08.02.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

42. mál, fjárlög 1960

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það er nokkuð villandi hjá hæstv. fjmrh. að taka þannig til orða, að reikningsskil ríkisins hafi dregizt 2–3 ár, og gæti það valdið misskilningi. Auðvitað hafa ekki reikningsskilin sjálf dregizt svona lengi, en endurskoðun hefur dregizt mjög lengi, og væri ekkert nema gott um það að segja, ef hæstv. ráðh. tækist að láta þetta ganga fljótara.

Ég tel ástæðu til þess að taka það fram við þetta tækifæri, að framsóknarmenn höfðu forustu um fjármál ríkissjóðs frá 1950 til ársloka 1958, þótt í samvinnu væri um stjórn við aðra flokka. Sé litið á þetta tímabil í heild, verða niðurstöður þessar:

Greiðsluafgangar umfram greiðsluhalla urðu þessi ár 239 millj., og eru þá afborganir fastra lána taldar með útgjöldum. Skuldir þær, sem ríkissjóði sjálfum er ætlað að standa straum af, að frádregnum sjóðum og innistæðum, lækkuðu um 76 millj. kr., og hafði ríkissjóður þó á þessum árum tekið að sér ýmsar skuldir annarra stofnana, svo sem 33 millj. kr. vegna íbúðalánasjóðsins t.d. Nettóeign ríkisins jókst á þessum árum um 1000 millj. eða fimmfaldaðist. Af greiðsluafgangi var á þessum tíma ráðstafað 133 millj. til ræktunarsjóðs, byggingarsjóðs, veðdeildar Búnaðarbankans, íbúðalánasjóðs, verkamannabústaðasjóðs, fiskveiðasjóðs og fleiri slíkra almannastofnana. Á þessu tímabili voru beinir skattar stórlega lækkaðir. Á hinn bóginn er það máske nokkuð táknrænt, að nú er það upplýst af hæstv. ráðh., að á síðasta ári hefur orðið talsverður greiðsluhalli, árinu 1959, sem jafnaður hefur verið með því að éta upp greiðsluafganginn frá 1958.

Ég er alveg viss um, að fjárlagafrv. það, sem hér liggur fyrir, mun hafa vakið undrun margra, þegar það birtist. Með því eru ríkisútgjöldin á einu ári hækkuð um 430 millj. kr. og fjárlögin komin í nálega einn og hálfan milljarð. Fjmrh. reyndi að gera það eins óskýrt og mögulegt er, hvernig á þessari hækkun stendur, og vildi láta menn líta svo á, að ríkissjóður hefði tekið á sig að mestu útgjöld, sem fyrir voru hjá útflutningssjóði. En hið rétta er, að af þessum 430 millj. eru aðeins 110 millj. þannig til komnar, og eru það þó greiðslur, sem margir mundu hafa haldið, þ.e.a.s. niðurgreiðslurnar, að féllu niður við þær ráðstafanir, sem nú á að gera. En 320 millj. eru beinar hækkanir á fjárlögunum, að langmestu leyti vegna ráðstafana ríkisstj. sjálfrar.

Það vottar ekki fyrir því í þessu frv., að nokkur ráðstöfun sé gerð til sparnaðar, enda vitaskuld sízt við slíku að búast, þegar þeir eru komnir til valda og fjalla um þessi mál, sem á undanförnum árum hafa verið allra manna aðsópsmestir í því að standa fyrir hvers konar útþenslu á embættisbákni ríkisins.

Á hinn bóginn er víða ráðgerður stóraukinn kostnaður, og við lauslega athugun kemur fram, að gert er ráð fyrir verulegri starfsmannafjölgun umfram þá, sem lögboðin er. Nú boðar hæstv. ráðh. enn eitt nýtt bákn, sem eigi að bæta við ríkisapparatið með alls konar ráðunautum og eftirlitsmönnum, og er það hin eina alveg ákvarðaða uppástunga, sem hæstv. ráðh. hefur lýst. Hann telur sig líka ætla að gera framkvæmd skattalaga einfaldari og ódýrari, en ég geri ráð fyrir því, að heldur muni verða lítið úr því, þegar þess er gætt, að nú á að innleiða almennan söluskatt á nýjan leik.

Hæstv. ráðh. var að tala um, að hann hefði ekki haft tíma til að gera till. um samfærslu til sparnaðar, og er það venjuleg viðbára þessara manna, þegar þeir eiga að standa við eitthvað lítið brot af því, sem þeir hafa sagt í gagnrýni á aðra, og verður framhaldið auðvitað eftir því. Á hinn bóginn hefur hæstv. ráðh. og hans félagar haft nógan tíma til þess að undirbúa stórfelldustu álögur á þjóðina, sem nokkru sinni hafa komið til greina í hennar sögu í einum áfanga. Annars verður fjárlagafrv. raunar tæpast rætt nema sem einn liður í þeim till. að nýju efnahagskerfi, eins og það er kallað, sem ríkisstj. hefur nú lagt fram, og mun ég haga mínum athugasemdum eftir því.

