17.03.1960
Sameinað þing: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

42. mál, fjárlög 1960

Frsm. l. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson) [frh.]:

Herra forseti. Ég var þar kominn í ræðu minni í gærkvöld, þegar fundi lauk, að hafa þakkað hv. formanni fjvn. fyrir þær upplýsingar, sem hann hafði gefið um það, að stöðvunarstefnan hefði lokið því hlutverki, sem henni hefði verið ætlað, að undirbúa jarðveg fyrir þá breytingu á efnahagskerfinu, sem nú er verið að gera, öll fyrirheit um framhald hennar hafi verið mælt út í bláinn og ekki haft við neitt að styðjast. Ég vil því byrja á því nú að endurtaka þakklæti mitt fyrir, að þessar upplýsingar skyldu vera hér gefnar, og ætla svo ekki að fara frekar út í það.

Þá kem ég næst að því, sem hv. formaður fjvn, talaði um þá breyt., sem við gerum á tekjuáætluninni, og þær tillögur, sem við flytjum til þess að ráðstafa þeim peningum, og talaði þar um gegndarlausar útgjaldatillögur og annað eftir því.

Eins og ég tók fram í gær, hefur það ekki verið stefna þeirra sjálfstæðismanna, sem var boðuð hjá formanni og nú síðast hjá hæstv. forsrh., að eðlilegt væri að hafa mikinn greiðsluafgang og þjóðin mundi njóta þess. Ég held, að það verði ekki um það deilt, að þjóðin naut þess greiðsluafgangs, sem varð í tíð hv. 1. þm. Austf., Eysteins Jónssonar, þegar hann var fjmrh. Þá var mesta uppbyggingartímabil í sögu þjóðarinnar, og einmitt góð afkoma ríkissjóðs kom þar mjög við sögu. Samt deildu hv. þm. endalaust á þetta, að fjárlagaafgreiðslan væri svo rúm og það væri varasamt að hafa svo mikinn greiðsluafgang eins og þar varð. Nú ætlast þeir samt til, að til þeirra verði afgreidd fjárlög frá hv. Alþ., sem fyrirsjáanlega eru með mun meiri greiðsluafgangi en þá átti sér nokkru sinni stað. Það eina, sem gæti borið á milli samkv. þessu, sem við höfum hér upplýst, er það, hvort sú almenna fátækt, sem þeir ætla sér að koma á, komi það fljótt til framkvæmda, að hún geti skorið kaupgetuna niður mjög bráðlega.

Samkv. því, sem ég upplýsti hér í framsöguræðu minni í gær, eru allar tillögur þeirra um innflutning miðaðar við það, að hann sé skorinn niður um 14% – eða fast að því 20% , þegar miðað er við þá fólksfjölgun, sem átt hefur sér stað síðan 1958. Samkv. þeim tölum, sem við höfum lagt hér fram og sýnt og öruggar eru og eru í nál. okkar, þá er í verðtolli, vörumagnstolli, innflutningsgjaldi og söluskatti hér um 210 millj. kr. upphæð að ræða. Þar við bætist, að áætlunin af söluskattinum nýja er líka miðuð við þennan innflutning. Það er gert ráð fyrir í þeim áætlunum, sem þetta er byggt á, að innflutningur á neyzluvörum minnki á árinu 1960, miðað við 1958, um 40 millj. kr. Finnst mönnum það nú trúlegt, að þannig fari, að þetta geti átt sér stað, þegar tillit er tekið til fólksfjölgunar ofan á annað? Þá er líka gert ráð fyrir því, að innflutningur á olíu, benzíni og kolum minnki um 7 millj. kr. og rekstrarvörur sjávarútvegs og landbúnaðar um 10 millj., byggingarvörur um 36 millj., og þannig mætti lengi telja. Við höldum því hiklaust fram, Framsóknarflokksmenn, að þrátt fyrir það, þótt að því sé stefnt að skapa hér það mikla fátækt og það mikla erfiðleika í fjármálum, að kaupgetan hljóti að minnka, þá muni ekki vera hægt að koma því við á svo stuttum tíma. Og þegar svo er haft í huga, að það er verið að tala um frjálsan innflutning meira en nokkru sinni fyrr, þá stangast þetta mjög á. En það, sem hér er á ferðinni, er sá stefnumunur, sem er á milli okkar og þeirra. Okkar hugsun er, að fyrst þessar álögur eru allar teknar af almenningi í landinu, þá eigi að nota það til uppbyggingar, en ekki láta ríkisstj. hafa það til ráðstöfunar eftir sínu höfði. Hins vegar er það stefna stjórnarliða, að álögurnar skuli taka af almenningi, til þess að verði hægt að koma því efnahagskerfl við, að fátæktin verði skömmtunarstjóri. Það er þetta, sem er meginmunurinn á milli skoðana þeirra og okkar. Þeim er það fullkomlega ljóst, að hverjar sem áætlanir um tekjur á fjárlögunum verða, þá mun þetta koma í ríkissjóð. En þeir ætla sér bara að hafa það til ráðstöfunar sjálfir, og þeir þurfa að ganga svona langt í álögunum, til þess að efnahagskerfl fátæktarinnar fái að þróast hér.

