16.03.1960
Sameinað þing: 25. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1590 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

42. mál, fjárlög 1960

Frsm. 2, minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Þeir hv. fyrirsvarsmenn ríkisstj., sem talað hafa við þessa umr., þeir hv. frsm. meiri hl. fjvn. (MJ) og hæstv. fjmrh. (GTh), hafa aðeins gefið mér tilefni til þess að koma hér í ræðustól aftur. Þeir hafa báðir vikið örlítið að till. mínum og grg. fyrir þeim eða ræðu minni um þessi efni.

Hv. frsm. meiri hl., hv. 6. þm. Norðurl. e., gat þess hér við umr., sem og rétt er, að till. Alþb. við þessa afgreiðslu fjárlaga eru í alla staði byggðar á ábyrgum grunni, þannig að Alþb. mun fyrir sitt leyti stuðla að því, að fjárlög verði afgreidd tekjuhallalaust. Að öðru leyti hafði hann ýmislegt við till. mínar og annarra stjórnarandstæðinga að athuga, og er það nú lítið meira en næstum verður að vera við slíkar umr. Hann taldi sparnaðartill. mína og raunar báðar þær, sem ég hef gert, vera heldur óraunhæfar og deildi mjög á Framsfl. fyrir óábyrga afstöðu til afgreiðslu fjárlaga, og alveg sérstaklega deildi hann á afskipti hv. 1. þm. Austf. (EystJ) af afgreiðslu fjárlaga, bæði fyrr og nú, gat þess réttilega, að hann hefði ekki verið í miklum sparnaðarhug um afgreiðslu fjárlaga, meðan hann var fjmrh., hann hefði viljað hafa tekjuáætlun rúma, og sitt hvað fleira hafði hann við hans framkomu að athuga. Nú er það að sjálfsögðu ekki ætlun mín að halda uppi vörnum fyrir þann þm., sem hér var á deilt, Eystein Jónsson, eitt sinn verandi fjmrh. Miklu fremur þætti mér ástæða til þess að taka undir a.m.k. sumt af því, sem í gagnrýni hv. frsm. meiri hl. fjvn. kom fram. En á hinn bóginn verð ég að játa, að ég tel, að þessi ræðumaður hafi gert Eysteini Jónssyni ekki lítinn sóma, með því að mér fannst eiginlega ræða Magnúsar Jónssonar vera að meginparti sama ræðan, sem Eysteinn Jónsson jafnan flutti við afgreiðslu fjárlaga, meðan hann var fjmrh. Og mér þykir sýnt, að þrátt fyrir það að þessir tveir hv. alþm. eru nú ekki mjög sammála, þá geti Eysteinn verið ánægður með það, að hann mun barna hafa eignazt virðulegan og álitlegan lærisvein, sem nú heldur uppi þeim kenningum og fræðum, sem Eysteinn Jónsson jafnan varð að gera, meðan hann var fjmrh.

Ræðu hæstv. fjmrh. og þeim atriðum, sem hann sérstaklega vék að mínum till. og minni ræðu, þykir mér rétt að svara. En áður en að því kemur, vil ég leiðrétta nokkurn misskilning, sem hjá hæstv. ráðh. virðist vera varðandi framkvæmd hjá vegagerð ríkisins. Hv. 1. þm. Austf. hefur nú að nokkru gert það, en þó ekki að því leyti, sem ég tel nauðsynlegt, til þess að ráðh. sé betur heima í því, með hverjum hætti eða hvert samband er á milli fjárlaga og framkvæmda í vegagerðinni.

