um 9.5 millj. Frv. um breyt. á l. um almannatryggingar, sem lá fyrir síðasta þingi og hlaut ekki afgreiðslu þá, verður væntanlega samþ. á þessu þingi og leiðir af sér hækkun fyrir ríkissjóð, sem nemur 11.1 millj. kr. Til frádráttar kemur það, að framlag til lífeyristrygginga hefði átt að lækka um 1.6 millj. kr. nú vegna betri afkomu á árunum 1958 og 1959 en áætlað var. 2) Framlag til sjúkratrygginga hækkar um 1.4 millj., m.a. vegna fyrirhugaðra hækkana á daggjöldum hjá sjúkrahúsum. 3) Framlag til atvinnuleysistrygginga hækkar um 2 millj., en iðgjöld til þeirra fara eftir kaupi Dagsbrúnarmanna og fjölda hinna tryggðu. 4) Hið sérstaka framlag til hækkunar fjölskyldubóta og annarra tryggingabóta samkv. efnahagsfrv. nemur 152.5 millj. kr. Loks hækkar kostnaður við ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla um 11/2 millj.

18. gr., um eftirlaun, hækkar um 11/2 millj. kr. Að venju mun hv. fjvn. taka 18. gr. sérstaklega til meðferðar og endurskoðunar.

19. gr., óviss útgjöld o.fl., tekur miklum breytingum frá síðustu fjárlögum. Framlag til útflutningssjóðs, 152 millj. í fjárlögum 1959, fellur nú niður. Hins vegar kemur þarna inn nýr liður 302.9 millj., til niðurgreiðslu á vöruverði, í samræmi við efnahagsráðstafanir ríkisstj. Um þann lið vil ég taka fram, að gert er ráð fyrir, að núverandi niðurgreiðslur haldi áfram óbreyttar. Er áætlað, að þær nemi 265 millj. kr., og flytjast frá útflutningssjóði til ríkissjóðs. Þá verða nokkrar vörur, sem hafa verið fluttar inn með 30% yfirfærslugjaldi, nú greiddar niður, og nemur sú upphæð tæpum 38 millj. kr.

Í 22. gr. fjárlaga eru margs konar greiðsluheimildir fyrir ríkisstj. Að jafnaði eru töluverðar fjárfúlgur inntar af hendi samkv. þeirri grein, án þess að þær greiðslur séu teknar sérstaklega reikningslega inn í fjárlög. Eins er um 23. gr., sem fjallar um greiðslur samkv. sérstökum l., sem skylt er að inna af hendi. Þykir rétt að áætla sérstaklega fyrir þessum útgjöldum. Eru því sett á 19. gr. útgjöld samkv. 22. og 23. gr. fjárlaga, samtals 5 millj. kr.

Þá er í 19. gr. tekinn upp nýr liður: Fyrningar, 6 millj. kr. Það er ætlunin að taka nú þann hátt upp, sem gert er ráð fyrir í 1: frá 1947 um fyrningarsjóð ríkisins, að þær séu ekki aðeins bókhaldsatriði, eins og verið hefur, heldur sé fyrningarféð lagt í sérstakan sjóð og verði síðar varið til endurnýjunar á eignum ríkisins. Þessi lög frá 1947 um fyrningarsjóð ríkisins munu aldrei hafa komið til framkvæmda. Þau verða nú endurskoðuð. Ég ætla, að það sé rétt stefna, að ríkið leggi til hliðar í fyrningarsjóð eðlilegt fyrningarfé á ári hverju til endurnýjunar, og mundu margar framkvæmdir á vegum ríkisins vera auðveldari viðfangs nú, ef þeirri reglu hefði verið fylgt áður.

20. gr. fjárlaga fjallar um eignahreyfingar, afborganir lána og ýmiss konar byggingar og verklegar framkvæmdir. Þessi útgjöld hækka um 14 millj. kr., og skal ég nú greina það nokkru nánar.