Eins og ég tók hér fram í framsöguræðu minni í gær, þá kom það greinilega fram hjá ráðuneytisstjóranum í efnahagsmrn., að hann gerir ráð fyrir því, að það verði verulegur tekjuafgangur á þessu ári, en þurfi að leggja á allar þessar álögur, til þess að nýja efnahagskerfið geti komið í framkvæmd. Ef við hefðum staðið hér frammi fyrir annarri mynd, þar sem ekki hefði verið gert ráð fyrir þessum álögum, sem hér eru nú til staðar, þá hefði líka okkar sjónarmið markazt af því.

Hv. formaður fjvn. sagðist hafa reiknað með sérstakri ábendingu og stuðningi frá okkur við fjárlagaafgreiðsluna. Ég verð að segja það, að mér finnst hv. þm. geta einmitt sagt það, að þannig höfum við hagað okkur í fjárlagaafgreiðslunni. Við flytjum hér ekki neinar sýndartillögur. Við viljum bara, að Alþ. skipti meira af þeim tekjum, sem stjórnarliðið ætlar að taka. Við erum ekki að koma hér með sparnaðartillögur, sem eru óraunhæfar, og ég gerði grein fyrir því í gær, að við vildum ekki flytja slíkar tillögur, heldur hitt, að það yrði tekin upp allsherjarathugun, t.d. á utanríkisþjónustunni, með sparnað fyrir augum, og það yrði svo undirbúið, að það yrði ekki látið dragast lengur en til næstu fjárlaga að koma því í framkvæmd. Þess vegna eru okkar tillögur miðaðar við það, sem hv. þm. sagðist hafa treyst okkur til, og við erum auðvitað mjög ánægðir með að hafa ekki brugðizt því trausti hans, því að inn á sér veit ég að hann finnur það. Hitt er annað mál, að við ætlumst ekki til, að hæstv. ríkisstj. hafi óbundnar hendur til þess að valsa með stórar fjárfúlgur, sem hún er búin að ákveða að taka af þjóðinni umfram það, sem hún áætlar í fjárlögunum.

