16.03.1960
Sameinað þing: 25. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

42. mál, fjárlög 1960

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þegar fjárlagafrv. var til 1. umr., óskaði ég eftir því og lagði nokkra áherzlu á, að hv. fjvn. hraðaði störfum sínum svo sem frekast væri unnt, m.a. vegna þess, að þegar hið endurskoðaða frv. var lagt fram, þá var nærri mánuður liðinn af fjárhagsárinu, og skapar auðvitað vandkvæði nokkur að láta langan tíma líða framan af ári, án þess að fjárlög liggi fyrir samþykkt.

Ég vil nú alveg sérstaklega þakka hv. fjvn. og þá fyrst og fremst formanni hennar og frsm. meiri hl. fyrir það, hve vel hún hefur brugðizt við, því að vinnuhraði fjvn. hefur að þessu sinni verið meiri en oftast áður, en þó fullkomin vandvirkni í athugun frv. og þeirra erinda, sem fyrir n. hafa legið. Sá tími, sem n. hefur notað til þessara starfa frá 8. febr., þegar málinu var vísað til hennar, og til 13. marz, þegar undirritað er nál., er óvenjuskammur, enda er mér kunnugt um það, þar sem ég fylgdist allvel með störfum n. og gangi mála, að þar var unnið óvenjulega vel.

Það kom fram hér í byrjun þessa þings, þ.e.a.s. nóvember–desember, þegar ég skýrði frá því, að fjárlagafrv., sem samið var af hæstv. fyrrv. fjmrh. og ágætlega undirbúið, miðað við þágildandi kerfi fjármála og efnahagsmála, mundi verða endurskoðað og samið nýtt frv. til að leggja fyrir Alþ. Sumir hv. þm. töldu þetta ekki alls kostar heppileg né eðlileg vinnubrögð, og í ræðum hv. frsm. minni hl. hafa komið hér kannske ekki beint aðfinnslur, en víssar glósur út af því, að fyrra frv. hafi verið fleygt í öskutunnuna, eins og annar þeirra orðaði það, og hefði einskis verið nýtt. Vitanlega var hið endurskoðaða frv. byggt í öllum meginatriðum á grundvelli hins fyrra. En ástæðan til þess, að hin gagngerða endurskoðun fór fram, var sú, að ríkisstj. hafði ákveðið að gerbreyta skipulagi útflutnings- og efnahagsmála, og mér er það ánægja, að það kemur skýrt fram í nál. hv. meiri hl. og í framsöguræðu hv. frsm., að einmitt þessi vinnubrögð, að endurskoða frv. og leggja fram nýtt frv., hafi mjög flýtt allri meðferð málsins í fjvn., enda efa ég það ekki, að allir þeir, sem líta með sanngirni á þessi mál, hljóti að viðurkenna, að þetta hafi verið heppilegri vinnubrögð og það hafi verið gersamlega óhugsandi, að fjvn. hefði lokið störfum og skilað sínum till. til 2. umr. nú, ef þessi vinnubrögð um endurskoðun fjárlagafrv. hefðu ekki verið höfð.

Á þessu stigi eru aðeins fáein atriði, sem ég vildi hér minnast á í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna, en á önnur mun ég minnast við 3. umr. fjárlagafrv.

Ég vil undirstrika það, sem kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl., að sú hækkun á fjárlagafrv., 430 millj., sem er frá fjárl. 1959 og reynt hefur verið að gera mjög tortryggilega, stafi ekki af útþenslu ríkiskerfisins, því að rekstrarliðir ríkisins eru mjög í samræmi við það, sem verið hefur að undanförnu. Að því leyti sem þeir hækka, eru það eðlilegar árlegar hækkanir eða útgjaldaauki, sem að sumu leyti stafar af fólksfjölgun í landinu og þeirri þjónustu, sem lögbundin er. Meginhlutinn af þessari hækkun, 430 millj. kr., í frv. frá síðustu fjárlögum er bein afleiðing af efnahagsaðgerðunum og þá einna fyrst og fremst af afnámi útflutningssjóðs og að bæði tekjur og gjöld útflutningssjóðs flytjast yfir til ríkissjóðs.