Það var mjög mikið um það, að inni í fjárlögum væru tiltölulega mjög lágar upphæðir til vegagerðar, 10, 15, 20 þús. og raunar einnig upphæðir, sem voru litlu hærri en þetta. Yfirleitt mun ekki vera unnið sérstaklega fyrir upphæðir, sem eru svona lágar. Þær eru allt öðruvísi til komnar inn í fjárlögin flestar. Þær eiga flestar þá sögu, að á fyrra ári hefur verið unnið fyrir dálítið meira í viðkomandi vegi en þá var lagaheimild fyrir, og margar af slíkum fjárveitingum ganga til þess að borga upp skuldir, sem á viðkomandi vegum hvíla. En upphæðirnar eru alls ekki þess eðlis. að þær þýði, að farið sé með þung og mikil verkfæri um langan veg til þess að vinna fyrir þetta. Það er vert, að þetta komi fram, það hefur ekki komið hér fram í umr. fyrr, og það er ekki nema eðlilegt, að þeir, sem ekkert sjá nema tölurnar, hugsi málið þannig, að hér muni vera fluttar til miklar vélar og vinnuflokkar til þess að framkvæma verk fyrir upphæð, sem kannske varla hrekkur fyrir flutningskostnaðinum einum saman. En þessu er ekki þannig varið. Og það er vissulega rétt, og ég fagna því eins og sumir aðrir ræðumenn, sem hér hafa talað, að yfirleitt hefur nú verið horfið að því ráði að miða framlög til vegagerðar við það, að stærri áföngum sé lokið en áður. Hins vegar held ég, að þetta sé ekki neinn árangur af baráttu hæstv. fjmrh. í þessu efni, heldur sé þetta fyrst og fremst árangur af þeirri breyttu kjördæmaskipan, sem upp hefur verið tekin, og ber að sjálfsögðu að þakka það hæstv. fjmrh., að svo miklu leyti sem hann átti þátt í kjördæmabreytingunni, því að mála sannast er það, að gamla fyrirkomulagið í þeim efnum ræktaði heldur upp skammsýni og smámunasemi, sem vænta má að þróun næstu ára geri heilbrigðari og verki í þá átt, að betur nýtist framkvæmdafé.

En þótt þeir hv. talsmenn ríkisstj. telji það vera einhverja sérstaka dyggð af sinni hálfu, að þróunin hefur gengið í þessa átt í sambandi við veitingu vegafjár, og telji till. sínar um flugvallagerðir einnig miða að þessu sama o.s.frv., þá verð ég að vekja athygli á því, að þeir eru sjálfir ákaflega fjarri því að hafa tileinkað sér þessa stefnu í raun. Og fyrst þessi mál eru komin sérstaklega á dagskrá, sé ég ástæðu til þess að rifja upp, hvernig staðið hefur verið að fjárveitingum til millibyggðavega. Ég vil nefna það dæmi, að eftir að vitað var, hverri upphæð þar átti að skipta, sem eru 61/2 millj. kr. af benzínfé, þá gerði vegamálastjóri sínar till. þar um. Hann lagði til, að í Austurveg yrðu lagðar 2 millj. kr. Málefni þeirrar vegagerðar standa nú þannig, að áætlun liggur fyrir um það, að sá vegur muni geta tengzt vegakerfinu austanfjalls eftir 2 sumur hér frá, ef til hans verði veittar 2 millj. kr. á ári, og voru þeir útreikningar hans miðaðir við verðlag fyrir gengisbreytinguna. Það hefði því mátt ætla, að þeir, sem eru sérstakir talsmenn fyrir því að ljúka áföngum fremur en vera viða með verk á prjónum, hefðu gert ráðstafanir til þess, að þessa áætlun hefði ekki þurft að bera af leið, henni hefði ekki þurft að seinka, þeir hefðu því heldur haft tilhneigingu til þess að bæta við till. vegamálastjóra í þessum efnum heldur en draga úr þeim. Raunin varð hins vegar sú, að þeir komu sér saman um að lækka þetta framlag um 200 þús. kr., þ.e.a.s. innsigla það og tryggja það þar með, að þessi áætlun gæti ekki staðizt. Á hinn bóginn notuðu þeir þetta fé, sem þarna var af klipið, ásamt 100 þús., sem einhvers staðar annars staðar munu hafa verið klipnar af, til þess að ákveða, að hafin skyldi vegagerð á svonefndum Hellissandsvegi. Nú skal ég allra manna síðastur mæla gegn því, að sá vegur verði lagður. En mér þykir ástæða til þess að upplýsa og styðst þar við upplýsingar vegamálastjóra um það, hvers eðlis sú vegagerð er. Hún miðar að því að tengja saman þorpin Ólafsvík og Hellissand, og eins og ég hef áður tekið fram, er þar mikil nauðsyn vegagerðar. Vegur þessi á að liggja um svonefnt Ólafsvíkurenni, sem er fjall fram í sjó þar, þó þannig, að á fjöru er hægt að aka á milli þessara staða fyrir Ólafsvíkurenni. Vegamálastjóri hefur upplýst, að einmitt þennan veg, sem kostar allmargar millj. kr., verði að leggja í sem allra fæstum áföngum, kannske í einum áfanga, vegna þess að þegar farið verður að sprengja úr Ólafsvíkurenni fyrir veginum, þá hrynur grjót niður í fjöruna og sú leið, sem nú er notuð, mun teppast. En einmitt á þennan stað gerðu stjórnarliðar tillögu um að flytja 300 þús. kr. af Austurvegi og einhverjum öðrum vegi, sem vafalaust á ekki mjög langt í land, og er þessi fjárveiting því beinlínis til þess að teppa þær litlu samgöngur, sem nú eru á milli Ólafsvíkur og Hellissands. Þetta er nú framkvæmdin á hugmyndinni um að vinna verk í stórum áföngum og taka myndarlega á.

