16.03.1960
Sameinað þing: 25. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

42. mál, fjárlög 1960

Fram. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Í framsöguræðu minni hér áðan ræddi ég ekki um till. og nál. hv. minni hl. fjvn., þar eð þeir höfðu þá ekki gert grein fyrir till. sínum, og þótti mér því eðlilegra að láta þær aths. biða, þar til þeir hefðu lokið sínum framsöguræðum. Það er vitanlega margt, sem ræður umræddra framsögumanna gefa tilefni til að athugað væri. En ég mun hér aðeins stikla á nokkrum meginatriðum, þar eð það yrði allt of langt mál, ef ætti að fara að ræða málflutning þeirra í einstökum atriðum, enda er sannleikurinn sá, að margir þættir í framsöguræðum þeirra voru meira almennar stjórnmálaumræður heldur en beinlínis umræður um fjárlögin og einstök atriði þeirra, og skal ég því ekki fara út í þá sálma né heldur fara út í almennar hugleiðingar og ádeilur varðandi hina einstöku þætti efnahagsmálanna.

Hv. 3. þm. Vesturl. vék að ýmsum atriðum varðandi vinnubrögð í fjvn. í upphafi sins máls, og það er einnig komið inn á það efni í grg. 1. minni hl. Ég átta mig ekki til hlítar á ýmsum þeim aðfinnslum, sem hér eru bornar fram, vegna þess að ég held, að þær séu ekki byggðar á fullri sanngirni.

Því er haldið fram, að það hafi verið leynt fyrir n. eða minni hl. hennar ýmsum upplýsingum varðandi afkomu ríkissjóðs, varðandi þróun efnahagsmála og þar fram eftir götunum. Ég held, að þetta hljóti meira og minna að vera á misskilningi byggt. Í framsöguræðu hæstv. fjmrh., þegar hann gerði grein fyrir fjárlagafrv. við upphaf 1. umr., gerði hann ýtarlega grein fyrir afkomu ríkissjóðs á s.l. ári, og ég veit ekki til, að það hafi verið haldið fyrir hv. minnihlutamönnum eða þeim hv. framsóknarmönnum neinum upplýsingum varðandi afkomu ríkissjóðs í einu né neinu. Varðandi upplýsingar um þróun efnahagsmála hélt ég nú sannast sagt, að að undanförnu hefðu þau mál verið rædd svo rækilega hér í þinginu frá öllum hliðum, að það hefðu naumast verið margar upplýsingar, Sem hefðu ekki komið fram í þeim umr., og ég veit ekki til, að í fjvn. hafi verið synjað um öflun neinna slíkra upplýsinga.

Þá er að því fundið, að ekki hafi tekizt að fá tekjur ríkissjóðs af innflutningi 1958 útreiknaðar miðað við núverandi gengisskráningu. Það var óskað eftir því, að tekjurnar 1958 og 1959, — ég man nú ekki, hvort árið það var, — væru umreiknaðar af efnahmrn., þegar ráðuneytisstjórinn mætti í n., og ég veit ekki betur en sá umreikningur hafi verið sendur hv. nm. öllum, þannig að hann hafi legið fyrir, enda þótt ekki sé að vísu sjáanlegt, hvaða raunhæfa þýðingu það getur haft varðandi till. n., því að ég held, að það hafi verið mun skynsamlegra, eins og ráðuneytisstjórinn í efnahmrn. sagði, að hafa til samanburðar hinar eldri tölur, til þess að átta sig á, hverjar breytingarnar yrðu.

