16.03.1960
Sameinað þing: 25. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

42. mál, fjárlög 1960

Frsm. 1. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt með því að taka það fram, að við fulltrúar Framsfl. í fjvn. höfum ekki nema gott að segja af persónulegum skiptum bæði við formann n. og aðra nm. Það, sem ég kann að segja um starfsemi fjvn. hér á eftir, verður miðað við þá stefnu, sem ríkisstj. hefur lagt þeim til, en þeir ekki fundið upp persónulega.

Það er vitað mál, að fjárlögin eru jafnan spegilmynd af þeirri stjórnarstefnu, sem uppi er á hverjum tíma. Það er því auðvelt fyrir nm. í fjvn. að gera það upp við sig, þegar leiðir skilja. Þeir þurfa yfirleitt ekki að búa sér til ádeiluefnin, þau liggja fyrir og eru greinileg.

Á þessu Alþ. hefur það gerzt, að fjárlfrv. fyrir árið 1960 hefur verið gefið út í tveimur útgáfum. Skömmu fyrir kosningarnar, þegar hæstv. fyrrv. fjmrh. mælti þá til þjóðarinnar, sagði hann þá sögu, að fjárlfrv. mundi verða lagt fram í byrjun Alþingis, þegar það kæmi saman að kosningum afstöðnum, og mundi það verða greiðsluhallalaust. Hann taldi, að þjóðin þyrfti ekki að kvíða neinu í fjármálum, vegna þess að spár um það hefðu verið í vondum huga til orðnar, en annað ekki. Það er því ástæða til að rifja þetta upp nú eða minnast þess fyrra frv. og þeirrar stefnu, sem það boðaði, þegar að fjárlagaafgreiðslunni kemur að þessu sinni, til þess að leita eftir skýringum fyrir því, hvers vegna frv., sem var þannig vel úr garði gert, eins og boðað hafði verið, og byggðist á góðri afkomu fjármálanna, var talið ónothæft hér á hv. Alþ. Ég mun samt ekki fara langt út í efnahagsmálin, en aðeins víkja að þessu.

Í framsöguræðu við 2. umr. fjárlaga 1959 komst hv. núv. formaður fjvn., 6. þm. Norðurl. e. (MJ), svo að orði, með leyfi hæstv. forseta, eftir að hann hafði lýst fjármálaástandinu:

„Var augljóst, að ekki var nema um tvo kosti að ræða: annaðhvort að ana enn lengra út í fen fjármálaöngþveitisins með nýjum, stórfelldum sköttum eða þá að freista að stöðva dýrtíðarskrúfuna og reyna að leiða þjóðina í jafnvægisátt. Samkomulag varð um stöðvunarleiðina á milli Sjálfstfl. og Alþfl.

Það er nokkur ástæða til, þegar þetta er haft í huga, að undrun sæki að mönnum, þegar þeir standa frammi fyrir því fjárlfrv., sem hér er nú til afgreiðslu. Ég vil því í upphafi máls míns spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ríkisstj. og stjórnarliðum, hver er ástæðan fyrir því, að hörfað var frá stöðvunarstefnunni. Hefur stöðvunarstefnan mistekizt svo herfilega, að hennar vegna sé þeirra aðgerða þörf, sem hér er verið að framkvæma nú í efnahagsmálum? Eða var hún aðeins notuð sem undirbúningur að því, sem nú er að koma fram? Það hefur ekkert komið fram hjá stjórnarliðum, sem gæti réttlætt það heljarstökk, sem þeir hafa stokkið í efnahagsmálunum. Í öllu, sem frá þeim hefur heyrzt um stöðvunarstefnuna, hefur því verið haldið fram, að hún hafi heppnazt vel, og ef það hefur verið rétt hjá þeim, að hún væri sú leið, sem ætti að fara, bar auðvitað að halda áfram á þeirri braut. Þeir höfðu fengið nokkra reynslu af framkvæmd hennar, og það aukna fylgi, sem Alþfl. fékk í s.l. kosningum, var út á hana. Þjóðin hafði fyrir sér orð forustumanna Alþfl. fyrir því, að þeir vildu halda áfram á þessari braut. í því sambandi vil ég minna á ummæli úr ræðu hæstv. þáv. forsrh., Emils Jónssonar, en þau eru birt í Alþbl. 21. okt. Hann segir þar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Kosningarnar, sem nú fara í hönd, eru örlagaríkar. Þær eru það vegna þess, að þær skera úr um það, hvort freistað verður að leysa vandamál framtíðarinnar með svipuðu hugarfari og á sama hátt og gert hefur verið á þessu ári.“

Þetta sýnishorn læt ég nægja til þess að finna þeim orðum mínum stað, að stjórnarliðum bar skylda til að halda áfram á þeirri braut, sem þeir höfðu talið hina einu réttu, og áttu að ná meiri árangri á þeirri leið, ef nokkuð hafði áunnizt s.l. ár.

Hins vegar hefur það skeð, að við stöndum nú frammi fyrir þeirri staðreynd, áður en árið er liðið, frá því að þau orð voru töluð, sem ég las hér í upphafi, og nokkrir mánuðir eru liðnir, frá því að ummæli fyrrv. forsrh., sem ég vitnaði til áðan, voru sögð, að þá er sú stefna í algleymingi, sem formaður fjvn. talaði um í fyrra að væri að ana út í fjármálaöngþveiti.

Ég vil í framhaldi af þessu spyrjast fyrir um það hjá stjórnarflokkunum, hver var tilgangur þeirra með stöðvunarstefnunni. Var það ætlunin í upphafi, að hún yrði jafnendaslepp og raun ber vitni um? Þeim stjórnarliðum hefur tekizt í skjóli þessarar stefnu að lækka kaupgjald í landinu um það, sem þeir höfðu áður knúið fram til þess að koma vinstri stjórninni frá. Þeir notuðu þessa stefnu sér til framdráttar, meðan þeir voru að koma kjördæmabreytingunni í gegn og þannig að draga úr valdi fólksins úti um landsbyggðina. Þeim tókst að nota þessa stefnu sér til framdráttar í kosningunum í sumar, enda lofuðu þeir þá framhaldi hennar, svo sem ég hef nú greint. Í skjóli þessarar stefnu hefur fjársterkum aðilum tekizt að koma fjármagni sínu í stórbyggingar, sem greinilega má sjá hér í bænum að meira hefur verið byggt af á s.l. ári en áður. Ég spyr enn á ný: Var það tilgangurinn með verðstöðvunarstefnunni að koma því fram, sem ég hef hér lýst, og annað ekki?

