30.11.1959
Efri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Mér þykja heldur fáir þdm. hér viðstaddir. Ég vildi mælast til þess, að forseti hlutaðist til um, að þdm. gengju í salinn. (Forseti: Það hafa verið gerðar þær ráðstafanir, sem mögulegt er. ) Ég mun staldra við þangað til.

Herra forseti. Við erum staddir hér á ákaflega sögulegum fundi. Það er, að ég hygg, í fyrsta skipti í sögu þingsins frá því 1918, að þingfundur er háður 1. desember. 1. des. er genginn í garð. Mér hefði fundizt það viðeigandi, að þessa atburðar hefði verið minnzt af forsetastóli, því að vissulega markar sá dagur þau tímamót í okkar sögu, að þess hefði verið vert. 1. des. 1918 gerðist sá atburður, sem hvert mannsbarn kannast við. Þá gekk í gildi sambandslagasamningurinn við Danmörku, sem var áfangi og árangur af baráttu margra beztu sona íslenzku þjóðarinnar. Og þá náðist sá áfangi, sem á var byggt síðar, þegar við endurreistum lýðveldi hér á landi 17. júní 1944. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að það hafi ekki verið háður þingfundur 1. des. fyrr en þetta.

Og þessi fundur, sem háður er 1. des., er háður undir nokkuð einkennilegum kringumstæðum. Ég verð að taka undir með þeim þm., sem hér hafa talað og vítt hafa þau vinnubrögð, sem hér eru höfð í frammi. Það er furðulegt, að það skuli vera haldinn fundur að næturþeli hér í Ed., þegar enginn fundur er haldinn í Nd. Það er furðulegt, að það skuli vera hafður sá háttur á vinnubrögðum, sem hér hefur verið hafður, að það sé hringlað til með málin á dagskránni, horfið frá einu, þegar búið er að halda framsöguræðu um það, tekið annað mál, sem fleygt er inn í þingið, bandormur, undinn saman úr fjórum frumvörpum, rætt um það, það afgreitt til n., síðan er haldið áfram og horfið þar að, sem fyrr var frá horfið, og tekið til við umr. um frv. það um heimild til bráðabirgðafjárgreiðslna úr ríkissjóði, sem hér liggur fyrir til umræðu. Ég held, að svona vinnubrögð séu, sem betur fer, alveg einsdæmi í íslenzkri þingsögu, og það er alveg rétt að láta þingtíðindin geyma það. Ég hygg, að það sé elnsdæmi algert, að það sé út af slíku máli sem þessu stofnað til næturfundar á þeim degi, sem lengi var fullveldis- og hátíðisdagur íslenzku þjóðarinnar, og það gert með þeim hætti, sem hér er, á fyrstu dögum þingsins. Ég verð að mótmæla þessu mjög kröftuglega, og ég verð að lýsa undrun minni yfir því, að forseti skuli láta slík vinnubrögð fara fram.

Ég hafði annars ætlað mér að tala hér aðallega um þá brtt. við frv. til l. um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði árið 1960, sem ég flyt ásamt hv. þm. Ásgeiri Bjarnasyni, 1. þm. Vesturl., á þskj. 32. Sú till. snertir mjög landbúnaðarmál. Ég hafði í því sambandi hugsað mér og það að nokkru að gefnu tilefni frá hæstv. landbrh. að rifja upp dálitið sögu Sjálfstfl. í þeim efnum og stefnu Sjálfstfl. í þeim málum. Ég hefði þess vegna eindregið óskað eftir því, að hæstv. landbrh. væri viðstaddur. Og nú vildi ég beina því til hæstv. forseta, hvort hann geti ekki hlutazt til um það, að hæstv. landbrh. mæti hér, því að vissulega er það skylda ráðh. að vera viðstaddur þingfundi, og það er óvirðing við þd. og þingið, að ráðh. séu ekki viðstaddir, þegar eftir því er óskað, og það er óvirðing, ef þessi tilmæli eru virt að vettugi og umr. haldið áfram og knúin fram atkvgr. hér að nóttu til. Ég vil fá alveg skýr svör frá forseta um þetta og vil láta þingtíðindin geyma þau. ( Forseti: Ég get gert tilraun til þess að ná í hæstv. ráðh. En ég ábyrgist ekki, hvort hann kemur, og þó að hann komi ekki, þá munum við halda umr. áfram. ) Á ég þá að bíða? ( Forseti: Hv. þm. verður að ráða því, því að eins og hann veit, þá er ráðh. ekki staddur hér, og það hlýtur að taka einhvern tíma að ná í hann eða gera tilraun til þess að ná í hann.)