Afborganir af lánum ríkissjóðs hækka um 1.4 millj. kr. Vextir og afborganir af vanskilalánum með ríkisábyrgð hækka um 10 millj. kr., úr 25 millj. upp í 35 millj.

Ríkisábyrgðir eru orðnar óhugnanlega háar. Þær námu í árslok 1958 1270 millj. kr. Þær hafa verið veittar bæjar- og sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum vegna lána til margvíslegra framkvæmda. Vafalaust hafa þessar framkvæmdir flestar verið gagnlegar og nauðsynlegt að styðja þær í einu formi eða öðru. En þegar svo er komið, að þessar ríkisábyrgðir nema svipaðri upphæð og allar árstekjur ríkissjóðs og að ár frá ári falla fleiri og stærri ábyrgðir á ríkissjóð til greiðslu sem vanskilalán, þá verður að athuga sinn gang. Á síðasta ári varð ríkissjóður að greiða 28 1/2 millj. kr. vegna vanskilaskulda annarra, sem hann var í ábyrgð fyrir, og í þessu fjárlagafrv. þykir ekki varlegt að áætla minna en 35 millj. í þessu skyni.

Það er vafalaust ekki hægt að komast hjá því, að ríkissjóður veiti ábyrgð á ýmsum lánum, svo að úr nauðsynlegum framkvæmdum geti orðið, a.m.k. þar til gerbreyting hefur orðið á lánamálum peningastofnana. En ríkið getur ekki haldið áfram að skrifa upp á víxla jafnforsjárlítið og verið hefur. Það verður að setja fastari reglur og strangari um veitingu ríkisábyrgða og fylgjast betur með afkomu þeirra aðila, sem ríkið gengur í ábyrgð fyrir.

Virðist eðlilegt, að þjóðbankinn veiti ríkissjóði atbeina í þessu efni, um fjárhagslega rannsókn í upphafi, svo sem það, hvort nægar tryggingar séu fyrir hendi, hverjir séu afkomumöguleikar fyrirtækisins, og einnig fylgist hann að bankahætti með starfsemi lántaka, geri ríkissjóði aðvart, ef horfur eru á því taldar, að ábyrgð falli á hann, svo að allt sé reynt í tæka tíð til að forða vanskilum. En einnig ætti ríkissjóður að reyna að forðast sem mest sjálfskuldarábyrgð og veita þá heldur einfalda ábyrgð. Með hinni fyrrnefndu getur skuldareigandi gengið strax beint að ríkissjóði, ef vanskil verða, en með einfaldri ábyrgð þyrfti hann fyrst a.m.k. að ganga að lántakanda og reyna að fá greiðslu hjá honum. Þetta gæti orðið nokkur hemill fyrir ríkissjóð.

Allt þetta mikla mál er nú í athugun og undirbúningi í samræmi við þál., er Alþingi samþ.till. hv. 6. þm. Norðurl. e., Magnúsar Jónssonar. En hverjar leiðir sem kunna að finnast og verða farnar, er eitt víst, að veiting ríkisábyrgða er komin út í algera ófæru, og nú verður að spyrna fótum við.

Í sambandi við fjárlagafrv. er rétt að minnast á þá meginreglu, sem ríkisstj. setti sér, að fjárfestingarliðir skyldu yfirleitt óbreyttir í krónutölu frá því, sem var í fjárlögum 1959. Til skýringar vil ég minna á, að í fjárlögum fyrir 1959 var í 19. gr. frádráttarliður að upphæð 8.3 millj. kr., 5% lækkun á ýmsum fjárfestingarliðum frv. Þessi lækkun var ekki færð út á hvern einstakan lið í fjárlögum, en í framkvæmd að sjálfsögðu dregin frá og kemur þannig í ríkisreikningi. Þegar menn bera saman einstaka fjárfestingarliði í fjárlögum 1959 og þessu frv., verða þeir að hafa í huga, að frá liðunum í fjárlögum 1959 ber að draga þessi 5%, og á þá yfirleitt að koma sama krónutala út á hvern lið eins og er í þessu frv. Með hliðsjón af því, að ein af orsökum þess hörmungarástands í efnahags- og fjármálum, sem nú er við að glíma, er of mikil fjárfesting á undanförnum árum, þótti ríkisstj. óhjákvæmilegt að hafa þessa meginreglu um fjárfestingarliðina. Hins vegar taldi ríkisstj. rétt að gera nokkrar undantekningar frá þessari meginreglu, og skulu þær nú raktar.

