28.03.1960
Sameinað þing: 30. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

42. mál, fjárlög 1960

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Á þskj. 245 á ég ásamt tveimur félögum mínum úr Norðurlandskjördæmi eystra þrjá hópa af tillögum, og vildi ég nú með nokkrum orðum gera grein fyrir þeim. En félagar mínir, sem till. flytja ásamt mér, eru hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG) og hv. 4. þm. Norðurl. e. (GH).

Það eru þá fyrst nokkrar brtt. eða nokkrir liðir brtt. við 13. gr. A, II, nýir vegir.

Fyrst er þar á blaði Ólafsfjarðarvegur. Samkv. frv. því, sem fyrir liggur, er ekki ætlað neitt fé til hans, en hins vegar fé til Ólafsfjarðarvegar eystra, sem vitanlega er ágætt. En Ólafsfjarðarvegur er þannig, að nokkur hluti vegarins er enn aðeins moldarvegur. Áður hefur verið veitt til vegarins á fjárlögum 85 þús. kr. oftar en einu sinni að undanförnu. Við leggjum til, að til þessa vegar verði nú veittar 50 þús. kr.

Þá er næstur eða nr. 2 Hrísavegur. Það er nýr liður, og við leggjum til, að til hans verði veittar 45 þús. kr. Hann er nú felldur niður af fjárlögum, þótt einn fjórði hluti hans, eða 3.5 km, sé enn aðeins ruddur vegur og því ekki fær nema að sumarlagi. Mjólkurflutningabíll þarf að komast eftir þessum vegi daglega. Þess vegna tel ég óhjákvæmilegt að halda áfram að lagfæra þann veg og byggja hann upp.

Þá er þriðji liðurinn, Hörgárdalsvegur ytri. Til hans er veitt samkv. fjárlagafrv. 70 þús. kr. upphæð. Þessi vegur liggur um blómlega og þéttbýla byggð, en nokkur hluti hans er enn aðeins ruðningsvegur, sem verður fljótt illa fær í rigningartíð og ófær, þegar nokkuð verulega snjóar, og þetta kemur sér mjög illa, þar sem koma þarf daglega mjólk til Akureyrar eftir þessum vegi. Það má því segja, að ekki veiti af þeirri hækkun, sem við leggjum til, en í raun og veru er hún, eins og aðrar till. okkar, mjög hógvær og það lægsta, sem við getum hugsað okkur.

Þá er næst 4. liðurinn, Bárðardalsvegur eystri. Hann hafði 70 þús. kr. fjárveitingu í fyrra, en er nú lækkaður niður í 40 þús. Og 5. liðurinn er Bárðardalsvegur vestri. Hann hafði í fyrra 55 þús. kr. tillag, en nú er hann lækkaður niður í 45 þús. kr. samkv. fjárlagafrv. Fyrir þessum lækkunum teljum við engin réttmæt rök. Ef um féleysi væri að ræða, sem ég tel að ekki sé, þá ætti fyrr að draga af fjárveitingu til annarra vega en til þessara vega. Bárðardalur þarf mikið fé til vegar. Hann er langur og Skjálfandafljót skiptir honum endilöngum og þar með byggðinni í tvennt. Þess vegna þarf veg allan dalinn báðum megin fljótsins. Bárðdælingar hafa lagt á sig mikil gjöld á undanförnum árum með vaxtagreiðslum af lánum, sem þeir hafa útvegað til þess að reyna að þoka vegunum hraðar áfram en fjárveitingarnar frá Alþ. hafa veitt efni til. En enn þá skortir geysimikið á, að vegirnir séu komnir í viðunandi lag. Á löngum köflum eru niðurgrafnir ruðningar, enn fremur ómölbornir kaflar, sem ýtt hefur verið upp, kaflar, sem skemmast við bið eftir möl. Það er vitanlega allt of lítil hækkun þetta, sem við gerum till. um, eða samtals í Bárðardal um 95 þús. kr., en það sýnir þó skilningsvott á aðstæðum af hálfu Alþ., ef þessar till. verða samþykktar. En lækkun á fjárframlagi til þessarar sveitar ber með sér skilningsleysi á aðstæðunum.