Á þessu þskj., nr. 32, gerum við till. um það, að bætist aftan við 1. gr. frv. svo hljóðandi málsgr.: „Enn fremur er ríkisstj. heimilt að greiða þá 3.18% verðhækkun á afurðaverði landbúnaðarins frá 1. sept. s.l., er framleiðendum landbúnaðarvara bar samkvæmt útreikningi hagstofunnar.“

Hv. 1. þm. Vesturl. (ÁB) hefur gert rækilega grein fyrir aðdraganda þess og ástæðunni fyrir því, að þessi till. er hér fram borin, svo að ég get að vísu af þeim sökum farið fljótar yfir sögu. En ég vil aðeins undirstríka það og leggja á það áherzlu, að með bráðabirgðalögunum frá s.l. hausti um bindingu verðlagsins á búvörum landbúnaðarins er freklega brotinn réttur á bændastéttinni. Með þessari bráðabirgðalöggjöf voru bændur sviptir 3.18% hækkun á afurðaverði, sem þeir eiga skýlausan rétt á lögum samkv., því að eftir 6. gr. framleiðsluráðslaganna er það alveg skýlaust, að gamli grundvöllurinn, sem við er miðað, og verðlagið á að reikna út eftir, á að gilda, þangað til annar hefur verið fundinn. Um þetta verður ekki deilt. Bændastéttin hefur ein allra stétta gengizt undir gerðardóm, svo sem rakið hefur verið hér af hv. 1. þm. Vesturl. En svo gerast þau óheyrilegu tíðindi, að henni er synjað um að fá þennan gerðardóm um sín kjör, Í stað þess eru kjör hennar, bændastéttarinnar, bundin með brbl. Með brbl. er ómerkt það ákvæði framleiðsluráðslaganna, að tekjur bænda skuli vera í sem nánustu samræmi við tekjur annarra stétta. Og þetta gerði ríkisstj. alveg þvert ofan í gefin fyrirheit í sambandi við setningu efnahagslöggjafarinnar s.l. vetur. Brbl. eru, hvernig sem á þau er litið, furðulegt gerræði af minnihlutastjórn. Því verður ekki á nokkurn hátt mótmælt, að með brbl. framdi fyrrv. hæstv. ríkisstj. fáheyrt gerræði og réttindasviptingu gagnvart bændastéttinni.

Menn tala um það, að þetta sé ekki mikil peningafjárhæð, sem þarna sé um að ræða, peningafjárhæðin sé ekki stór. Það má til sanns vegar færa kannske, að það sé ekki stór peningafjárhæð, sem fellur í hlut hvers og eins. En þó er það ekkert smáræði. En hvað sem því liður, þá er peningafjárhæðin ekki aðalatriðið í þessu, heldur hitt, sú óvirðing, sú lítilsvirðing, sem bændastéttinni var sýnd með útgáfu þessara brbl. Með brbl. var verðlagskaffi framleiðsluráðslaganna raunverulega afnuminn og þar með aðalkaffi þeirrar merku löggjafar, sem veitti bændum svipaðan sjálfsákvörðunarrétt og öðrum stéttum.