Ef við berum saman niðurstöðutölur á fjárlfrv. nú og því, sem lá hér fyrir í upphafi þings, þá er fullkomin ástæða til þess að spyrjast fyrir um það: Hver er ástæðan fyrir þeirri stefnubreytingu, sem hér er á orðin og lofað var, sbr. ummæli fyrrv. forsrh., að haldið yrði?

Þegar fjárlfrv. fyrir árið 1959 var til 1. umr. hér á hv. Alþ., þá var meðal ræðumanna hæstv. núv. sjútvmrh., en niðurstöðutölur þess fjárlagafrv. voru þá 851 millj. Þá sagði hann þetta m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárlög hvers árs hafa sífellt verið hærri en ársins á undan. Þessi þróun er uggvænleg og stefnir greinilega í fullkomið óefni.“

Rúmum tveimur mánuðum eftir að þessi orð voru töluð tókst samstarf hjá núv. stjórnarliðum. Hæstv. sjútvmrh. gerðist þá forsrh. og tók forustu fyrir þessu samstarfi í fyrstu, svo sem kunnugt er. Hann hefur haldið því fram við þjóðina, að á því tímabili, sem hann stjórnaði, hafi verið verðstöðvun í landinu. Þessi hæstv. ráðh. situr nú samt í þeirri ríkisstj., sem leggur fram á hv. Alþ. frv. til fjárlaga, það hæsta, sem nokkurn tíma hefur þar sézt. Niðurstöðutölur þess eru 1464 millj. kr. og nú við 2. umr. tæpur hálfur annar milljarður. Ég spyr hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj.: Hvað er um þessa þróun að segja? Er hún ekki uggvænleg? Hvert stefnir hún? Er hér ekki stefnt greinilega í fullkomið óefni? Og hvernig stendur á því, að þessi þróun hefur átt sér stað undir hans handleiðslu og samstarfsmanna hans, einmitt á þeim tíma, þegar verðstöðvunarstefnan ríkti hér í landinu? Hver gat búizt við því, sem var viðstaddur fjárlagaafgreiðslu á s.l. ári, að þessi leið blasti við á fjárlfrv. fyrir 1960?

Það, sem fyrst vekur athygli í sambandi við frv. til fjárl. fyrir 1960, það frumvarpið, sem notið hefur þeirrar velvildar hér á Alþ. að vera meðhöndlað eins og lagafrv., er það, að hvergi örlar á neinum sparnaðartill, hjá stjórnarliðum þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar þeirra um nauðsyn þess að draga úr kostnaði í ríkisrekstrinum. Það var fullkomin ástæða til að ætla, að nú yrði gengið fram í því að spara í ríkisrekstrinum, og vil ég nú finna þeim ummælum mínum stað.

Við 2. umr. fjárl. ársins 1959 sagði þáv. fjmrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, þetta m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„En af þeirri reynslu og þeim kynnum, sem ég hef haft af þessum hlutum, þá er það sannfæring mín, að mikið megi niður færa og mikið megi spara í ríkisbákninu. Það hefur verið minnzt á utanríkismálin í þessu sambandi og minnzt á fækkun sendiráða. Á það atriði var líka minnzt í fyrrv. ríkisstj. Ég benti á það, að sú samfærsla og sá sparnaður, sem mér finnst að þar liggi beinast við og nauðsynlegt er að koma á, sé samfærsla hinna tveggja sendiráða, sem við höfum í París. Sú samfærsla er nauðsynleg, hún er sjálfsögð. En til þess að hún geti orðið raunveruleg og einhver sparnaður að henni, þarf að gera vissar ráðstafanir, sem þegar eru í undirbúningi og athugun hjá ríkisstj.”

Fleiri stjórnarliðar hafa tekið undir þetta sparnaðartal. T.d. sagði hv. 6. þm. Norðurl. e. í framsöguræðu sinni við 2. umr. fjárlaga í fyrra þetta m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Við teljum t.d. sjálfsagt að fækka sendiráðum Íslands erlendis. En það getur naumast komið til framkvæmda fyrr en um næstu áramót og mundi því ekki spara útgjöld á þessu ári, svo að neinu næmi. Bæði þetta og ýmisleg önnur atriði er nauðsynlegt að undirbúa í sambandi við samningu næstu fjárlaga.“

Ég vona, að þau ummæli, sem þessi hv. þm. hafði hér áðan um þetta sama efni, falli ekki eins í gleymsku og hér hefur átt sér stað. Ekki skortir, að þeir hafi boðað sparnaðartillögur. En af hverju koma þær ekki? Hvað kom fram við athugun þá, sem hæstv. fyrrv. ríkisstj. boðaði að hún væri að framkvæma í fyrra í sambandi við sparnað og ég vitnaði hér til áðan? Hvað er um samdrátt í utanríkisþjónustunni? Utanríkisþjónustan hækkar þó um hvorki meira né minna en 8 millj. kr. á þessu ári. Hún kostar samkv. fjárlagafrv. um 22 millj. kr. Það er meiri fjárhæð en veitt er til forsetaembættisins, ríkisstj., allra ráðuneytanna, hagstofunnar, þjóðskrárinnar og ríkisfjárhirzlunnar. Ég spyr: Höfum við efni á þessu, og er þetta okkur nauðsynlegt? Við Framsóknarflokksmenn gerum ekki till. um að lækka þessa liði á útgjöldum fjárl. nú, vegna þess að það er ekki raunhæft fyrir þessi fjárlög. Og við höfum áður gagnrýnt þá fjárlagaafgreiðslu, sem byggð er á því að lækka áætlaðar tölur útgjalda, en fær ekki staðizt. Það var líka trú okkar, að stjórnarliðar mundu koma fram með till., sem væri byggð á undirbúningi framkvæmda, vegna þess, sem ég hef áður lýst. En við teljum, að hér megi ekki sitja við það eitt að tala um samdrátt, heldur verði að taka utanríkisþjónustuna til gagngerrar endurskoðunar með samdrátt í hug og megi ekki dragast lengur. Hér er komið svo langt á þeirri braut, að þjóðin hefur ekki efni á því að eyða í utanríkisþjónustuna meiri fjárhæð en í alla sína yfirstjórn.

