28.03.1960
Sameinað þing: 30. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1729 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

42. mál, fjárlög 1960

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að lengja þessar umr. Það hefði verið ástæða til þess að ræða margar þær till., sem fram hafa verið bornar, en það eru svo fáir hv. þm. hér viðstaddir, að ég sé ekki ástæðu til þess að fara að ræða þær í einstökum atriðum.

Ég stóð hér aðeins upp vegna tveggja atriða í ræðu hv. 3. þm. Vesturl. (HS), sem ég vildi leiðrétta. Annars vegar voru það ummæli hans og þá um leið andsvör við því atriði í ræðu hæstv. fjmrh., þar sem hann ræddi um viðhorf til hækkunar á fjárveitingu til verklegra framkvæmda, eftir að yfirfærslugjaldið var lögfest 1958. Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að þegar það var lögfest, höfðu fjárlög fyrir það ár verið afgreidd, þannig að það kom ekki til, að það væri hægt þá að breyta hinum föstu fjárveitingum, og till. okkar sjálfstæðismanna í fjvn. var enda í því formi, að það var áskorun á ríkisstj. að beita sér fyrir því að afla sér fjáraukalagaheimildar til þess að hækka fjárveitingar til verklegra framkvæmda um 10%. Það var þessi till., sem var felld. En hann vék hins vegar ekki að hinu, sem er sjálfsagt að verði að hafa í huga til þess að fá rétta mynd af þessu máli, að þegar fjárlagafrv. fyrir árið 1959 var lagt fram haustið 1958, voru fjárveitingar til flestra liða ekki hækkaðar um eyri, hvorki til nýbyggingar vega, brúa né hafna. Hitt er rétt, að það var hækkuð nokkuð fjárveiting til flugvallagerða og enn fremur fjárveiting til viðhalds vega. En til þess að fá rétta mynd af þessu er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir þessari staðreynd, og vildi ég því vekja athygli á þessu atriði.

Þá er það enn fremur annað atriði, sem auðvitað er allverulega villandi í þeim útreikningum, sem hann fór hér með áðan, þar sem hann færði það fram sem sönnun fyrir því, hvað hefði dregið úr framlögum til verklegra framkvæmda, hvað það væri miklu lægri prósenta af heildarútgjöldum ríkissjóðs nú á rekstrargreinum fjárlaga, sem færi til verklegra framkvæmda, en hefði verið á árinu 1958. Hér er vitanlega ekki hægt að fá neinn samanburð varðandi það, hvort raunverulega hafi verið dregið úr verklegum framkvæmdum eða ekki, vegna þess að inn á fjárlög nú hafa verið teknir stórfelldir liðir, sem alls ekki voru þá í fjárl., og það er því eðlilegt, að prósentutalan lækki, jafnvel þó að það væri um mjög lítinn eða e.t.v. engan raunverulegan niðurskurð verklegra framkvæmda að ræða. Þetta verður að hafa í huga við þennan prósentuútreikning, því að til þess að fá rétta mynd af því, hvort um raunverulega hækkun eða lækkun er að ræða, er að sjálfsögðu eðlilegt að finna hlutföllin út eftir verðlagsbreytingunni og miða við tölulegan samanburð milli áranna 1958 og 1960.

Önnur atriði voru það ekki, herra forseti, sem ég sé ástæðu til þess að gera að umtalsefni, og vil ekki hér fara út í almennar umr. um efnahags- eða fjármál, vildi aðeins koma þessum aths. hér að og vil að öðru leyti ekki verða þess valdandi að lengja frekar þessar umræður.