1) Framlag til vegamála hækka í heild frá síðustu fjárlágum, þar sem vegaviðhald hækkar um 8.2 millj. kr. og hluti af fyrirhugaðri hækkun benzínskattsins rennur til brúasjóðs og millibyggðavega, samtals 21/2–3 millj.

2) Framlag til byggingar Skálholtskirkju hækkar upp í 950 þús. kr. Þessi liður var lækkaður stórlega í fyrra frá því, sem verið hafði. Telur ríkisstj. rétt að ljúka sem fyrst kirkjubyggingu í Skálholti.

3) Bygging barnaskóla. Framlagið hækkar um 4.6 millj. kr.

4) Framlag til byggingar gagnfræðaskóla hækkar um 2 millj. kr.

5) Framlag til byggingar heimavistar við menntaskólann á Akureyri hækkar um 200 þús. í 300 þús. Það framlag var lækkað mjög verulega á síðustu fjárlögum, en byggingin aðkallandi.

6) Framlag til byggingar Kennaraskóla Íslands er hér hækkað um rúma eina milljón, upp í 2 millj. kr. Hér er ekki tækifæri til að ræða ýtarlega ýmis vandamál í sambandi við skóla- og uppeldismál þjóðarinnar. En geigvænlegur kennaraskortur er farinn að gera vart við sig. Fyrir allt okkar skólakerfí er brýn nauðsyn að bæta nú þegar úr, svo að ekki horfi til hreinna vandræða á næstu árum um skort á hæfum kennurum. Bygging kennaraskólans var fyrir nokkru hafin af miklum myndarskap eftir langan undirbúning. Óhjákvæmilegt er að afla aukins fjár til þeirrar byggingar til að hraða henni sem mest. Auk þessara 2 millj. mun reynt að afla lánsfjár til byggingarinnar, til þess að hægt sé að halda áfram með fullum hraða. Í þessu sambandi vil ég minnast á nýmæli í 22. gr. frv., þar sem ríkisstj. er heimilað að hefja byggingu æfinga og tilraunaskóla fyrir Kennaraskóla Íslands. Í lögum um menntun kennara er gert ráð fyrir þessum skóla. Hann getur orðið um leið barnaskóli fyrir hverfi í Reykjavíkurbæ. Þar sem kennaraskólinn er reistur og rekinn á kostnað ríkisins, hefur orðið að samkomulagi, að ríkissjóður leggi fram 3/5 stofnkostnaðar og Reykjavíkurbær 2/5, en sú regla gildir um venjulega barnaskóla, að hvor aðili greiðir helming stofnkostnaðar. Þykir báðum aðilum þessi skipting sanngjörn. Fyrir skóla- og uppeldismál þjóðarinnar er bygging kennaraskólans og æfinga og tilraunaskólans mál málanna.

7) Nýr liður, 300 þús. kr., til endurbyggingar prestsseturs að Borg á Mýrum. Prestssetrið brann nýlega, og þykir ekki vansalaust á slíkum sögustað að láta brunarústir einar blasa þar við.

8) 300 þús. kr. vegna kaupa á biskupsbústað.

9) 1.8 millj. kr. vegna kaupa á gæzluflugvél til landhelgisgæzlu.

10) Flugvallagerð hækkar um 2.2 millj. frá síðustu fjárlögum.