Þá er að því fundið, að tekjuáætlun hafi ekki borizt frá ríkisstj. fyrr en eftir hádegi s.l. laugardag. Ég skil satt að segja ekki, hvað verið er hér að fara. Það er rétt, að það var ekki fyrr en á síðasta fundi n., sem meiri hl. hennar lagði fram till. sínar um hækkun á tekjuliðum frv., og ég veit ekki til, að hingað til hafi í fjvn. önnur vinnubrögð verið á höfð öll þau ár, sem ég hef verið í n., að þessi áætlun hafi verið gerð, fyrr en afgreiddar höfðu verið allar þær útgjaldatillögur, sem til stóð að afgreiða fyrir 2. umr. Áður hafði borizt til n. og henni gefin grg. varðandi greiðslujafnaðaráætlunina, sem tekjurnar byggðust á, auk þess sem í fjárlagafrv. er gerð ýtarleg grein fyrir því, hvernig tekjuáætlunin sé útreiknuð, og það hefur jafnan verið svo og varð einnig svo nú, að það var ekkert samkomulag um áætlun meiri hl. n. um, hvaða tekjuliði skyldi hækka. Þetta tel ég rétt að komi fram, vegna þess að ég held, að það hljóti að vera á misskilningi byggt að halda því fram, að það hafi eitthvað verið óeðlileg vinnubrögð varðandi það, hvenær tekjuáætlunartillögur meiri hl. hafi verið lagðar fram í nefndinni.

Þá er hér rætt um það, — og að sjálfsögðu eins og í öllum öðrum málum er kjördæmabreytingunni þar blandað inn í, — að það hafi verið einhver fádæma óeðlileg vinnubrögð varðandi það, hvaða till. hafi verið teknar til greina í sambandi við skiptingu fjárveitinga. Ég veit ekki til, að nein óeðlileg vinnubrögð hafi verið höfð á í því efni. Það hefur áður komið fyrir, að þingmenn hefur greint á, ef það hafa verið fleiri en einn þm. úr kjördæmi. Ég skal játa, að það verður nokkur breyting á því, eftir að þm. verða fleiri, sem þurfa að bera saman sín ráð. En meðan þm. voru tveir, hefur það komið fyrir, að það hefur verið ágreiningur milli þm. um, hvernig skipta skyldi einstökum fjárveitingum innan kjördæma, og það er ekkert að undra, þótt slíkur ágreiningur geti orðið nú. Og ég vil nú aðeins spyrja hv. 3. þm. Vesturl. þeirrar samvizkuspurningar, hvort hann telji það mjög líklegt, að ef Framsfl. hefði t.d. ráðið afgreiðslu fjárlaga og þm. hans í einhverju kjördæmi hefði greint á við þm. Sjálfstfl., að þá hefði verið farið eftir tillögum hinna síðarnefndu. Ég held nú sannast sagna, að það muni enginn í alvöru halda slíku fram, að þegar þannig greinir á milli, þá séu tillögur stjórnarandstöðunnar teknar fram yfir till. stjórnarþm. Þetta held ég, að liggi ósköp einfaldlega fyrir. Og þó að kannske kunni þannig á að standa í einstöku kjördæmi, eins og er vitnað í í nál., að þar sé einn þm. á annarri skoðun en aðrir þm. og hann sé í minni hl. í þingmannahópnum, þá er ekki endilega nauðsynlegt að taka till. frá hinum þm. til greina umfram till. hans, þegar þá greinir á. Þetta held ég að liggi nokkurn veginn í augum uppi.

Varðandi svo það, sem snertir kjördæmi hv. þm. og er vitnað í líka hér í nál., þá skal ég ekki ræða það sérstaklega. Það voru skiptar skoðanir um það, hvernig fjárveitingu skyldi þar haga í vissum tilfellum, og auðvitað verður fjvn. að skera úr um það, hvaða till. eigi að taka til greina, þegar þm. þannig greinir á. Það liggur í augum uppi.

