28.03.1960
Sameinað þing: 30. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

42. mál, fjárlög 1960

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Þegar frv. til laga um söluskatt var til umr. í Ed. Alþ., flutti ég brtt., sem var þess efnis, að smásöluskatturinn, sem lagður er á veitinga- og gistihúsaþjónustuna í landinu, rynni í sérstakan sjóð, sem yrði síðan lánaður út til þess að byggja upp veitinga- og gistihúsin í landinu. Þessi till. var felld. En þó var henni vinsamlega tekið af hæstv. fjmrh., sem taldi bera brýna nauðsyn til þess, að allt yrði gert, sem unnt væri, til þess að greiða fyrir því, að sómasamlegur veitinga- og gistihúsakostur væri jafnan til í landinu.

Við 2. umr. fjárl. var samþ. till. þess efnis, að fallið skyldi frá stimpil- og þinglestursgjaldi í sambandi við kaupin á Hótel Borg. Þá var og önnur till. samþ. þess efnis að taka ríkisábyrgð á 20 millj, kr. láni til að reisa gistihús í Reykjavík, en báðar þessar till. eru til þess að greiða götu þeirra manna, sem vinna við hótelrekstur hér í höfuðborginni, og hafa þeir sýnt með miklum áhuga og dugnaði, að þeir eru margs góðs maklegir.

Það er vitað mál, að mikil þörf er á því að bæta húsakost og þjónustu þá, sem veitinga- og gistihúsin þurfa að veita, og þar sem hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar eru svona góðviljaðir í garð höfuðborgarinnar, vænti ég þess, að þeir hinir sömu láti ekki smáupphæðir standa í sér, eins og till. þá, sem ég flyt hér ásamt hv. 3. þm. Vesturl. (HS). Það mun nú ekki vera búið að útbýta þessari till., en hún fer fram á það, að veitt sé ríkisábyrgð fyrir 180 þús. kr. láni, sem Ásgeir Guðmundsson hótelstjóri í Búðardal þarf að fá til að stækka húsakynnin, sem hótelið í Búðardal þarf nauðsynlega til að auka starfsemi sína. Ég vænti þess, að till. þessi verði samþykkt, þar sem hún er ekki nema örlítið brot af þeirri upphæð, sem þegar er viðurkennt af meiri hluta Alþ. að þurfi til að auka hótelkostinn í höfuðborg landsins, og ég trúi því ekki, að þeir fáu úti í landsbyggðinni, sem leita fyrirgreiðslu Alþ. á sama hátt og hinir mætu höfuðborgarbúar, verði settir í annan flokk. Ég vænti því þess, að þessi till. verði samþykkt.

Þá vil ég einnig um leið minna á till., sem ég er meðflm. að, en þessi till. er á þskj. 245 og er IV. till. þar, en hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur áður gert grein fyrir till. þessari, og vænti ég þess, að hún verði samþ., þar sem hér er um að ræða mikið nauðsynjamál fyrir búfjárræktartilraunastarfsemina í landinu.