Þegar efnahagsráðstafanirnar voru gerðar á s.l. vetri, lá það strax fyrir, að bændur ættu að fá nokkra hækkun á kaupgjaldsliðnum í verðlaginu vegna kaupgjaldshækkana, sem orðið höfðu haustið áður, eftir að verð á landbúnaðarvörum var ákveðið. Framsóknarmenn töldu réttast og jafnvel skylt, að þessi hækkun yrði þá þegar tekin inn í verðið, þar sem bændur áttu þetta raunverulega inni fyrir liðinn tíma. En till. framsóknarmanna þar að lútandi voru felldar af stjórnarflokkunum þáverandi, sem enn eru stjórnarflokkar. En þeir sögðu þá eða a.m.k. sjálfstæðismenn og hétu því hátíðlega, að þetta skyldi verða leiðrétt nú í haust, og því til sönnunar má einmitt vitna í yfirlýsingu hv. þm. Jóhanns Hafsteins, sem hann flutti þá á þinginu og hv. 1. þm. Vesturl. vitnaði í í ræðu sinni hér áðan. Ég fullyrði, að með útgáfu brbl. hafi verið brotnar viðteknar þingræðisvenjur um útgáfu slíkra laga, því að jafnvei þó að Sjálfstfl. hefði verið talinn standa með lögunum, þá brast þingfylgi til að koma lögunum fram. Eins og þá stóð á, stóðu 26 með gegn 26, en hvað þá heldur, þegar Sjálfstfl. lýsti því yfir, að hann mundi fella brbl. En það má einmitt telja alveg viðtekna venju, ekki aðeins hér, heldur og víða um lönd, þar sem brbl. tíðkast á annað borð, að minnihlutastjórn eða utanþingsstjórn hverfi alls ekki að því ráði að gefa út brbl. nema í samráði við þingmeirihlutann eða þingið, sem situr.

Það er vissulega svo, að hlutur Alþfl. er bágborinn í sambandi við útgáfu þessara brbl. En það má e.t.v. segja, að slíkt sé ekki svo mjög að undrast, því að sannleikurinn er sá, að Alþfl. hefur löngum verið heldur skilningssljór á hagsmuni og málefni bændastéttarinnar. En þegar hann hefur verið í samvinnu og samstarfi við Framsfl., hefur það ekki komið að sök, vegna þess að Framsfl. hefur með stefnufestu sinni í þeim málum staðið vörð um hagsmuni bændastéttarinnar, þannig að þeim málum hefur þá verið vel borgið. En þegar Alþfl. er aftur í samstarfi við Sjálfstfl. eða er í hans skjóli eða undir hans verndarvæng, þá verður nokkuð annað upp á teningnum.

Hv. 9. landsk. þm. var að rifja upp hér áðan nokkrar minningar af framboðsfundum, sem við vorum saman á, og það er þá ekki úr vegi máske, að ég rifji aðeins upp örlitla minningu. Ég spurði að því á mörgum framboðsfundum, spurði sjálfstæðisbændur að því, hvort þeir héldu, að þessi brbl. hefðu nokkurn tíma verið sett af Alþfl.-stjórn, sem stuðzt hefði við Framsfl., hans stuðning eða hlutleysi. Ég veit, að þessi hv. þm. man, að það var alltaf, eftir að ég hafði borið fram þessa spurningu, steinhljóð á fundunum. Það treystist enginn, ekki einn einasti sjálfstæðisbóndi til að halda því fram, að Alþfl. hefði dirfzt að setja þessa bráðabirgðalöggjöf, ef svo hefði staðið á, að hann hefði í staðinn fyrir að styðjast við Sjálfstfl. stuðzt við Framsfl. Sannleikurinn er líka sá, að Sjálfstfl. kemst aldrei hjá því að bera ábyrgð á þessari bráðabirgðalöggjöf.

