17.03.1960
Sameinað þing: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1611 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

42. mál, fjárlög 1960

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér hér að flytja nokkrar brtt. ásamt hv. 3. þm. Vesturl. (HS). Brtt. þessar, sem ég mæli fyrir, eru á þskj. 203.

Fyrsta till. er um að fá hækkaða fjárveitingu til Fróðárhreppsvegar, en vegur þessi liggur úr Fróðárhreppnum og fyrir svokallaðan Búlandshöfða til Grundarfjarðar. Framkvæmdin er allkostnaðarsöm, og mun því varla af veita að veita meira fjármagn til þessa vegar en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv.

Þessir staðir, sem eiga þarna í hlut, annars vegar Ólafsvík og hins vegar Grafarnes, búa nálægt beztu fiskimiðum landsins, framleiðsla, atvinna og uppbygging á þessum stöðum hefur verið með mjög miklum blóma og myndarbrag á undanförnum árum og þarna býr dugandi og framtakssamt fólk. Og það mundi því glæða áhuga þess, ef því væri sómi sýndur af hinu opinbera við að bæta aðstöðuna til þess að afla fisks úr sjó, því að þessi samgöngubót mundi verulega bæta fyrir þessum sjávarþorpum, ef hún kæmist á. Þegar ekið er kringum Snæfellsnes, mundi leiðin styttast allverulega, þegar vegurinn kemst fyrir Búlandshöfða. Þegar farið er úr Grundarfirði til Ólafsvíkur, verður að aka fyrir Kolgrafafjörð yfir Kerlingarskarð og svo aftur vestur yfir Fróðárheiði. En kæmist þessi samgöngubót á milli Fróðárhrepps og Grundarfjarðar, mundi þessi leið styttast um nálega 90 km. þegar vegurinn kemst fyrir Búlandshöfða.

Þessi samgöngubót kostar að vísu mikið fé. En hún sparar, þegar hún kemst á, allmikið fjármagn, bæði innlent og einnig erlent, þar sem hún mundi bæði spara talsvert í benzíni og öðru, sem bifreiðar þurfa til síns rekstrar. Svo er eitt í þessum málum, að Grafarnes mun tilheyra sama læknishéraði og Ólafsvík og það er mjög kostnaðarsamt að sækja lækni frá Grafarnesi, a.m.k. suma tíma árs, ýmist til Stykkishólms eða þá til Ólafsvíkur. En þegar vegurinn kemst fyrir Búlandshöfða, bætist þessi aðstaða mjög mikið. Fólki fjölgar mjög ört í Grafarnesi og auk þess dveljast þar miklu fleiri yfir vertíðina, og það er því mikið nauðsynjamál allra hluta vegna, að hægt sé að hraða þessari framkvæmd, þ.e. vegarlagningu fyrir Búlandshöfða, eins og unnt er.

Till. sú, sem ég flyt hér ásamt hv. 3. þm. Vesturl., er svo hófleg, bar sem ekki er um nema 100 þús. kr. hækkun á fjárveitingu að ræða, að ég vænti þess, að hv. þm. sjái sóma sinn í því að samþykkja hana.