En í sambandi við þetta mál vil ég einnig taka það fram og undirstrika, sem hv. frsm. nefndi, að fjárlögin eru á margan hátt mjög gölluð að búningi og það þarf endurskoðun og gagngera breytingu á allri uppbyggingu bæði fjárlaga og ríkisreiknings. Það hafa þegar verið af fjmrn. hendi gerðar ráðstafanir til að endurskoða þetta mál gagngert, bæði endurskoða gildandi lög um ríkisbókhald og endurskoðun, sem nú eru næstum 30 ára gömul, og þá í beinu sambandi við það að breyta mjög uppsetningu fjárlaga og ríkisreiknings frá því, sem verið hefur. En eins og hv. þm. og sérstaklega nefndarmenn í fjvn. vita, þá er margt í gerð fjárl., sem betur mætti fara. T.d. er það oft og tíðum meiri og minni tilviljun, hvernig ríkisstofnanir eru færðar inn í fjárlögin, hvort þær eru færðar þar með brúttótekjum og gjöldum, eins og er um sumar þeirra, eða aðeins er tekinn nettóafgangur, rekstrarafgangur eða halli, og verður vitaskuld að fá samræmi í þessa hluti. Það er jafnvel til, að ríkisstofnanir, sem hafa milljónatekjur og gjöld á hverju ári, eru alls ekki í fjárlögum né ríkisreikningi. Þetta er eitt dæmi af mörgum um það, sem þarf að lagfæra til þess að fá bæði betra heildaryfirlit yfir ríkisreksturinn og rekstur einstakra stofnana og betri samanburð á milli stofnananna innbyrðis. Þetta á ekki eingöngu við hinar svokölluðu ríkisstofnanir eða ríkisfyrirtæki með sjálfstætt bókhald og rekstrar- og efnahagsreikning, heldur við fjöldamargar aðrar starfsgreinar, sem í gjaldabálki fjárl. greinir. Ég vænti þess, að þær athuganir, sem nú er verið að gera á þessu máli, geti orðið tilbúnar, þannig að fært verði að leggja þær niðurstöður fyrir næsta Alþ. Hins vegar er ekki hægt að fullyrða neitt um það á þessu stigi, hvort þær nýju till. eða sú endurskoðun verður tilbúin svo tímanlega, að unnt verði að byggja upp fjárlagafrv. fyrir 1961 eftir hinum nýju reglum og hinni nýju gerð, m.a. vegna þess, að eins og hv. þm. er kunnugt, þá er það strax á miðju ári, sem hafinn er undirbúningur að fjárlagafrv. fyrir næsta ár.

Hv. formaður fjvn. og frsm. meiri hluta benti hér á nokkur atriði sérstaklega til athugunar í sambandi við sparnað í ríkisrekstrinum. Hann nefndi þar í fyrsta lagi betra skipulag í vinnubrögðum almennt, í öðru lagi sparnað í utanríkisþjónustunni og samdrátt þar. Í þriðja lagi nefndi hann hinn mikla húsaleigukostnað, sem ríkið greiðir, þar sem hann er nú um 6 millj. fyrir ríkisstofnanir á ári. Hann nefndi í fjórða lagi löggjöfina og framkvæmd varðandi embættisbústaði, sem þarf allt að endurskoða, í fimmta lagi nauðsyn á því að bjóða út verk hins opinbera, sem á auðvitað að vera aðalregla, og það frv. til nýrrar löggjafar um söluskatt, sem nú liggur fyrir hv. Alþ., styður þetta mjög, með því að það er gert ráð fyrir að afnema þann 9% söluskatt af iðnaði og þjónustu, sem mjög hefur staðið í vegi fyrir, að hið opinbera byði út verk, vegna þess að ef tilboði er tekið og samið um ákvæðisverk, þá leggst nú á það 9% söluskattur, en ef það er unnið í reikningsvinnu, þá er það skattfrjálst. Þetta óheppilega ákvæði verður nú afnumið og mun það með öðru stuðla að útboðum opinberra framkvæmda, sem að sjálfsögðu þarf að verða hér almenn regla. Og í sjötta lagi nefndi hv. frsm. endurskoðun á þeim mörgu styrkjum, sem nú eru og verið hafa í fjárlögum, og þarf að sjálfsögðu miklu betra eftirlit með slíkum styrkjum, bæði um, að samræmi sé þar og að styrkirnir haldist ekki jafnvel ár frá ári, þó að því verkefni, sem þeir voru veittir til, sé lokið, eins og komið hefur fyrir, o.s.frv. Öll þessi atriði, sem hv. frsm. nefndi, verða að sjálfsögðu tekin til sérstakrar athugunar og meðferðar.