Hér er ekki tími til að rekja mikið aðdragandann að því, sem nú hefur yfir dunið, enda þótt slíkt væri í rauninni nauðsynlegt. Þó vil ég minna á, að núverandi stjórnarflokkar, sem tóku við efnahagsmálunum í des. 1958, gengu til tveggja kosninga á s.l. ári og höfðu að kjörorði: stöðvun dýrtíðarinnar án nýrra skatta, á öðru leytinu og á hinn bóginn, að leiðin til bættra lífskjara væri sú að kjósa Sjálfstfl. Því var þá lýst yfir, að útflutningssjóður hefði aldrei staðið betur, að ríkisbúskapur væri í bezta horfi og sýndi þetta glöggt. hv að hægt væri að gera til framkvæmda á stöðvunarstefnunni, eins og það var orðað, ef rétt væri að farið, og formaður Alþfl. lýsti því t.d. yfir, að þjóðin yrði að styðja flokkinn hans til þess að leysa þessi mál á sama hátt og gert hefði verið á því árl.

Framsóknarmenn vöruðu þjóðina við þessum áróðri og sögðu það, sem þeir vissu sannast og réttast, að því miður hefði dýrtíðin ekki verið stöðvuð og væri hinu rétta ástandi haldið leyndu fyrir mönnum í bili. En jafnframt sýndu framsóknarmenn fram á, að vandann væri hægt að leysa án þess að minnka kaupmátt tímakaups frá því, sem var í október 1958, með þeim aðferðum, sem flokkurinn hafði bent á í efnahagsmálatillögum sínum í des. 1958. Framsóknarmenn sögðu líka greinilega, að hinir hefðu í huga, eftir að þeir hefðu komið á kjördæmabreytingunni, alveg nýja stefnu í efnahagsmálum, sem miðuð mundi við mikinn samdrátt í þjóðarbúskapnum. Þetta vildu ekki hinir viðurkenna þá.

En ekki var kosningunum fyrr lokið en talsmenn hinnar nýju valdasamsteypu sneru blaðinu alveg við og hófu upp mikinn áróður um það, að þjóðin hefði lifað um efni fram, eins og hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, og sögðu mönnum nú allt í einu, að það væri verulegur halli á ríkisbúskapnum og stórkostlegur halli á útflutningssjóðnum og jafnvel nefndar 180 millj. í því sambandi. Þetta ástand væri svo óskaplegt, að það dygði hvorki meira né minna en að taka upp alveg nýja stefnu og færa stórar fórnir. Inn í þetta var svo bætt, að þjóðin hefði búið við gífurlegan greiðsluhalla við útlönd undanfarin ár, eins og hæstv. fjmrh. var að segja ykkur hér áðan, meira en 1000 millj, kr. greiðsluhalla síðustu 5 árin, og væri á glötunarbarmi út af þessum lántökum. Yrði því þjóðin að þrengja stórkostlega að sér vegna þessara lántaka til þess að bjarga frá þjóðargjaldþroti.

Ég vil ekki fullyrða neitt um það, hvort þær ýkjur eru meiri, sem þessir aðilar hafa leyft sér að segja þjóðinni nú um ástandið í efnahagsmálunum eftir kosningarnar, en þær óskaplegu ýkjur og blekkingar, sem þeir viðhöfðu fyrir kosningar. En það eitt ætla ég alveg ljóst hverjum manni, að sá málflutningur, sem viðhafður var á s.l. ári, og staðreyndir þær, sem nú eru fram komnar, sýna mönnum svart á hvítu þá sorglegu staðreynd, að þeim mönnum, sem þjóðin hefur nú falið forustu mála um sinn, er ekki hægt að treysta til þess að gefa sanna mynd af efnahagsmálum landsins. Það verður því ekkert byggt á þeirra áróðri um þessi mál nú fremur en í fyrra.

Áróðurinn um hinn voðalega greiðsluhalla við útlönd er byggður á því t.d. að telja Sogsvirkjunina, sementsverksmiðjuna, hellan flota kaupskipa og fiskiskipa og margar aðrar álíka framkvæmdir sem greiðsluhalla við útlönd, af því að erlend lán hafa verið tekin til að koma þessum framkvæmdum á, þótt flestar þeirra standi ekki aðeins undir sínum lánum, heldur gera miklu betur, og ég fullyrði, að vegna þeirra framkvæmda, sem gerðar hafa verið fyrir erlent lánsfé, t.d. vegna sementsverksmiðjunnar og áburðarverksmiðjunnar, svo að aðeins dæmi séu nefnd, stendur þjóðin betur að vígi nú en oftast áður, ef ekki nokkru sinni áður í sínum búskap að standa við skuldbindingar sinar út á við, þar með taldar greiðslur af framkvæmdalánunum.

