17.03.1960
Sameinað þing: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1640 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

42. mál, fjárlög 1960

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Á þskj. 206, XVI. lið, hef ég ásamt hv. 5. þm. Vesturl. flutt brtt. við till. hv. fjvn. á þskj. 174, að framlag til sjóvarnargarðs í Ólafsvik verði hækkað úr 50 þús. kr. í 100 þús. kr. Land það, sem Ólafsvíkurkauptún er byggt á, er mjög takmarkað að landrými og nokkur hluti þess lands háður eyðingu af völdum sjógangs. Ég undrast því nokkuð till. hv. fjvn., að hún skuli nú gera það að sinni till. að lækka framlag til sjóvarnargarðs í Ólafsvík um 50 þús. kr., en á fjárl. 1959 var varið til þessa mannvirkis 100 þús. kr. Þegar það er haft í huga, að Ólafsvík er mikill athafnabær, hefur mjög lítið landrými og nokkur hluti þess háð skemmdum eða eyðileggingu af völdum sjógangs, þá fæ ég ekki skilið, hvernig það hefur hent hina virðulegu fjvn. að lækka þarna allverulega það framlag, sem er mjög nauðsynlegt og þarf að halda áfram á næstu árum til þess að geta varizt þarna miklum landsspjöllum. Hin svokallaða Snoppulóð í Ólafsvík hefur verið mikilli eyðileggingu háð á undanförnum árum eða við getum sagt á undanförnum áratugum, og þarf mjög mikið átak og mikið fé til þess að sporna við, að sú eyðilegging haldi áfram. Hið háa Alþingi hefur einnig á undanförnum árum sýnt mjög mikla viðleitni til þess að veita fé á fjárl. í sambandi við eyðileggingu af völdum vatns, sjógangs og sandfoks, og ég held, að allir hv. alþm. séu á einu máli um, að það sé mjög nauðsynleg framkvæmd og sjálfsögð fjárveiting í því skyni.

Hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj) fann hér ástæðu til á kvöldfundi í gær að færa fram vítur á hendur hv. meiri hl. fjvn. fyrir það að veita 300 þús. kr. á fjárl. til Hellissandsvegar af millibyggðavegafé. Ég var dálítið undrandi yfir málflutningi hans, því að hann má sjálfur vera minnugur þess, að aðeins fyrir fáum árum voru aðeins veittar 400 þús. kr. til Austurvegar, sem nú er gert ráð fyrir að fái 1.8 millj. af þeirri fjárupphæð, sem veitt er til millibyggðavega. Ég var undrandi yfir þeirri yfirlýsingu hans, sem hann taldi sig hafa eftir vegamálastjóra, að það væri ekki hægt að vinna neitt í þessum vegi. nema þá í einum áfanga, því að sá vegur, sem nú er notaður fyrir neðan Ennið og farinn er, þegar lágsjávað er, yrði strax gerður ófær, þegar byrjað væri að vinna í Hellissandsvegi. Þetta er hin mesta fjarstæða, og ég undrast, að þessi ummæli skuli vera höfð eftir vegamálastjóra, sem á að vera mjög kunnugur þessum málum. Ég fullyrði, að frá báðum endum má vinna fyrir a.m.k. 2 millj. kr. í þessum vegi, — ekki fyrir 300 þús. kr., heldur fyrir 2 millj., — án þess að nokkuð sé tafin umferð um veginn yfir sandinn undir Enninu. Það er fyrst, þegar kemur til að vinna versta áfangann, sem er undir miðju Enninu, að ekki er hægt að gera ráð fyrir að umferð geti átt sér stað á sandinum fyrir neðan Ennið.

Ég vil þakka hv. fjvn. fyrir það, að hún hefur nú loks viðurkennt þá miklu nauðsyn, að byrjað verði á framkvæmd þessa vegar, og á hún vissulega sóma skilið fyrir það, en ekki hnútukast eins og kom fram frá einum meðlimi nefndarinnar, hv. 6. þm. Sunnl.