Þá er hér önnur till. á sama þskj., og hún er varðandi vegarlagningu yfir Heydal. Flestum hv. þm. er þetta mál kunnugt frá undanförnum þingum, því að þar höfum við jafnan farið fram á, að þessari vegarlagningu væri hraðað meira en raun hefur borið vitni um. En það fjármagn, sem fengizt hefur til Heydalsvegar á undanförnum árum, hefur að mestu leyti verið notað til vegagerðar á Skógarströndinni. Og nú er senn þeirri vegarlagningu lokið að Bíldhóli á Skógarströnd, en þaðan er meiningin að vegurinn liggi yfir Heydalinn til Hnappadals í Snæfellsnessýslu, og þá er komið í vegasamband á þann veg, sem liggur til Stykkishólms og aftur til Reykjavíkur. En þessi vegur tryggir einkum samgöngurnar við innfirði Breiðafjarðar, þ.e. við Hvammsfjörð innanverðan og einnig Gilsfjörð. En það er altítt, að eins og nú er háttað, þegar snjóar og ísar ganga, þá eru þeir fjallvegir, sem nú liggur vegur yfir, eins og Brattabrekka, ófærir kannske marga mánuði, og á sama tíma getur Hvammsfjörð og Gilsfjörð lagt, þannig að það komist ekki bátur inn á neinar af þeim höfnum, sem liggja við þá firði. En Heydalur liggur það miklu lægra en Brattabrekka og miklu lægra en Kerlingarskarð líka, að þar eru að jafnaði ekki meiri snjóar en eru í byggð. Vonir standa því til, þegar þessi vegur kemst á, að hann tryggi samgönguöryggið við innsveitir Breiðafjarðar miklu meira en nú er hægt að segja um þær samgöngur, því að það getur komið fyrir, eins og vorið og seinni hluta vetrar 1949, að það verði ekki farið vestur í Dali, hvorki á bílum yfir Bröttubrekku eða á bátum inn Hvammsfjörð né á flugvél. — Þannig var það vorið 1949, og þó að hin síðari ár hafi slíkt ekki komið fyrir, þá getur það alltaf hent sig. Þess vegna ber að vera á varðbergi fyrir því að treysta samgönguöryggi, og það gerum við bezt með því að hraða vegarlagningu yfir Heydal. En miðað við vegalengd hygg ég, að þessi vegur verði ekki svo kostnaðarsamur, þar sem þarna er fremur jafnlent og ekki þörf á mörgum brúm, en það eru einkum ræsin og brýrnar, sem hleypa vegakostnaðinum upp, en þar sem er jafnlent og hægt að nota skurðgröfur, þar eru vegir yfirleitt ódýrir. Þarna er einnig farið fram á mjög hóflega hækkun eða um 100 þús. kr., og vænti ég því sömuleiðis, að þingmenn samþ. þessa till.

Þá flytjum við hér einnig þriðju till. varðandi vegi, og það er um Gilsfjörðinn á Vesturlandsvegi. Nú fyrir skemmstu var opnuð ný leið til kauptúna og kaupstaða á Vestfjörðum, og því ber að sjálfsögðu að fagna. En leiðin til Vestfjarða liggur um Vesturlandsveg meðfram Gilsfirði, en þar er enn þá vegur slæmur og verður stundum að sæta sjávarföllum, til þess að hægt sé að komast leiðar sinnar. Hafa þetta orðið vonbrigði mörgum ferðamanninum. En þessi vegur meðfram Gilsfirðinum tengir í raun og veru Vestfirðina við alla hina landsfjórðungana og er því orðinn mjög fjölfarinn nú og mun verða enn þá fjölfarnari í framtíðinni, þar sem nú mun í fyrsta sinn á næsta sumri vera hægt að aka alla leið á bil til Ísafjarðar og fleiri staða á Vestfjörðum. Mér finnst því sérstaða þessa vegar vera þannig, að það beri að skoða hann sem hvern annan millihéraðaveg hér á landi. Og ég hygg, að hann muni ekki komast svo auðveldlega áfram, ef hann verður ekki tekinn í millihéraðavegatölu og fjár aflað til hans samkv. því, sem um þá vegi gildir. Það er líka nokkuð sérstakt við vegarlagningu í Gilsfirði, að þar er ekki hægt að taka veginn í smááföngum og hafa not af honum jafnframt, vegna þess að það er svo mikill halli frá því, þar sem vegurinn mun eiga að koma, og niður í fjöruna, að það er útilokað, að það sé hægt að taka fyrir smákafla og nota gamla veginn jafnframt. Það verður því að taka þennan veg á sem skemmstum tíma, svo að hann komist í notkun allur samtímis. Það er því höfuðnauðsyn, til þess að notist að vegagerð í Gilsfirði, að vegarlagningu þar sé hraðað mjög mikið, enda hygg ég, að ef veitt væri til Gilsfjarðarvegar rífleg upphæð í tvö ár, þá ætti að vera hægt að koma. þeim vegi í nothæft ástand. Og þar sem þetta mál er kannske engum landsmönnum jafnnauðsynlegt og Vestfirðingum, þá vænti ég sérstaklega þeirra stuðnings í þessu máli, því að ég veit, að þeir hafa öðrum fremur kvartað undan slæmum vegi þarna, og ég veit líka, að þeir munu nú, þegar þeir leggjast allir á eitt, reyna að gera sitt bezta í málinu, svo að vegur þessi komist á og vegarlagningu verði hraðað mjög mikið. Og standi þingmenn Vestfirðinga einhuga í þessu máli, þá efast ég ekki um, að það verður hægt að hefja framkvæmdir þegar á næsta sumri.

