17.03.1960
Sameinað þing: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1625 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

42. mál, fjárlög 1960

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Hæstv. forseti hefur mælzt til þess, að menn yrðu stuttorðir, og ég vil verða við þeirri ósk hans. Þrátt fyrir það, þótt ég hefði gjarnan viljað ræða að örlitlu leyti um það fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, þá mun ég nú við þessa umr. ekki fara inn á það.

Í sambandi við brtt. á þskj. 206 eru nokkrar till„ sem ég er meðflm. að ásamt 1., 3. og 5. þm. Norðurl. v. Hv. 3, þm. Norðurl. v. hefur þegar gert grein fyrir þessum till., og hef ég í sjálfu sér ekki miklu þar við að bæta. Ég vil þó með nokkrum orðum ræða þessar till.

Eins og flestum hv. alþm. mun kunnugt, er Siglufjarðarkaupstaður mjög einangraður frá öðrum byggðarlögum, Í flestum árum er vegasamband við fjörðinn lokað í 8–9 mánuði ár hvert vegna snjóa. Flestir, sem til þekkja, hljóta að vera sammála um, að slíkt ástand er lítt viðunandi, sérstaklega ef það er haft í huga, hvaða þýðingu Siglufjörður hefur í atvinnumálum þjóðarinnar. Siglufjörður er stærsti síldarbær á Íslandi. Þar eru á milli 20 og 30 síldarsöltunarstöðvar, og hefur söltun síldar sum árin orðið á annað hundrað þúsund tunnur. Í Siglufirði eru stærstu og fullkomnustu síldarverksmiðjur landsins, sem geta, ef þær eru í fullum gangi, brætt upp undir 30 þús. mál síldar á sólarhring. Eins og að líkum lætur, þarf mikinn fjölda fólks við vinnuhagnýtingu síldaraflans. Á hverju vori koma því til bæjarins hundruð og jafnvel þúsundir af verkafólki til vinnu við síldina. Má því segja, að frá því byrjun júní og fram í september sé sami straumur af fólki til og frá Siglufirði. Nú eru vegasambönd við fjörðinn þannig, að það er ekki óalgengt, að vegurinn yfir Siglufjarðarskarð lokist yfir sjálfa sumarmánuðina. Slíkt ástand er vitanlega óviðunandi og getur haft hinar alvarlegustu afleiðingar í för með sér. Það má benda á, að yfir sumarmánuðina fara vöruflutningar til kaupstaðarins fram á bílum að miklu leyti. T.d. öll sú mjólk og mjólkurafurðir, sem koma frá Skagafirði, er flutt landleiðina. Það er ekki óalgengt, að þessir flutningar stöðvist vegna snjókomu uppi í Skarði, en við það verður bærinn vitanlega mjólkurlaus í lengri eða skemmri tíma. Þegar slík hret koma, stöðvast vitanlega allar bilaferðir yfir skarðið, og komið hefur fyrir, að fólk, sem hefur ætlað sér að koma til Siglufjarðar til atvinnu, hefur orðið að bíða dögum saman vestur í Skagafirði, áður en það komst á áfangastað.

Siglfirðingum hefur frá upphafi verið það ljóst, að bygging Skarðsvegarins var engin endanleg lausn á vegasambandinu við Siglufjörð, heldur aðeins bráðabirgðalausn. Í því sambandi má benda á, að Skarðsvegurinn hefur aldrei verið kláraður, t.d. eru stórir kaflar á þeim vegi, sem aldrei hafa verið malbornir, og sumir partar vegarins byggðir til bráðabirgða og allmjög horfið frá upphaflegum mælingum hvað breidd og hæð vegarins viðkemur. Allt þetta hefur að sjálfsögðu haft þær afleiðingar, að umferð um veginn hefur stöðvazt fyrr en ella, þegar snjór hefur komið.

Um varanlegt vegasamband við Siglufjörð hefur oft verið rætt og mikið um það mál ritað. Flestum ber saman um það, að úr þessu verði að bæta. Ég minnist þess, að á öllum þeim stjórnmálafundum, sem ég hef verið á og hef haft fregnir af, þar sem þetta mál hefur borið á góma, hafa fundarboðendur, í hvaða flokki sem þeir hafa annars verið, lýst sig sammála því, að þetta mál yrði að leysa og það sem allra fyrst. En einhvern veginn er það nú samt svo, að áhugi sumra hv. alþm. eftir kosningar hefur ætið dvínað og þannig hefur ekki orðið úr framkvæmdum.

