24.03.1960
Neðri deild: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

99. mál, alþjóðasamningur um fiskveiðar á norðausturhluta Atlantshafs

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hinn 24. jan. 1959 var undirritaður í London alþjóðasamningur milli Íslands, Belgíu, Bretlands, Danmerkur, Frakklands, Hollands, Írlands, Noregs, Póllands, Portúgals, Ráðstjórnarríkjanna, Sambandslýðveldisins Þýzkalands, Spánar og Svíþjóðar um fiskveiðar á norðausturhluta Atlantshafs. Er með þessu frv. farið fram á heimild fyrir ríkisstj. til að ákveða með auglýsingu, að samningurinn skuli ganga í gildi.

Þessi samningur er á vissan hátt framhald af því, sem gerðist fyrir nokkrum árum, eða nánar tiltekið fyrir 14 árum, þegar undirritaður var í London samningur um möskvastærð á botnvörpu og dragnót og lágmarksstærð á fiski. Skyldi samningur þessi gilda fyrir Norðursjóinn og Norðaustur-Atlantshaf, þ. á m. svæðið umhverfis Ísland. Samningur þessi um möskvastærð o.fl. kom þó ekki til framkvæmda fyrr en 8 árum síðar, þegar öll þau ríki, sem höfðu undirskrifað hann, höfðu veitt honum fullgildingu. Öll ríki, sem fiskveiðar stunduðu á þessu svæði, voru aðilar að þessum samningi nema Sovétríkin, en þau gerðust aðilar að samningnum síðar.

Vegna aukinna þarfa á raunhæfum friðunaraðgerðum á fiskislóðum Norðaustur-Atlantshafsins, hefur verið talið, að þessi samningur um möskvastærð o.fl. væri ófullnægjandi og að nauðsynlegt væri því, að gerður yrði nýr samningur, þar sem möguleikar væru til víðtækari friðunaraðgerða, eða réttara sagt kannske aðgerða til verndunar fiskstofninum á þessum hafsvæðum. Undanfarin ár hefur farið fram undirbúningur að slíkum samningum, og hafa verið haldnir óformlegir fundir með aðildarríkjum samningsins frá 1946 um þessi mál. Haustið 1957 var hinn síðasti óformlegi fundur haldinn, en með tilliti til ráðstefnunnar í Genf, sem þá stóð fyrir dyrum, var ákveðið að bíða með frekari aðgerðir, þar til þeirri ráðstefnu væri lokið, þar sem gera mátti þá ráð fyrir, að samþykktir hennar gætu haft áhrif á væntanlegan samning.

Hinn 20. jan. 1959 var svo kvatt til fundar í London, og voru þar saman komnir fulltrúar allra aðildarríkja samningsins frá 1946, en þau eru, eins og ég las hér í upphafi, Belgía, Bretland, Danmörk, Frakkland, Holland, Írland, Ísland, Noregur, Pólland, Portúgal, Sovétríkin, Spánn, Svíþjóð og Þýzkaland. Fulltrúar Íslands á þessum fundi voru þeir Hans G. Andersen sendiherra, Davíð Ólafsson fiskimálastjóri og Jón Jónsson forstjóri fiskideildarinnar.

Fyrir fundinum lá uppkast að samningi, eins og frá því hafði verið gengið áður á óformlegum fundi, og var ráð fyrir því gert, að endanlega yrði frá samningnum gengið á þessum fundi og hann undirskrifaður. Varð og úr, að fullt samkomulag varð um öll atriði samningsins, og undirrituðu hann þá þegar 10 af 14 ríkjunum, en gert var ráð fyrir, að hin fjögur mundu undirskrifa hann síðar innan stutts tíma. Ísland undirritaði samninginn, en hann getur ekki tekið gildi, fyrr en ríkin hafa fullgilt hann samkvæmt þeim reglum, sem gilda þar um í hverju landi.

Í sambandi við samningsgerð þessa var af Íslands hálfu lögð á það megináherzla, að samningurinn gæti á engan hátt haft áhrif á ákvarðanir hinna einstöku landa um víðáttu fiskveiðilögsögunnar. Fékkst að lokum á fundinum samþ. sú grein samningsins, sem tryggir þetta atriði á fullnægjandi hátt, en hún er svo í íslenzkri þýðingu:

„Ekkert í samningi þessum getur haft áhrif á réttindi, kröfur eða skoðanir samningsríkjanna að því er varðar víðáttu fiskveiðilögsögunnar.“

