30.11.1959
Efri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég spurði hæstv. forseta að því áðan, hver sú knýjandi nauðsyn væri, er gerði þennan kvöldfund eða kvöld- og næturfund í þessari hv. d. óhjákvæmilegan. Hæstv. forseti svaraði stutt og laggott: Það er ósk hæstv. ríkisstj. Og hann sagði það á þann hátt, að manni fannst sem sagt væri: Faraó hefur talað. Það var engu líkara en óskir hæstv. ríkisstj. væru skipanir, sem ótilhlýðilegt væri að spyrja um ástæður fyrir, eða þannig virtist mér hæstv, forseti vor líta á málið í kvöld. Mér var alls ókunnugt um það, áður en ég spurði, að hæstv. ríkisstj. hefði skipað svo fyrir, að kvöld- eða kvöld og næturfundur skyldi haldinn í hv. Ed., en að hv. Nd. skyldi gefið frí. Nú langar mig til að vita ástæður fyrir þessari mismunun. En ef til vill fæ ég ekkert svar eða þá aðeins svarið: Faraó hefur talað. Þetta er þá nýjasti boðskapur hæstv. ríkisstj., og ég get ekki látið hjá líða, úr því að ég er staðinn upp, að fara nokkrum orðum um þessa hæstv. ríkisstj. í þessu tilefni.

Þegar ein vika er liðin frá setningu Alþingis og störf þess rétt að byrja, leggur hæstv. forsrh. fram till. til þál. um frestun þingfunda í allt að tvo mánuði. Ástæða var færð fyrir þessu. Hún var sú, að hæstv. ríkisstj. þyrfti að fá næði til að undirbúa efnahagsmálatill. sínar. Hæstv. fjmrh. og hæstv. dómsmrh. tilgreindu báðir þessa ástæðu á laugardagsfundunum í hv. Nd. Áður höfðu forustumenn stjórnarflokkanna og málgögn þeirra margsagt frá því, að sérfræðingar væru að athuga og reikna út efnahagsástandið og leita að lausnum og þegar því væri lokið, kæmi til kasta hæstv. ríkisstj. að taka ákvarðanir um þá lausn, sem hún kysi að gera till. um, og mundi hún síðan leggja þær till. fyrir þingið.

Frestunartill., sem hæstv. forsrh. flutti, óskin um að vera laus við þinghaldið og ástæðan fyrir þeirri ósk, gefur góða bendingu um hug hæstv. ríkisstj. til hins háa Alþ. og hv. þm. yfirleitt, og er vert að íhuga það vandlega. Hæstv. ríkisstj. segist vilja fá vinnufrið, og því hyggst hún með tilstyrk síns meiri hl. senda þingið heim. Þingið er m.ö.o. til trafala. Það er að þvælast fyrir og torvelda hæstv. ríkisstj. stjórnarstörfin. Það er stjórnarinnar og sérfræðinga hennar að matreiða handa Alþ. fæðuna og þess hlutverk aðeins að segja já eða nei í fyllingu tímans. Þetta virðist óneitanlega skilningur hæstv. ríkisstj. á hlutverki hins háa Alþingis. Það er í hennar augum einungis til þess nýtanlegt að setja stimpilinn á stjórnarplöggin og gera þau lögformleg.

Nú skal það sagt hæstv. ríkisstj. til afsökunar, að ráðh. eru ekki einir um þennan skilning á hlutverki þjóðþingsins. Á öllum öldum og í öllum löndum hafa verið menn, sem sömu augum litu á það mál, að þjóðþingin væru í raun og veru stjórnarherrum til armæðu og byrði og tefðu þá og trufluðu. Á ýmsum tímum hafa fyrirferðarmiklir ráðh. veitt þm. frí frá störfum. Sumir hafa sent þá heim að fullu og öllu. Aðrir hafa haft þann sið að kalla þing saman öðru hvoru til þess að leggja blessun sína á stjórnarstörfin og klappa valdhafanum lof í lófa. Það eru að sjálfsögðu einræðissinnaðir menn, sem telja fulltrúaþing þjóðarinnar til tafar og trafala. Aðrir líta stærra á hlutverk þess og telja, að það eigi að fjalla um vandamál þjóðarinnar á öllum stigum þeirra, það eigi að hafa í sínum höndum athugun mála, undirbúning þeirra og endanlega ákvörðun. Lýðræðissinnar líta á ríkisstj. sem þjón þingsins, en ekki húsbónda: að þingið eigi að starfa að undirbúningi mála og rannsókn, að það þurfi til þess góðan tíma og þar megi engu flaustra af í því skyni einu að hafa þinghaldið sem stytzt.