Þá er það 6. liðurinn. Það er Út-Kinnarvegur. Þar leggjum við til, að fjárveiting verði 40 þús. kr. í stað 10 þús., sem á frv. eru. 10 þús. þessi eru bara ætluð til þess að borga skuld, sem hvílir á veginum og heimamenn hafa lánað. Út-Kinn er, eins og menn sjálfsagt vita, nyrzti hluti Ljósavatnshrepps. Þar hefur á löngu svæði verið ekið eftir sjálfgerðum troðningi meðfram Skjálfandafljóti, á bakka þess, og þessi bakki er milli fljótsins og mýrlendis, sem tekur við fyrir ofan. Nú er fljótið að eyðileggja þessa troðningsleið, og það er búið að grafa skurð eftir mýrlendinu og gera braut úr uppgreftinum, en í brautina vantar enn möl að verulegu leyti, og það er m.a. nauðsynlegt þessa vegna að fá fjárveitingu til aðgerða í sumar, til þess að gera þennan ruðningsveg upp úr skurðunum fullkomlega færan. Auðvitað er það margt fleira, sem þarf að gera vegna þjóðvegarins í Út-Kinn, en till. er bara miðuð við brýnustu þörf.

Þá er 7. liðurinn. Það er Austurhlíðarvegur. Þessi vegur er í Reykjadal í Þingeyjarsýslu hjá Laugaskóla. Hann hefur legið um hlaðið þar þangað til s.l. sumar, að byggð var braut, sem liggur eftir árbakka neðan við hól þann, sem skólinn er byggður á eða réttara sagt skólarnir, því að þarna eru tveir skólar við sama hlað, héraðsskóli og kvennaskóli. Umferðin um hlaðið hjá skólunum var bæði til leiðinda og truflunar á skólaheimilunum. Þess vegna var það, að skólastjóri héraðsskólans útvegaði fé að láni, til þess að brautin eftir árbakkanum yrði byggð s.l. sumar. Og lánið mun hafa verið 100 þús. eða vel það. Ég tel nauðsynlegt og sanngjarnt að greiða þetta lán á stuttum tíma. Það er hvorki eðlilegt, að skólastjórinn né heldur skólinn kosti vaxtagreiðslur vegna þessara þjóðvegaraðgerða, og við leggjum til, að í staðinn fyrir 25 þús. kr. upp í þessa skuld verði greiddar 50 þús. kr. á þessu ári.

Þá er 8. liðurinn. Það er Tjörnesvegur, en hann er tengivegur milli héraðanna Norður-Þingeyjarsýslu og Suður-Þingeyjarsýslu, auk þess sem hann er oft farinn af þeim, sem leggja leiðir sínar frá eða til Austurlands. Það þarf að leggja mikið kapp á að gera þennan veg svo úr garði, að hann þoli þá miklu umferð, senn á hann hefur lagzt síðan þarna var opnaður vegur, en það eru ekki síðan nema ein þrjú ár, að þessi leið varð slarkfær. Einnig þarf að gera þennan veg þannig úr garði, að hann geti verið vetrarvegur, því að það reynir mikið á hann fyrir umferðina að vetrinum á þessu svæði. Við leggjum til, að fjárveiting til vegarins á þessu ári verði ekki 225 þús., eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., heldur 250 þús. kr.