Um annan sparnað mun ég ekki fara að ræða, enda er það nú svo, að mest tal um hann hefur verið meira og minna markleysa. Og ég vænti lítils af hæstv. ríkistj. í þessum efnum sem öðrum, a.m.k. meðan sparnaðarvilji hennar kemur fram í því að endurnýja Kvíabryggjuhælið, löngun til að ala upp mínka og ætla að leggja niður ólaunaðar skattanefndir, en setja þess í stað upp dýrar skattstofur.

Þá vil ég víkja nokkru að afgreiðslu fjárlaga og vinnubrögðum fjvn.

Þegar hæstv. ríkisstj. var að fá greiðsluheimild til febrúarloka fyrir þingfrestunina fyrir jólin, var það dregið í efa, að sá tími mundi nægja til afgreiðslu fjárlaga, er þá var ætlaður. Það var rúmur mánuður. Í því sambandi fórust hæstv. fjmrh, orð á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Í þessu sambandi hefur það komið fram, að það er talið of skammur tími, sem ætlaður er til afgreiðslu og meðferðar fjárlaga, þar sem ég ræddi um það hér um daginn, að einn mánuður ætti að nægja Alþingi, frá því að fjárlögin yrðu lögð fram og til endanlegrar afgreiðslu, og ég stend við það.“

Ég vil í fullri vinsemd segja hæstv. ráðh. það, að enn þá er í heiðri haft spakmælið, að „hægra er að kenna heilræðin en halda þau.“ Það hefur ekki staðið á störfum fjvn., og ég tek undir það með formanni hennar hér áðan, að n. hefur unnið mikið og hefur þó verið beitt þar skynsamlegum vinnuaðferðum. Hins vegar hefur það sýnt sig, að það er alveg út í bláinn að ætla sér að afgreiða fjárlög á einum einasta mánuði, og eru slík vinnubrögð ekki til fyrirmyndar. Það hefur hins vegar sótzt seint, sem fjvn. hefur þurft að sækja til hæstv. ríkisstj. Tekjuáætlun fjárl. kom ekki frá ríkisstj, í hendur n. fyrr en eftir hádegi á laugardag eða á síðasta sameiginlegum fundi n. að þessu sinni. Ekki hefur tekizt að fá frá ríkisstj. sundurliðun á niðurgreiðslum á yfirstandandi ári eða hvort hún ætlar sér að bæta við, eins og heyrzt hefur með fóðurbæti og áburð, og hvernig fyrir því verði séð. Sömu sögu er að segja um fjárþörf vegna útflutnings á landbúnaðarafurðum. Allt er í óvissu um fjárhæðir til þessara verka.

Við afgreiðslu síðustu fjárlaga voru gerðar margar tilraunir til þess að fá samþykktar tillögur um hækkun á framlögum til flugvallagerðar og flugöryggisþjónustu. Allar þessar till. voru þá felldar af meiri hlutanum hér á Alþ. Nú hefur það hins vegar komið í ljós, að fjárveiting til þessa verks hefur farið um 6 millj. kr. fram úr áætlun. Ekki hefur fengizt upplýst í fjvn., hvernig þessu fé hefur verið skipt. Þessi vinnuaðferð er vægast sagt mjög hæpin. Fyrst eru felldar hér á hv. Alþ. tillögur til hækkunar á þessum fjárlagalið. Síðan veitir ráðh. utan Alþ. álíka háa fjárhæð og veitt er samkv. fjárl. eða lítið eitt lægri, og látið er vera að upplýsa Alþ. um, hvernig fénu hafi verið skipt. Til hvers leiða svona vinnubrögð hjá ríkisstj.?

Þá er það að segja um upplýsingar vegna afkomu ársins 1959, að þær eru flestar eins og hafi verið með töngum teknar, þær sem n. hefur fengið. Þó hefur hún fengið bráðabirgðayfirlit um afkomu ríkissjóðs, og út af fyrir sig var ekkert um það að segja, þótt það væri ekki meira. Hins vegar hefur gengið treglega að fá upplýsingar um efnahagsþróunina 1959 að öðru leyti, og t.d. var ekki hægt að byggja tekjuáætlun fjárl. fyrir árið 1960 á þeim upplýsingum, er við í minni hl. a.m.k. höfðum fyrir árið 1959. Í því sambandi vil ég benda á það, að í nál. okkar hefur orðið prentvilla, þar sem yfirskriftin 1959 stendur, á að vera 1960.

Ekki tókst í fjvn. að fá tekjur ríkissjóðs af innflutningi 1958 umreiknaðar með núv. gengi, þó að óskað væri eftir því.

Þegar stjórnarliðar voru að mæla fyrir kjördæmabreytingunni á s.l. ári, nefndu þeir einn af kostum breytingarinnar, að meira samstarf yrði með þm. en ella og að þessi skipan tryggði betur sjónarmið kjósendanna yfirleitt. Þegar farið var að starfa að málum hér á hv. Alþingi eftir þessari nýju skipan, stóðum við framsóknarmenn ekki síður að því en aðrir að reyna að koma á einhverju samstarfi meðal þm. úr sama kjördæmi. En hvað skeði svo, þegar til framkvæmdanna kom? Því var lýst yfir af meiri hl. fjvn., að ef allir þm. væru á eitt sáttir um skiptingu á fjárhæðum til framkvæmda í kjördæmum, þá gerði meiri hl. þá till. að sinni. En hvernig var um framkvæmdina að öðru leyti? Till. frá einum af fimm þm. sama kjördæmis voru teknar fram yfir till. hinna fjögurra, og till. frá varaþm., sem hættur var störfum hér á hv. Alþingi, var metin meira en till. frá þm. kjördæmisins og metin meira en till. vegamálastjóra í þessu tilfelli. Í öðrum tilfellum voru málin, er ekki höfðu verið útrædd af þm. viðkomandi kjördæmis, tekin til afgreiðslu í fjvn. án vitundar þeirra. Og út af því, sem hv. form. n. sagði hér um það, að sú stefna hefði verið upp tekin að veita fullar fjárveitingar t.d. til brúa, þá þótti samt ekki rétt að láta þær brýr ganga fyrir, sem áttu geymslufé fyrir helmingi verksins. Það kemur fljótlega í ljós, sem vitað var, að þetta samstarfstal var aðeins notað meðan verið var að koma kjördæmabreytingunni fram, en það var ekki í huga þeirra, sem að því tali stóðu, að það yrði, þegar til framkvæmdanna kæmi.