Áróður hæstv. ríkisstjórnar um efnahag landsins hefur orðið að beinum óhróðri um þessi málefni. En í hvaða skyni er staðreyndum snúið svo öfugt fyrir þjóðinni og reynt að telja mönnum trú um, að framkvæmdalán þau, sem tekin hafa verið á undanförnum árum, séu greiðsluhalli, og dæmið sett upp þannig, að til þess að forðast greiðsluhalla við útlönd megi ekki taka erlend lán til þýðingarmestu framfara? Eða á kannske að halda því að mönnum, að sá maður eyði t.d. um efni fram, sem tekur lán til þess að kaupa sér bát, hús eða bústofn? Það er augljóst, að þetta er gert til þess að reyna að hræða þjóðina til að yfirgefa uppbyggingarstefnuna í efnahagsmálum og taka upp samdráttarstefnu í staðinn.

Einn þýðingarmesti liðurinn í því að koma samdrættinum á er að draga stórkostlega úr erlendum lántökum til verklegra framkvæmda. Á hinn bóginn á ekki að hætta að taka erlend lán, því að ríkisstj. ráðgerir að taka hvorki meira né minna en allt að 780 millj. kr. gjaldeyrislán til stutts tíma, ef svo vill verkast. En því er ekki ætlað að fara í framkvæmdir eða uppbyggingu, heldur á það að fara til venjulegra vörukaupa. Og þegar hæstv. ríkisstj. ræðir um endurgreiðslu þessa láns í grg. efnahagsfrv., þá er sagt, að endurgreiðsla þess muni ekki valda erfiðleikum í þjóðarbúskapnum á næstunni. Jafnframt eru þessir sömu hæstv. ráðherrar óþreytandi að lýsa því fyrir þjóðinni, hversu endurgreiðsla framkvæmdalána hljóti að verða þjóðinni erfið.

Ég hef á undanförnum árum bent á, að það er ekki hægt að fá ótakmarkað erlent lánsfé til framkvæmda og má ekki treysta einhliða á það, og þetta hef ég tekið sérstaklega fram í sambandi við það, að stjórnarandstæðingar hafa á undanförnum árum, sem nú eru tekur við stjórninni, krafizt þess, að það væru tekin miklu stærri lán en tekin hafa verið, og í því sambandi hef ég sérstaklega á þetta bent. En jafnframt hef ég tekið fram, að það verði að keppa að því, þótt ekki megi einhliða á það treysta, að taka framkvæmdalán í verulegum mæli, því að öðruvísi er ekki hægt að notfæra sér möguleika Íslands á næstunni fremur en verið hefur undanfarið. Á hinn bóginn hefur sýnt sig, að ekkert er hættulegra en gjaldeyrislántaka til venjulegra þarfa. Hvernig halda menn, að það muni verka á möguleika landsins til að fá framkvæmdalán, ef slíkt eyðslulán er tekið og skuldin festist, eins og nærri má telja víst að verði, svo sem reynslan hefur sýnt, þegar slíkt hefur verið reynt? Hvernig halda menn t.d., að þeim manni mundi ganga að fá lán til nauðsynlegra framkvæmda sinna, sem hefði kafhlaðið sig víxilskuldum fyrir venjulegum útgjöldum?

Lítum þá á hina nýju efnahagsmálastefnu, sem ríkisstj. vill fá Alþ. til þess að samþ. og þjóðina til að fallast á, og gerum okkur grein fyrir, hvað hið nýstárlega er við þessa stefnu.

Við getum strax lagt áherzlu á, að gengisbreyting út af fyrir sig er ekki hið nýstárlega við þessa stefnu. Það er vitaskuld ekkert ódæði né heldur nein nýjung, að breytt sé gengi peninga, og þarf ekkert rangt að vera við það, ef knýjandi ástæður eru til og ef það er gert ásamt öðrum ráðstöfunum, sem eiga rétt á sér. Hér hefur áður verið breytt gengi íslenzkrar krónu og ekki verið skipt um stefnu í efnahagsmálum fyrir því, uppbyggingarstefnunni verið haldið sleitulaust áfram eftir sem áður. Framsóknarmenn hafa átt þátt í gengisbreytingu og stundum gert till. um gengisbreytingu eða hliðstæðar ráðstafanir, þótt þær hafi ekki náð fram að ganga, eins og t.d. sumarið 1958 í vinstri stjórninni, þegar framsóknarmenn vildu hækka yfirfærslugjaldið, sem jafngilti í rauninni breyttri skráningu krónunnar. Það er raunar einmitt fróðlegt að minnast á þessar till. framsóknarmanna frá 1958 til þess að sýna stefnumuninn og kjarna málsins.

Í þessum till. um yfirfærslugjöld er lögð áherzla á, að jafnframt verði lagður skattur á eyðslu og hann notaður til ráðstafana, sem miða til hagsbóta fyrir almenning, og að þessar ráðstafanir séu gerðar í samráði við stéttasamtökin. Þá er lagt til, að leitað verði samkomulags við launþega- og bændasamtökin og að þau falli að einhverju leyti frá að taka kaupgjalds- og afurðahækkun samkvæmt framfærsluvísitölu, en ekki gert ráð fyrir lögbindingu á þessu. Þá er í þessum till. lögð áherzla á að hafa samráð við alþýðusamtökin um ráðstafanir til þess að halda uppi nægilegri atvinnu, og loks, að áfram sé haldið ráðstöfunum til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. M.ö.o.: í þessum till. framsóknarmanna um hækkun á yfirfærslugjaldi, sem jafngilti gengisbreytingu, er samdráttarstefnu algerlega hafnað.