Í sambandi við ummæli hæstv. fjmrh. um það, hvað afgreiðsla fjárlaga gengi rösklega, þá vil ég taka undir þau í einu og öllu, nema þar sem hann nefnir tölur. Þar virðist honum vera fyrirmunað að fara alveg rétt með. Hann mun hafa sagt það í ræðu einhvern tíma á s.l. hausti, að afgreiðsla fjárlaga mundi geta farið fram á svo sem eins og mánuði, eftir að fjárlög yrðu lögð fram. Þessa fullyrðingu sína þarf hann svo að reyna að rökstyðja með einhverjum hætti. Og hann gerir það með þeim hætti, að hann telur afgreiðsluna hafa farið fram á um það bil mánuði, vegna þess að fjárlagafrv. hafi verið vísað formlega til fjvn. hinn 8. febr., en meiri hl. fjvn. hafi undirskrifað nál. hinn 15. marz. Allt er þetta út af fyrir sig rétt. En þetta segir ekkert um það, hve langan tíma afgreiðsla fjárlaga tekur. Fjárlagafrv. var lagt fram fyrsta dag þingsins eftir þinghlé. Þá strax byrjaði fjvn. að vinna í málinu, og þess vegna er dagurinn 8. febr. í rauninni ekki viðkomandi vinnubrögðum fjvn. En jafnvel hvað sem allt gott má segja um vinnubrögð eins og t.d. í fjvn., — þar hefur verið rösklega unnið og því mótmælir enginn, — getur hæstv. fjmrh. ekki setíð á sér að fara þannig með tölur, að það gefur mönnum rangar hugmyndir. Það væri þingheimi ákaflega mikils virði, ef hæstv. ráðh. gæti lagt niður þennan sið sinn, þannig að alþm. gætu yfirleitt lagt trúnað á upplýsingar hans, án þess að þurfa alltaf að vera fullir tortryggni, eins og hann vissulega gefur tilefni til.