Ég minntist nokkuð almennt á þessi mál við 1. umr. fjárl. og nefndi þar nokkur dæmi, þar sem unnt væri að spara verulegar fúlgur, en ekki þess að vænta, að það gæti komið inn í þetta fjárlagafrv., vegna þess að það þyrfti meiri undirbúnings við. Ég ræddi einnig þá um, að nú yrði að gerbreyta um vinnubrögð varðandi sparnaðarviðleitni. Sparnaðarnefndirnar, sem settar höfðu verið á undanförnum áratugum, höfðu yfirleitt ekki gefið góða raun eða borið mikinn ávöxt. Það, sem yrði að gera í þessum efnum, væri fyrst og fremst ekki skyndiáhlaup í sparnaðarskyni, heldur stöðug starfsemi, nákvæm rannsókn og þrotlaust starf.

Ég veit, að a.m.k. meiri hl. hv. fjvn, er fyllilega samdóma þeim sjónarmiðum, sem fram hafa komið í þessum ummælum og ræðum okkar hv. frsm. meiri hl. En því miður virðast sumir þeirra, sem sæti eiga á hv. Alþ. og alllanga reynslu hafa í fjvn., engu hafa gleymt og ekkert lært. Það kemur t.d. fram í till. hv. fulltrúa Alþb. og framsöguræðu hans hér. Þar er svo greinilegt dæmi um óraunhæfar „sparnaðartillögur“ sem frekast má vera. Hann ber fram í einu lagi till. um að lækka öll útgjöld við stjórnarráðið, utanríkisþjónustuna, dómgæzlu, lögreglustjórn, tolla og skattstofnanir um 10%, og hann er ákaflega hrifinn af því, það heyrðist á hans framsöguræðu, að þarna megi spara hvorki meira né minna en 14654450 kr. á þessu ári, og það er vissulega engin smáræðisupphæð. En hv. þm. láist bara að geta þess, hvernig á að gera þetta. Þetta er till., sem er slegið fram í auglýsinga- og áróðursskyni, án þess að hann eða nokkrir aðrir hafi hugmynd um, hvernig á að framkvæma það. Manni getur dottið í hug og ég vil spyrja hann að því: Á að taka upp gömlu regluna, sem notuð var stundum í latínuskólanum að fornu, þegar einhver bekkur hafði gert eitthvað af sér eða heill skóli, að desímera, þar sem bara af tilviljun var tekinn tíundi hver maður og hann rekinn? Er það meiningin með þessari 10% lækkun, að það eigi að reka tíunda hvern mann úr þessum greinum ríkisstofnananna, úr stjórnarráði, utanríkisþjónustu, lögreglu, dómgæzlu, tolla og skattheimtu, og ef á að reka tíunda hvern mann, vill hann þá gera till. um, hverjir það eru, sem á að reka, eða á kannske að varpa hlutkesti um það eða draga þá úr? Ef það er ekki þetta, sem maðurinn meinar, á hann þá við það, að ná eigi þessari 10% lækkun með því að lækka laun allra starfsmanna um 10%? Það væri gott, að það kæmi fram, hvort það er hans till.