Þegar við gerðum þessar till., vorum við í stjórn. Þær eru í nákvæmu samræmi við afstöðu okkar nú í stjórnarandstöðu, og segir það sina sögu um Framsfl. og hans störf. Hann er ekki hentistefnuflokkur og ekki eins og fló á skinni, og er það meira en hægt er að segja um suma stjórnmálaflokka landsins samkvæmt reynslunni.

Hæstv. viðskmrh. sagði hér líka í gær að efni til í umr., að Framsfl. hefði aldrei viljað fallast á samdráttinn, sem þyrfti að fylgja gengisbreytingum eða þvílíkum ráðstöfunum, og er það vissulega satt.

Menn geta alveg með jöfnum rétti haldið því fram, að svart sé hvítt og hvítt sé svart, eins og því, að till. framsóknarmanna í efnahagsmálum frá 1958 eigi nokkuð skylt við þá stefnu, sem núverandi ríkisstj. ætlar að beita sér fyrir, enda þótt þar sé gert ráð fyrir hækkun á yfirfærslugjaldi, sem jafngilti gengislækkun. Sá málflutningur að halda slíku fram er á hinn bóginn alveg samboðinn þeim mönnum, sem báðu þjóðina að kjósa sig á s.l. ári til þess að stöðva dýrtíðina og bæta lífskjörin, enda þegar sýnt, að þeir gætu það, en beita sér svo fyrir því nú að magna dýrtíðina með öllum hugsanlegum ráðum til að koma á samdrætti og færa þau rök fyrir því, að allt, sem þeir sjálfir höfðu sagt þjóðinni á s.l. ári um góða afkomu útflutningssjóðs og góðar horfur yfirleitt, hafi verið uppspuni frá rótum.

Í hverju er svo nýja kerfið fólgið? Það er í stuttu máli í því fólgið samkvæmt því, sem ríkisstj. hefur greinilega útlistað, að framkvæma á allt í senn: gengislækkun, nýjar stórfelldar álögur, vaxtahækkun og samdrátt útlána á öllum sviðum, draga úr framkvæmda lántökum, en taka stórfellt gjaldeyrislán til almennra vörukaupa. Það á að draga úr verklegum framkvæmdum, minnka þjóðfélagslegan stuðning við framkvæmdir og uppbyggingu í landinu í öllum greinum, en kaupgjaldi og tekjum framleiðenda er ætlað að standa í stað í krónutölu.

Lítum nánar á nokkra þætti þessarar nýju stefnu, sem öll miðar að samdrætti og miðar að því að draga úr stuðningi þjóðfélagsins við framkvæmdir almennings í landinu, en efla peningavaldið að sama skapi. Framkvæmdalántökur verða að minnka vegna þess, að eitt höfuðatriði í hinni nýju stefnu er að draga stórkostlega úr framkvæmdum. Með vaxtahækkuninni, sem nú á að framkvæma, m.a. á stofnlánum til landbúnaðar og sjávarútvegs og íbúðabygginga, er vegið að einum þýðingarmesta þætti í íslenzkum þjóðarbúskap.

Á undanförnum áratugum hafa verið byggðir upp margir lagabálkar, sem hafa hvílt á þeirri meginhugsun, að þjóðfélagið stuðli að því, að menn geti fengið lán með vægum vöxtum til að koma upp sjálfstæðum atvinnurekstri í landinu, í sveit og við sjó, og til að eignast eigin íbúðir. Þetta er einn meginþátturinn í þeirri umbótastefnu, sem Framsfl. hefur barizt fyrir áratugum saman. Þetta er byggt á þeirri hugsun, að með þessu móti verði bezt stuðlað að því, að í landinu verði sem flestir sjálfstæðir efnalega, geti klofið þann stofnkostnað við atvinnurekstur og myndun heimila, sem oft og tíðum mundi verða þeim gersamlega um megn, ef ekki væru hentug lán að fá með lágum vöxtum. Þessi pólitík hefur átt meiri þátt í því að þróa efnahagslíf okkar en flestir gera sér í fljótu bragði grein fyrir. En nú er það einn þátturinn í hinum nýju ráðstöfunum að gerbreyta um stefnu í þessu efni, og er það engin tilviljun. Það er ekkert annað en fyrirsláttur, að þetta þurfi að gera vegna halla á stofnlánasjóðunum, því að það er alveg vandalaust að leysa þau mál, eins og gert hefur verið undanfarið, með því að ríkið hlaupi undir bagga. Eða á kannske að telja mönnum trú um, að þjóðfélagið hafi ekki lengur ráð á því að veita þennan stuðning, sem látinn hefur verið í té áratugum saman? Út yfir tekur með öllu sú frekja að ætla með einni lagagrein upp á 5–6 línur inni í óskyldu máli að kollvarpa þessum lagabálkum öllum saman um vaxtastuðninginn og veita ríkisstjórninni alræðisvald um þessi efni án íhlutunar Alþingis.