Sjálfstfl. hefur leikið ákaflega kynlegan skrípaleik í sambandi við setningu þessarar bráðabirgðalöggjafar. Sú saga hefur verið rakin hér nokkuð, og ég skal ekki lengja mál mitt mjög með því að rifja hana upp. En þó má aðeins minna á aðalatriðin í þeirri sögu. Í stuttu máli má segja það, að Sjálfstfl. sagði um þessi mál eitt í dag og annað á morgun. Fyrst gaf Sjálfstfl. yfirlýsingu um stuðning við ríkisstj. Alþfl. þrátt fyrir útgáfu brbl. Aðra yfirlýsingu gaf hann svo í sambandi við þetta mál, og það var sú yfirlýsing, sem hv. 1. þm. Vesturl. las hér upp áðan, yfirlýsing um það, að sjálfstæðismenn mundu sjá um, að bændur fengju fébætur fyrir þá réttarskerðingu, sem þeir hefðu orðið fyrir. Þetta atriði bar líka á góma á framboðsfundunum, sem við hv. 9. landsk. þm. og ég vorum á, og þá veit ég, að hann man eftir því, að þar voru það sjálfstæðisframbjóðendur, sem sögðu: Við þetta verður staðíð, nema framsóknarmenn skerist úr leik, en hitt skeður aldrei, að sjálfstæðísmenn standi ekki sem einn maður við þessa hátíðlegu yfirlýsingu um það, að bændum verði greiddar fébætur vegna þessarar réttarskerðingar. — Nú reynir á, hvort staðið verður við þessa hátíðlegu yfirlýsingu, þegar greidd verða atkvæði um þessa brtt., sem hér liggur fyrir á þskj. 32.

Svo kom þriðja yfirlýsingin frá Sjálfstfl. Þá herti hann enn á. Þá var hann alveg orðinn á móti brbl. og sagðist fella þau og greiða atkvæði gegn þeim, þegar þau yrðu lögð fyrir þingið. Og það var sagt, að auðvitað yrðu þessi brbl. venju samkv. lögð fyrir Alþingi, strax og það kæmi saman, og þá mundi það sýna sig, að sjálfstæðisþingmennirnir mundu allir sem einn greiða atkvæði gegn þeim.

Þegar svona var komið, þótti framsóknarmönnum ástæða til að kanna þá þegar, hver heilindi fylgdu þessum yfirlýsingum sjálfstæðismanna, og þeir ásamt Alþb. óskuðu eftir aukaþingi til þess að fjalla um þetta mál. 26 þm., helmingur þm., óskuðu eftir aukaþingi um þetta mál. Því var synjað. Sjálfstæðismenn vildu ekki grípa þá strax tækifærið til þess að standa við yfirlýsingar sínar og fella þessi brbl. Nei, það átti að bíða fram yfir kosningar. Það er ekki furða, þó að hæstv. landbrh. komi svo hér í pontuna og hafi það eitt að segja, að bændur geti verið rólegir, þeir fáí sitt, þeim sé næg trygging í orðum og yfirlýsingum sjálfstæðismanna. Nú reynir á það.

En ég ætlaði, eins og ég sagði, að fara dálítið út í sögu Sjálfstfl. í landbúnaðarmálum, rifja svolitið upp þá stefnu, sem hann hefur haft í málum landbúnaðarins. Ég mun fara fljótar yfir sögu, þar sem hæstv. landbrh. getur ekki gefið sér tóm til að mæta á fundi deildarinnar. Ég skal þó aðeins nefna nokkur mál, þar sem stefna Sjálfstfl. í garð bændastéttarinnar og landbúnaðarmálanna hefur komið nokkuð skýrt fram, og þá leyfi ég mér að nefna fyrst þá merkustu löggjöf, sem sett hefur verið fyrir bændastéttina, þ.e.a.s. afurðasölulöggjöfina frá 1934 og 1935. Hvernig var viðhorf Sjálfstfl. til þeirrar löggjafar? Var hann með þeirri hagsmunalöggjöf landbúnaðarins? Nei, ekki aldeilis. Nei, Sjálfstfl. barðist á móti henni með hnúum og hnefum. Sjálfstfl. gekk svo langt eða hans helztu forustumenn að hvetja til og stofna til mjólkurverkfalls hér í höfuðstaðnum. Það voru birtar yfirlýsingar í málgögnum sjálfstæðismanna dag eftir dag, þar sem hvatt var til þess að hætta mjólkurkaupum, og margir helztu broddar þess flokks minnkuðu mjólkurkaup sín geysilega mikið. Það var líka eitt, sem þá kom á daginn í þeim málgögnum, sem full ástæða er til að rifja upp núna vegna þess, hve ástandið er nú alvarlegt og það má búast við sölubanni á mjólk og mjólkurskortí eftír kannske miðjan mánuðinn. Það er ástæða til að minna á þær ráðleggingar, sem þá komu fram í Morgunblaðinu, en Morgunbl. birti þá ýmsar ráðleggingar til húsmæðra um það, hvernig þær ættu að fara að og bæta sér upp mjólkurskortinn. Meðal annarra ráðlegginga var það, að það væri sérstaklega gott að hafa ýsusoð, það gæti komið í stað mjólkur, það væri heilnæmt. Ég held, að það væri hyggilegt af Morgunbl. að rifja upp þessar uppskriftir, sem það birti á þessum tíma, og birta þær aftur mönnum til leiðbeiningar, ef svo óheppilega skyldi nú fara, að þetta sölubann skyldi skeila á elnmitt af því að Alþingi er ekki leyft að taka afstöðu til þessara mála. Sjálfstfl. sýndi ákaflega glöggt í afstöðu sinni til þessa máls, hver hugur hans var þá í garð bændastéttarinnar.