Þá er 9. liðurinn. Það er Kelduhverfis-, Kópaskers- og Raufarhafnarvegur til Þistilfjarðar og Þistilfjarðarvegur. Þetta er aðalþjóðvegurinn, eins og hann er fyrirhugaður um byggðir og milli byggða milli Tjörness og Þórshafnar á Langanesi. Hann liggur um Kelduhverfi, Öxarfjörð, Núpasveit og þar með um Kópasker, Sléttu og þar með um Raufarhöfn, Þistilfjörð og hluta af Langanesi. Þetta er aðalkaupstaðar- og vöruflutningaleið allra byggðarlaga á hlutaðeigandi svæði, auk þess ferðamannaleið á sumrin og landleiðin til og frá hinni miklu síldarstöð á Raufarhöfn, sem mikið þarf á að halda á sumrin. Mikið af síldarmjöli er flutt um þennan veg frá verksmiðjum ríkisins á Raufarhöfn. Það er búið að ýta upp nýjan veg á söndunum vestan Jökulsár í Kelduhverfinu, en eftir er að bera ofan í hann. Milli Raufarhafnar og Þistilfjarðar er enn ekki akfært á löngum kafla, og má ætla, að byggingarkostnaður sé 1–2 millj. kr. Að öðru leyti eru þessir vegir að miklu leyti aðeins ruddir í öndverðu, en síðar byggðir upp kaflar smátt og smátt. Á þessum köflum stöðvast umferð oft, þegar snjó leggur á vetrum, þó að hinir uppbyggðu vegakaflar séu færir. Á þetta við um allar hlutaðeigandi sveitir austan heiðar og vestan. Þingmönnum kjördæmisins hefur borizt fundarályktun frá 17, jan. í vetur úr héraðinu um þetta mál, þar sem þess er m.a. getið, að ýmsir bændur vestan heiðar hafi hug á að taka upp mjólkurframleiðslu ásamt sauðfjárbúskapnum, sem þar hefur aðallega verið, en það strandi á ófærðarhættunni á umræddum vegarköflum, þegar misjöfn er tíð og ekki sízt náttúrlega þegar snjóar á vetrum. Við leggjum til, að í staðinn fyrir 400 þús. komi 500 þús. og þykjumst ekki fara geyst í sakir, þegar um þessar löngu leiðir er að ræða.

Þá er 10. liðurinn. Við leggjum til, að hann orðist svo: Langanesvegur utan Heiðar (Skoruvíkurvegur), og til hans verði veittar 50 þús. kr. Það er stefnt að því að ljúka við að ryðja veg norður á útnesinu utan Heiðar, þ.e. utan við bæinn Heiði að Skoruvík og þar með að Skálum, og þetta er gert og lagt kapp á það, til þess að byggð leggist þar ekki niður með öllu og í von um það, að jarðir, sem hafa farið úr byggð fyrir einangrunina, komist aftur í byggð, svo að hægt sé að hagnýta ýmis hlunnindi, sem þarna eru. Einkum er þó um reka að ræða, en hann er mjög mikill og bjargfuglatekja. Þetta er einnig öryggismál, því að vitavörðurinn í Skoruvík dvelur þarna og þar fer fram veðurathugun, og ef skip stranda við útnesið, er mjög varhugavert, að þar sé ekki byggð.

Þá eru næst breytingar við 13. gr. A, 2, d, þ.e. fjárveitingar til svonefndra millibyggðavega. Við leggjum fyrst til, að Múlavegur verði hækkaður úr 300 þús. í 400 þús. kr. Hér er um mikið fyrirtæki að ræða, eins og hv. þm. vita, en sá vegur á að leysa og leysir heila byggð, Ólafsfjörð, úr mjög hvimleiðri einangrun, þegar hann er fullgerður. Og þetta þarf að verða sem allra fyrst, og veitir því ekki af að hækka þessa fjárveitingu.

Næst er það Tjörnesvegur. Við leggjum til, að í staðinn fyrir 200 þús. komi 300 þús. Og það eru fyrir því sömu rökin og ég lýsti áðan í sambandi við aðra till. okkar um Tjörnesveg og sízt of geyst í sakir farið, það vita þeir, sem búa þarna nærri.

