28.03.1960
Sameinað þing: 30. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

42. mál, fjárlög 1960

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég mun að þessu sinni aðeins tala hér fyrir brtt., sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 242, I. og V. brtt. á því þskj.

V. brtt. fjallar um það, að laun til skálda, rithöfunda og listamanna séu hækkuð úr þeirri 1 millj. 260 þús., sem þau eru nú í á fjárl., og upp í 21/2 millj. Það hefur löngum verið allmikið baráttumál hér á Alþingi, hvað af tekjum ríkisins ríkisvaldið treystir sér til þess að greiða til skálda, rithöfunda og listamanna, og það eru e.t.v. einhverjar eftirminnilegustu umr., sem fram hafa farið á Alþingi forðum daga, þegar um þetta var barizt, sérstaklega á meðan Ísland var fátækt land og íslenzkur ríkissjóður hafði ekki úr eins miklu að moða og nú er. Og ég held, að það sé fyllilega nauðsyn, að hv. alþm. geri sér nokkuð ljóst, hvernig komið er í þessum málum nú, miðað við það, sem var forðum daga og hefur orðið allt að því illræmt í okkar sögu.

Ég veit, að allir hv. þm, muna eftir þeim styr eða kannast við þann styr eða hafa lesið um hann, sem stóð um þau eftirlaun eða skáldalaun, sem Þorsteini Erlingssyni voru greidd, 600 krónurnar, sem hann fékk hér á Alþingi og kostuðu nokkra baráttu og þóttu lítið, það lítið, að hann hefur sjálfur gert það eftirminnilegt í sínum kveðskap, þegar hann talar um:

„Sex hundruð krónum svo leikandi list

mun landssjóður tæplega neita,“

þegar hann var að fala Jónas Hallgrímsson til baka til Íslands, þá veit ég, að mönnum mun ekki þykja slíkar upphæðir sérstaklega miklar nú.

Hvernig eru fjárveitingarnar, sem nú eru samkv. 14. gr. B, sú 1 millj. og 260 þús., sem nú er úthlutað til skálda og listamanna af þar til kjörinni nefnd? Heiðurslaunin eru þar 33 þús. kr., fyrsta flokks skáld og listamenn fá þar 20 þús. kr. Fyrir rúmum 50 árum, þegar Þorsteini Erlingssyni voru veittar 600 kr., sem eftirminnilegt er orðið, var tímakaup verkamanna 25 aurar um tímann, og ef menn hafa blaðað í þeim blöðum, sem Þorsteinn gaf út, sjá menn þar auglýsingar, þar sem hann er að auglýsa., að hann taki að sér að kenna dönsku, ensku og fleiri mál fyrir 25 aura um tímann. 600 kr. voru á þessum tíma sama sem 25 aura laun fyrir 2400 klst. Verkamannalaun með því verkamannakaupi, sem nú er, mundu fyrir sama klukkustundafjölda vera 48 þús. kr. M.ö.o. það, sem mönnum nú þykir hafa verið lítið og lélega gert við Þorstein Erlingsson og fleiri á þeim tímum, hefur nú minnkað svo í meðförum, að ekki einu sinni heiðurslaun komast neitt nærri því að jafnast á við það, og 1. flokks launin eru orðin helmingi minna en þetta var, og það á tíma, sem Ísland þó er ríkt og ríkissjóður Íslands hefur úr allmiklu að moða. Ég held þess vegna, að það væri tími til kominn, að framlög ríkissjóðs til skálda og listamanna yrðu hækkuð, þannig að við stöndum þó a.m.k. ekki verr gagnvart skáldum okkar og listamönnum en þeir fátæku forfeður okkar stóðu, sem á árunum 1900–1912 voru að úthluta úr fátækum ríkissjóði Íslands þá, og gerðu þó betur við þá umdeild skáld, þó að það þætti þá lélegt og þyki enn, heldur en við gerum við þau núna. Ég held þess vegna, að við ættum að gera þeirri n., sem kosin er til þess að úthluta þessu, mögulegt að hækka það og það svo að um munar, t.d. tvöfalda framlögin til þessara skálda, listamanna og rithöfunda, og gerðum við þá þó ekki meira en að jafnast á við þann styrk, sem veittur var til Þorsteins Erlingssonar fyrir rúmri hálfri öld og þótti svona lélegur þá.

Nú vill máske einhver segja, að það dugi ekki á þeim sparsemdar- og ráðdeildartímum, sem nú kváðu vera að renna upp, að hætta á að láta verða tekjuhalla hjá ríkissjóði, jafnvel þó að ríkissjóður vildi gera vel við skáld og listamenn. Ég hef þess vegna, ekki sízt máske með tilliti til þess, sem hv. frsm. fjvn. áðan var að áminna um, að ekki mætti skapa tekjuhalla við þessa 3. umr., — ég hef þess vegna viljað, ef mönnum þætti stofnað í of mikla tvísýnu afkomu ríkissjóðs með því að ætla skáldum og listamönnum 21/2 millj., gefa mönnum kost á að spara fé á öðrum lið.