Hann hefur gert sérstaklega að umtalsefni þá till. mína við þetta frv., að lækka beri rekstrarkostnað ráðuneytanna, utanríkisþjónustunnar, dómgæzlunnar, lögreglustjórnarinnar og skatta- og tollastofnana um 10%. Og hann spyr mig ýmissa spurninga í sambandi við það. Áður en ég svara þeim, sem mér þykir rétt og skylt að gera, vil ég aðeins minnast á það, að þessi till. er flutt af beinu tilefni þess, sem framkvæmt hefur verið og lögfest að tilhlutan ríkisstj. Ríkisstj. hefur sem sagt með efnahagslöggjöf sinni, þ.e.a.s. gengisfellingarlögunum, með lögfestingu sinni væntanlega á söluskatti, með ákvörðunum sínum um vaxtahækkanir o.s.frv. efnt til þess, að dýrtíðin í landinu hlýtur að rísa mjög hátt. Til þess að vera nú viss um að nefna ekki hærri tölur en raunveruleikinn mun sanna á næstu vikum og mánuðum, þá vil ég slá fram þeirri hugmynd, að dýrtíðin muni ekki hækka að meðaltali um nema 25%. Þá verða heimilin í landinu að mæta þessari hækkun án þess að fá nokkra tekjuhækkun. Þau verða að draga saman. Geta þau það? Hefur ríkisstj. spurt þau um það? Nei, hún hefur ekki gert það, Byggir hún till. sínar á einhverjum búreikningum? Nei, hún gerir það ekki. Hún gefur út tilskipun til heimilanna: Dragið þið saman. — Og svo segir ráðh., þegar gerð er till. um það, að þær stofnanir, sem hann á að stjórna, dragi saman um 10%, að mér hafi láðst að geta þess, hvernig eigi að gera það. Honum láðist líka að segja heimilunum, hvernig þau eiga að mæta hinni hækkuðu dýrtíð. Ég veit, að það eru til ýmis ráð til þess að mæta hækkuðum útgjöldum eða til þess að draga saman. Ráðh. hefur t.d. sjálfur sagt frá því hér í ræðu, að hann hafi í hyggju að kaupa stimpilklukku og setja hana upp í stjórnarráðinu, að því er mér skilst vegna þess, að starfsmenn þess hlaupi úr vinnu sinni eða séu ekki við, þegar þeir eigi að vera það. Ja, eitt ráðið er nú kannske að draga af kaupinu þeirra, þegar þeir slóra. En ef þeir skyldu nú afkasta meiru, þegar klukkan er komin, þá er líka hugsanlegt að komast þar af með færri starfsmenn. Ég get gefið honum þetta ráð. Annars ætla ég ekki að gefa honum ráð í einstökum liðum, en spurningum hans ætla ég að svara.

Hann spurði alveg beint: Á að reka tíunda hvern mann, ef spara á 10%. Ég vil spyrja hann á móti: Þegar hann hefur gert ráðstafanir til þess að hækka dýrtíðina um 25%, en halda tekjum heimilanna óskertum, þ.e.a.s. óbreyttum, á þá að svelta fjórða hvern mann, á að hætta að klæða fjórða hvern mann? Síðan spyr hann mig: Hverja á að reka? Ég vil spyrja hann: Leggur hann fram lista til handa heimilunum og segir þar, hver börn á að svelta eða hætta að klæða eða hvaða fjölskyldumeðlimi? Nei, hann gerir það ekki. Hann spyr: Á að lækka laun hjá starfsmönnunum? Ég svara: Þeirra laun hafa raunverulega verið lækkuð með þeim aðgerðum, sem hann sjálfur hefur framkvæmt. En ég vil spyrja hann alveg hliðstæðrar spurningar: Hvernig á að haga hliðstæðum liði heimilishaldi? Á að hætta að kaupa kjöt? Á að hætta að kaupa fisk? Hvað á að spara? Hann hefur ekki sagt frá því enn þá. Þegar hann hefur gert grein fyrir þessum hlutum að sínu leyti, þá mun ég reyna að gera það einnig að mínu leyti.

Ég vil benda honum á það, að tillaga mín er gerð beinlínis í samræmi við þá stefnu, sem hann hefur markað. Hann vill halda því fram, að ef eigi að framkvæma þessa stefnu í stjórnarráðinu, þá sé þar vá fyrir dyrum, þetta sé ekki hægt. Alveg því sama held ég fram um hans stefnu í þjóðfélaginu sjálfu. Ég held, að hans stefna sé einmitt slík, að það sé vá fyrir dyrum í þjóðfélaginu og þetta verði ekki þolað.

Það þarf að rannsaka, hvað hægt er að spara, og til þess þarf þrotlausa vinnu, segir ráðherrann. Hefur hann lagt þrotlausa vinnu í það að finna út, hvað sé hægt að spara á heimilunum? Það verður fróðlegt að sjá árangurinn af þeirri vinnu, þegar hann birtist.

Nei, þessi mótmæli ráðh. gegn því að spara nokkurn skapaðan hlut í stjórnarráðinu og þeim stofnunum, sem undir það heyra beint, eru auðvitað þess eðlis, að til þess vantar hann vilja. Það eru allt aðrir aðilar, sem hann hefur hugsað sér að láta spara. Það er þjóðin sjálf. Og hans stefna, ef hún ætti fyrir sér að standa, leiðir að sjálfsögðu til þess, að það verður haldið áfram öllu bruðli og það verður aukið á hærri stöðum, en til þess þykir þjóðin ekki of góð að leggja nokkuð að sér og spara hjá sér.