Með ráðstöfunum þeim, sem nú eru fyrirhugaðar og byrjað var á í fyrra, munu verklegar framkvæmdir minnka stórlega. Og það er lítið dæmi um, hvert þessi pólitík leiðir að því leyti, að nú á að stórhækka álögur á benzín, en á sama tíma verða framlög til vega lækkuð, þegar miðað er við hækkaðan kostnað. Atvinnuaukningarféð, sem verið hefur þýðingarmeira en flest annað til að ýta undir uppbyggingu í sjávarplássunum, verður raunverulega helmingi minna en það var fyrir 2 árum. Og nú er haft á orði að gerbreyta ríkisábyrgðarpólitíkinni og hætta því að taka jafnforsjárlítið ríkisábyrgðir og gert hefur verið. En í hverju hafa ríkisábyrgðartöpin verið fólgin? Þau eru fyrst og fremst vegna ábyrgðar ríkisins á síldarverksmiðjuuppbyggingunni í landinu, á togaraútgerð víðs vegar um landið, vegna hafnarbyggingalána, sem ábyrgzt hafa verið fyrir plássin víðs vegar um landið, og fyrir framkvæmdir í raforkumálum í ýmsum kaupstöðum landsins. Út af þessum ábyrgðum hafa flest töpin orðið, og ég fullyrði það, að úr þessum framkvæmdum, eins og t.d. hafnarframkvæmdum í Þorlákshöfn, Patreksfirði, Skagaströnd, Sauðárkróki, Ólafsvík og raforkuframkvæmdum í Vestmannaeyjum, Siglufirði, Neskaupstað og víðar, hefði aldrei getað orðið, ef ríkisábyrgðarstefnan væri framkvæmd á þann hátt, sem hæstv. fjmrh. var að lýsa hér yfir áðan. En það er engin tilviljun, að það á að gerbreyta um stefnu í þessu efni. Það er liður í hinni nýju áætlun um samdrátt framkvæmdanna og umfram allt liður í þeirri áætlun að minnka það, sem kallað er hin óarðbæra fjárfesting víðs vegar um landið. Svo langt á að ganga í því að gera ráðstafanir til þess að draga úr framkvæmdum og uppbyggingu, að ríkisstj. hótar því að draga inn í bankakerfi landsins hluta af því fé, sem kaupfélagsmenn leggja inn í innlánsdeildir sínar til stuðnings sinum eigin félagsskap. Er þetta hugsað til þess, að fólkið í byggðarlögunum geti ekki haldið áfram uppbyggingunni með stuðningi sinna eigin félaga, þegar öðrum leiðum verður lokað af ríkisstjórninni skv. þessari áætlun.

Ekki hefur gefizt tóm til þess enn þá að gera sér fulla grein fyrir því, hvernig þessar fyrirætlanir verka fyrir einstakar atvinnugreinar, en bað er auðsætt, að vaxtahækkunin skellur sem reiðarslag á framleiðslunni, og sú stefna að ætla sér að halda lánum óbreyttum í krónutölu þrátt fyrir gífurlegar verðhækkanir á rekstrarvörum mundi leiða til stöðvunar framleiðslu í mörgum greinum.

Augljóst er, að smábátaútvegurinn verður fyrir þungum búsifjum af þessum tillögum, þar sem vinnsluuppbætur t.d., sem hafðar hafa verið til að halda uppi verði á smærri fiski og sumarveiddum fiski, falla niður með öllu. Fyrir uppbyggingu landbúnaðarins verður þessi stefna þungt áfall, þar sem ofan á allt annað bætist sú vaxtahækkun á stofnlánum, sem boðuð er, og samdráttur lánveitinga og stuðnings í öllum greinum.

Allar þessar ráðstafanir eru í beinu framhaldi af þeirri stefnu, sem raunverulega var boðuð í sambandi við kjördæmabreytinguna og var byggð á þeirri hugsun, að það sé úrlausnar að leita í efnahagsmálum landsins með því að draga stórkostlega úr uppbyggingunni víðs vegar um landið.

Lítum því næst á, hvernig þessar ráðstafanir eru, skoðaðar í heild, en það er eitt af því furðulega í þessu máli, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki gert neina tilraun til að sýna þjóðinni slíka heildarmynd af málinu.

Nýjar álögur samkvæmt fjárlögunum verða 370 millj. eftir þeirra eigin áætlun, að frádreginni lækkun tekjuskattsins. Hagstofan hefur áætlað, hvað verðiag muni hækka vegna gengisbreytingarinnar, og nemur sú fjárhæð 747 millj. kr., og er þá dregin frá sú hækkun, sem verður á rekstrarvörum útflutningsframleiðslunnar og gengur út og inn í dæminu. En til þess að fá dæmið rétt og myndina rétta þarf að draga frá verðhækkanir vegna gengisbreytingarinnar, sem búið er að reikna í fjárl., og niðurfellingu innflutningsskatts til útflutningssjóðs, samtals 119 millj. kr. Hreinar verðhækkanir vegna gengislækkunarinnar og álögurnar verða samkvæmt þessu um 1000 millj. kr., en þá er eftir að reikna áhrif vaxtahækkunarinnar, sem mér hefur ekki tekizt að fá áætluð, en það dylst mér ekki, að stórfelld vaxtahækkun bæti mjög miklu við þessar álögur. Enn fremur er ljóst, að þessar nýju álögur verða í reyndinni miklu meiri en í fjárl. er áætlað og sömuleiðis verðhækkanirnar vegna gengisbreytingarinnar, því að innflutningsáætlun ríkisstj. er sérstaklega lág og miklu lægri en innflutningurinn hefur verið á undanförnum árum.