11) Í 22. gr. fjárlaga fyrir 1959 var heimild fyrir ríkisstj. til að kaupa í samráði við jarðhitadeild raforkumálaskrifstofunnar jarðbor, sem notaður verði til jarðhitarannsókna á Norðurlandi. Hins vegar var ekki áætlað fé til þess sérstaklega í fjárlögum. Það er hið mesta nauðsynjamál að kanna jarðhita á Norðurlandi og þykir rétt að taka 1 millj. kr. í þessu skyni til kaupa á jarðbornum, en 2 millj. eru áætlaðar til rekstrarins. Sá hinn mikli gufubor, sem er sameign ríkisins og Reykjavíkurbæjar, hefur ærið verkefni á næstunni við að bora á hinum miklu hverasvæðum á Suðurlandsundirlendinu: Hveragerði, Krýsuvík, Reykjavík og annars staðar, þar sem jarðhita er von. Þykir of dýrt að flytja hann milli fjarlægra byggðarlaga, og hefur því verið að ráði fróðra manna talið rétt að festa kaup á öðrum bor, sem notaður verði fyrir Norðurland. Ef þetta verður samþykkt, ætti hinn nýi bor að geta komið til landsins og tekið til starfa upp úr miðju sumri. Verð hans mun væntanlega verða um 7 millj. kr. Standa vonir til þess, að unnt sé að fá greiðslufrest á verulegum hluta hins erlenda andvirðis. En gera verður ráð fyrir, að í fjárlögum næsta og ef til vill næstu ára þurfi að ætla fé til viðbótar til þessara kaupa. Miðað við þá ótrúlegu möguleika, sem Íslendingar eiga í ónotuðum jarðhita, er ekkert áhorfsmál að verja til þess nokkru fé að kanna þessar auðlindir til hlítar.

Ég mun þá snúa mér að tekjuhlið frv. Í 2. gr. er áætlað, hverju skattar og tollar nemi, 1201 millj. kr. Stærsti tekjuliðurinn þar er verðtollur, sem er áætlaður 355 millj. kr. Innflutningsgjald flyzt frá útflutningssjóði til ríkissjóðs, 119 millj. Söluskattur af innfluttum vörum 154 millj. Þessir þrír tekjustofnar, sem eru mjög sama eðlis, hækka í krónutölu við gengisbreytinguna, miðað við svipað magn innflutnings. En þess ber að gæta, að innflutningur hlýtur að minnka. Ein af ástæðum erfiðleika okkar er of mikill innflutningur á undanförnum árum.

Í sambandi við tollamálin er rétt að geta þess, að tollakerfið allt þarf endurskoðunar við, fyrst og fremst með það fyrir augum að gera það allt einfaldara í sniðum en nú er. Þess vegna er unnið að því af nokkrum kunnugustu embættismönnum ríkisins að endurskoða tolla- og aðflutningsgjaldamálin í heild. En sú endurskoðun mun væntanlega taka eitt til tvö ár.

Af öðrum tekjustofnum má nefna innflutningsgjald af benzíni, sem er áætlað 571/2 millj., og vörumagnstoll, 31 millj., en hann lækkar í áætlun um 5 millj, kr. frá fjárlögum 1959. Er þá miðað við innflutningsáætlun, sem gerð hefur verið fyrir 1960.

Þrír eru þeir tekjustofnar, sem ég vildi gera að umtalsefni: 1) Tekjuskattur. 2) Núv. 9% söluskattur af iðnaði og þjónustu innanlands. 3) Fyrirhugaður söluskattur.