Þá er það næst Raufarhafnarvegur til Þistilfjarðar, sem heitir öðru nafni Hálsavegur, aðalleiðin. Það er lagt til samkv. fjárlagafrv., að þangað gangi 100 þús. Við leggjum til, að það verði hækkað um helming. Er talið, að þar þurfi af tæknilegum ástæðum að vinna mjög stóran áfanga í sumar, vegna þess að þarna sé aðkallandi þörf til að tengja saman byggðir.

Þá er það 2. liður í þessum flokki. Hann er við 13. gr. A, III, 18, brúargerðir. Það er nýr liður. Við leggjum til, að veittar verði 300 þús. kr. til brúar á Sandá í Þistilfirði. Þetta er að vísu ekki fullnægjandi fjárveiting til að endurbyggja brúna, því að hún er töluvert dýrt mannvirki, en það rekur mjög eftir að byggja hana upp, og er talið, að vinna megi að undirbúningi þess nokkuð. Brúin var byggð fyrir 50 árum, er járnbitabrú, veikbyggð og úr sér gengin, of mjó og talin vera orðin hættuleg. Þetta hljóta allir að kannast við, sem þarna hafa farið um nýlega, og þess vegna er mjög nauðsynlegt að fara að hugsa fyrir byggingunni og helzt strax, safna fé í hana og vinna eitthvað að því að styrkja hana, svo að ekki verði þarna tjón í umferð.

Þá er 3. liðurinn, það er við 13. gr. C, 8, til hafnarmannvirkja. Við leyfum okkur að fara fram á smávegis hækkanir í kjördæmi okkar í fjórum liðum. Ekki er það af því, að meiri hækkana væri ekki þörf eða á fleiri stöðum í kjördæminu, en við tökum það, sem við teljum brýnast og skyldast.

Það er þá fyrst hækkun á framlagi til dráttarbrautar á Akureyri um 50 þús. kr. Þetta er mjög mikið mannvirki og kallar eftir framkvæmdum, ekki aðeins fyrir Akureyri, heldur fyrir Norðurland og jafnvel Austurland líka.

Þá er næsti liður Flatey á Skjálfanda. Flatey á Skjálfanda er svo illa sett, að strandferðaskip geta ekki lagzt þar að bryggju nema Breiðarnar, og þær aðeins þegar allra hásjávaðast er. Og svo örðugt er það, að á áætlun er ekki gert ráð fyrir viðkomu þeirra, en útgerð ríkisskipanna hefur gengið inn á það að senda þær þangað einum tvisvar sinnum á ári, þegar mest kallar eftir útflutningi frá eynni, því að þar er mikil framleiðsla sjávarafurða, og þá er sætt færum, þegar bezt viðrar og bezt stendur á sjó. Þarna búa um 80–90 manns. Þar eru fiskimið mjög góð og farsæl útgerð. Aðallega eru þaðan stundaðar veiðar með handfæri, og aflasælast er seinni part sumars. Á þessi mið sækja ekki aðeins eyjarskeggjarnir, heldur bátar til útilegu frá Eyjafirði og víðar að. Væri einmitt þessum bátum mjög mikilsvert að geta við og við lagt upp afla í Flatey og þó sérstaklega mjög mikilsvert að geta leitað þangað lægis í vondum veðrum, og til þess að það geti orðið, þarf að lengja bryggjuna í Flatey og verið er að safna fé til þess að gera það. Geta má þess, að eyjan er eign ríkisins, og það gerir í raun og veru það að verkum, að ríkinu er enn skyldara en ella að leggja fram fé til þess, að þarna geti orðið viðunandi búseta, og það er sannarlega ekki að stuðla að því, að menn byggi þar sveit, sem ekki fæðir fólk sitt vel, því að fiskimiðin við Flatey eru svo gjöful, að fjárhagsleg afkoma hefur verið þar mjög góð. Aðeins er það einangrunin, sem hefur þjáð þar.