Næsta atriði, sem ég vil nefna og minna á, er setning búnaðarráðslaganna. Þá var umhyggjan fyrir bændunum þvílík, að ákvörðunarvaldið um verðlagningu afurða landbúnaðarins var tekið úr höndum þeirra og fengið í hendur stjórnskipaðri nefnd. Það er kannske það, sem er í vændum eftir 15. des. ? Það var einmitt þetta illræmda búnaðarráð, sem fellt var niður með framleiðsluráðslögunum, sem reynt var að verulegu leyti að ómerkja með útgáfu bráðabirgðalaganna.

Og þá má minna á nýsköpunarstjórnina. Það má minna á það, hve mikið hún ætlaði af milljónunum, sem hún tók frá til fjárfestingar, í hlut landbúnaðarins. Það var smár hlutur, borið saman við annað. En hitt var þó verra, að það var ekki staðið við það.

Og hvernig var ástandið í lánamálum landbúnaðarins, þegar nýsköpunarstjórnin skildi við? Sjóðirnir voru tómir. Þannig hefur það verið, þegar Sjálfstfl. hefur farið með landbúnaðarmál eða komið nálægt landbúnaðarmálum. Það er þess vegna ekki furða, þó að hæstv. landbrh. lýsi því yfir, að bændur geti látið sér nægja loforð og yfirlýsingar sjálfstæðismanna.

Sannleikurinn er sá, að sjálfstæðismenn hafa ekki af miklu að státa í sambandi við meðferð landbúnaðarmála. Það einasta og það aleinasta, sem þeir eiginlega hafa nú reynt að færa sér til tekna í sambandi við landbúnaðarmál eða meðferð þeirra, er það, að á árum nýsköpunarstjórnarinnar var ákveðið að hækka frá 1. jan. 1947 framlag úr ríkissjóði til nýbýla- og byggingarsjóðs. En ekki einu sinni að þessu áttu sjálfstæðismenn frumkvæðið, heldur var þetta gert samkvæmt frumkvæði Steingríms Steinþórssonar í nýbyggingaráði, en nýsköpunarstjórnin gerði enga tilraun eða a.m.k. ekki tilraun, sem árangur bar, til þess að afla fjár til þess að greiða hin auknu framlög. Það kom í hlut þeirrar stjórnar, sem tók við á eftir.

Og svo er rekinn endahnúturinn á þetta allt saman með brbl. um festingu verðlagsins og um réttindasviptingu þá, sem í þeim er fólgin. En eins og ég áðan sagði, kemst Sjálfstfl. aldrei hjá því, að aðalábyrgðin á útgáfu þeirra laga hlýtur á honum að hvíla, því að það dettur engum lifandi manni í hug, eins og sambandinu hefur verið háttað á milli Alþfl. og Sjálfstfl. á þessu ári, svo sem ég hef lítillega vikið hér að áður í öðru sambandi, að ríkisstj. Alþfl. hefði dirfzt að gefa út þessi brbl. nema í samráði og með fullu samþykki Sjálfstfl.