Beinu skattarnir á Íslandi, tekjuskattur og útsvör, eru orðnir með öllu óhafandi, eins og þeir eru ákveðnir og álagðir, og koma þar margar ástæður til. Þessir skattar eru tiltölulega mjög háir hér. Þeir komast upp í 70% af tekjum manna. Þótt þeir séu yfirleitt lágir á allra lægstu tekjum, eru það ekki aðeins hátekjumenn, heldur almennir borgarar, venjulegir launamenn, sem stynja þungan undan þessum sköttum. Sannleikurinn er sá, að þessir skattar eru orðnir miklu tilfinnanlegri vegna verðbólgunnar, þeir eru stighækkandi. Þeir eru orðnir svo háir hér á landi, að almenningur telur gengið langtum framar en sæmilegt er um skattheimtu af hálfu hins opinbera. Af þessu leiðir spillingu, sem birtist í því, hve framtölum manna á Íslandi er stórkostlega áfátt. Miklar fjárhæðir eru ekki taldar fram til skatts. Og það sem verra er, sú skoðun er orðin mjög útbreidd meðal landsmanna, að það sé eðlilegt og jafnvel sjálfsagt að draga undan framtali það, sem menn geta.

Niðurstaðan af öllu þessu verður sú, að skattarnir bitna þyngst á fastlaunamönnum hjá hinu opinbera, þar sem hver eyrir er fram talinn. Þess vegna skapast það ranglæti í þjóðfélaginu, að sá, sem tíundar allt og fær tekjuskatt og útsvar í samræmi við hið rétta framtal, verður að horfa upp á það, að nágranni hans, sem hann veit að hefur hærri tekjur og betri afkomu, borgar lægri skatta. Tilraunir skattayfirvalda til að ráða bót á þessu virðast ekki ná verulegum árangri. Það skattakerfi, sem felur í sér, leiðir af sér og þolir slíkt ranglæti, fær ekki staðizt.

Núv. ríkisstj. tók því upp í málefnasamning sinn ákvæði um, að afnuminn skyldi tekjuskattur af almennum launatekjum. Ríkisstj. stofnaði til gagngerrar endurskoðunar á tekju og eignarskattslögunum og tekjustofnum sveitarfélaga.

Tekjuskattsnefndin hefur mikið verk fram undan, og mun ekki unnt að leggja heildartill. hennar fyrir Alþingi fyrr en næsta haust. Hún þarf að endurskoða alla framkvæmd og skipan skattamála. En nú þegar hefur tekjuskattsnefndin skilað tillögum um bráðabirgðabreytingar á skattalögunum, sem geta komið til framkvæmda á þessu ári. Aðalatriði þeirra tillagna, þau sem ríkisstjórnin hefur þegar fallizt á og ákveðið að leggja fyrir Alþingi, eru þessi:

Tekjur einstaklinga allt að 50 þús. kr. eru skattfrjálsar með öllu, tekjur hjóna allt að 70 þús., en síðan eru skattfrjálsar 10 þús. kr. hjá hverjum skattgreiðanda fyrir hvert barn innan 16 ára, sem hann hefur á framfæri. Þetta þýðir, að hjón með þrjú börn fá skattfrjálsar 100 þús. kr.

Þessi tekjuupphæð, sem ég nú nefndi, verður skattfrjáls hjá öllum mönnum. Þeir, sem hafa hærri tekjur, greiða skatta af því, sem umfram verður, og verður sá skattur stighækkandi. Um skattstigann er ekki hægt að fullyrða í dag, en frv. um það verður lagt fyrir Alþingi bráðlega:

Það hefur verið reiknað út, að miðað við fjárlög 1959 missir ríkissjóður við þessar ráðstafanir um 75 millj. kr. Sé hins vegar miðað við það, hver tekjuskatturinn hefði orðið í ár að óbreyttum skattalögum, missir ríkissjóður um 110 millj. kr. Skatturinn hefði orðið 180 millj. kr.

Tekjuskatturinn er annar þáttur beinu skattanna, útsvörin hinn. Það er ekki fullnægjandi að fella niður og lækka tekjuskatt, heldur þurfa útsvörin gagngerðrar endurskoðunar við. Fyrsta ráðstöfun í því efni er að útvega bæjar- og sveitarfélögunum annan tekjustofn til þess að gera þeim mögulegt að lækka útsvörin. Það hefur ríkisstj. gert með tillögu sinni í þessu fjárlagafrv., að ætla fimmtung hins væntanlega almenna söluskatts, eða 56 millj. kr., til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna, sem þaðan verði svo eftir vissum reglum skipt milli sveitarfélaganna.

