17.03.1960
Sameinað þing: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1632 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

42. mál, fjárlög 1960

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Ég ætla mér nú ekki að eyða tíma í það að ræða fjárlagafrv., hvorki almennt né einstaka þætti þess. Það hefur svo rækilega verið gert af frsm. 1. minni hl., að ég mun ekki bæta þar neinu við. Erindi mitt hingað í ræðustólinn er hins vegar það að mæla nokkur orð fyrir till., sem ég hef leyft mér að flytja ásamt hv. samþingismanni mínum, hv. 4. þm. Sunnl. (BFB), brtt. við fjárlagafrv., sem ég hef áður flutt hér á undanförnum þingum og þá ásamt hv. samþingismanni mínum, hv. 5. þm. Sunnl. (SÓÓ). Þetta er fyrsta till. á þskj. 206 og er um 500 þús. kr. framlag til byggingar fjórðungssjúkrahúss á Selfossi.

Á Selfossi er nú orðið hátt á annað þús. íbúa, og Árnessýsla og Rangárvallasýsla hafa samanlagt eitthvað yfir 10 þús. íbúa. Ég veit, að ég þarf ekki að lýsa því fyrir greindum mönnum og reyndum, hversu mikil þörf er á því fyrir íbúa þessara sýslna að koma upp hjá sér sjúkrahúsi. Það er oft á vetrum, þegar leiðin hingað til Reykjavíkur lokast vegna snjóa, að þá kemur það fyrir, að skyndilega þarf að flytja fárveikan sjúkling til sjúkrahúsvistar hér og uppskurðar, en þá er engin leið að koma sjúklingnum leiðar sinnar, sökum þess að allir vegir eru ófærir. Það hefur þess vegna komið fyrir og það oftar en einu sinni, að sjúkir menn hafa orðið að deyja drottni sínum án þess að geta fengið þá læknishjálp, sem þeim hefur verið nauðsynleg.

Þetta ástand, sem ég er hér að lýsa, var orðið svo óþolandi nú fyrir þrem árum, að þá var ráðizt í það að koma upp bráðabirgðasjúkraskýli á Selfossi, ef það mætti verða til þess að bæta úr brýnustu þörfinni, og þetta var gert á þann hátt, að héraðslæknirinn þar, Bjarni Guðmundsson, flutti úr læknisbústaðnum og lét hann eftir, til þess að honum yrði breytt í sjúkraskýli. Þar var hægt að koma fyrir nokkrum sjúkrarúmum, og nú hefur verið byggt ofur litíð við þetta pláss, svo að nú er þarna hægt að hafa 20 sjúklinga. En vissulega eru skilyrði öll ófullkomin og þess vegna ekki hægt að taka þarna sjúklinga til vandasamra aðgerða, miðað við þær kröfur, sem nú eru gerðar um aðstöðu í sambandi við hættulega holskurði. Það er þess vegna, eins og ég sagði, mikil þörf á því að reisa á Selfossi hæfilega stórt, — það þarf ekki mjög stórt, en hæfilega stórt sjúkrahús fyrir Suðurlandsundirlendið. Ég hygg, að þetta sé nú eins og sakir standa sá landshluti, sem einna verst er staddur að þessu leyti hér á landi.

Ég vil nú fyrir hönd okkar flm. vænta þess, að þetta mál mæti hér hjá hv. alþm. velvild og skilningi og að till., sem mjög hefur verið í hóf stillt, upphæðinni, sem þar er farið fram á, — að hún nái hér fram að ganga. Við flm. erum að sjálfsögðu fúsir til þess að draga till. til baka til 3. umr., ef fjvn. vildi fá hana til meðferðar, og það væri fyrst og fremst okkar ósk, að fjvn. vildi mæla með tillögunni.