Morgunbl. hefur í gær þessi ummæli eftir hæstv. dómsmrh.: „Við (þ.e.a.s. Sjálfstæðisflokksmenn) töldum, að það væri hyggilegra fyrir ríkisstj. og fyrir Alþ. og fyrir einstaka alþm., að menn fengju að vera alveg lausir við þingstörf, á meðan stjórnin væri að undirbúa nauðsynlegar till.“ Hér kemur greinilega fram sá skilningur, að Alþ. beri ekki að hafa frumkvæði, heldur skuli það og þm. taka við því, sem að þeim er rétt.

Þessi sami hæstv. ráðh. minnti á það s.l. laugardag, að í tíð vinstri stjórnarinnar hafi þingið starfað lítið á tímabilum um þingtímann. Hann gat þess ekki, hver var aðalskýringin eða orsökin til þess, en hún var sú, að stjórnarandstaðan þá var að heita mátti óvirk og sat með hendur í skauti. Sjálfstfl.-þm. höfðu þá ekkert til mála að leggja, hvorki til brýnustu vandamálanna né nokkurra annarra mála. Á meðan þm. vinstri flokkanna undirbjuggu lausn stórmálanna, sátu andstæðingarnir aðgerðalitlir og létu sér leiðast. En nú horfir hins vegar allt öðruvísi við. Þing er nýkomið saman, þingflokkar og einstakir þm. eru farnir að undirbúa flutning mála, till. og frv. hafa þegar á fyrstu vikunni verið lögð fram, bæði af hæstv. ríkisstj. og af einstökum þm. Þingstörfin eru að byrja og ekki útlit fyrir annað en næg mál liggi fyrir þegar í stað, athuganir nefnda og einstakra þm. og umr. á þingfundum. Samt leyfir hæstv. ríkisstj. sér að halda því fram, að þingið hafi ekkert að gera, það bara tefji fyrir, og óskar að losna við það. Finnst mér sannarlega, að með þessu sé skörin farin að færast upp í bekkinn og þetta séu sannkölluð öfugmæli.

Það er þingið, sem nú á ekki að fá starfsfrið fyrir hæstv. ríkisstj. Það er sannleikurinn í þessu máli. Frv. til fjárlaga fyrir árið 1960 er komið fram. Það hefur ekki enn verið tekið til 1. umr., sem þó ætti að vera auðvelt, úr því að frv. liggur fyrir. Að þeirri umr. lokinni fær hv. fjvn. nægilegt verkefni. Nei, það er vist, að verkefni þingsins eru nóg, og þess vegna út í bláinn sagt, að það bíði nú aðgerðalaust. Það hefur heyrzt hér á göngum þinghússins, að hæstv. fjmrh. fái í sig hroll hverju sinni sem minnzt er á fjárlagaræðu hans, að hann vilji umfram allt skjóta henni á sem lengstan frest, og er það kannske vorkunnarmál út af fyrir sig. En það tekur engu tali að senda þm. heim fyrir þær sakir. Það fylgir sögunni, að kvíði þessa hæstv. ráðh. muni valda áhuga hans á þingfrestun.

Það er kunnugt, að hæstv. ríkisstj. hefur vanrækt að leggja fyrir þetta þing mikilvægt og aðkallandi mál, sem lausn þarf að fá hið skjótasta, en það eru brbl. fyrrv. ríkisstj. Allir landsmenn bíða eftir því, að þingið taki það mál til meðferðar og afgreiðslu. Framleiðendur búvöru telja sig eiga inni svo og svo mörg prósent í launabótum. Neytendur sumir hverjir vefengja þann rétt. Og allir telja neytendur eðlilegt, verði launabótin veitt og búvaran hækkuð, að þá geti launþegar ekki bætt á sig þeirri byrði til viðbótar þeim, sem þeir þegar hafa á sig tekið. Framsfl. krefst þess, sem bændur telja sinn rétt í þessu máli. Alþfl. hefur neitað bændum um leiðréttingu, en Sjálfstfl. tvísteig fyrir kosningar a.m.k., en lofaði bændum þó fullri leiðréttingu. Alþb. hefur hins vegar lagt á það áherzlu og leggur á það enn, að Alþingi yrði að fjalla um þetta mál, taka það frá rótum og endurskapa alla löggjöf um verðlagningu landbúnaðarafurða. Hér er því um mjög viðkvæmt mál að ræða, sem þó þarf að leysa fljótt og Alþ. hefði strax í byrjun átt að fá til meðferðar. En hæstv. ríkisstj. hefur í þessu máli vanrækt að gera skyldu sína. Hún liggur á málinu, sennilega af því einu, að hún veit ekki sitt rjúkandi ráð. Í þessu máli er hún sjálfri sér sundurþykk, stefnulaus eða reikandi. Hún lætur það dankast í þeirri von, að tíð og tími færi henni einhverja hjálp og einhverja lausn. Og frestur er á illu beztur, hugsar þessi hæstv. ríkisstj. í þessu efni.