Tekjustofnanefnd sveitarfélaganna hefur einnig unnið af kappi að endurskoðun þessara mála. Í tillögum hennar má gera ráð fyrir þeirri grundvallarbreytingu, að hætt verði að jafna niður útsvörum eftir efnum og ástæðum, en í stað þess verði lögbundnir útsvarsstigar. Það mun ekki henta sami útsvarsstigi fyrir kaupstaði og sveitir, og verða því væntanlega lögfestir tveir útsvarsstigar, annar fyrir kaupstaði og kauptún og hinn fyrir sveitahreppa.

Er nú unnið að því að semja slíka útsvarsstiga. Varðandi útsvör fyrir sveitirnar hafa verið kvaddir til þess fimm oddvitar úr sveitahreppum að gera tillögur um útsvarsstiga. Þess má því vænta, að lögfestir verði tveir útsvarsstigar, annar fyrir kaupstaði og kauptún, hinn fyrir sveitir, en nokkurt frjálsræði verði bæjarstjórnir og hreppsnefndir að hafa til hækkunar eða lækkunar vegna mismunandi tekjuþarfar. Með þessu hvoru tveggja, að lögfesta útsvarsstiga og að verja 56 millj. kr. af söluskatti til útsvarslækkunar, ætti þegar á þessu ári að fást nokkur umbót í útsvarsmálum. En heildartillögur um tekjustofna sveitarfélaga verða ekki tilbúnar fyrr en í haust.

Um nokkurt skeið hefur verið álagður hér á landi 9% söluskattur af innlendri framleiðslu og þjónustu. Hafa 3% af honum runnið til ríkissjóðs, en 6% til útflutningssjóðs. Þessi tegund söluskatts hefur verið ákaflega illa séð, enda meingölluð, ranglát og erfið í innheimtu. Tvö dæmi skal ég nefna. Maður vill fá gert við bifreið sína og fer með hana á verkstæði. Ef verkstæðið leggur bæði til varahlutinn og vinnuna, þarf að borga 9% af hvoru tveggja. En ef bíleigandinn kaupir hins vegar varahlutinn í búð og afhendir verkstæðinu, þarf hann aðeins að greiða söluskatt af vinnunni. Hitt dæmið: Ef hið opinbera leitar tilboða í mannvirki, verður að greiða 9% af upphæð verksamningsins, en ef verkið er unnið í reikningsvinnu, þarf engan söluskatt að greiða. Hér virðist sönnu nær að hafa þetta öfugt, því að vitanlega á að hvetja opinbera aðila til þess að bjóða út verk, en ekki letja. Vegna þess, hve þessi skattur er hár og flókinn í framkvæmd og margt undanþegið honum, verður hvötin til að komast fram hjá honum oft helzt til mikil. Þennan óheppilega tekjustofn, sem mundi væntanlega nema í ár 114 millj. kr., er nú ætlunin að afnema.

Hér hef ég nefnt þrjár tegundir af sköttum á almenning, sem ríkisstj. hyggst nú að létta, ýmist að nokkru eða öllu. Það er söluskatturinn 114 millj., tekjuskatturinn 110 millj. og útsvörin um 56 millj. kr. Samtals eru þessar upphæðir 280 millj. kr. Til þess að jafna þessi met á að lögleiða almennan söluskatt, sem gert er ráð fyrir að gefi ríkissjóði sömu upphæð. Slíkur söluskattur, sem er jafn, almennur og með sem fæstum undanþágum, er nú innheimtur víða um lönd, m.a. í Noregi, Svíþjóð, Bandaríkjunum, Englandi. Nánara ætla ég ekki að ræða hann nú, heldur þegar frv, um hann er tilbúið og verður lagt fyrir Alþingi.