Þessi till. er auðvitað ákaflega glöggt dæmi um hrein vindhögg út í loftið, þar sem ekkert er annað en beinn áróður og blekkingarstarfsemi. Það, sem hér þarf að gera, er auðvitað, eins og við höfum tekið fram, gagngerð athugun og rannsókn á starfsemi hverrar einstakrar stofnunar, hvernig er hægt með bættum vinnubrögðum, bættu skipulagi að draga úr kostnaði, spara starfsfólk eða önnur útgjöld. Og þegar slíkar rannsóknir og athuganir liggja fyrir, þá þarf að leggja það fyrir Alþ. og fjvn. til samþykktar eða synjunar. En sparnaður í ríkisbúskapnum fæst ekki með svona vindhöggum. Ég hélt satt að segja, að þessi ágæti þm., sem hefur vel kynnt sér ríkisreksturinn vegna starfa sinna í fjvn. og hafandi verið frsm. fjvn. eða meiri hl. hennar í nokkur ár, hefði ekki átt að gera sig sekan um svona frumhlaup.

Hér hafa heyrzt í Alþ. undanfarna daga og í rauninni allt frá því, að fjárlagafrv. endurskoðaða var lagt fyrir Alþ., háværar raddir um það frá hv. þm. Framsfl., að þetta fjárlagafrv., sem lægi fyrir, væri ekki aðeins Íslandsmet, heldur skildist mér jafnvel í gær eða nótt í umr. heimsmet í hækkun útgjalda og álagna á landslýð, því að með fjárlagafrv. væru útgjöldin hækkuð upp í nærri 11/2 milljarð, og þóttu þetta náttúrlega hin mestu firn. Einn hv. þm., 7. þm. Reykv., sagði það t.d. í gærkvöld, að svo gegndarlaus væri skattaáþján og eyðsla hjá núv. ríkisstj. og sérstaklega fjmrh., að frá siðasta fjárlagafrv. hv. 1. þm. Austf., Eysteins Jónssonar, og til þessa frv. hefðu útgjöldin hækkað úr 900 millj. upp í 1460 millj. Að sjálfsögðu láðist þessum hv. þm. að geta þess, að þegar hv. 1. þm. Austf. lagði fyrir sitt fjárlagafrv. upp á 900 millj., hafði hann leikið það loddarabragð að kljúfa ríkissjóðinn í tvennt og kalla annað ríkissjóð og hitt útflutningssjóð. Þegar hvort tveggja kom saman, voru það náttúrlega töluvert hærri upphæðir, og munaði þar 100 millj.

En um leið og hv. framsóknarmenn deila nú hart á ríkisstj. fyrir þessi háu fjárlög og eru þar jafnhneykslaðir á hvoru tveggja, hinni gífurlegu eyðslu og útgjöldum og hins vegar hinum ægilegu álögum, sem í framhaldi af því eigi að leggja á landslýðinn, þá vekur það nokkra furðu að lesa nál. og brtt. fulltrúa Framsfl. í fjvn. Þeir gefa sjálfir hér samandregið yfirlit um það, hvaða breyt. þeir vilji gera, og þar kemur í ljós, að þeir ætla sér að hækka útgjöld fjárl. frá því, sem er í frv., um 1051/2 millj. kr. Sem sagt, í stað þess að maður hefði búizt við því, að þeir skæru þetta niður a.m.k. um nokkra tugi, ef ekki hundruð milljóna, eftir alla sína hneykslun á útgjaldaupphæð fjárl., þá bregður nú svo við, að þeir vilja bæta við útgjöldum á annað hundrað millj. Ég skal taka það fram til skýringar, að nokkur hluti af þessu eða 25 millj. flytja hv. framsóknarmenn ásamt öðrum nm. í fjvn., það eru ágreiningslausar tillögur, en þeir standa að þeim engu að síður, og til viðbótar 80 millj., sem þeir vilja hafa fyrir sinn eigin reikning. Það má vel vera, að margar af þessum brtt. þeirra um auknar verklegar framkvæmdir séu æskilegar, — ég dreg það ekki í efa, — og vitanlega væri æskilegast að geta veitt miklu meira fé til verklegra framkvæmda og atvinnuaukningar í landinu. En það er dálítið erfitt að samræma þetta hvort tveggja, annars vegar hina miklu gagnrýni á hinum háu útgjöldum fjárlagafrv., en hins vegar að þeir sömu gagnrýnendur bera fram hér á Alþ. við afgreiðslu fjárl. till. um að hækka þetta um 105 millj. kr. (Gripið fram í.) Já, og 5 millj. betur.