Allra lægstu tölur, sem hægt er að áætla í sambandi við álögurnar í heild, eftir því hver vaxtahækkunin og innflutningurinn á þessu ári verður, virðast mér 1200-1300 millj. kr.

Nú ætlar hæstv. ríkisstj. að bæta upp þessar álögur með 158 millj. kr. í fjölskyldubætur og ellilaun og auknar tryggingabætur og 37 millj. kr. til niðurgreiðslu á erlendum neyzluvörum, sem nú á að taka upp í fyrsta sinn. Á móti álögunum eiga því að koma í bætur 189 millj. kr. Það er tæpast ástæða til að eyða orðum að þeim málflutningi, að þessar bætur muni langt til hrökkva til að bæta upp áhrifin af þessum gífurlegu álögum og verðhækkunum. Þarf ekki mörg orð um það að hafa. En þegar þess er gætt, að stjórnin ráðgerir, að tekjur almennings í landinu eigi að standa óbreyttar í krónutölu og útlán alls ekki að hækka, þá er það augljóst, að stjórnin hefur í hyggju að draga saman neyzlu og fjárfestingu eða framkvæmdir öðru nafni um rúmlega 1000 millj. á þessu ári frá því, sem verið hefur. Auðvitað yrði þetta að koma fram í raunverulegri tekjulækkun hjá almenningi samanborið við vöruverð, sumpart í minnkuðum kaupmætti þeirra launa og framleiðslutekna, sem nú eru, og sumpart í minnkuðum tekjum vegna minni atvinnu, og sumpart á þetta að vegast upp með samdrætti í efniskaupum til framkvæmda.

Ekki hefur hæstv. ríkisstj. fengizt til þess að gera grein fyrir því, hvað hún áætlar, að samdráttur framkvæmdanna muni nema miklu, og hvað hún áætlar, að neyzlan eigi að minnka mikið, og er það e.t.v. skiljanlegt, að hún hefur ekki dregið fram það dæmi, þegar þess er gætt, að hún hefur tekið sér fyrir hendur að reyna að sýna fólki fram á, að 189 millj. kr. muni bæta mönnum upp þessar ráðstafanir að mestu. En auðvitað er það engin afsökun fyrir því að láta bað undir höfuð leggjast að gera þjóðinni grein fyrir þessum staðreyndum. En þegar þess er gætt, að allar þjóðartekjurnar hafa verið metnar tæpir 5 milljarðar króna, þá sjáum við, hvaða fjarstæða það er og fjarri öllum veruleika, sem vakir fyrir hæstv. ríkisstj., og hversu óafsakanlegt það er að steypa sér út í annað eins ævintýri og þessar till. og fyrirætlanir eru.

Stjórnin heldur því á lofti, að hún ætli að lækka tekjuskattinn og af því verði miklar hagsbætur fyrir menn. Það mál get ég ekki rætt í einstökum atriðum nú, en vil leyfa mér að benda á, að lækkun tekjuskattsins nemur 75 millj. kr., miðað við áætlun hans í fjárl. 1959. En í staðinn fyrir lækkun tekjuskattsins ætlar ríkisstj. að innleiða almennan söluskatt, sem á að nema 234 millj., sem eiga að fara í ríkissjóð, að frádregnu því, sem jöfnunarsjóður sveitar- og bæjarfélaga á að fá af skattinum. Ég er hræddur um, að almenningur græði ekki mikið á þessum viðskiptum við hæstv. ríkisstj. fremur en í mörgum öðrum greinum.

Það er blátt áfram einkennandi fyrir till. ríkisstj., að það vottar ekki fyrir því, að nokkurs staðar sé gerð tilraun til að láta þá, sem hafa stórauðgazt á verðbólgunni á undanförnum árum, leggja nokkurn skapaðan hlut fram sérstaklega. Það er ekki nú verið að valda stóreignamönnum landsins áhyggjum með stóreignaskatti, sem eigi að renna til stuðnings íbúðabyggingum og uppbyggingu víðs vegar um landið eins og stundum áður. Aftur á móti er það augljóst, að þessi stefna, sem nú er tekin upp, kemur langharðast niður á þeim, sem erfiðasta hafa aðstöðuna: Í fyrsta lagi unga fólkinu, sem mest hefur vafið sig í skuldir til þess að koma sér þaki yfir höfuð eða koma upp atvinnurekstri eða á allt slíkt ógert. Í öðru lagi þeim, sem vegna efnaskorts hafa orðið á eftir með uppbyggingu sína. Og loks þeim, sem stunda lausa atvinnu og eiga alla afkomu sina undir því, að atvinna sé nóg. En það er blátt áfram eitt trúaratriði í þeirri íhaldsstefnu í efnahagsmálum, sem nú á að innleiða, að efnahagskerfið fái ekki staðizt, nema nokkurt atvinnuleysi sé.