Á 10. gr. fjárl., þeim hluta þar, sem til utanríkismála fer, er áætlaður allríflegur kostnaður til ýmissa sendiráða, og ég held, að það Ísland, sem þykist ekki geta gert eins vel við ýmis sín skáld og listamenn og gert var þó við Þorstein Erlingsson 1910 eða þar í kring, ætti þá að athuga mjög alvarlega, hvort það lifir ekki um efni fram á vissum sviðum öðrum. Hér eru t.d. í einni borg Evrópu, í landi, sem við höfum þó lítil viðskipti við, í París, í fyrsta lagi eitt sendiráð, sem kostar nú 21/2 millj. kr., og í sömu borg er skrifstofa fastafulltrúa Íslands hjá NATO og OEEC og kostar 1.168 millj. kr. M.ö.o.: kostnaðurinn af skrifstofunni hjá NATO, hjá Atlantshafsbandalaginu, og OEEC er nokkurn veginn sami og allt það fé, sem Ísland sérstaklega veitir til að úthluta til sinna skálda, listamanna og rithöfunda. Kostnaðurinn við sendiráðið í París er út af fyrir sig eins og allt það fé, sem ég legg til að veitt sé í þessu skyni. Ég held, með fullri virðingu fyrir öllu okkar „býrókratíi“ og öllum okkar sendiráðum, að þá mætti skera annað af þessu niður og fela því, sem eftir væri, að gæta og framkvæma verkefni hins.

Ég hef þess vegna gert það að minni till. í á þskj. 242, að liðurinn „skrifstofa fastafulltrúa Íslands hjá NATO og OEEC“ verði felldur niður. Þar með er ég að vísu ekki að gera till. um, að við höfum endilega engan aðila, sem annast þessi verkefni, sem sú skrifstofa hefur haft, þó að ég mundi ekki gráta neitt, að það væri lagt niður. En meðan meiri hl. hér á Alþ. vill viðhalda því sambandi, þá held ég það sé ekki ofverk sendiráðsins í París að annast það líka, ekki sízt meðan það sendiráð er það dýrasta af öllum sendiráðum, sem við höfum.

Ég held þess vegna, að hér sé hægt að spara, án þess að Ísland missi nokkurs í við þetta, og mundi mér náttúrlega vera sama, hvort þetta héti heldur það, að skorið væri niður við sendiráðið í París eða þetta tvennt væri fellt saman eða hvernig sem menn vildu hafa það. Ég bendi aðeins á hitt, að það er hægt að spara þarna þá 1.2 millj., sem ég legg til að bætt sé við þau laun, sem Ísland ætlar skáldum sínum, rithöfundum og listamönnum. Ég held satt að segja, að það sé fyrir okkur að lifa yfir efni fram og eyða og sóa, ef við erum að flotta okkur með svona mörg sendiráð og höfum komizt jafnvel upp í tvö sendiráð í einni borg, en segjum á sama tíma, að við höfum ekki efni á að leggja meira fram til þess, sem heldur þó fyrst og fremst nafni Íslands uppi úti um allan heim, til skálda okkar, rithöfunda og listamanna.

Ég held, að það sé þess vegna engin afsökun til fyrir því að fella till. mína nr. V á þessu þskj., og hef ég þó borið þar fram till. til vara, sem er nokkru lægri, ef menn skyldu ekki vilja vera svo rausnarlegir að reyna að komast þangað, sem forfeður okkar komust fyrir 50 árum, — komast þangað með tærnar, sem þeir höfðu hælana.

Það hefur verið svo og hefur kveðið nokkuð mikið við, sérstaklega á þessu þingi, að þjóðin hafi lifað yfir efni fram. En þess hefur lítið orðið vart, að ríkið sjálft sýni einhverja viðleitni að spara við sjálft sig í þessu efni, og liggur næstum við, að það fari að verða nokkurs konar flottræfilsháttur á okkur, þegar við erum farnir að setja, eins og hér er gert, um 22 millj. í meðferð utanríkismálanna hjá okkur og þykjumst ekkert af því geta sparað. A.m.k. höfum við ekki efni á að gera svona hlut, á sama tíma sem við skerum við nögl okkar það, sem við viljum láta skáldum okkar, rithöfundum og listamönnum í té.

Ég vil þess vegna alveg eindregið mælast til þess, að hv. alþm. geti fallizt á að samþ. V. brtt. mína á þskj. 242 um hækkun á styrknum til skálda, rithöfunda og listamanna. Hvort þeir vilja gera það með því að spara um leið eitthvað fyrir ríkissjóð eða án þess, það læt ég mér nokkuð í léttu rúmi liggja, en hef bent á möguleikana til þess, ef menn kærðu sig um það. Ég held það sé ekki vansalaust fyrir það þing, sem gert hefur aðrar eins ráðstafanir og þetta þing hefur gert til þess að auka dýrtið í landinu, að láta sitja við það sama um styrkinn til þess, sem fyrst og fremst heldur nafni Íslands og heiðri Íslands á lofti gagnvart öðrum þjóðum.