28.03.1960
Sameinað þing: 30. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1712 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

42. mál, fjárlög 1960

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja tvær brtt. við fjárlagafrv., sem koma fram á þskj. 242.

Fyrri till. varðar 17. gr. frv. Till., sem er undir Vl. lið á þskj. 242, er um framlag til Alþýðusambands Íslands, að upphæð 80 þús. kr., til þess að kosta sérfræðilega rannsókn á kaupmætti launa og kjarabreytingum og framtíðaráhrifum efnahagsviðreisnarinnar á hag launþega.

Nú er verið að framkvæma ýtarlegri og umfangsmeiri breytingar í efnahagsmálum en nokkru sinni áður hafa verið gerðar hér á landi. Á sama tíma hafa nær öll verkalýðsfélög landsins lausa samninga, en hafa þó ekki tekið ákvörðun um, hvaða kröfur þau setji fram. Má búast við, að kaup- og kjarakröfur verði settar fram einhvern tíma á næstu mánuðum. Er mikil nauðsyn fyrir verkalýðssamtökin og þjóðina í heild, að þær kröfur verði reistar á greinargóðri og ýtarlegri rannsókn hinna færustu manna á áhrifum efnahagsaðgerðanna á hag launþega, enda er hér um að ræða umdeild og mjög viðkvæm atriði. Yrði áreiðanlega fróðlegt að bera saman rannsóknir og niðurstöður þeirra sérfræðinga, sem Alþýðusambandið kveddi til í þessu skyni, við það, sem sérfræðingar hæstv. ríkisstj. hafa látið frá sér fara í þessum efnum. Undir engum kringumstæðum má það koma fyrir, að verkalýðssamtökin láti slíka rannsókn undir höfuð leggjast af fjárhagsástæðum. Upphæðina tel ég ríflega, enda er hún við það miðuð, að erlendir sérfræðingar verði til kvaddir, enda þótt Alþýðusambandið ráði því að sjálfsögðu, hvaða sérfræðingum það felur þetta starf, ef till. verður samþykkt.

Önnur brtt., sem ég hef leyft mér að flytja, er undir VIII. lið á þskj. 242 og varðar 18. gr. fjárl. Þar er lagt til, að a-liður II. kafla 18. gr. falli niður, en hann fjallar um eftirlaun auk lögboðinna eftirlauna og lífeyris, biðlaun, heiðurslaun og styrktarfé. Með þessu mundi ríkissjóður spara um það bil 3 millj. kr. Flest af þessu fólki, sem till. nær til, eru fríðindamenn og flokksgæðingar, sem hafa með ágengni komizt inn á fjárlög, án þess að réttmætar ástæður væru fyrir hendi til að veita því slík framlög eða fjárstyrki. Tel ég það alveg óviðeigandi, að menn með góð eftirlaun og hærri eftirlaun en aðrir landsmenn yfirleitt fái slíkar aukagreiðslur. Í greininni má finna mörg dæmi um mjög vel efnaða menn, þar sem hver um sig fær aukalega greidda úr ríkissjóði marga tugi þúsunda króna yfir árið umfram lögboðin og rífleg eftirlaun. Virðist líka lítið sem ekkert samræmi í greiðslum til einstakra manna og upphæðir þessara framlaga yfirleitt vera mjög handahófskenndar. Að vísu eru til á 18. gr. menn, sem kynni að vera réttmætt að styrkja, en þeir eru fáir og yfirleitt með lægstu upphæðirnar. Þrátt fyrir það er ekki annað hægt að mínum dómi en að skera þennan lið gr. algerlega niður, því að erfitt er að fara út í mat milli einstakra manna, og hina fáu og smáu má ekki heldur nota sem skálkaskjól fyrir alla hina. Ég tel 18. gr. vera smánarblett á fjárl., sem nauðsynlegt sé að afmá. Verður ekki heldur á annan hátt spornað gegn sívaxandi ásókn manna í þá átt að komast inn á þessa gr. með ríflega fjárstyrki. Vilyrði um að taka þessa gr. til endurskoðunar duga ekki. eina úrræðið er að höggva á hnútinn.

Hæstv. fjmrh. hefur boðað sparnað í ríkisrekstrinum á næsta ári, og er það vel. Ýmsar sparnaðarráðstafanir þurfa að sjálfsögðu nokkurn undirbúning. Till. mín felur bæði í sér afnám misréttis og sparnað, og er hægt að framkvæma hvort tveggja undirbúningslaust. Tel ég, að einmitt nú, þegar byrðar eru lagðar á þjóðina, sé nauðsynlegt að geta sýnt sparnaðarvilja í verki.

Þá flyt ég ásamt hv. 4. þm. Norðurl. v. (EI) till., sem ekki hefur reyndar enn verið útbýtt, um framlag til byggingar íþróttahúss á Siglufirði, að upphæð 100 bús. kr. Þetta er nýr liður, sem á að bætast við 14. gr. XI. kafla, 28. lið fjárl. Bygging þessa íþróttahúss er hafin fyrir nokkru, en það er fyrst og fremst ætlað til afnota fyrir gagnfræðaskólann á Siglufirði. Er gert ráð fyrir, að á þessu ári verði unnið að framkvæmd við bygginguna fyrir um það bil 500 þús. kr. Fræðslumálastjóri og íþróttafulltrúi eru því meðmæltir, að hús þetta verði samþ. sem skólabygging og verði tekið inn á fjárl. Hefur menntmrn. einnig lagzt á sömu sveif og skrifað hv. fjvn. svofellt bréf, dags. 25. þ. m., sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv, forseta:

„Hér með er lagt til, að veittar verði í fjárlögum fyrir árið 1960 kr. 100000 til byggingar fimleikahúss og sundlaugar á Siglufirði. Allur kostnaður við framkvæmd þessa er áætlaður kr. 2200000, en af því mundi ríkissjóði ætlað að greiða kr. 1100000.

F.h. ráðherra,

Birgir Thorlacius.

Til fjárveitinganefndar Alþingis, Reykjavík“.

Ég vil leiðrétta það, sem hér kemur fram, að hér er ekki um að ræða fjárframlag til fimleikahúss og sundlaugar, heldur fimleikahúss eingöngu, og það er fimleikahúsið eitt, sem kostar 2.2 millj. Sundlaugin er fyrir a.m.k. 2 árum fullgerð, og það er ekki verið að fara fram á fjárveitingu til hennar.

Þetta bréf menntmrn. barst hv. fjvn. því miður of seint til þess, að n. gæti tekið það upp í till. sínar, sem hún hefði án efa gert að öðrum kosti, og er till. flutt til þess að hindra bað, að þetta seinlæti komi að sök.

Þá hef ég enn fremur gerzt meðflm. að till., sem er ekki búið að útbýta, varðandi ríkisábyrgð, að upphæð 1200 þús. kr., til hótelbyggingar á Blönduósi. Hér er búið að veita ríkisábyrgð til hótelbyggingar í Reykjavík, að upphæð 20 millj. kr., og öðrum hótelkaupendum mun vera búið að gefa ívilnun í stimpilgjöldum og slíku, nærri því 1 millj. kr. Það er að sjálfsögðu ekki síður þörf á því úti um landið að byggja hótei, og það er einmitt stórt og nýtt hótel í smiðum á Blönduósi, og finnst mér, að landsbyggðin megi þar ekki verða út undan, síður en svo.