Hv. 6. þm. Norðurl. e., frsm. fjvn., talaði um það í framsöguræðu sinni í gær, að þeir færu hér að eins og hygginn bóndi, sem væri búinn að framkvæma mikið og hugsaði sér, að nú skyldi verða stöðvun og hann ætlaði að draga úr framkvæmdunum í bili. Finnst ykkur það nú, hv. þm., að góðir bændur, hyggnir bændur mundu telja það hyggilegt að hætta við framkvæmdirnar, en auka rekstrarkostnaðinn svo gífurlega eins og hæstv. ríkisstj. gerir á fjárlagafrv.? Haldið þið, að sá búskapur, sem þannig væri rekinn, væri líklegur til þess að vera af hyggindum rekinn? Haldið þið, að bóndi, sem ætlaði sér að hætta að framkvæma, tæki eyðslulán, eins og núv. hæstv. ríkisstj. gerir, í staðinn fyrir uppbyggingarlán, eins og tekin hafa verið? Nei, hygginn bóndi mundi ekki hafa farið þannig að. Hann mundi hafa farið að eins og farið hefur verið að nú síðustu árin, byggja upp til þess að auka framleiðsluna, búa sig betur undir framtíðina. Hann mundi líka hafa ætlað sér að njóta þeirra verka, sem hann áður hefði gert, og hefði gert það og mun gera það, ef hann hefði haldið þeirri stefnu áfram, sem þá var fylgt. En í staðinn fyrir að halda áfram við uppbyggingarstefnuna á nú að taka eyðslulán og auka rekstrarkostnaðinn jafngífurlega og gert hefur verið nú á þessu ári.

Það er greinilegt, að nú á tveim síðustu árum hafa fjárlög íslenzka ríkisins hækkað yfir 500 millj. kr., ef við bætum niðurgreiðslunni inn á fjárlögin 1958, en fjárframlög til samgangna og til atvinnuveganna hafa á sama tíma hækkað á fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, um 50 millj. kr. Þessi þróun er uggvænleg.

Ég lýsti andstöðu minni á því við fjárlagaafgreiðsluna hér í fyrra, hvernig þá var haldið á fjármálum, þegar var farið að eyða 16 eða 17 millj. kr. í að greiða niður sjúkrasamlagsgjöld, sem nam 13 kr. á einstakling á mánuði. Þess háttar vinnubrögð í fjárlagaafgreiðslu eru ekki hyggileg. Það er nú haldið áfram á sömu braut. Það er búið að hafa hér niðurgreiðslur síðan 1943 eða 1944, en frá því í árslok 1958 til fjárlaganna nú hafa þær meira en tvöfaldazt. Það er þessi stefna, sem nú er að taka hér völdin, það er stefna fátæktarinnar, sem nú er verið að innleiða, og það er kannske ekkert, sem sannar betur, að ríkisstj. er ljóst, að hún er að innleiða hér fátækt, heldur en það, að hún skuli hér á hv. Alþ. telja það óeðlilegt, að fólk á bezta aldri geti séð fyrir einu barni. Þessi stefna ríkisstj., að það þurfi að tryggja fólk, sem á eitt barn, fyrir aðgerðum hennar, sýnir greinilega, hvert stefnt er. Það er því ekki undarlegt, þó að þeir séu í andstöðu við þá uppbyggingarstefnu, sem við framsóknarmenn höfum fylgt og fylgjum. En þeir eiga ekki á sama tíma að tala um það, að þeir fari að eins og hyggnir bændur.

Ég mun ekki tímans vegna eyða lengra máli í að svara því, sem fram hefur komið í almennum umr. hér um fjárl., en víkja aðeins að brtt., sem ég flyt hér ásamt hv. 1. þm. Vesturl.

Eins og fram kom í framsöguræðu minni um vinnubrögð í fjvn., var það gott dæmi um hina samræmdu stefnu hæstv. ríkisstj. að ljúka þeim brúm, sem fjárveitingar höfðu fengið á þessu ári, að á síðustu fjárlögum og fjárlögum þar áður var geymslufé til einnar brúar í Mýrasýslu, á Norðurá hjá Króki. Þetta geymslufé var 1/2 millj. kr., og samkv. þeim áætlunum, sem ég hafði fengið um brúargerðina við fjárlagaafgreiðslu í fyrra, átti það að vera nokkurn veginn öruggt, að fjárveiting fengist til þess, að verkið yrði unnið á yfirstandandi ári. Nú er það talið hyggilegt að láta þessa brú bíða, þó að hún ætti geymslufé upp á hálfa millj. Það var af því, að hv. fyrrv. þm. Mýr., núverandi 3. þm. Vesturl., hafði áhuga fyrir henni. En það var sanngjarnt, að aðrar brýr væru teknar fram yfir hana, sem þó átti svo mikla fjárhæð geymda. Þetta eru vinnubrögð hinnar nýju kjördæmaskipunar. Þetta er gott dæmi um samstarfið á milli þingmanna. Og svo laglega var þessum málum fyrir komið, að þó að við þingmenn Vesturlandskjördæmis legðum sameiginlega tillögur fyrir hæstv. samgmrh., þá var okkur ekki svarað, heldur var send till. í fjvn., hvernig með málið skyldi fara. Við höfum ekki fengið þær upplýsingar, sem við báðum ráðh. um og okkur var lofað.