Þá er næsti liðurinn, að við leggjum til lítils háttar hækkun fyrir Húsavík. Við leggjum til, að Flatey verði hækkuð úr 50 þús. upp í 75 þús., og að Húsavík verði hækkuð úr 325 þús. í 375 þús. Húsavík er nú í óða önn að byggja hafnarmannvirki sumar hvert til þess að bæta höfn sína, og sú mannvirkjagerð gengur ágætlega, og hefur það sérstaklega verið ánægjulegt, að þar hafa framkvæmdaáætlanir staðizt mjög vel og mannvirkin þolað vel sjógang, en þá sögu er ekki hægt að segja frá öllum stöðum. í fyrra var fjárveiting til Húsavíkur 350 þús. kr., en á fjárlagafrv., eins og ég gat um áðan, aðeins 325 þús., fjárveiting lækkuð. Við sjáum ekki, að það sé nokkur sanngirni að lækka upphæðina, þegar krónurnar minnka, og leggjum þess vegna til, að upphæðin verði hækkuð um 50 þús. kr.

Þá er það næstsíðasti liðurinn að því er hafnarmannvirki snertir, Ólafsfjörður. Hann er sérstaklega illa settur með hafnarmannvirki sín. Er bæði langt í land með fullgerð þeirra og svo hafa þar skeð óhöpp vegna röskunar í brimum á því, sem unnið hefur verið. Við leggjum til, að framlagið til Ólafsfjarðar verði 350 þús. í stað 300 þús.

Loks er það svo Þórshöfn. Þar er sagt, að af tæknilegum ástæðum þurfi að vinna mjög stóran áfanga í sumar fyrir allt að 4 millj. kr., en 11/2 millj. eða fram undir það á að vera handbær nú. Áfanginn er dýpkun á innsiglingu og dýpkun til þess að mynda traustan botn undir kerum. Það á að leggja grjótgarð og steypa og setja niður eitt ker. Þetta er talinn alveg nauðsynlegur áfangi í einni lotu, og við teljum, að það sé ekki nægilegt tillit tekið til þess í fjárveitingunni samkv. frv., og leggjum til, að hún verði hækkuð úr 325 upp í 375 þús.

Þessar hækkanir að því er hafnirnar snertir eru svo hæversklegar af okkar hálfu, að þær nema samtals aðeins um 10% í ofanálag á það, sem frv. gerir ráð fyrir til hafna í okkar kjördæmi. — Um hinar er það að segja, að till. okkar um hækkun á þeim eru um 20 % frá því, sem er í frv., og teljum við það líka hógværar till. Þetta kemur ekki hlutfallslega jafnt á alla vegi, en við teljum, að með till. höfum við lagt grundvöll að því að leiðrétta misræmi, sem er milli fjárveitinga til veganna.

Þá er ein lítil till. um breyt. á 14. gr. Við fluttum við 2. umr. fjárlaga brtt. um, að veittar yrðu 75 þús. kr. til Matthíasarfélagsins á Akureyri í stað 40 þús., sem á fjárlagafrv. eru frá hendi meiri hl. fjvn. Ég gerði við 2. umr. í framsögu grein fyrir starfsemi Matthíasarfélagsins, sem er stofnað til þess að koma upp minjasafni á Akureyri um þjóðskáldið Matthías Jochumsson og kaupa og hafa fyrir minjasafnshús íbúðarhús skáldsins, Sigurhæðir á Akureyri. Ég sé enga ástæðu til þess að endurtaka grg., sem ég flutti um starfsemi Matthíasarfélagsins og fjármál þess. Aðalatriðið er, að félagið vinnur að því að heiðra minningu þjóðskáldsins og þetta er þjóðmál. Það stendur upp á ríkið að leggja fram á móti Ákureyrarbæ til kaupa á húsi skáldsins. Þegar till. var borin undir atkv. við 2. umr., skorti 5 atkv. til þess, að hún yrði samþ., og fleiri voru utan atkvgr. en þeirri tölu nam. Menn virtust eitthvað utan við sig þetta augnablik eða ekki með á nótunum. Öðruvísi gat ég ekki skilið niðurstöðu þessarar atkvgr., og þess vegna er till. tekin upp, lítils háttar lækkuð, en efnislega sú sama.