Það hefur verið minnzt á það hér í þessum umr., að framsóknarmenn hafi sýnt miður góðan hug í garð bændastéttarinnar í sambandi við setningu efnahagslöggjafar 1958 vegna þess álags, sem þá kom á rekstrarvörur landbúnaðarins. Það hefur nú verið sýnt fram á, að það situr sízt á sjálfstæðismönnum um þetta að tala, vegna þess að það hefur verið sýnt fram á það, að sjálfstæðísmenn töldu þessa löggjöf til bóta í mörgum greinum og hreyfðu ekki neinum athugasemdum um þetta atriði á Alþingi. Þeir báru enga till. fram um það að breyta þessu. Þeir hafa síðan, eftir að þeir höfðu aðstöðu til, ekki gert nokkra ráðstöfun til þess að fá þessu breytt. Og því var lýst yfir af meiri hluta stjórnar Stéttarsambands bænda, þar sem í á sæti sjálfstæðismaður, að þeir hefðu ekkert við þessa löggjöf að athuga eða teldu hana ekki mismuna þannig, að hún kæmi harðar við bændur en aðra.

Sjálfstfl. hefur gefið yfirlýsingar í sambandi við útgáfu brbl. Hann hefur í fyrsta lagi heitíð því að tryggja bændum og sjá um það, að þeir fengju fébætur vegna þessarar réttindaskerðingar. Hann hefur í annan stað heitið því að greiða atkvæði gegn brbl. Ég hef hins vegar leyft mér að halda því fram, að Sjálfstfl. hafi í raun og veru tekið ábyrgð á útgáfu þessara brbl. og þess vegna muni hann ekki standa við þessar yfirlýsingar sínar. Nú reynir á þetta. Nú fær hann tækifæri til þess að sýna, hvort hann ætlar að standa við fyrri yfirlýsingu sína um það að greiða bændum fébætur vegna þessarar réttindaskerðingar. Hins vegar hefur hann ekki viljað og ekki fengizt til þess að leggja brbl. fyrir þetta þing, þó að það sé föst og nokkuð viðtekin venja, að ég ætla, að brbl. séu lögð fyrir Alþingi í upphafi þess eða sem fyrst, eftir að það er saman komið. Og hvað sem allri venju um það liður, þá er alveg sérstök ástæða til þess að leggja þessi brbl. strax fyrir Alþingi, bæði vegna þess að gildistími þeirra er takmarkaður, þau renna út 15. des., svo og vegna þess, sem upplýst var um afstöðu þm. til þessara brbl. eða a.m.k. að því er virtist upplýst um afstöðu þm. til þessara brbl. Það var sérstök ástæða til fyrir Sjálfstfl., eftir að hann var kominn í ríkisstj., að grípa fegins hendi það tækifæri, sem honum þar gafst, og leggja brbl. strax fyrir Alþingi og láta fara fram þar atkvgr. um þau og sýna það, að hann mundi verða stefnu sinni, sem hann hafði lýst yfir, trúr í verki. En Sjálfstfl. hefur ekki lagt þessi brbl. fyrir. Og það er meira að segja rík ástæða til þess að ætla, að sú frestun, sem fyrirhuguð er á Alþingi, sé einmitt gerð í sambandi við þessi brbl., það eigi að knýja þingfrestunina fram, áður en kemur að þeim degi, að brbl. falla úr gildi, 15. des. Þetta er alveg einstætt.

Það liggur sem sé alveg ljóst fyrir, að Sjálfstfl. ætlar með undanbrögðum að skjóta sér hjá því að standa við yfirlýsingu sína í sambandi við brbl. Hann ætlar að skjóta sér hjá því að láta þingviljann koma skýrt fram um þessi lög. Þetta er stórkostlega vítavert. Eins og ég hef sýnt fram á, var útgáfa brbl., eins og allt var í pottinn búið, alveg tvímælalaust þingræðislegt brot. Ég vil segja, að hún hafi jaðrað við stjórnarskrárbrot. Ég vil segja, að útgáfa þeirra hafi eins og á stóð jaðrað við það að varða ráðherraábyrgð, — alveg hiklaust. Og ég fullyrði, að það sé ekki hægt að finna fordæmi fyrir því í okkar sögu, að brbl. hafi verið gefin út undir þessum kringumstæðum.