Í sambandi við niðurfærslu eða sparnað í ríkisrekstrinum vil ég enn taka það skýrt fram, að þær ábendingar, sem ég gerði hér í minni fjárlagaræðu, og sömuleiðis þær, sem hv. frsm. meiri hl. hefur gert, eru flestar þess eðlis, að þær kosta töluverða undirbúningsvinnu og þess ekki að vænta, að hægt sé að miða þetta fjárlagafrv. við þær. Hv. frsm. 1. minni hl. var undrandi yfir því, að hvergi skyldi örla á neinum sparnaði í þessu fjárlagafrv. Ég hef nú þegar og við báðir skýrt það nokkuð, að þær sparnaðarráðstafanir, sem við óskum að gera, viljum við ekki byggja á sandi, heldur viljum við undirbyggja þannig, að þær standist. Hins vegar er það strax komið fram í meðferð þessa fjárlagafrv., að það er reynt að stefna að hagkvæmari vinnubrögðum en verið hefur í ýmsum greinum.

Í fjárlagaræðu minni minntist ég m.a. á það, að við reyndum að fækka þeim vegum, sem unnið væri við á hverju ári, en vinna í þess stað fyrir hærri upphæð, vegna þess að með því að vinna að 220—230 vegum á hverju ári og fyrir smáupphæðir, kannske 10–20 þús. við suma, þá væri a.m.k. annarri hverri krónu fleygt til ónýtis vegna þess, hve mikið af fé færi í tilflutning á vélum og mannafla og við að koma vinnuflokkunum í gang. Hv. fjvn. hefur í samráði við hæstv. samgmrh. og vegamálastjóra tekið þetta til mjög rækilegrar athugunar, og er árangurinn þegar kominn í ljós, þannig að í till. fjvn. er gert ráð fyrir, að fjárveitingar verði nú til um það bil 160 vega, í staðinn fyrir að þeir hafa verið undanfarin ár milli 220 og 230. Hér er sem sagt yfir 25% hækkun að þessu leyti, og tel ég, að hér sé farið inn á rétta braut. Vitanlega er ekki hægt að kippa þessum málum í lag alveg á svipstundu. En hv. n. hefur sýnt mjög mikinn skilning á þessu, og ég er ekki í vafa um, að þetta verður til góðs, þannig að það fé, sem varið er úr ríkissjóði til vegaframkvæmdanna, nýtist miklu betur en áður.

Í öðru lagi hefur n. gert miklu meira að því nú en áður að miða fjárveitingar til brúargerða við það að ljúka hverri brúargerð með eðlilegum og fullum hraða, þ.e.a.s. þeim hraða, sem tækni leyfir hverju sinni, í stað þess að oft áður hafa verið settir einhverjir smáslattar í brýrnar, sem hefur svo tekið mörg ár að ljúka og stundum kannske liðið langur tími, frá því að byrjað var á þeim, og það, sem búið var að gera, látið standa ólokið og ónotað lengi. — Þessi dæmi vil ég sérstaklega nefna, og vitanlega verður að halda áfram á þeirri braut.