Mig furðar mjög á því, að jafnreyndur þm. og fjvn.-maður og hv. 3. þm. Vesturl. skuli gera það að miklu atriði í sinni ræðu að tala um það sem eitthvert furðuverk, að það hafi þurft að gerbreyta fjárlfrv., og tala um það jafnframt sem einhvern mjög einkennilegan hlut, að það hafi ekki verið hægt að halda áfram uppbyggingu fjárl. og fjármálastefnunni á þeim grundvelli, sem fjárl. 1959 eru byggð á, og taldi, að það hefði verið sýnd einhver óvirðing hæstv. fyrrv. fjmrh, með því að halda ekki áfram á þeim grundvelli. Ég held, að það hafi aldrei farið á milli mála, enda margoft tekið fram hér í þingi og var gert einnig af hæstv. fyrrv. ríkisstj., að þær ráðstafanir, sem voru gerðar á s.l. ári, voru algerar bráðabirgðaráðstafanir, sem engum datt í hug að gætu nægt til frambúðar. En þær voru nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir geigvænlega aukningu dýrtíðar, sem hefði skapað enn þá meiri vandræði þeirri ríkisstj., sem tæki við að kosningum loknum með það í huga að reyna að koma efnahagsmálunum á einhvern traustan grundvöll. Í grg. fjárlfrv. hæstv. fyrrv. fjmrh. er það beinlínis tekið fram, eins og þar segir, að „það hlýtur að verða verkefni nýrrar ríkisstj. að gera till. um lausn þess vandamáls útflutningssjóðs, sem með þessu skapast“, þ.e.a.s. að það er í fjárlfrv. alls ekki gert ráð fyrir því, að framlag til útflutningssjóðs sé lengur veitt, og af því leiðir, að grundvellinum, sem tekjuöflun hans er byggð á, er þar með raskað, og er þetta allt í beinu samræmi við það, að það var vitanlega skoðun hæstv. fyrrv. ríkisstj., að þessi mál öll þyrfti að athuga frá grunni.

Hv. þm. vitnaði hér í ræður, sem ég hefði flutt, m.a. að ég hefði sagt við afgreiðslu síðustu fjárl., að það hefði ekki verið um annað að gera en annaðhvort ana út í fjármálaöngþveitið eða taka upp stöðvunarstefnuna, og vildi halda því fram, að nú blési úr annarri átt og nú væri beinlínis verið að ana út í þetta fen. Þetta er alger misskilningur á eðli málsins. Hér er einmitt verið að gera þær ráðstafanir, sem vitað var þá að yrði að gera í einhverju formi, og það var tekið fram þá, að vitanlega væri ekki þar með fundin nein lausn á meginvandanum, þó að út í það væri þá farið að halda niðri dýrtíð með auknum niðurgreiðslum og að skera niður til bráðabirgða ýmsa útgjaldaliði fjárl. Þetta liggur í augum uppi, og hitt liggur jafnmikið í augum uppi, að ef þetta hefði ekki verið gert þá, hefði skollið á slík dýrtíðarflóðbylgja, að við hefðum staðið andspænis algeru öngþveiti í dag og margfaldir erfiðleikar verið á því nú að taka þessi mál föstum tökum.

Það er því alger blekking, þegar því er haldið fram af hv, framsóknarmönnum, sem æ ofan í æ hefur verið gert, að það hafi verið hörfað frá einhverri fastmótaðri stefnu, þegar þær efnahagsráðstafanir hafa verið gerðar, sem nú hefur verið talið nauðsynlegt að gera, og þar með hafi verið um einhverja uppgjöf að ræða á þeirri stefnu, sem fylgt var s.l. ár. Þetta er allt misskilningur.

Mig furðar mjög á tillögum fulltrúa Framsfl. í fjvn., og ég held, að þeir eigi eftir að iðrast þeirra sjálfir innan mjög skamms tíma, og það virðist a.m.k. ekki líta út fyrir það, að þessir hv. þm. hafi lært mikið af foringja sínum, þeim manni, sem lengst hefur verið hér fjmrh., hv. 1. þm. Austf (EystJ). Ef þeir hefðu haft í huga ræður hans, þegar hann var fjmrh. og var að ávarpa stjórnarandstöðuna í fjvn., þá held ég, að þeir hefðu ekki flutt þessar till., sem þeir gera nú. Ég minnist þess, að þegar við sjálfstæðismenn vorum í stjórnarandstöðu á árum vinstri stjórnarinnar, þá fengum við ákúrur frá hæstv. þáv. fjmrh., Eysteini Jónssyni, fyrir það, að við skyldum leyfa okkur að flytja brtt. við útgjaldahlið fjárl. umfram þær till., sem við stóðum þá að með stjórnarliðinu. Þegar það er haft í huga, að við fengum þessar ákúrur, þá er jafnframt fróðlegt að athuga, hvaða till. það voru, sem við fluttum.