Eins og betur verður vikið að síðar, lögðum við fulltrúar Framsfl. fram brtt. í fjvn. um hækkun til vega, brúa og hafna. Þær voru allar felldar. En í þann mund sem störfum n. var að ljúka, komu stjórnarliðar fram með till. um 4 millj. kr. hækkun á 20. gr. fjárl, undir liðnum til atvinnu- og framleiðsluaukningar, og átti fjárveitingin að ganga til samgöngubóta á landi. Þessi nýmæli hæstv. ríkisstj. eru einn þáttur hennar til þess að draga málin úr höndum Alþingis til sín. Að vísu á n. að skipta þessu fé, en hún þarf ekki einu sinni að leita álits vegamálastjóra til framkvæmdanna, hvað þá alþm. Þessa aðferð nota stjórnarliðar til að gera sinn hlut betri. Þeir hafa meiri hl. í þessari n., og skipting þeirra á fénu þar verður ekki eins opinbert málgagn og fjárl. Hér er verið að meina þm. að gegna hlutverki sínu sem fulltrúar kjördæmanna. Allt stefnir þetta á eina leið með framkomuna gagnvart Alþingi. Það er verið að gera hlut þess verri.

Þessar hugleiðingar um meðferð málsins í fjvn. mun ég láta nægja og snúa mér þá að tekjuhlið fjárlaga.

Eins og fram kemur í till. okkar framsóknarmanna á þskj. 182, gerum við brtt. við 2. gr. fjárl. Samkvæmt þeim upplýsingum, er okkur tókst að afla okkur, höfðu fjórir liðir á 2. gr. fjárl., þ.e. vörumagnstollur, verðtollur, innflutningsgjald og söluskattur, gefið af sama innflutningi og varð 1958, ef gengisbreytingin hefði þá verið komin til framkvæmda, 210.3 millj. kr. meira en stjórnarliðar ætla. Ég vil taka það fram, að við fulltrúar Framsfl. erum ekki fylgismenn þeirrar stefnu í afgreiðslu fjárl. að tefla á tæpasta vaðið með áætlanir, hvorki tekna- né gjaldamegin, eins og við gerðum grein fyrir við fjárlagaafgreiðslu árið 1959. Hér er ekki um neitt slíkt að ræða. Samkvæmt okkar till. á að ráðstafa 80 millj. af þessum mismun. Hér við bætist, að hinn nýi söluskattur mun einnig gefa meiri tekjur en gert er ráð fyrir, því að sá samdráttur á innflutningi, sem hér er reiknað með, er óframkvæmanlegur, nema hér ríki hreint neyðarástand. Mér sýnist, að hér muni vera reiknað með 14–15% samdrætti frá innflutningnum 1958, og þar við bætist, að fólksfjölguninni er sleppt, sem mun þó vera milli 5 og 6%. Þá er það til viðbótar, að á þessu ári á samkvæmt þeirra sögn að gefa innflutninginn frjálsari en áður hefur verið. Trúi nú þeir, sem trúa vilja, ef það verður gert, að þá muni fyrsta afleiðing þess verða sú, að innflutningur dragist saman. Ég tel líka, að það hafi verið upplýst í fjvn., að innflutningsáætlunin, sem gerð hefur verið fyrir 1960, sé mjög í lausu lofti enn þá. Ráðuneytisstjórinn í efnahmrn. upplýsti, að það væri ætlað fyrir vöruinnflutningnum, sem væri afgangs af því, sem þeir höfðu hugsað sér að ætti að vera gjaldeyrisnotkunin á árinu, þegar búið var að taka til annarra þarfa. Hins vegar kom hann að því, að það færi svo, að á árinu 1960 yrði eitthvað notað af yfirdráttarheimildinni, sem hæstv. ríkisstj. hefur fengið, og það er þegar farið að nota hana, og það var ekki hægt að ráða af orðum hans, að sá innflutningur, sem þeir reiknuðu með, mundi standast. Hins vegar kom það fram hjá honum, að það væri nauðsynlegt að fá verulegan greiðsluafgang á árinu 1960 og þess vegna væri tekjuáætlunin gerð á þann hátt, sem hér er gert.

Þá er það með öllu óhugsandi fyrir okkur að áætla tekjur af tekjuskatti, þar sem ekkert liggur fyrir um það, hvaða breytingar muni verða gerðar á þeim lögum. Er farið heldur aftan að siðunum, ef frv. um breyt. á þeim tekjustofni liggur ekki fyrir, áður en fjárl. verða afgreidd.

Eins og ég hef tekið fram hér að framan, þarf að hafa varasemi um áætlun tekna á fjárl. En áætlanir hæstv. ríkisstj. ganga miklu lengra en það, eins og ég hef sýnt fram á. Það kemur óneitanlega dálítið broslega fyrir, þegar stjórnarliðar eru orðnir okkur fremri í varaseminni um áætlun tekna. Það hefur þó ekki verið þeirra stefna til þessa. Ég vil í því sambandi minna á ummæli hv. form. fjvn. úr framsöguræðunni fyrir fjárlagaafgreiðslunni í fyrra, en þá sagði hann svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Augljóst er, að mjög rúm tekjuáætlun dregur úr aðhaldi fyrir fjmrh., og má sjá þess merki á mörgum sviðum á undanförnum árum. Hitt er þó e.t.v. verra, ef þessari löngun til þess að hafa slíkar umframtekjur verður að mæta með álögum á almenning.“

Hvað er að gerast núna? Álögur á almenning, það skyldi þó ekki vera verið að leggja þær á þessa dagana? Nú streymir hvert frv. á fætur öðru inn á Alþingi með álögur á almenning, og samt má ekki gera tekjuáætlun fjárl. raunhæfari en raun ber vitni um.