Það má segja, að það sé nokkuð bitur staðreynd, að á sama tíma og verið er að margfalda stórkostlega alla skriffinnsku og þenja út ríkisbáknið hjá hæstv. ríkisstj., þá er jafnframt minnkað til stórra muna allt framlag þess opinbera til framkvæmda í landinu, því að yfirleitt eru sömu upphæðir látnar haldast vitandi það, að kostnaður við allar framkvæmdir verður stórum meiri en nokkru sinni hefur þekkzt í þessu landi áður. Mér finnst, að það hljóti að vera lágmarkskrafa þeirra, sem landið byggja, að þeir séu ekki sveltir inni sakir þess, að vegir séu þar slæmir eða ár óbrúaðar og að hafnarmannvirki grotni niður, enda gengur þessi stefna hæstv. ríkisstj. í andstæða átt við öll þau loforð, sem þeir flokkar, sem að henni standa, gáfu fyrir þær tvennar kosningar, sem fóru fram á s.l. ári. Sjálfstæðismenn lofuðu alls staðar gulli og grænum skógum, en eftir að þeir komust til valda, eftir að þjóðin hafði skapað þeim þann meiri hluta, að þeir gætu farið með völdin í landinu, þá blasir eymd og auðn við í staðinn fyrir loforðin um gull og græna skóga.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast hérna á það, að í þau tíu ár, sem ég hef átt sæti á þingi, hefur hagur ríkissjóðs aldrei verið svo slæmur, að það hafi ekki verið hægt að veita svo mikið sem eina smáupphæð á fjárlögum til brúargerðar í Dalasýslu, og mér er það minnisstætt, að á s.l. vori héldu sjálfstæðismenn því fram, ekki síður í Dalasýslu en annars staðar, að um leið og nýja kjördæmabreytingin öðlaðist gildi, þá væri það trygging fyrir auknum og öruggari framkvæmdum á landsbyggðinni. En hver er reyndin? Hver er reyndin fyrir Dalamenn? Hún er algerlega gagnstæð. Og þetta örlitla dæmi, að nú í fyrsta sinn á tíu árum skuli ekki fást nein fjárveiting til brúargerðar í Dalasýslu, talar sínu máli. Og það var það, sem margur gjörhugull maður í landi voru hugleiddi líka á s.l. vori, að kjördæmabreytingin yrði til þess e.t.v. að leggja í eyði, ekki einstök býli, heldur og jafnvel heilar sveitir á landsbyggðinni, og það er ég sannfærður um, að ef sú stefna, sem nú er verið að taka upp í þjóðmálum og ekki sízt að því er varðar framfarir og framkvæmdir í landinu, á að ráða á næstu árum, þá mun margur hverfa frá sinni yrkju úti á landsbyggðinni og á mölina í bæjunum, því að við vitum það ósköp vel, að svo mikið er ógert víða á landsbyggðinni, að þar má ekki stöðvast við, og það er lágmarkskrafa þeirra, sem dreifbýlið byggja, að ekki sé slakað á á sviði framfaranna, eins og nú er gert. En það kemur greinilega fram, hvar sem borið er niður, að það eru framfarir í þágu þjóðarframleiðslunnar, sem eiga að bíða hnekki við það, sem nú er verið að aðhafast í fjármálum hjá hinu opinbera. Ég vænti því þess, að sú stefna, sem hér er upp tekin, verði fljótlega stöðvuð og áfram haldið á þeirri uppbyggingarbraut, sem þegar var hafin, áður en þessi stjórn komst að völdum.

Ég vil að lokum mælast til þess, að hv. alþm. samþykki þær brtt., sem ég hef hér lagt fram og talað fyrir, og einnig samþykki þeir þær brtt., sem ég flyt hér ásamt öðrum þingmönnum.