Árið 1956, við afgreiðslu fjárl. fyrir 1957, fluttum við útgjaldatill. við fjárl., sem námu 7 millj. 392 þús. Fyrir þetta fengum við ákúrur. Árið 1957, við afgreiðslu fjárl. fyrir 1958, fluttum við engar útgjaldatill. við 2. umr., en við 3. umr. fluttum við útgjaldatill., sem námu 3.1 millj. kr., en þar á móti till. til útgjaldalækkunar, sem námu 5 millj. rúmum. Fyrir þetta fengum við einnig ákúrur, að það væri um ábyrgðarlausa afstöðu að ræða til afgreiðslu fjárl.

Árið 1954 voru Sósfl. og Alþfl., — það var víst ekki komið til greina þá Alþb., ef ég man rétt, — í stjórnarandstöðu, og það gæti verið holl hugvekja að athuga um þessa flokka, sem þóttu ekki sérstaklega fullir ábyrgðartilfinningar, enda fengu harðar og óvægilegar ákúrur frá hæstv. þáv. fjmrh. og einnig frá mér sem þáverandi frsm. fjvn. 1954 fluttu fulltrúar þessara flokka till. til útgjaldahækkunar, sem námu 28.2 millj. og 1955 till. til útgjaldahækkunar, sem námu 35.5 millj. En hvað gerist svo nú á því herrans ári 1960, þegar hinn ábyrgasti allra ábyrgra, Framsfl., undir forustu þess manns, sem lengst hefur verið fjmrh., Eysteins Jónssonar, er í stjórnarandstöðu og á nú að fara að vísa veginn til skynsamlegrar afgreiðslu fjárl.? Þá leggja fulltrúar þessa flokks fram hækkunartill. við fjárlfrv., till. um aukin útgjöld, sem nema 80.6 millj. kr. Hvað skyldi hv. 1. þm. Austf. hafa kallað slíkar till., ef hann hefði setið í stóli fjmrh. og þær hefðu verið fluttar t.d. af okkur sjálfstæðismönnum? Það getur vel verið, að þessi hv. þm. haldi, að það líti vel út í augum þjóðarinnar að flytja slíkar gegndarlausar útgjaldatill. eins og hér eru fluttar. Vissulega eru þessi útgjöld öll til mjög þarfra hluta, sem hefði verið mjög æskilegt að sinna. En ég held, að þeir fari villir vegar, ef þeir halda, að þjóðin telji þetta bera vott um einhverja sérstaka ábyrga afstöðu í meðferð fjárl. og hún þakki þeim sérstaklega fyrir það að hafa tekið þannig á málum. Þetta held ég að sé mjög mikill misskilningur.

Nú skulum við segja, að tekjur kunni að vera vanáætlaðar, sem auðvitað er engin leið að fullyrða neitt um á þessari stundu; og væri, eins og ég sagði í frumræðu minni, algert ábyrgðarleysi og fyrirhyggjuleysi að ætla að miða útgjöld ríkissjóðs við þá möguleika, að tekjurnar færu fram úr áætlun, — en þó að þær færu fram úr áætlun, þá hefði það vissulega verið skynsemi hjá þessum hv. þm., miðað við allt, sem þeir hafa sagt um þetta mál, að þeir hefðu lagt áherzlu á, að þeim tekjum yrði þá skilað aftur og álögurnar minnkaðar. Og ég held undir öllum kringumstæðum, að það sé það eina hyggilega í sambandi við afgreiðslu fjárl. nú, miðað við það fjármálaástand, sem er, og þær ráðstafanir, sem er verið að gera og þarf að gera, að ef það verða umframtekjur á fjárl., þá verði þeim haldið til haga og þær þá notaðar til þess aftur að lækka þær álögur, sem nú hefur orðið að leggja á.