Tekjuáætlun okkar framsóknarmanna er ekki það, sem blöðin segja í dag, að við séum að leggja nýjar álögur á þjóðina. Það annast stjórnarliðar, og þurfa engir að taka það verk að sér fyrir þá. Það, sem við leggjum til, er hins vegar, að Alþingi, en ekki ríkisstj., skipti meira af þeim tekjum, sem stjórnin ætlar sér að taka á þessu ári, til þess að uppbyggingin í landinu verði meiri. Það er það, sem við förum fram á. En tekjurnar taka þeir, hvernig sem uppstillingin verður. Það vita þeir sjálfir.

Um brtt. þær, sem fjvn. stendur öll að og frsm. meiri hl. hefur gert grein fyrir, vil ég það segja, að við erum óbundnir um fylgi við einstakar till., þótt við fylgjum öðrum. Þar vil ég taka fram, að við stöndum óskiptir að till. til framkvæmda í skólabyggingum, bæði fjárveitingunni í heild og einstökum skólum, og höfum ekki undan neinu að kvarta í afgreiðslu þeirra mála, því að hún fór hið bezta fram. Aftur eru það aðrar till., sem við höfum lítinn áhuga fyrir, og hef ég í því sambandi áður nefnt hér Kvíabryggju, sem á sínum tíma reyndist ríkissjóði alldýr, og þau börn, sem alin voru upp eftir þeim leiðum, urðu dýrari en aðrir þegnar þjóðfélagsins.

Eins og ég gat um áðan, eru framlög til verklegra framkvæmda að okkar dómi allt of lág. Ef tekið er meðaltal af 5 ára rekstrarniðurstöðu fjárl. og greiðslum til niðurgreiðslna sleppt í dæminu, þá kemur í ljós, að framlög til vega og brúa hefðu á þessu ári átt að vera um 46 millj. kr., en eru um 34.5. Eins og þetta lítur út á fjárl, núna, er gert ráð fyrir minni hækkun en vegamálastjóri skýrði n. frá að verkin mundu hækka, því að þar var reiknað með 25–30% hækkun a.m.k., eftir að söluskatturinn er kominn til. Þó var þá reiknað með óbreyttu kaupgjaldi. Það er því ljóst, að minna vinnst fyrir fjárveitingarnar í ár en gerði s.l. ár, enda þótt fjárl. hækki á fimmta hundrað millj. kr. Hér við bætist, að tekinn hefur verið sérstakur skattur til ríkissjóðs af þeim, sem vegina nota, sem er gjald á benzín, og nemur það 14 millj. kr. Við munum freista þess í till. okkar að leita eftir fylgi hv. þm. við þá till., að þetta nýja benzíngjald gangi til samgöngubóta á landi.

Hér á hv. Alþingi hafa verið fluttar till. um, að vegir yrðu gerðir úr steinsteypu. Ég tel mig muna það rétt, að tveir hæstv. núv. ráðh., hæstv. forsrh. og samgmrh., hafi komið þar við sögu. Ég veit ekki, hvenær við hefjum það verk, ef við leiðum það hjá okkur núna, þegar gengið er svo langt í skattaálögum á almenning, að manni finnst næstum því eins og það sé verið að skrúfa frá vatnskrana, þegar þessi álöguflóð streyma hér yfir.

Það gladdi mig stórum að heyra þann þm., sem flutti hér sína jómfrúræðu í gær, lýsa fylgi sínu við aukið framlag til samgöngubóta. Við höfum nú kynnzt því áður hjá þeim hv. sjálfstæðismönnum, að þegar þeir hafa verið í kosningaham úti í kjördæmunum, þá hefur þeirra háttur verið sá, að of lítið hafi verið gert og meira mundi vera, ef þeir kæmu þar við sögu. Hins vegar hefur þetta verið annað, þegar inn á Alþingi hefur verið komið. En eftir því sem þessi hv. þm. talaði um, hve seint gengi á Austurlandi að koma samgöngumálunum áfram, þá vona ég, að ekki standi á honum til fylgis við þær till., sem við berum fram um þetta efni. Gæti þá farið svo sem mig grunar, að till. okkar til aukins framlags í samgöngumálum næðu hér fram að ganga. Bættar samgöngur eru þau lífskjör, sem fólkið úti um landsbyggðina þráir mest, og það á áreiðanlega erfitt með að skilja það, að sú ríkisstj., sem ver hálfri milljón til þess að endurnýja Kvíabryggjuheimilið, neiti því um veg fyrir Búlandshöfða eða brú á Norðurá, svo að dæmi séu nefnd.

Sömu sögu er að segja um hafnargerðir. Hafnarbætur eins og samgöngubætur eru undirstaða atvinnulífs landsbyggðarinnar. Fjárþörf þeirra er áætluð af vitamálastjóra um 40 millj. kr. á þessu ári, ýmist áfallin eða hugsuð framkvæmd. Miðað við meðaltal síðustu fimm ára ætti fjárveiting til þeirra að hafa verið nú um 17.2 millj. kr. í staðinn fyrir 13.4. Ekki getur hjá því farið, að áður en langur tími líður, verður að taka fjármál hafnanna til sérstakrar athugunar. Það er ómögulegt að láta fjárvana bæjarfélög og sveitarfélög standa undir vangreiddu ríkissjóðsframlagi auk þess hluta, sem þau sjálf þurfa að leggja fram til verksins. Till. okkar er aðeins miðuð við það eitt að halda í horfinu um framkvæmdagetu af fjárlagafé á þessu ári.

Eins og fram er tekið í nál. okkar, ætlumst við til, að fjvn. hlutist til um, að þessum viðbótarfjárhæðum, sem við gerum ráð fyrir að verði samþykktar eftir till. okkar, verði skipt af réttum aðilum, embættismönnum og þm., fyrir 3. umr.

Þá höfum við tekið upp í okkar till. hækkun á fjárveitingu til læknisbústaða og sjúkrahúsa. Fjárþörf þeirra mun vera nú um 5 millj. kr., áður en framkvæmdir á þessu ári eru komnar til. Við leggjum þó aðeins til að hækka þennan liðum 500 þús. kr. til þess að reyna að halda þar eitthvað í horfinu.

Þá gerum við till. um að hækka framlag til vélakaupa vegagerðar ríkisins, en eins og kunnugt er, er mikil þörf á því, að þetta framlag verði hækkað.

Eins og fram kom hér í ræðu formanns fjvn., er fjárþörf íþróttasjóðs mikil og hefur farið vaxandi. Við gerðum till. um það á Alþingi í fyrra, að þetta framlag yrði hækkað þá í 2 millj., og í samræmi við það leggjum við nú til, að það fari upp í 2.5 millj. kr. Ég tek undir það með formanninum, að nauðsyn ber til að taka þau mál til endurskoðunar og reyna að koma þeim á fastari grundvöll.