Hæstv. ríkisstj. virðist ganga illa að skilja það, að hún er að réttu lagi og á ekki að vera annað en tæki hins háa Alþingis. Henni ber að framkvæma vilja þingsins, létta undir með störfum þess og umfram allt veita því starfsfrið. Þjóðþing Íslendinga skipa 60 fulltrúar. Þeim öllum sem heild og hverjum einstökum verður að skapa sem bezt skilyrði til þeirra verka, sem þeim eru ætluð af þjóðfélaginu. Þeir verða að hafa starfsfrið allir sem einn. Ef ríkisstj. notar meiri hl. sinn á þingi til þess að torvelda minni hl. vinnubrögðin, gera honum erfitt fyrir að athuga og flytja mál og fylgjast með athöfnum stjórnarinnar, þá er sú ríkisstj. á hættulegum glapstigum, og þá er hún búin þegar að fyrirgera öllu trausti. Þennan sannleika er ástæða til að benda hæstv. ríkisstj. á, þótt undarlegt megi heita.

Því hefur eitthvað verið hreyft í málgögnum hæstv. ríkisstj., að heimsending þingmanna nú í þingbyrjun spari þjóðinni fé. Líklega er þetta sagt til þess að sætta almenning við þessa einkennilegu fyrirhuguðu þingfrestun. En þetta er lýðskrum, enda á það enga stoð í veruleikanum, nema því aðeins að hæstv. ríkisstjórn hyggist brjóta lög á hv. alþm. og hafa af þeim réttmæta þóknun, en til þess er henni þó ekki trúandi. Nei, það sparast ekkert á frestuninni, öðru nær. Þingfararkaup verður að greiða nær allan tímann og auk þess ferðalög þm. utan Reykjavíkur. Hitt er víst, að sú truflun og þær tafir, sem till. hæstv, ríkisstj. um þessa óeðlilegu þingfrestun veldur, auka á kostnað Alþingis, og er enn vandséð, hver sá kostnaðarauki verður.

Hæstv. ríkisstj. er ekki gömul í hettunni. Hún fæddist daginn, sem þetta þing, er nú situr, var sett. Þetta er því mjög ung ríkisstj., og mér finnst hún bera ungæðisháttinn utan á sér og vanþroskann. Hún leggur ekki fyrir þingið mikilsvert mál, brbl., sem Alþ. á fullan rétt á að fjalla um og nauðsyn er á að fjalla um fyrir 15. des. Hún leggur fjárlagafrv. fram, en kemur þó í veg fyrir, að það verði tekið til umræðu. Hún misskilur herfilega allt sitt hlutverk, svo herfilega, að hún leyfir sér að herska með hið háa Alþingi eins og hún væri herra þess, en ekki þjónn. Við allt þetta bætist svo, að hún virðist gersamlega stefnulaus í öllum málum, sem varða efnahag þjóðarinnar. Efnahagsmálin virðast vera henni eins og harðlæst hirzla. Og nú bíður hún eftir því, að einhverjir, sem hún kallar sérfræðinga sína, smíði henni lykil að þeirri hirzlu. Hún bíður í ofvæni og má engu öðru sinna. Í þeirri bið þolir hún enga truflun, og jafnvel dagleg störf þingsins fá á taugar hennar, ungrar og óreyndrar. Það er mikið óþol í þessari ungu ríkisstjórn, taugaóstyrkur, held ég. Líklega er það glímuskjálfti. Hún kvíðir fyrir verkefnunum, annaðhvort vegna þess, hve erfiða hún telur aðstöðu sína, eða þá vegna þess, að hún hefur eitthvað óvenjulegt á prjónunum. Hvað það gæti verið, veit ég ekki, en óhugnanlegur fyrirboði þess er vonandi ekki það, sem lesa má út úr síðasta Reykjavíkurbréfi Morgunbl., aðalmálgagns hæstv. ríkisstj. Þar er talað um, hvernig fyrri ríkisstjórnum hafi mistekizt lausn efnahagsvandans. Síðan segir svo orðrétt í Morgunbl.:

