29.03.1960
Sameinað þing: 31. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1733 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

42. mál, fjárlög 1960

Unnar Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. forsrh. fyrir þessar upplýsingar, og ég vil lýsa ánægju minni með það, að hæstv. ríkisstj. skuli hafa tekið þetta mál upp. Þessi ákvörðun hæstv. ríkisstj. viðurkennir það sjónarmið, að það sé eðlilegt, að ríkissjóður létti af sveitarfélaginu í Hveragerði þeim tilkostnaði, sem það hefur af fegrun og umbótum, sem leiðir af mikilli komu erlendra ferðamanna. Hveragerði er nú orðið aðalferðamannastaður landsins og gegnir nú því hlutverki, sem Geysir hafði áður. Í trausti þess, að ríkisstj. athugi, hvernig unnt sé að sjá til þess, að þar sé slík aðkoma, að af verði landkynning fyrir þjóðina, get ég fallizt á ósk hæstv. forsrh. og tek till. til baka.