Ég minnist þess, að það var einmitt vakin athygli okkar í fjvn. á því af efnahagsmálaráðunaut ríkisstj., að það bæri að varast, þó að það kynni að verða einhver sveifla í bili á innflutningi vegna aukins frjálsræðis, að ætla sér að fara að nota þær tekjur til þess að hækka útgjaldaliði fjárl. Við vitum mætavel öll, hversu þægilegt það er að ætla að fara að skera aftur niður slík útgjöld, og þó að það kunni að verða einhver sveifla í tekjunum fyrst í stað, kannske nokkuð fram eftir þessu ári, af meiri innflutningi en gert er ráð fyrir, þá er það augljóst, að ef efnahagsráðstafanirnar ná tilgangi sínum, þá hlýtur að verða aftur samdráttur í því efni, og þá væri það vitanlega það óhyggilegasta, sem hægt væri að gera, að vera búinn að þenja út útgjöld ríkissjóðs, miðað við þessar óvæntu tekjur.

Ég verð því að harma það, að þessir hv. þm. skuli hafa látið leiðast til þess af þeirri hugmynd, að það mundi verka vel á almenning, að taka upp milljóna fjárframlög í þetta eða hitt, þeir skuli hafa látið leiðast til þess að ganga svo óhóflega í útgjaldatillögum sínum eins og þeir hér hafa gert, án þess að byggja á nokkrum raunhæfum grundvelli. Afsökunin, sem hér var borin fram, — og var þá einnig vitnað í ræðu, sem ég hefði flutt á s.l. ári, var sú, að það væri mjög hæpið að láta fjmrh. hafa of rúmar hendur hvað tekjur snerti. Þetta er alveg rétt, að það getur vissulega verið það, og það kann vel að vera, að það hefði verið ástæða til, ef þessir menn hefðu talið þörf á því, að áætla tekjurnar hærri, að hækka þá tekjuáætlunina. En það var ekki þar með sagt, að það ætti að fara að eyða öllum þessum peningum á móti, – alls ekki þar með sagt.

Það hefur oft verið um það talað, hvort rétt væri að halda utan fjárlagaáætlunar stórum fjárhæðum, eins og gert var hér á sinni tíð, eða þá að taka áætlunartöluna á fjárl. eins og mætti ætla að tekjurnar yrðu, þegar öll kurl væru til grafar komin. Um þetta má vissulega deila. En hvað sem um þetta að öðru leyti verður sagt, þá held ég, að það liggi alveg ljóst fyrir, að eins og sakir standa nú, þá er það engin skynsemi og væri hið mesta gáleysi að fara að gera ráð fyrir því um óvæntar tekjur, sem kynnu að verða, sem við vitum ekkert um í dag, að það ætti fyrir fram að fara að ráðstafa þeim og binda þau útgjöld í fjárl. Verði tekjurnar meiri, þá á vissulega ekki að eyða þeim á þann hátt, og ég tel það sjálfsagt, að það komi til meðferðar Alþingis á sínum tíma, ef svo kynni að fara, hvernig slíku fé yrði ráðstafað.

Það er svo fróðleiksefni út af fyrir sig, þegar hv. 3. þm. Vesturl. er að gera grein fyrir þessum brtt. og er í því efni að vitna til, að þeir hafi lagt til í fyrra og þeir leggi til nú, að fé verði veitt í þessar og hinar þarfir. Það er dálítið einkennilegt, vegna þess að það vill svo til, að í fyrra og nú voru þeir ekki í ríkisstj., og af einhverjum ástæðum hefur þeim láðst að flytja þessar till. og beita sér fyrir þessum fjárveitingum, þegar þeir höfðu öll tögl og hagldir um það að veita fé til allra þessara þörfu ráðstafana. Þá hafa þær einhvern veginn dottið upp fyrir og ekki verið talið svo ákaflega brýnt að ýta þeim úr vör eins og nú hefur verið gert.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að ræða þessar brtt. í einstökum atriðum. Eins og ég áðan sagði, þá er vissulega hægt að taka undir orð hv. frsm. 1. minni hl. um, að það sé mjög þarft og nauðsynlegt að auka fjárveitingar til þeirra hluta, sem hér um ræðir. Við bara stöndum andspænis því, að við getum ekki aukið þessar fjárveitingar. Það er hið einfalda atriði málsins. En okkur greinir vafalaust ekkert á um, að hér sé um að ræða æskilegar framkvæmdir.