Kirkjubyggingasjóður hefur haft aukafjárveitingu nú þrjú síðustu árin, sem hefur verið 325 þús. kr. Fjárþörf þessa sjóðs er mikil, og fólk leggur hart að sér til þess að koma kirkjubyggingum áfram. Nú er gert ráð fyrir því, að þessi fjárveiting falli niður og þar með verði stuðningur ríkisins minni, þrátt fyrir hið háa fjárlfrv., heldur en áður hefur verið. Við leggjum nú til, að þessi fjárhæð fái að haldast eða verði 850 þús. kr.

Vélasjóður fór fram á það að fá hækkað framlag vegna stofnkostnaðar og endurbóta á verkstæðishúsi, sem nú er starfað að, svo að viðunandi starfsskilyrði yrðu þar til staðar. Við viljum taka undir þessa till., enda hefur stofnunin sýnt, að þetta fyrirtæki er hið mesta happafyrirtæki, og gert reksturinn mun betri. Till. okkar er þar 650 þús. kr.

Á fjárl. 1959 var felldur niður styrkur til kaupa á jarðræktarvélum, svo sem kunnugt er. Þá var því haldið fram, að ástæðan væri sú, að geymd fjárveiting væri til þess að mæta þörfinni á árinu 1959. Nú er þetta fjármagn þrotið, og við leggjum til, að liðurinn verði tekinn upp að nýju og verði 3 millj. kr. Hæstv. landbrh. mælti með því í n., að þessi fjárveiting yrði tekin upp.

Verkfæranefnd ríkisins sótti um að fá fjárveitingu til húsbyggingar og áhaldakaupa. Kunnugt er, að hún hefur ekki þak yfir höfuð sér eða þá starfsemi, sem hún rekur, og nýtur þar aðeins góðvilja annarra. Við freistum þó ekki að taka upp till. um húsbygginguna á þessu ári, en viljum hins vegar mjög mæla með því, að henni verði veitt 50 þús. kr. fjárveiting til áhaldakaupa. Mér er kunnugt um það, að n. hefur þegar gert ráðstafanir til þess að fá sér eitt slíkt tæki, sem hún þarf að nota til sinnar starfrækslu, en verður að hætta við kaupin, ef þessi fjárveiting fæst ekki.

Hv. frsm. meiri hl. tók það fram hér áðan, að ýmsir liðir, sem felldir voru niður eða niður skornir á árinu 1959, hefðu nú verið teknir upp á þetta fjárlfrv., og nefndi þar framlagið til nýrra raforkuframkvæmda. Taldi hv. formaður, að það hefði ekki verið þörf á þessari fjárveitingu s.l. ár. Ég er á annarri skoðun. Mér sýnist, að það hafi verið fullkomin þörf á fjárveitingunni einmitt árið sem leið, því að framkvæmdir í raforkumálum munu þá hafa verið með allra minnsta móti og mun minni en gert var ráð fyrir. Það er hins vegar ánægjulegt, þegar menn sjá sig um hönd og taka það til baka, sem þeir höfðu áður niður fellt, eins og hér var gert. En hér er samt of skammt gengið. Við höfum ekki getað fengið upplýsingar um það í fjvn., hve mikið fjármagn raforkuframkvæmdirnar hefðu á yfirstandandi ári. Það var eitt af því, sem var hulið. En ljóst er það samkvæmt því, sem við vitum bezt um þá hluti, að sú fjárveiting, sem hér er gert ráð fyrir, mun hrökkva skammt. Við leggum því til, að báðir liðirnir, til raforkusjóðs og til nýrra raforkuframkvæmda, verði hækkaðir nokkuð verulega.

Lítil fjárveiting hefur verið á fjárl. um langt skeið til vatnsveitna, 600 þús. kr. Þessi tala fékk ekki náð fyrir augum fyrrv. ríkisstj., og það var talið hyggilegt að taka 5% þar af. Hún hefur ekki heldur fengið náð fyrir augum núverandi ríkisstj. Jafnvel þótt þeir ætli ekki að skattleggja neyzluvatn, eins og tekið er fram í frv. um söluskatt, þá vilja þeir samt veita litla aðstoð, til þess að þeir, sem vatnsins þurfa að neyta, geti náð til þess. Þeir tóku þess vegna upp á fjárlfrv. sitt 570 þús. kr. í þessu skyni. Það liggur þó fyrir, að þörfin á þessu ári muni vera a.m.k. þrisvar sinnum meiri en hér er gert ráð fyrir, og er þá ekki tillit tekið til neinna verðhækkana. Leitað var eftir því í fjvn. að fá þessu breytt, en tókst ekki. En við flytjum þá till. okkar hér á hv. Alþingi með von um, að málið verði litið öðrum augum þar.

Byggingar og ræktun á jörðum ríkisins er einn af þeim fjárlagaliðum, sem hefur ekki fengið náð núv. hæstv. ríkisstj. Það lá fyrir í n., að eins og nú standa sakir var þörf fyrir 2.2 millj. kr. til bygginga og 250 þús. kr. til ræktunar. Ekki var þessi till. samt tekin upp af meiri hl. Þó er vitað, að auðvitað verður meiri þörf á þessu ári en hér er greint, þar sem þetta er aðeins miðað við það, sem .fyrir liggur nú. Við leggjum þó til, að þessi fjárveiting verði tekin upp óbreytt eins og óskað var.

Þegar Framsfl. fór með fjármálastjórn ríkisins, lagði hann höfuðkapp á stuðning sinn við uppbyggingu atvinnulífsins og landsbyggðarinnar. Á þeim árum voru uppbyggingarsjóðir Búnaðarbankans, ræktunarsjóður og byggingarsjóður sveitabæja, efldir mjög með aðstoð ríkisvaldsins, og mun það hafa aðstoðað þá um 80 millj. kr. Framsóknarflokksmenn í Ed. hafa lagt fram frv. til l. um, að þessari aðstoð verði haldið áfram. Við gerum ráð fyrir því, að það verði gert með því, að ríkið taki að sér að greiða afborganir og vexti af erlendum lánum, sem þessir sjóðir hafa tekið og vitað er að þeir geta ekki risið undir, vegna þess að störf þeirra eru miðuð við það, að ríkið aðstoði við ræktun og uppbyggingu í landinu, og þeim því takmörk sett. Sjóðir þessir hafa starfað um áratugi og t.d. hefur ræktunarsjóður lánað nærri 11 þús. lán, sem nema um 280 millj. kr. Þessir sjóðir hafa verið sterkustu þættirnir eða með sterkustu þáttunum í uppbyggingu landsbyggðarinnar. Við treystum því fastlega, að hv. alþm. muni samþ. frv., sem við höfum lagt fram í Ed., og ætli því fjárveitingu til þess á fjárl. eða 13.9 millj. kr.