Fyrir allmörgum árum var um það rætt, að bezta og tryggasta leiðin til lausnar vegasambandinu við Siglufjörð meiri hluta ársins væri að leggja nýjan akveg fyrir Stráka, þ.e. fjallið út með Siglufirði að vestan, út með Hvanneyrarströnd og inn fjallið að vestan, inn svokallaðar Dalaskriður og Almenninga og tengja þannig hinn nýja veg við Skarðsveginn rétt fyrir utan Hraun. Við rannsókn og athuganir, sem skrifstofa vegamálastjóra lét gera á hinu fyrirhugaða vegarstæði, komust verkfræðingarnir að þeirri niðurstöðu, að sjálfsagt væri að taka veginn í gegnum fjallið við svokallaðan Landsenda. Göngin í gegnum fjallið eru 900 m eða tæpur km. Árið 1955 var svo Strákavegurinn tekinn inn á vegalög, og þá eða um það leyti ákvað vegamálastjóri, að hinn fyrirhugaði vegur skyldi lagður í gegnum fjallið. Samkv. kostnaðaráætlun, sem vegamálastjóri hefur gert eða látið gera, var talið, að vegurinn mundi kosta yfir 12 millj. kr. Með þeirri kollsteypu, sem nú hefur verið gerð á öllu efnahagskerfl þjóðarinnar, er sú áætlun sem og aðrar áður gerðar áætlanir úreltar. Ekki skal um það fullyrt, hvað áætlunin hækkar mikið, en ekki er ólíklegt, að það muni nema mörgum millj. kr.

Að tilhlutan bæjarstjórnar Siglufjarðar var á þinginu í fyrra flutt frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til lántöku vegna lagningar Siglufjarðarvegar ytri, að upphæð allt að 12 millj. kr., og var sú upphæð byggð á kostnaðaráætlun vegamálastjórans. Vextir af lánum skyldu greiddir með sérstökum bílaskatti, þannig að hver bifreið, sem færi gegnum bilagöngin. greiddi ákveðið gjald eftir nánara samkomulagi réttra aðila. Frv. var ekki samþykkt, en því var vísað til ríkisstj. með ósk um, að hún, þ.e. ríkisstj., greiddi fyrir málinu, eftir því sem ástæður leyfðu. Eftir því sem ég veit bezt, hefur fyrrv. hæstv. ríkisstj. og núverandi hæstv. ríkisstj. ekkert gert í málinu. Aftur á móti hefur framlag til Siglufjarðarvegar ytra, þ.e. Strákavegarins, lækkað úr 500 þús. kr. í 200 þús. kr. á fjárlögum fyrir 1960. Reyndar var fyrst lagt til, að vegurinn væri alveg settur út úr fjárlögum, með því að leggja til, að öllu því fé, sem áætlað var til Siglufjarðarvegarins, skyldi varið til að malbera veginn frá Selá til Haganesvíkur. Ég skal fúslega viðurkenna, að hin mesta nauðsyn er á því að ljúka við þennan vegarkafla og slíkur vegur er til mikilla hagsbóta fyrir alla þá, sem þurfa að leggja leið sína um Fljót og til Siglufjarðar. Hitt er jafnaugljós staðreynd, að vegasambandið við Siglufjörð er óleyst eftir sem áður og að mínum dómi óframbærilegt að leggja til að svo gott sem strika þennan veg út úr fjárlögum í ár. Enn þá er mikið verk óunnið, áður en t.d. hægt er að bjóða verkið við bilagöngin út, en það hefur verið talað um að gera það. Auk þess er alveg sjálfsagt að halda áfram með nauðsynlegan undirbúning að vegarlagningu út Almenninga og um Dalaskriður, en á því verki var byrjað s.l. sumar. Miklar líkur eru fyrir því, að bygging þessa vegar með jarðgöng í gegnum Stráka verði ekki framkvæmd nema með stórlántökum. Annars mundi vegarlagningin taka marga tugi ára. Hitt er jafnnauðsynlegt, að veitt verði álitleg upphæð til vegarins í ár, svo að hægt sé að ljúka öllum nauðsynlegum undirbúningi, þ. á m. að sprengja inn í fjallið a.m.k. 25 m til viðbótar þeim 25 m, sem þegar hafa verið sprengdir inn. Þá fyrst, þegar komið væri það langt inn í fjallið, verður hægt að gera sér glögga grein fyrir því, hvernig bergið er, en eins og nú er, er það ekki hægt. Fyrir því höfum við leyft okkur að flytja till. á þskj. 206, að fjárveiting til Siglufjarðarvegarins ytra verði hækkuð í 800 þús. kr.