Óneitanlega er við verulegan vanda að fást í efnahagsmálum okkar, og er það ekkert nýtt. En ég fæ ekki betur séð en nú sé það að ske, að peningavaldið í landinu, sem ræður í Sjálfstæðisfl., með Alþfl. sem hjálpartæki, ætli að notfæra sér þennan vanda, sem þó er minni nú en oft áður, til að taka upp alveg nýja efnahagsmálastefnu, sem á að efla peningavaldið í öllum greinum, en gengur í þveröfuga átt við þá efnahagsmálastefnu, sem Framsfl. hefur átt mikinn þátt í, að fylgt hefur verið síðustu áratugina.

Ég hef sýnt fram á, að áætlun ríkisstj. er sú að draga saman neyzlu og fjárfestingu um meira en einn milljarð á ári. Svona tillögur eru vitaskuld ekki viðreisnartillögur. Svona till. og sú stefna, sem ríkisstj. hefur tekið upp, er því miður líklegust til þess að verða undirrót verra verðbólgumeins en nokkru sinni fyrr. Það er látíð í veðri vaka, að þurft hafi að taka þetta heljarstökk vegna þess, hve landið væri sokkið í skuldir, og til að forðast erlenda lántöku. Fyrirætlun ríkisstj. um stórkostlegt gjaldeyrislán til annars en framkvæmda og reynsla þjóðarinnar af framkvæmdalánum fellir alveg þessa tylliástæðu.

Þá er sagt, að þetta þurfi að gera svo stórfellt til þess að stökkva alla leið út úr uppbótakerfinu í einu stökki. Hið rétta er, að út úr uppbótakerfinu verður ekki stokkið með þessum till. Uppbótakerfið er ekki bara útflutningsuppbæturnar, heldur niðurgreiðslurnar líka. Þetta tvennt er eins og tveir endar á sama prikinu. En niðurgreiðslur á jafnvel að auka frá því, sem verið hefur, og útflutningssjóður á að starfa áfram, þangað til ríkisstj. telur meginhlutverki hans lokið, eins og segir í áætlun ríkisstj. Og 5% gjald er lagt á allan útflutning og á, að því er virðist, að vera til ráðstöfunar fyrir ríkisstj., eftir að halli útflutningssjóðs hefur verið greiddur, — þessi halli, sem uppgötvaðist allt í einu eftir kosningar, en annars átti alls ekki að vera til.

Þá er sagt, að þetta þurfi að leggja á sig til þess að auka frelsið. 40% af innflutningnum á eftir sem áður að vera háð leyfum, nýr söluskattur á að innleiðast með öllu því fargani, sem honum fylgir, og stórfelldari lánsfjárskömmtun á að taka upp en nokkru sinni fyrr og harðari þvingunarráðstafanir í því sambandi og meiri afskipti af peningamálum manna en nokkru sinni áður hafa komið til greina. Sér er nú hvert frelsið!

Þeim vanda, sem fyrir liggur nú í efnahagsmálum, er hægt að mæta með tvennu móti, alveg eins og einstaklingur velur, ef hann þarf að gera ráðstafanir til að brúa bil í sínum búskap. Aðra leiðina mætti kalla uppbyggingarleiðina, og það er leið Framsfl., úrræði hans, því að Framsfl. telur sér skylt að gera þjóðinni ljóst, hvert hann stefnir. Þessi leið byggist m.a. á því að halda áfram og draga alls ekki úr þeim þjóðfélagslega stuðningi, sem almenningur í landinu hefur notið við framkvæmdir sínar og uppbyggingu til framleiðslu og heimilamyndunar; að halda áfram að leggja áherzlu á öflun nýrra framleiðslutækja til fyllstu notkunar allra möguleika og til þess að halda uppi fullri atvinnu; að gera ráðstafanir til að jafna þann halla, sem kann að vera í efnahagskerfinu, með því að draga úr þeirri fjárfestingu, sem helzt má missa sig, draga nokkuð úr fjárfestingunni, eins og ég hef orðað það stundum á undanförnum árum, án þess þó að slaka á framfarabaráttunni, og fjárfestingu, sem má fremur bíða en annað, miðað við almenningshag, og með því að skattleggja þá eyðslu, sem er umfram nauðsyn, og þá, sem mest mega sín.

Þetta eru þau úrræði, sem við bendum á, og þessi leið er vel fær, og það samrýmist þessari leið að komast í áföngum út úr uppbótakerfinu, eins og byrjað var á með yfirfærslugjaldinu 1958, sem okkar vegna má eins kalla gengislækkun, ef menn vilja það heldur.