Einn liður í tekjuáætluninni er gjald af innlendum tollvörum, sem er áætlað 35 millj. kr. Lög um það gjald eru 21 árs gömul. Síðan hefur verið hlaðið ofan á það prósentum ofan á prósentur. Lögin eru úrelt orðin og eru í endurskoðun. Við þá endurskoðun kemur m.a. til athugunar, hvort einhver framleiðsla hefur risið upp síðan 1939, sem réttmætt er að skatta til jafns við hina, sem fyrir var. Einnig þarf að gæta þess, að sérstök skattaálagning á þennan iðnað gangi ekki svo úr hófi, að hætta sé á samdrætti og þess vegna minnkandi tekjum ríkissjóðs, eins og dæmi eru til, þegar skattalöggjafar verða helzt til gráðugir.

Heildarniðurstöður í fjárlagafrv. eru þessar: Rekstrartekjur eru áætlaðar 1464.1 millj. kr., rekstrargjöld 1353.8 millj. og rekstrarafgangur er áætlaður 110.3 millj. kr. Ef litið er á heildarútgjöldin samkv. sjóðsyfirliti, er útkoman þessi: Innborganir áætlaðar 1464.7 millj., útborganir 1462.9, og greiðsluafgangur samkv. fjárlagafrv. er því áætlaður 1 millj. og 800 þús. kr. rúmlega. Ég vil taka það fram og leggja á það áherzlu, að fjárlagafrv. verður að afgreiðast frá Alþingi með greiðsluafgangi, og ekki aðeins það, heldur verður óhjákvæmilega að halda þannig á fjármálum ríkisins á þessu ári, að örugglega verði ekki greiðsluhalli, heldur greiðsluafgangur. Það er einn af óhjákvæmilegum liðum í efnahagsaðgerðum ríkisins.

Með frv. um efnahagsmál og fjárlagafrv. eru gerðar margar stórbreytingar á þjóðfélagi Íslendinga. Ein stærsta þjóðfélagsbreytingin eru hinar stórauknu almannatryggingar. Sú gerbreyting, sem nú verður þar gerð, mun víssulega siðar þykja tíðindum sæta. Fyrst má nefna fjölskyldubæturnar. Nú hefur barnafjölskylda enga uppbót fyrir fyrsta barn né annað barn. En þegar þriðja barnið kemur, verður uppbótin 1166 kr. á fyrsta verðlagssvæði og 874 kr. á öðru verðlagssvæði. Nú verður sú breyting á, að greiddar verða 2600 kr. með hverju barni. Það þýðir, að tveggja barna fjölskylda, sem ekkert hefur fengið í fjölskyldubætur, fær nú 5200 kr. á ári, þriggja barna fjölskylda fær 7800 kr., fjögurra barna 10400 og fimm barna fjölskylda fær 13000 kr. í fjölskyldubætur. Aldraða fólkið og öryrkjarnir fá einnig verulegar tryggingabætur. Elli- og örorkulífeyrir hækkar um 44%.

Gengisbreytingin, sem fyrirhuguð er, hefur veruleg áhrif á verðlag í landinu til hækkunar, og hefur verið reiknað út, að hækkun framfærslukostnaðar í heild muni nema um 13%. Þar sem slík hækkun framfærslukostnaðar mundi verða almenningi afar þungbær, telur ríkisstj. sjálfsagt að gera sérstakar ráðstafanir til að draga úr áhrifum hennar á lífskjörin, fyrst og fremst hjá barnafólki, öldruðu fólki og öryrkjum. Þetta leggur ríkisstj. til, að gert sé með því að stórauka fjölskyldubæturnar og elli- og örorkulífeyrinn og enn fremur með því að greiða niður verð á nokkrum þýðingarmiklum neyzluvörum, kornvörum, kaffi og sykri. Kostnaður við þessar ráðstafanir kemur fram í fjárlagafrv. í 17. og 19. gr. Þessar ráðstafanir, sem eru gerðar til þess að draga úr áhrifum og þunga verðhækkananna, leiða til þess, að útgjaldahækkunin hjá vísitölufjölskyldunni verður aðeins um 3% í stað 13%, og hjá hjónum með 3 börn verður niðurstaðan sú, að þar á ekki að verða nein kjaraskerðing.