Ég vil leiðrétta það, sem hv. frsm. 1. minni hl. sagði varðandi ummæli mín um fjárveitingu til raforkumála, að ég hafi sagt, að það hefði ekki verið þörf fyrir þetta fé á s.l. ári. Vitanlega er alltaf þörf fyrir þetta fé og hefði verið þörf fyrir, að það hefði verið í fjárl. ársins 1959, umræddar 10 millj. kr., en ég sagði, að það hefði verið raunhæf till. þá, eins og sakir stóðu, að taka út þessa fjárveitingu, vegna þess að það var séð fyrir þessu fé með láni, þannig að framkvæmdir þurftu ekki að dragast saman á því ári af þeim sökum. Hins vegar er ljóst, að þar var eins og um margt annað, sem gert var í niðurskurðarátt í síðustu fjárlögum, um að ræða ráðstafanir, sem var ekki hægt að gera til frambúðar, og því hefur þessi fjárveiting verið tekin upp aftur. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni? ) Nei, ég mun ekki þurfa að eyða mörgum mínútum. (Forseti: Allt að fimm, kannske fleiri? ) Já, eitthvað í kringum það.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að teygja fundartímann með því að. ræða meira till. hv. 1. minni hl. Ég hef orðið orðmargur um þær, vegna þess að ég hafði í rauninni búizt við, að úr þeirri átt mundi koma okkur leiðbeining um sérstaklega ábyrga afgreiðslu fjárl. og mikill stuðningur koma úr þeirri átt við þá viðleitni að hafa fjárlög skynsamlega uppbyggð, og því urðu vonbrigðin meiri við að sjá till. þessara hv. þm., eins og þær nú liggja fyrir. Og það má í rauninni undarlegt heita, að það hefur hingað til ekki verið talið sérstakt einkenni á hv. Alþb.-mönnum, að þeir sýndu svo mjög mikla gætni í fjármálum. En það bregður nú svo við, að útgjaldatillögur frá 2. minni hl. fjvn., fulltrúa Alþb., eru aðeins smávægilegar hjá útgjaldatill. hv. 1. minni hl., því að þar er þó ekki um að ræða nema 10 millj. kr. útgjaldaauka, umfram þá till., sem borin er fram til sparnaðar á því þskj. Og þó að sú till. sé frá dregin, sem sýnist ekki vera byggð á sérlega raunhæfum grundvelli, þá er þó útgjaldaaukinn ekki nema 24–25 millj. kr., svo að þar verður hv. fulltrúi Alþb. æðimikill eftirbátur sinna félaga í minni hl. fjvn.

Varðandi einstakar till. hv. 2. minni hl. skal ég ekki fara um þær mörgum orðum. Mig undrar það nokkuð, hversu bjartsýnn hann er á reglusemi á Keflavíkurflugvelli, að þar sé alveg sérstaklega auðið að lækka fjárveitingar til löggæzlu. Hingað til hefur maður lesið það í blöðum hans flokks, að það væri ekki svo mikil fyrirmynd þar í hátterni manna, að það mætti sérstaklega láta undan falla að halda þar uppi löggæzlu. En það kann að hafa orðið á þessu einhver breyting. Það er sama að segja um þær till., sem hann flytur, að hækkanir til ýmissa framkvæmdaliða eru vissulega góðra gjalda verðar, ef fært væri fjárhagsins vegna að verða við þeim fjárveitingum.