Það væri undarlegt fyrirbæri að feila endanlega till. til þess að heiðra minningu Matthíasar Jochumssonar, sem er jafnkostnaðarlítil og þessi till., en minning hans mundi þola miklu hærri framlög af Alþingis hálfu. Matthías spurði einu sinni í sambandi við annað stórskáld okkar: „Æska, elli, menn og mjúklynd fljóð, man nú enginn Hallgríms dýru ljóð?“ Hér á hinu háa Alþ. á alls ekki við að spyrja um það, hvort menn muni ekki ljóð Matthíasar. Ég leyfi mér hiklaust að vænta þess, að það sannist við atkvgr. um þessa till., að hv. alþm. muna eftir ljóðum hans, þó að þeir hugsi að vísu mikið um efnahagsmál, eins og skylt er. En menn lifa ekki af einu saman brauði. Og þjóðin væri miklu fátækari, ef Matthías hefði ekki lifað, og verður fátækari, ef hún vinnur ekki að því að láta Matthías lifa með sér í skýrri minningu.

Loks eru tvær brtt. við 22. gr. Fyrst er á það að minnast, að á Þórshöfn vantar, til þess að síldarsöltun geti farið þar fram, síldarbræðslu, svo að hægt sé að hagnýta afganga frá söltun. Þeir staðir, sem hafa ekki tök á að taka afganga til bræðslu af skipum, eru eiginlega úr leik í sambandi við söltun síldar. Nú er verkið hafið á Þórshöfn að koma upp þessari bræðslu. Það er búið að festa kaup á vélum og þær á að setja upp í fiskimjölsverksmiðjunni, sem fyrir er. Þetta er því fjárhagslega hagkvæmt og vel framkvæmanlegt, en samt vantar ábyrgð fyrir stofnláni, allt að 600 þús. kr., og við leggjum til, að Alþ. heimili ríkisstj. að taka á ríkið þessa ábyrgð. Það er í samræmi við aðrar slíkar heimildir, sem verða nú á 22. gr., t.d. vegna Austfjarðanna, eftir till. fjvn. Og vitanlega hefði verið farið með þetta mál fyrir fjvn., ef þeir, sem að því standa, hefðu ekki orðið svo síðbúnir að minna á sig, að þeir gerðu það ekki fyrr en þeir heyrðu, að fjárlög ættu að takast til 3. umr.

Seinni till. um breyt. á 22. gr. er um það, að útvarpinu verði ekki aðeins heimilað að verja tekjuafgangi til þess að bæta hlustunarskilyrði á Austurlandi, heldur einnig á Norðausturlandi. Mjög vond hlustunarskilyrði eru nú á Raufarhöfn og Þórshöfn og þar í grennd. Þetta hef ég sjálfur reynt, og mér er raunar tjáð af þeim, sem til þekkja, að þau séu þar engu betri en á Austurlandi. Við leggjum til, að breyt. verði gerð á þeirri till., sem fram er komin um það, að ríkisútvarpið fái að verja rúmri milljón til að bæta hlustunarskilyrðin á Austurlandi, þannig að heimildin verði hækkuð upp í 11/2 millj. og Norðausturland tekið með.

Ég hef þá gert grein fyrir þessum till. Þær eru að vísu til útgjaldahækkunar, en þar er mjög stillt í hóf, og ef till. framsóknarmanna um hækkun á tekjuáætlun fjárl., sem líka eru hófsamlegar, hækkun á áætlun söluskattsins, verða teknar til greina, er nóg rúm fyrir þessar till. á fjárlögunum.