Hin leiðin, sem stjórnin beitir sér fyrir nú, er samdráttarleiðin og efling peningavaldsins í landinu. Hún er fólgin í því að magna svo dýrtíðina, að þjóðarbúskapurinn hljóti að dragast stórkostlega saman. Sú leið miðar að minni þjóðartekjum en vera þyrfti og rýrari lífskjörum. Hún miðar að því að draga á öllum sviðum úr þeim þjóðfélagslega stuðningi, sem á undanförnum áratugum hefur verið lögleiddur í landinu til þess að efla einstaklingana til sjálfstæðrar framleiðslu og sjálfsbjargar og stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Þennan stuðning á að slá niður í öllum myndum, en gefa peningavaldinu, verðbólguvaldinu, sem myndazt hefur í landinu á undanförnum árum, lausan tauminn og ætla því að verða forsjá fólksins, eitthvað líkt því, sem var, áður en almenningur á Íslandi hóf samtök sín, baráttu fyrir því að koma upp sjálfstæðum atvinnurekstri og félagslegum umbótum. Það er því ekkert ofsagt í því hjá hæstv. fjmrh., þegar hann sagði hér áðan, að ráðstöfunum ríkisstj. er ætlað að gera stórbreytingar í þjóðfélagi Íslendinga.

Með þessari nýju stefnu er ætlunin að leiða fjármagnið og gróðasjónarmiðið til öndvegis í íslenzkum þjóðarbúskap, en ráðast gegn þeirri stefnu, sem umbótamenn í landinu hafa barizt fyrir áratugum saman, þeirri stefnu að styðja að félagslegri uppbyggingu almennings og styðja sem flesta einstaklinga til þess að geta komizt í bjargálnir og lifað sjálfstæðu lífi. En þessi meginkjarni málsins á ekkert skylt við það, hvernig krónan er skráð þá og þá.

Gegn þessari stefnubreytingu mun Framsfl. berjast og væntir sér liðsemdar frá mörgum í þeirri baráttu. Og það verður ekki brotið niður baráttulaust, sem upp hefur verið byggt á mörgum áratugum.

Það er sannarlega illa farið, að baráttunni um þessi meginstefnumál skuli hafa verið blandað inn í nauðsynlegar ráðstafanir í efnahagsmálum, og eru þau vinnubrögð alveg óafsakanleg að reyna þannig að misnota þann vanda, sem þarf að leysa og hægt er að leysa með skaplegum hætti, til þess að þvinga fram alveg nýja þjóðmálastefnu, sem gengur þvert á skoðanir a.m.k. mikils hluta þjóðarinnar, að ég ekki segi meginþorra þjóðarinnar, ef eftir væri leitað.

Að lokum aðeins örfá orð um meðferð þessa máls, sem ég tel afar óhyggilega:

Reynslan undanfarið hefur ótvírætt sýnt, að það er mikil nauðsyn að fylkja sem allra flestum saman um úrræði í efnahagsmálum landsins, en um það hafa forustumenn þessarar nýju valdasamsteypu ekkert hugsað. Á hinn bóginn hefur framkoma þeirra verið með nokkuð hrokafullum hætti, sem allra sízt gerir gagn í sambandi við þessi mál. Auðvitað hefði þurft stjórnarmyndun á breiðari grundvelli en varð, eins og Framsfl. m.a. benti á í haust með hugmyndinni um myndun vinstri stjórnar þriggja flokka og eins og Framsfl. benti á í fyrravetur með hugmyndinni um myndun þjóðstjórnar, sem enginn vildi sinna þá né heldur í haust.

Auðvitað hefði ríkisstj. átt að gera sér grein fyrir því, að aðstaða hennar var mjög veik, og átti að reyna að styrkja sig með skynsamlegum vinnuaðferðum. En því fer fjarri, að slíkt hafi verið gert. Alþingi var, þegar það kom saman, algerlega neitað um að fá upplýsingar um efnahagsmálin, en þess í stað var það sent heim. Ríkisstj. sendi einnig sína eigin þm. heim ásamt hinum og hefur ákvarðað algera stefnubreytingu í efnahagsmálum landsins án þess að ráðgast við sína eigin þm. En óhugsandi er fyrir þm. að hafa nokkur áhrif á mótun stærstu mála, nema þeir fylgist með stig af stigi, eins og raunar gert hefur verið á undanförnum árum.

Það er ástæða til að harma þessi vinnubrögð.

Þau eru ekki líkleg til þess að leiða til góðs. Nú þyrfti að gera öfluga tilraun til þess að bæta hér um með því að taka þessi mál öll til rækilegrar skoðunar hér á hv. Alþingi með það fyrir augum að efna þannig til viðtækara samstarfs og minni baráttu um meginstefnur en ella hlýtur að verða. Ef ríkisstjórnarflokkarnir berja á hinn bóginn fram með offorsi og í krafti þess litla meiri hluta, sem þeir hafa hér á Alþingi, efnahagsmálatillögur sinar og þær stórfelldu þjóðfélagsbreytingar, sem í þeim felast, þá hefur mikið óhapp orðið, og þá er mikil barátta fram undan um meginstefnu í þjóðarbúskap Íslendinga.