Önnur till., sem ég er meðflm. að, er, að á fjárlögum þessa árs verði veittar 300 þús. kr. til flugvallargerðar á Siglufirði.

Flugsamgöngur við Siglufjörð eru mjög stopular. Þar er enginn flugvöllur og því aðeins flogið þangað með sjóflugvélum. Nú er þeim málum þannig komið, að sú eina sjóflugvél, sem þangað hefur verið flogið, er gömul og úrelt og mjög úr sér gengin og er nú t.d. tekin úr umferð til aðgerðar. Ekki eru miklar líkur fyrir því, að Flugfélag Íslands eða aðrir aðilar kaupi nýjar sjóflugvélar til innanlandsflugs. Siglufjörður verður því án flugsamgangna, ef ekki verður að því horfið að byggja þar“ flugvöll. Að dómi sérfróðra manna er hægt að byggja flugvöll austan fjarðarins á svokölluðum Skútugranda. Þarna mundi þurfa að fylla allmikið upp, jafnvel út á leiruna austan og innan við fjörðinn. Nægileg uppfyllingarefni eru þarna til á staðnum og því mikið af vinnunni vélavinna.

Það þarf ekki að hafa um það mörg orð, hvers virði það er að hafa sæmilegar flugsamgöngur. Íbúar þeirra staða og héraða, sem nú þegar hafa slíka aðstöðu, ættu að geta skilið afstöðu okkar Siglfirðinga til þessa máls. Eins og nú er ástatt í þessum málum hjá okkur, þurfum við að fara annaðhvort til Sauðárkróks eða Akureyrar, ef ætlað er að fljúga hingað suður eða annað. Síðan hinn nýi póstbátur kom, er þetta ekki nema 4 klst. sigling í góðu veðri, en oftast nær verða menn þó að gista yfir nóttína og fljúga þá daginn eftir. Þessi óþægindi hafa vitanlega allmikinn aukakostnað í för með sér. Svona ástand getur vart talizt til fyrirmyndar. Siglfirðingar telja sig hafa fyllstu kröfu til þess, að að þeim sé búið með samgöngur á líkan hátt og flestir aðrir landsmenn búa við.

Ég vil svo að lokum taka undir það, sem fram kom hjá hv. 3. þm. Norðurl. v. um nauðsyn þess, að fjárveiting til hafnarbóta á Hofsósi verði hækkuð úr 250 þús. kr. í 350 þús. Frá Hofsósi er töluverð smábátaútgerð, en vegna slæmra hafnarskilyrða eru bátarnir í yfirvofandi hættu, ef eitthvað er að veðri, en með bættum hafnarskilyrðum eins og þeim, sem fyrirhuguð eru, mundi vera hægt að ráða bót á því ófremdarástandi, sem þarna er í hafnarmálum. Í þessu sambandi má benda á hið sorglega slys, sem varð á þessum stað s.l. haust og ætti að verða til þess, að allt sé gert, sem hægt er, til þess að slíkir atburðir endurtaki sig ekki. öruggasta og eina leiðin til úrbóta í þessu máli eru stórbætt hafnarskilyrði. Hofsós er elzti verzlunarstaðurinn við Skagafjörð. Þar býr dugandi fólk, sem hefur ekki hikað við að sækja sjóinn, þrátt fyrir mjög erfið skilyrði. Það færi því vel á því, að Alþ. sýndi málefnum þessa staðar fullkominn skilning og nauðsynlega fyrirgreiðslu og samþykkti brtt. okkar á þskj. 206.

Ég vil svo að síðustu alveg sérstaklega mæla með því, að till. okkar á þskj. 206, III, VI, IX, XVIII, verði samþykktar.