En Sjálfstfl. ætlar — eða forusta hans — í trausti þess, að hún geti beygt sína þm., að koma sér hjá að leggja brbl. fyrir þingið, koma sér hjá því að greiða atkv. um þau. Þetta getur vel tekizt, vegna þess að þeir hafa meiri hluta. En þeir komast ekki hjá því að taka afstöðu til þessarar till., sem hér liggur fyrir. Þeir komast ekkí hjá því að taka afstöðu til þess, hvort þeir ætla að standa við sína yfirlýsingu um að greiða fébætur til bændastéttarinnar vegna þeirrar réttarskerðingar, sem hún varð fyrir í sambandi við útgáfu brbl. Ég viðurkenni það fúslega, að þessi aðferð að flytja till. í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, er óvenjuleg. En hún er líka af hálfu stjórnarandstöðunnar eða Framsfl. hreint neyðarúrræði. Framsfl. vill fá fram þingviljann um þetta atriði. Hann vill, að sjálfstæðismenn verði að sýna það í verki, hvort þeir vilja standa við sinar yfirlýsingar eða ekki. Það var ekki annar kostur til að ná því fram en að tengja atkvgr. um þetta mál við eitthvert annað mál, sem stjórnin þurfti að ná fram. Þetta skilur hvert mannsbarn, og það mun verða tekið eftir því í öllum sveitum landsins, hvernig atkv. falla um þessa brtt. Og það er alveg sama, með hvaða hætti sjálfstæðismenn koma henni fyrir kattarnef. Bændur landsins munu skilja það hugarþel, sem birtist í því. Þeir munu kunna að túlka það, og það verður ekki túlkað nema á eina lund, — á þá lund, að sjálfstæðismenn ætla þá að svíkja sínar yfirlýsingar um það að tryggja bændum fébætur fyrir þessa réttarskerðingu. Og þá munu þeir ekki heldur standa við yfirlýsingu sína um að greiða atkvæði gegn brbl., og þá er vant að sjá, nema þeir grípi til einhverra svipaðra aðgerða og útgáfu brbl. í garð bændastéttarinnar, þegar búið er að senda þingið heim. En um það hafa verið höfð hér mörg orð, en vissulega ekki of mörg, hver óhæfa það er að ætla að fara að senda þingið heim á fyrstu starfsdögum þess, áður en byrjunarstörf þess hafa verið unnin, áður en skipun hefur verið komið á nefndir, ekki kosnir nefndarformenn eða yfirleitt nein vinnubrögð þingsins komin af stað með eðlilegum hætti. Samt á að senda þingið heim. Það verða ekki höfð of stór orð um þessi vinnubrögð. Þau eru hættuleg. Þau eru, eins og bent hefur verið á, fordæmi, sem getur átt eftir að draga mikinn slóða á eftir sér. Ríkisstjórnir eru misjafnar, hafa verið misjafnar og verða misjafnar. Alþingi Íslendinga er valdamesta stofnun íslenzku þjóðarinnar. Það er söguhelgasta stofnun hennar. Það er sú stofnun, sem dugað hefur þjóðinni bezt. Það er skylda okkar, sem kjörnir höfum verið á þetta þing, að halda, hvenær sem er, uppi rétti, heiðri og virðingu þessarar stofnunar og láta ekki ganga á hennar hlut með einum eða öðrum hætti. Og það er skylda Alþingis að standa svo í ístaðinu gagnvart ríkisstj., að hún dragi ekki til sín of mikið af því valdi, sem að réttu lagi á að vera í höndum Alþingis. En samkvæmt íslenzkum stjórnarháttum á það að vera Alþingi, sem mótar stjórnarstefnuna á hverjum tíma, og það er Alþingi, sem er húsbóndi og á að vera húsbóndi á íslenzka ríkisheimilinu. Ríkisstj., ef hún skilur sitt hlutverk rétt, þá er hún ekki og á ekki að vera annað en þjónn Alþingis. Ég vona, að jafnan sitji á Alþingi Íslendinga þeir manndómsmenn, að þeir standi á verði um heiður og virðingu þingsins, ef að því er vegið, hvort sem það kemur frá ríkisstj., sem er studd af þeim, eða ekki.