28.03.1960
Sameinað þing: 30. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

42. mál, fjárlög 1960

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég er meðflm. að beim skrifl. till., sem hv. 1. þm. Austf. (EystJ) talaði fyrir hér í dag og ekki er búið að útbýta enn þá. Ég ætla ekki að fara að ræða um þær neitt sem heitir. aðeins undirstrika nauðsyn þeirra framkvæmda, sem þar er gert ráð fyrir, elns og hann gerði.

En ég kvaddi mér hljóðs til þess að mæla hér fyrir VII, till. á þskj. 245. . Það er till. við 22. gr. fjárl., nýr liður, á þá leið, að ríkisstj. sé heimilt að verja 15 millj. kr. til þess að leysa úr fjárþörf byggingarsjóðs og ræktunarsjóðs Búnaðarbanka Íslands vegna þeirra umsókna um lán, er bankanum hafa borizt fyrir s.l. áramót vegna framkvæmda, er begar hafa verið gerðar. Þessi till. ber það með sér, að hún er eingöngu við það miðuð að leysa úr þeirri lánsþörf þessara stofnlánasjóða, sem skapazt hefur vegna framkvæmda, er lokið var á s.l. ári eða fyrr. Ég býst við, að allflestum þm. sé um það kunnugt, að mestur hlutinn af hinum árlegu lánaveitingum þessara sjóða fer að jafnaði fram síðustu mánuði hvers árs, því að þá hafa þeir bændur, sem eiga rétt á lánum út á sínar framkvæmdir samkvæmt gildandi 1., komið með sín lánaskjöl í bankann og fengið þar afgreiðslu fyrir áramót. Þó hefur jafnan farið svo, að einhver, en ætíð mikill minni hluti þeirra lánbeiðna, sem bankanum hafa borizt í þessu skyni, hefur orðið að bíða afgreiðslu fram yfir áramót, og þá hefur sá hluti verið afgreiddur, og það hefur þá verið sá hluti umsóknanna, er síðast barst bankanum. Ætíð hefur verið lagt mesta kapp á það, að þessi hluti umsókna fengist afgreiddur svo fljótt sem unnt var, eftir að komið var fram á næsta ár, enda hefur slíkur dráttur ekki að jafnaði stafað af því — eða óhætt að segja aldrei stafað af því, að þeir umsækjendur væru ekki fullkomlega jafnréttháir hinum, er afgreiðslu hlutu fyrir áramótin, heldur hitt, að stundum hefur verið heldur þröngt um fé, og jafnvel það, að þeir, sem síðastir komu, hafa orðið út undan vegna annríkis, þar sem mikið hefur oft verið að gera á þeim stutta tíma. En um s.l. áramót var óvenjulega mikið af óafgreiddum lánbeiðnum í þessum stofnlánasjóðum bankans. Munu þær í báðum sjóðunum nema um það bil 15–16 millj. kr. Þessir umsækjendur hafa lokið sínum framkvæmdum alveg eins og hinir, sem afgreiðslu fengu fyrir áramót, og eiga samkvæmt lögunum nákvæmlega sama rétt til lána. En þótt nú sé liðinn um það bil fjórðungur yfirstandandi árs, hefur fjárskortur algerlega hindrað afgreiðslu þessara lána, og þetta er mjög bagalegt fyrir þessa umsækjendur, sem á s.l. ári eða fyrr réðust í framkvæmdir sínar í fullu trausti þess, að þeir mættu treysta gildandi lagaákvæðum um lán, þegar framkvæmdir þeirra væru fullgerðar. Enn fremur veldur það miklu misrétti, ef þessi hluti umsækjenda verður ekki látinn njóta sama réttar og hinir, sem þegar hafa fengið afgreiðslu. Þessi till. er því flutt eingöngu til þess að heimila ríkisstj. að leysa þetta vandamál og koma í veg fyrir þetta misrétti, sem annars hlýtur að valda bæði vonbrigðum og vandræðum.

Till. er, eins og hún ber með sér, aðeins miðuð við að leysa úr því ástandi, sem hafði skapazt, áður en hinar nýju efnahagsráðstafanir stjórnarinnar tóku gildi. Það liggur alveg ljóst fyrir að vísu, að þessar nýju ráðstafanir munu skapa ný vandamál í sambandi við allt lánsfjárkerfi landbúnaðarins, en ég er á engan hátt að blanda beim framtíðarviðhorfum hér inn í, heldur aðeins að ræða um lausn þess vanda, sem áður var orðinn til og á að leysast samkvæmt þeirri löggjöf, sem þá var í gildi, því að verði það ekki gert, mun mörgum þykja illt að mega ekki treysta á þau réttindi, sem þeir eiga að hafa samkvæmt þeim lagaákvæðum, er Alþ. hefur samþ. Slíkt væri áreiðanlega illa farið, og þess vegna vil ég eindregið skora á Alþ. að veita þessari till. stuðning og heimila ríkisstj. að leysa úr þessum vanda, eins og hún gerir ráð fyrir.