En hvers vegna þarf að gera allar þessar ráðstafanir, sem koma fram í efnahagsmálafrv. og fjárlögum og væntanlegum frv., sem hér verða lögð fram síðar? Hvað er að? segja hv. stjórnarandstæðingar. Er ekki allt í stakasta lagi? Þessi orð höfum við heyrt hér í Alþingi undanfarna daga.

Nei, hv. þm. og hlustendur góðir. Það er ekki allt í lagi. Það er margt að í þessu þjóðfélagi. Það, sem er að, er m.a. og kannske í fyrsta lagi hinn gífurlegi greiðsluhalli á viðskiptum íslenzku þjóðarinnar við útlönd, halli, sem undanfarin fimm ár hefur verið að meðaltali 200 millj. kr. Þjóðin sem heild hefur eytt meira en hún hefur aflað. Það þarf enga háskólahagfræði til að skilja þetta. Þetta skilur hver einasta húsmóðir og heimilisfaðir í þessu landi. Sérhvert íslenzkt heimili verður nauðugt, viljugt að haga sér eftir því lögmáli, að útgjöldin mega ekki fara fram úr tekjunum. Það er kannske hægt í eitt ár eða tvö að lifa um efni fram og safna eyðsluskuldum, en það er ekki hægt til lengdar. Sumir menn lifa stundum hátt um efni fram, berast mjög á og hugsa sem svo, að einhvern veginn slampist þetta af eins og hingað til. En allt tekur enda. Og eins og enginn fær umflúið sitt skapadægur, eins rennur upp sú stund, að hamar fógetans fellur og þá dynur yfir þrot og hrun, eymd og smán.

Þennan einfalda sannleika, sem sérhvert heimili í þessu landi lifir eftir, látast hv. stjórnarandstæðingar ekki skilja. Þeir jafnvel þverneita því, að þjóðin sé í nokkrum háska stödd, þó að fjárhagslegt sjálfstæði hennar rambi nú á barmi glötunar. Þeir menn eru einnig til hér á þingi, sem eru harla ánægðir með þessa framvindu mála. Þeir menn eru til, sem segja: Það er barnaleikur einn að ráða við gjaldeyrisskort og greiðsluhalla við útlönd. Við getum fengið stórlán hjá vinum vorum í austri með lágum vöxtum til langs tíma. Og það eru til þeir menn, sem segja: Lánsfjárskortinn innanlands er auðvelt að jafna með því að láta seðlabankann prenta fleiri seðla.

Sumir menn vaða út í ógöngur, út í fjárþrot og missi fjárhagslegs sjáifstæðis af fákunnáttu, hugsunarleysi, gáleysi. Þeir eru vissulega ekki til fyrirmyndar. Hinir eru þó verri, sem vilja stefna út í slíkar ógöngur með þjóð sína vitandi vits.

Frv. um efnahagsmál og frv. til fjárlaga eru tvær greinar af sama stofni. Fleiri greinar munu vaxa af þeim meiði á næstu vikum: frv. til breyt. á almannatryggingalögum, frv. um afnám tekjuskatts á launatekjum, frv. um lagfæringu útsvara og fjölmargt fleira. Með þessum málum öllum er lagður grunnur að heilbrigðara og réttlátara þjóðfélagi. Það er von mín, að íslenzka þjóðin taki með skilningi þeirri stefnu, sem nú er mörkuð til viðreisnar. Þessi stefna er ekki aðeins rétt stefna, heldur sú eina stefna, sem nú er hægt að taka til þess að forða vá frá dyrum Íslendinga.