Það liggja hér fyrir tillögur um aukin framlög til ýmissa þeirra verklegu framkvæmda, sem ríkið og bæjar- og sveitarfélögin eiga saman. Það er þannig með skólabyggingar, með sjúkrahúsabyggingar, með félagsheimili, með hafnarmannvirki, íþróttamannvirki, að þetta er byggt að meira og minna leyti í samlögum ríkis, bæjar- og sveitarfélaga, og stundum eru lögboðin hlutföll höfð í milli um það, hvað hver aðili eigi fram að leggja. Nú hefur því miður orðið sú raunin á, að í mörgum efnum hafa orðið mikil vanhöld á því, að ríkissjóður eða aðrir þeir opinberu sjóðir, sem áttu að inna þær greiðslur af hendi, stæðu við greiðslu á sínum hluta. Þannig er það t.d. varðandi skólabyggingar, að það mun nálgast um 20 millj., sem ríkið er á eftir um greiðslu síns hluta. Varðandi íþróttasjóðinn eru það mjög háar fúlgur, sem íþróttasjóður er á eftir. Einnig er það varðandi sjúkrahúsin. Þar mun það vera yfir 10 millj, kr., sem ríkissjóður á vangoldið vegna sjúkrahúsabygginga. Enn fremur má nefna hér hafnirnar að nokkru leyti og félagsheimili. Allt þetta eru svo stór mál, að þau verða ekki leyst í sambandi við afgreiðslu þessa fjárlagafrv. En á þessu ári verður þetta mál allt saman tekið til gagngerðrar endurskoðunar og reynt að finna einhverja lausn á þessum málum, því að vitanlega getur það ekki staðið svo til lengdar, þegar tveir aðilar, ríki annars vegar og bæjar- og sveitarfélög hins vegar, eiga samkv. lögum að ljúka einhverju mannvirki, byggingu eða öðru, að annar aðilinn standi ekki í skilum og neyði hinn aðilann ekki aðeins til þess að greiða sitt eigið framlag, heldur leggja út fyrir ríkið sjálft.

Það verður auðvitað að finna þá lausn á þessum málum, að framlög ríkisins, hins opinbera, komi nokkurn veginn jöfnum höndum, jafnóðum og framkvæmdunum miðar áfram. Þetta mál þarf líka mjög rækilegrar endurskoðunar við, og eins og ég tók fram, verður það ekki leyst í sambandi við fjárlagafrv. nú, þó að hins vegar hafi þótt rétt að greiða hér nokkuð úr í bili með verulegum hækkunum á framlögum til skólabygginga og nokkurri hækkun til íþróttasjóðs einnig.

Þegar litið er á brtt. hv. fjvn. í heild, þá er, eins og kemur fram í nál. meiri hl., gert ráð fyrir, að verði till. hv. fjvn. samþykktar og enn fremur þær till., sem liggja fyrir frá meiri hl., þá muni hækkun útgjaldanna nema um 1.8% af heildarupphæð fjárlagafrv. Nú má gera ráð fyrir, að einhver viðbót komi við 3. umr., þannig að heildarhækkunin verði kannske um eða liðlega 2% af heildarupphæð útgjaldanna, og ég verð að segja, að það er óvenjulega lítil hækkun í meðförum þingsins. Það sýnir það m.a., að hv. fjvn. eða meiri hluti hennar hefur gætt fullkomins hófs í athugun fjárlagafrv. og sýnt fullkomna ábyrgðartilfinningu í því að standa á móti þeim margvislegu kröfum, sem jafnan eru til n. gerðar um hækkaðar fjárveitingar.

Ef við lítum yfir það, hvað fjárlög hafa hækkað í meðförum þingsins, þ.e.a.s. frá því að fjárlagafrv. var lagt fyrir upphaflega og til þess er fjárlög eru afgreidd, þá kemur í ljós, að þau hafa flest undanfarin ár hækkað um minnst u.þ.b. 5% og 6%, 13%, 14% 16% og jafnvel nokkru hærra í meðförum þingsins. Ég tek að sjálfsögðu ekki hér með fjárlög fyrir 1958, því að þá lækkuðu fjárlögin í meðförum þingsins af þeirri einföldu ástæðu, að þá var kippt út úr fjárl, á síðustu stundu stórri fúlgu og fleygt fyrir borð og sagt, að útflutningssjóður gæti hirt það. Það var um þetta leyti, sem þáv. hæstv. fjmrh. var að skipta upp ríkissjóðnum í tvo parta, og er því ekki hægt að nota það ár til samanburðar. Miðað við undanfarin allmörg ár, er sýnilegt, að hækkun fjárlaga í meðförum þingsins er miklu minni en hefur þekkzt um mörg undanfarin ár, og vil ég taka þetta fram ekki sízt til þess að sýna það svart á hvítu, að vinnubrögð hv. fjvn. hafa verið að þessu leyti með ágætum.