„Menn minnast og endalokanna á samstarfi sjálfstæðismanna og Framsóknar. Þess vegna er eðlilegt, að ýmsir efist um, hvort við vandamálin verði ráðið. En það kann í rauninni að verða um það að ræða, hvort unnt sé að stjórna hér á lýðræðislegan hátt.“

Hvað meinar blað hæstv. dómsmrh. með þessum bollaleggingum? „Það kann í rauninni að verða um það að ræða, hvort unnt sé að stjórna hér á lýðræðislegan hátt.“ Er það sjálfur hæstv. dómsmrh., sem skrifar þetta Reykjavíkurbréf? Ég endurtek spurninguna: Er það sjálfur hæstv. dómsmrh., sem skrifar slíkt bréf og varpar fram efasemd um, að unnt verði að stjórna hér á landi á lýðræðislegan hátt? Svari sá, sem svarað getur.

Það var kunnugt fyrir kosningar, að gamlir nazistar höfðu mjög fært sig upp á skaftið í Sjálfstfl. Margir vonuðu, að sá draugur væri nú kveðinn niður þar eftir ófarir flokksins í síðustu kosningum. En svo er máske ekki, og geta tilfærð orð Morgunbi. bent til þess, að einræðishneigðin lifi nú góðu lifi innan æðsta ráðs Sjálfstfl. En hvað segja Alþfl.-menn í hæstv. ríkisstj. um þennan einkennilega boðskap aðalmálgagns hennar? Eru þeir búnir undir að stjórna landinu á ólýðræðislegan hátt, ef svo ber undir, eins og félagar þeirra í Sjálfstfl. virðast gera? Ég er tregur til að trúa því þrátt fyrir allt. Og þó má hamingjan vita. Það á a.m.k. oft við um trúskiptinga, að þeir ráðist harðast á það, sem þeir áður vörðu og vernduðu.

Ég skal nú láta þessum orðum utan dagskrár lókið, aðeins bæta við fáeinum orðum. Ég tel, að hverja ríkisstj. beri að dæma af verkum hennar. Hæstv. ríkisstj., sem nú situr, er ný af nálinni. Óneitanlega virðist mér hún eitthvað undarleg og óburðug og fyrstu hræringar hennar klaufalegar og fálmandi.

Sýnilegt er af málgögnum hennar, að hún vantreystir sjálfri sér sem þingræðíslegri, lýðræðislegri stjórn. Hún miklar mjög fyrir sér erfiðleikana nú og básúnar þá í málgögnum sinum. Bjartsýni flokka hennar frá því fyrir kosningar er gufuð upp og horfin, en kvíði og hik komið í staðinn. Hæstv. ríkisstj. vantreystir sýnilega sjálfri sér til að leysa vandamálin á þann hátt einan, sem henni ber, þ.e.a.s. á lýðræðislegan hátt. Og hún er ekki ein um þetta vantraust. Einhverra hluta vegna vantreystir öll þjóðin þessari hæstv. ríkisstj. Hún telur hana ekki nógu styrka, ekki lýðræðislega nógu styrka. Þetta almenna vantraust er stjórninni hæstv. áskapað. En máske á hún eftir að losna við það, og væri þá vel. Með verkum sínum síðar gæti hún áunnið sér traust sjálfrar sín og annarra. Hún á það ógert enn, og því miður lofa byrjunarverk hennar engu góðu.

Ég hef mælt þessi orð nú sérstaklega í tilefni þess, að þótt í smáu sé, þá sýnist mér síðasta verk hæstv. ríkisstj. bera vott um skort á sjálfstrausti, en löngun til að sýna vald sitt, og í þetta sinn sýnir hún það með því að skipa svo fyrir, að gersamlega ónauðsynlegur kvöld- og næturfundur skuli haldinn hér í Ed., máske til að refsa hv. d. Hún gerir þetta vafalaust til að sýna vald sitt. A.m.k. sé ég enga aðra ástæðu til skipunarinnar.