Ég geri till. um það, að inn á fjárlög þessa árs verði tekin 700 þús. kr. fjárveiting, svo að hægt verði að byggja þessa brú á yfirstandandi ári, og ég treysti því í lengstu lög, að það verði talin gild rök hér á Alþ., að verk, sem er farið að safna til fjárveitingu, ekki minni en hér var þó orðið, eigi rétt á sér til að hljóta afgreiðslu á borð við það, sem komið er með hér í fyrsta sinn, og þegar þar við bætist, að hér er um brú að ræða á slæmu vatnsfalli, og það á leið, sem hugsuð er framtíðarleið á milli Norður- og Suðurlands.

Á sama þskj., þskj. 203, flytjum við einnig, við hv. 1. þm. Vesturl., till. um fjárveitingu til brúar á Haukadalsá í Dalasýslu. Það tókst nú einhvern veginn þannig til, að þessar tvær sýslur verða út undan um fjárveitingar í brýr að þessu sinni, Mýrasýsla og Dalasýsla, og er sennilega þar tilviljunin ein, sem ræður.

Þá höfum við einnig flutt hér till. um, að fjárveiting til Akranesshafnar verði 2.3 millj. kr. Ástæðan til þess, að við flytjum þessa till. og hér er farið fram á svo háa fjárhæð, er sú, að gengisbreyting slík sem gerð var í febrúar s.l. skapar Akraneshöfn þessa útgjaldaaukningu á árinu 1960, skapar Akraneshöfn 2.3 millj. kr. útgjaldaaukningu á árinu 1960. Ég hef haldið því fram í fjvn., að engum manni hefði dottið í hug, að þessi höfn, sem svo mikið á inni hjá ríkissjóði, yrði án fjárveitingar á yfirstandandi ári. En þó að þessi till. okkar yrði samþykkt, þá þýðir það sama og Akraneshöfn hefði ekki fengið fjárveitingu, vegna þess að þetta er bara sú útgjaldaaukning, sem gengisfallið skapar höfninni á yfirstandandi ári. Það fékkst ekki tekið undir þetta í fjvn., og þess vegna gerum við hér tilraun til að fá þessu breytt hér á hv. Alþ. Til vara gerum við till. um það, að til þessarar hafnar verði veitt 1.5 millj. kr., og er það algert lágmark, þó að hitt sé ekki nema það eðlilega. Ég treysti hv. þm. til þess að koma til móts við þennan mikla framfara- og útgerðarbæ, Akranes, og láta hluta hans vegna efnahagsráðstafananna ekki verri en það, að hann fái enga fjárveitingu til sinnar hafnar, en þannig er útkoman, ef hann fær 2.3 millj. kr. Bæjarráð Akraness allt og hafnarnefnd hafa skorað á okkur þm. Vesturl. að beita okkur fyrir þessu máli, og ég treysti því, að á því muni ekki standa.

Þá höfum við einnig gert till. um það, að hækkuð verði fjárveiting til hafnarinnar í Ólafsvík. Eins og kunnugt er, er það mikill útgerðarstaður og vaxandi, en hafnarskilyrði hafa verið erfið. Það er kunnugra manna mál þar heima fyrir, að þessi fjárveiting mundi nægja þeim til þess að ná þeim áfanga, sem þeir stefna að nú. Ég treysti því, að hv. þm. muni einnig hafa þessa skoðun á málunum, að það sé nauðsynlegt að styðja þennan stað.

Að öðru leyti mun ég ekki ræða bessi mál frekar að sinni.