Byggingarframkvæmdir á viðbótarhúsnæði við landsspítalann hafa staðið yfir um nokkurt skeið. Er nú svo komið, að með auknu fjárframlagi á þessu ári mætti ná nokkrum áfanga í þeim. Um nauðsyn þess, að svo mætti verða, þarf ekki að ræða hér. Það er öllum hv. alþm. kunnugt, að fremstu vísindamenn okkar á sviði læknavísinda búa við þau skilyrði að verða að framkvæma skurðaðgerðir úti á gangi eða á þeim stað, sem ætlaður var til að vera inngangur, og hafa ekki einu sinni stofu til fataskipta, hvað þá meir. Ef fjárveiting til framkvæmdanna verður ekki hærri en frv. gerir ráð fyrir, þá verður í ár stigið spor aftur á bak. Það er ekki samboðið þeim manndómi, sem einkennt hefur íslenzku þjóðina, að fara þannig að. Við leggjum því til, að þessi fjárveiting hækki um 2 millj. kr.

Þá leggjum við til, að hækkað verði framlag til flugvallagerðar á þessu ári og til þeirra verði varið 10.3 millj. kr., og verður það þó minni fjárhæð en til þeirra fór á s.l. ári. Í sambandi við þetta mál vil ég geta þess, að við höfum borið fram sérstakar skiptatill. á þessum lið, m.a. vegna þess, að sú skipting, sem samþykkt var frá meiri hluta fjvn., var okkur mjög á móti skapi. Hún er sem sagt með þeim hætti, að verulegum hluta fjárins er óráðstafað, aðeins geymt til þess að ríkisstj. geti ráðið, og margir staðir eru felldir niður, sem voru farnir að fá fjárveitingu til flugvallagerðar. Við höfum því lagt fram skiptatillögu og óætum þar á nokkrum nýjum flugvöllum. Ekki er á okkar till. og ekki heldur á till. meiri hl. getið um fjárframlag til Húsavíkurflugvallar. En það var upplýst í fjvn., að af liðnum, sem er um flugbrautalýsingu, mundi sá flugvöllur fá verulega fjárhæð, eða 150 þús., ef ég man rétt, og enn fremur mun vera ákveðið að veita fé þangað vegna talstöðva. Þess vegna gerðum við ekki tillögu um að hafa hann í okkar skiptingu. Hins vegar get ég endurtekið það, að við erum mjög mótfallnir þeirri stefnu, sem meiri hluti fjvn. tók, að láta eina milljón óráðstafaða af þessu fé.

Við leggjum einnig til, að framlag til sjúkraflugvalla verði hækkað, í samræmi við það, sem við lögðum til um hina flugvellina.

Þá höfum við og tekið hér upp till. um upphæðir þær, sem Fiskifélag Íslands fór fram á að veittar yrðu til síldarleitar, fiskrannsókna og leitar að nýjum fiskimiðum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að síldveiðin er að meira eða minna leyti farin að byggjast á tækni, og hefur hún komið svo við sögu, að bjargað hefur verið síldveiðinni, a.m.k. síðustu ár, einmitt vegna þess. Fiskifélagið rökstuddi mjög vel, að þörf væri á þessu, t.d. benti það á það í sambandi við fiskimiðaleitina, að sú till., sem þeir gerðu um fjárveitingu, væri miðuð við 66 daga úthald á leiguskipi, og var þá reiknað með sömu leigukjörum og þeir höfðu áður notið. Ef úr þessari fjárveitingu yrði dregið, eins og meiri hlutinn leggur til, sem er nærri helmingur frá tillögu Fiskifélagsins, þá verður fiskimiðaleitin lítil, þar sem vitað er, að 2/3 af úthaldstímanum fer í siglingar á milli staða. Árangur hefur orðið mikill af fiskimiðaleitinni, svo sem kunnugt er, og er því illa farið, ef ekki er hægt að verða við þessari hófsömu beiðni Fiskifélagsins í sambandi við þennan lið.

Þá sótti Fiskifélagið um framlög til síldarleitar og fiskrannsókna að fjárhæð 3.4 millj. kr., og gerum við það að okkar till. Það þarf ekki að eyða orðum að því, að síldveiðin byggist á þessu, eins og ég tók fram áðan, og þess vegna drögum við ekki í efa skilning hv. þm. á nauðsyn þess.

Einnig er sótt um, að fjárveiting til þess að gera tilraunir með síldveiðiaðferðir verði hækkuð í 2.5 millj. kr. Það hefur sýnt sig, að einmitt síldveiðiaðferðirnar eða sú breyting, sem á þeim hefur orðið, hefur orðið til þess að gera atvinnuveginn öruggari og jafnframt að draga úr útgerðarkostnaði. Þess vegna væntum við þess, að hv. Alþ. taki þessa till. okkar til greina.

Við leggjum einnig til, að framlag til fiskveiðasjóðs verði aukið úr 2 millj. í 6 millj. kr. Það er að vísu vitað, að tekjur fiskveiðasjóðs aukast vegna gengisbreytingarinnar, en fjárþörf hans vex þó meira vegna skipainnflutningsins og þess verðs, sem á þeim verður. Hann mun nú vanta um 30 millj. kr. til þess að geta sinnt þeim verkefnum, sem vitað er að fyrir liggja. Þessi till. okkar um fjárveitingu mun að vísu hrökkva skammt til þess að mæta því. En við viljum í tillögugerð okkar gera atvinnuvegunum, landbúnaði, sjávarútvegi og iðnaði, nokkur skil og mæta þörfum þeirra með skilningi, ekki sízt þegar nú er gengið svo langt í almennum álögum eins og sýnt hefur verið fram á. Þess vegna leggjum við einnig til, að framlag til iðnlánasjóðs verði hækkað í 3.5 millj. kr., og ég tek undir það með hv. form. fjvn., að fjárþörf þessa sjóðs er mikil og hún mun af völdum gengisbreytingarinnar fara mjög vaxandi.

