20.11.1959
Sameinað þing: 1. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í B-deild Alþingistíðinda. (4)

Stjórnarskipti

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki við þetta tækifæri ræða einstök atriði í yfirlýsingu hæstv. forsrh. um stjórnarmyndunina, enda er það ekki venja. Einnig var yfirlýsingin svo almennt orðuð, að af henni verður nær ekkert ráðið um það, til hverra úrræða ríkisstj. og flokkar hennar ætla að grípa. Munu einnig gefast tækifæri síðar til þess að ræða þessi efni, jafnóðum og fyrir liggur, hvað ætlunin er að gera. Sama er í rauninni að segja um ýmislegt af því, sem hæstv. forsrh. sagði um þróun mála undanfarið og lýsingu á því, hvernig ástatt er og hvers við sé þörf. Um það er hægt að ræða síðar.

En út af stjórnarmyndun þeirri, sem nú er orðin, vil ég taka þetta fram af hendi Framsfl.:

Framsfl. telur, að heppilegast hefði verið að mynda nú á ný samstjórn Framsfl., Alþb. og Alþfl., ef samkomulag hefði náðst þeirra í milli um lausn aðkallandi vandamála. Það breytir alls ekki þessari skoðun flokksins, að efnahagsmál landsins eru nú í sjálfu sér enn örðugri viðfangs en þau voru haustið 1958 vegna þess, hvernig á hefur verið haldið síðan. Fyrir þessu samstarfi vildi Framsfl. beita sér, en sú leið reyndist lokuð.

Stjórnarmyndun sú, sem nú hefur verið tilkynnt, er beint framhald af því stjórnarsamstarfi Sjálfstfl. og Alþfl., sem staðið hefur síðan í des. s.l. og margt óheillavænlegt hefur af leitt að dómi framsóknarmanna, sumt þegar berlega komið fram og ljóst orðið, en annað á eftir að koma betur fram, þegar upplýsist nánar, hvernig ástatt er um málefni landsins. Framsóknarmenn telja það því miður farið og vilja lýsa því yfir strax hreinskilnislega, að þetta samstarf skuli halda áfram nú með hinni nýju stjórnarmyndun.

Það leiðir af því, sem ég hef þegar sagt, að Framsfl. hvorki styður né veitir hinni nýju ríkisstj. hlutleysi. En að því leyti sem hæstv. ríkisstj. kann að beita sér fyrir málum, sem Framsfl. telur, að að gagni megi verða fyrir þjóðina, mun hann að sjálfsögðu stuðla að framgangi þeirra.