Hæstv. fjmrh. hefur sérstaklega rætt till. um 10% lækkun á ýmsum útgjöldum. Ég held, að hv. þm. muni fullkomlega gera sér grein fyrir því, jafnreyndur og hann er í þessum efnum, að það er algerlega út í hött að fara að flytja fram till. um ákveðinn niðurskurð á ýmsum rekstrarliðum fjárl., án þess að gera nokkra grein fyrir því, hvernig það skuli vera framkvæmt. Þetta var einu sinni gert og með mjög raunalegum árangri, og ég sé ekki, að við stöndum neitt betur að vígi. Ég skyldi fagna því með honum, ef það væri hægt að koma þessu fram í reynd nú á þessu árl. Hitt er annað mál, að jafnvel þó að það væri hægt að fækka starfsmönnum, þá verður það ekki gert fyrirvaralaust. Ríkisstarfsmenn hafa sinn uppsagnarfrest, auk þess sem margir eru þannig settir, að þeir eru í embættum og hæpið, að það sé hægt að losna við þá. Þetta eru því allt saman liðir, sem eru þess eðlis, að það er vitanlega algerlega út í hött að halda, að það sé á einu og sama ári hægt að framkvæma slíkan niðurskurð, þó að það væri fullur vilji fyrir hendi til þess að mæta þessum óskum.

Ég vék í framsöguræðu minni nokkuð að þeim hugleiðingum, sem uppi eru um sparnað. Um það eru áreiðanlega allir sammála, að það sé nauðsyn á sparnaði, og um það hefur verið talað árum saman, en eins og ég sagði — því miður með misjöfnum og þó oftast harla litlum árangri, og ég býst við, að allir séu þar undir sömu sök seldir. Ég hins vegar endurtek þá staðhæfingu mína, að miðað við þær tilraunir, sem nú er verið að gera til þess að skapa jafnvægi í efnahagsmálum og koma fjármálakerfinu á traustan grundvöll, þá er að sjálfsögðu sérstök nauðsyn til þess að taka heildarútgjöld ríkissjóðs til endurskoðunar með það í huga að draga úr þeim og með það í huga að halda þeim innan þess ramma, að þau verki ekki verðbólgumyndandi á fjárhagskerfið.

Varðandi það, að það bóli lítið á þeim till. til sparnaðar, sem ætla hefði mátt að núverandi stjórnarflokkar legðu fram, þá kann það vel að vera. En ég legg þó meira upp úr því, að þar sé unnið að af forsjálni og fyrirhyggju, þannig að sparnaðartillögurnar geti orðið raunhæfar, eins og hæstv. fjmrh. vék að í sinni ræðu. Og það vill nú svo til, að það hafa víðar verið uppi hugmyndir um sparnað en hefur verið lýst nú af hæstv. núv. ríkisstj. og núv. fjmrh. Hér er ein heljarmikil bók, sem er pródúkt frá sparnaðarnefnd, sem starfaði á vegum vinstri stjórnarinnar 1957. Mér er ekki kunnugt um, að yfirleitt nokkur þessara till., sem hér koma fram, — og þær eru ýmsar athyglisverðar og víssulega þess virði, að það þarf að athuga þær nánar, — að þær hafi verið framkvæmdar eða gerð tilraun til að framkvæma þær af vinstri stjórninni, meðan hún sat, af hvaða ástæðu sem það hefur verið. Það skal ég ekki um segja. En þetta breytir ekki því, að það er mikil nauðsyn, að þessi mál verði öll grandskoðuð, og þess er mjög að vænta, að hæstv. fjmrh. vinni að þeim málum á þann hátt, sem hann hefur hér lýst, og að það megi vænta árangurs af því starfi við afgreiðslu næstu fjárlaga.

Ég sé svo ekki á þessu stigi málsins ástæðu til þess að ræða einstakar brtt., en mun víkja að þeim síðar, eftir því sem tilefni gefst til.