Í till. okkar höfum við tekið upp hækkun á framlagi til atvinnu- og framleiðsluaukningar, en okkar hugsun hefur samt ekki verið sú, að það væri í sambandi við samgöngur á landi, eins og ég hef þegar skýrt frá. Við leggjum til, að þessi fjárhæð verði 17.5 millj. kr. eða 71/2 millj. kr. hærri en hún var á s.l. ári og er á fjárlagafrv. nú. En í sambandi við það bentum við á það í fjárlagaafgreiðslunni í apríl í fyrra, að þessi 10 millj. kr. áætlun mundi ekki fá staðizt, ef það ætti að sinna þörfum þeirra, sem að atvinnuuppbyggingunni vinna, að einhverju leyti. Það hefur líka komið á daginn, að fyrrv. ríkisstj. gat ekki haldið þessu innan þess ramma, sem hún ætlaði sér. Hún mun hafa skipt um 15 millj. kr. í þessu skyni, og það er vitað mál eftir þær verðbreytingar, sem nú hafa á orðið, að ekki mun ganga betur að skipta 10 millj. í ár. Þessi fjárhæð, sem við leggjum til, er því við það miðuð, að þetta verði nokkuð svipuð fjárveiting og hún var hér 1957, og það mun sýna sig, þegar kemur fram á árið, að á þessa fjárhæð verður sótt og það af hreinni nauðsyn.

Fyrir Alþ. liggur nú till. til þál. um kaup á hentugu skipi til síldarrannsókna og síldarleitar. Væntanlega mundi slíkt skip sinna meira en síldinni einni og fiskileit og fiskirannsóknir kæmu þar einnig til. Við höfum gert það að till. okkar að taka upp sem fyrstu fjárveitingu í þetta skip 5 millj. kr., eins og fram kemur í þeim till., sem við flytjum.

Ég hef þá í stuttu máli gert grein fyrir þeim till., sem við flytjum, og þeirri stefnubreytingu, sem hefur orðið hér á hv. Alþ. í sambandi við fjárlagaafgreiðslu. En áður en ég lýk máli mínu, vil ég benda á það, vegna þess að að því var látið liggja í framsöguræðu formannsins, hv. 6. þm. Norðurl. e., að ástæðan til hækkunar fjárlaganna væri sú, að útflutningssjóður hefði verið lagður niður. Það rétta um það er, að fjárlögin nú hækka um 113 millj. kr. greiðslu til niðurgreiðslna umfram það, sem á síðustu fjárlögum var. Hækkun fjárlaganna vegna þess, að útflutningssjóður er niður lagður, er þetta. Annað samband er þar ekki á milli. Hækkun fjárlaganna er sú stefnubreyting, sem hér er verið að knýja fram í efnahagsmálum, sem sé, að það þarf að taka svo mikið af þjóðinni, að fátæktin verði hennar skömmtunarstjóri. Það kom greinilega fram í sambandi við innflutningsáætlunina, að það var einmitt þetta sjónarmið, sem þar var látið ríkja.

Ég hafði því miður lítinn tíma til þess að hlusta á ræður manna hér í gær, þó að það hefði bæði verið gagnlegt og gaman. En ég kom þó hér inn í d., þegar hv. 3. þm. Austf. (EinS) var að halda hér sína jómfrúræðu, og hann var þar í ræðunni, þegar hann sagði frá því, að þrátt fyrir bað, þó að meðalið væri bragðvont og aðgerðin sár, þá mundi hann vilja undir aðgerðina ganga. Það hefur mikið verið rætt um bað að undanförnu, að efnahagskerfi okkar væri helsjúkt. Margt hefur þar verið sagt rétt og annað hefur verið eftiröpun, eins og gerist og gengur. En þegar ég hlustaði á þessa frásögn eða þennan samanburð hv. þm., þá kom mér í hug það, sem mér var sagt eftir einum borgara hér í bænum nú fyrir stuttu, þar sem hann var á fundi og var verið að ræða um aðgerðir hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum. Þar hefur auðvitað verið búið að ræða mikið um hið helsjúka ástand og nú þyrfti að skera fyrir meinsemdina. Þá sagði þessi borgari: Hér er þannig að farið eins og læknir gengi að sjúklingi, sem hann teldi að hefði meinsemd, og hann væri ákveðinn í því að fjarlægja meinsemdina, en hirti ekki um það, þó að það kostaði sjúklinginn lífið. Mér sýnist, að aðgerðir hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum séu byggðar á því, að það sé ekki hirt um það, þó að efnahagskerfið í heild þoli þær ekki. Vel má vera, að hæstv. ríkisstj. sjái að sér, áður en illa fer, en ekki spáir góðu það, sem komið er.

Þegar við skiluðum nál. okkar, fulltrúar Framsfl., við fjárlögin 1959, þegar stöðvunarstefnan ríkti hér á hv. Alþ. og allar till., sem gengu í aðra átt, voru fordæmdar, þá sýndum við fram á það með rökum, að þessi stefna, eins og hún var þá farin, mundi ekki leiða til þeirrar stöðvunar á verðbólgu, sem fulltrúar stjórnarflokkanna töluðu um. Ég vil því — með leyfi hæstv. forseta — minna á það hér á hv. Alþ., sem við sögðum í niðurlagi þess nál., en það var svo:

„Með þessari afgreiðslu efnahagsmála er til þess stofnað, að þegar dregur að lokum ársins, rís geigvænleg verðbólga. Því fer svo víðs fjarri, að ráðstafanir núv. ríkisstj. séu heilbrigðar aðgerðir gegn þeirri óheillaþróun. Þær geta ekki meira en ef þær geta það, eins og til virðist ætlað, að skapa svikalogn, sem boðar meira óveður eftir stutta stund en nokkru sinni fyrr.“

Það er einmitt þetta, sem hefur gerzt, svikalognið, sem. skapað var í efnahagsmálunum 1959, er orðið að óveðri nú, og það er ekki séð, hvert það kann að bera þjóðarskútuna.