Það hefur verið rætt nokkuð hér um tekjuáætlun fjárlagafrv. og komið fram, að sumir telja tekjuáætlunina of varlega, of lága. Það kemur greinilega fram í till. hv. framsóknarmanna, sem leggja til, að tekjuáætlunin sé hækkuð mjög verulega, og munu það vera um 80 millj., sem hv. framsóknarmenn leggja til að tekjuáætlunin sé hækkuð umfram það, sem fjvn. öll stendur að. Tekjuáætlun fjárl. er að sjálfsögðu nú eins og áður byggð á áætlun um innflutning og útflutning á þessu ári, og hefur hv. frsm. meiri hl. gert hér grein fyrir því máli, og þarf ég því litlu við að bæta. Þessi áætlun, sem við höfum byggt á, er sú, að almennur innflutningur, — og er þá sleppt innflutningi á skipum, — almennur innflutningur nemi, miðað við gamla gengið, 960 millj., en miðað við nýja gengið 2.2 milljörðum.

Nú er því haldið fram af hv. stjórnarandstæðingum, að þessi innflutningsáætlun sé allt of lág. Ég vil í þessu sambandi geta þess, að innflutningsáætlunin er að sjálfsögðu í beinu og nánu sambandi við áætlun um útflutninginn. Og ef við eigum að hækka innflutningsáætlunina, þá verðum við um leið að gera okkur grein fyrir því, hvort útflutningsáætlunin getur staðizt slíkan aukinn innflutning. Varðandi útflutningsáætlunina má m.a. geta þess, að í henni er þó ekki tekið tillit til hins gífurlega verðfalls á fiskimjöli, sem nú er orðið og mun nema mörgum tugum milljóna króna. Það er sem sagt eitt dæmi, þannig að ef það væri tekið inn í, þá mundi það fremur lækka þessa áætlun en hækka. En annars er það svo, að erfiðara er að segja ákveðið til um það, hver innflutningurinn verður, heldur en undanfarin ár, og það gera hinar miklu breytingar, sem gerðar eru á efnahagskerfinu, bæði gengisbreytingin og aðrar þær ráðstafanir, sem í sambandi við hana standa.

Það er auðvitað ljóst, að eitt af því, sem verður að gerast til þess að ná jafnvægi í okkar efnahagsmálum, er að draga úr innflutningnum á þessu ári. Á hitt er sjálfsagt að minnast líka, að um leið og gefinn er frjálsari innflutningur en verið hefur, er viðbúið, að innflutningurinn aukist, a.m.k. í bili, nokkuð vegna þeirra aðgerða. Þó er ekki rétt að hækka innflutningsáætlunina vegna þessa aukna innflutnings, er leiðir af meira viðskiptafrelsi, vegna þess að eftir stuttan tíma er markaðurinn vafalaust mettaður og dregur þá aftur úr þessum innflutningi, þannig að það er miðað við árið á heild tæplega hægt að reikna með hærri innflutningi, þó að þetta mundi ganga e.t.v. meira í bylgjum en áður, þegar innflutningur verður gefinn frjáls.

Ég tel, að það sé ákaflega óvarlegt fyrir alla fjárhagsafkomu ríkissjóðs að fara að hækka þessa innflutningsáætlun og þar með áætlaðar tekjur ríkissjóðs nokkuð í áttina við það, sem hv. framsóknarmenn hafa lagt til. Slíkar aðgerðir, að hækka svo mjög áætlun teknanna eins og þeir leggja til og þá um leið að auka útgjöldin að sama skapi, gætu vel leitt til stórkostlegs halla á rekstri ríkissjóðs á þessu ári. Og ekki aðeins sú hætta er fyrir hendi, heldur líka hin, að á næsta ári yrði miklu erfiðara að klifra niður stigann, þegar búið er að binda útgjöld fjárl. svo hátt eins og hv. framsóknarmenn leggja til.

Ég mun láta þessar aths. nægja á þessu stigi. En eins og ég gat um, eru nokkur atriði önnur í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, sem ég mun gera nánar að umtalsefni við 3. umr. fjárlaganna.