Samningur þessi tekur til fiskveiða á öllu Norður-Atlantshafi, og takmarkast svæðið að vestan við austurströnd Grænlands og línu, sem hugsast dregin eftir 42. gráðu vestlægrar lengdar að 36. gráðu norðlægrar breiddar og þaðan í Gíbraltarhöfða á Spáni, en þar eru suðurtakmörk svæðisins. Þessu svæði er svo skipt í þrjú minni svæði. Er fyrsta svæðið norðan við 60. gráðu norðurbreiddar, og er hafið umhverfis Færeyjar, Ísland og Noreg svo og Barentshaf á því svæði. Annað svæði er svo hafið umhverfis Bretlandseyjar og Írland og allur Norðursjór. Og loks er þriðja svæðið milli 36. gráðu norðurbreiddar og 48. gr. norðurbreiddar, hafið vestur undan vesturströnd Frakklands, sunnan við Bretagneskaga og vestan Pýreneaskaga. Samkvæmt samningnum skal sett upp fastanefnd og skulu öll samningsríkin eiga fulltrúa í nefndinni, og þá skulu einnig settar upp sérstakar nefndir fyrir hvert hinna ofannefndu svæða, og geta þau ríki, sem eiga land að hafi á svæðinu eða stunda veiðar á einhverju svæðinu, orðið meðlimir í þessum svæðanefndum.

Hlutverk fastanefndarinnar er að fylgjast með fiskveiðunum á samningssvæðinu, hvort nauðsyn beri til sérstakra ráðstafana til verndar fiskstofnum og hverra, og gera tillögur þar um til meðlimaríkjanna. Ráðstafanir, sem fastanefndin og svæðanefndirnar geta gert tillögu um, eru eftirfarandi:

1) Reglur um möskvastærð. 2) Reglur um lágmarksstærð á fiski, sem veiða má og landa. 3) Reglur um bann veiða á ákveðnum tímum. 4) Reglur um lokun veiðisvæða. 5) Reglur um notkun veiðarfæra. 6) Reglur, er miða að því að auka fiskstofna, t.d. með klaki, flutningi á fiski milli svæða o.s.frv. 7) Reglur um hámarksafla miðað við heildarafla eða afla á tilteknum tíma, eða sérhverjar þær aðrar ráðstafanir, sem miða að því að viðhalda fiskstofninum á samningsvæðinu. Tillögur teljast samþykktar ef þær fá 2/3 atkvæða, en ríki, sem telur sér ekki fært að samþykkja tillögur, getur innan tiltekins tíma, þ.e. þriggja mánaða frá samþykkt tillögu, lýst sig andvígt henni og ber þá ekki skylda til að framkvæma þá tillögu. Þá getur fastanefndin á sama grundvelli gert tillögur um eftirlit —einnig alþjóðlegt — með því, að settum reglum sé framfylgt. Loks er svo ákveðið, að núgildandi ákvæði um möskvastærð og lágmarksstærð á fiski samkv. samningnum frá 1946 skuli gilda áfram með sömu skilyrðum og aðrar tillögur n., sem gerðar kunna að verða samkv. hinum nýja samningi.

Svo sem áður segir, höfðu í upphafi 10 ríki af 14 undirritað samninginn. En hann var áfram opinn til undirskriftar fyrir þau fjögur ríki, sem höfðu ekki undirritað hann, og hafa þau nú undirritað samninginn. Samningurinn tekur hins vegar ekki gildi, fyrr en hann hefur verið fullgiltur af öllum samningsríkjunum. Þó er gert ráð fyrir því, að ef dráttur verður á fullgildingu samningsins, þannig að öll ríkin hafi ekki fullgilt hann innan eins árs frá undirskrift, en þó ekki færri en 7, þá geti þau ríki ákveðið, að samningurinn taki gildi að því er þau snertir.

Svo sem marka má af því, sem að undan er sagt, getur samningur þessi engin áhrif haft á margyfirlýsta stefnu Íslendinga að því er varðar víðáttu fiskveiðilögsögunnar, svo sem hún hefur m.a. komið fram í ráðstöfunum Íslendinga sjálfra á því sviði. Hins vegar hljóta Íslendingar að telja þýðingarmikið, að samvinna takist á alþjóðlegum vettvangi um nauðsynlega vernd fyrir fiskstofna á úthafinu, og út frá því sjónarmiði verður að telja, að samningur sá, sem nú hefur verið gerður, geti, þegar fram líði stundir, haft mikla þýðingu fyrir okkur Íslendinga.

Einhvern veginn hefur það atvikazt þannig, að mál þetta hefur lagzt til hliðar þangað til að heita má á síðustu stundu, og er þess vegna nokkur nauðsyn á, að afgreiðslu þess verði hraðað, svo sem frekast eru föng á, því að ár frá undirskrift samningsins er liðið 29. þ. m., og þyrfti. fullgildingin þess vegna að vera afgreidd frá hinu háa Alþingi áður en sá tímafrestur er liðinn. Ég vildi þess vegna leyfa mér að vænta þess við þá n., sem fær málið til athugunar, að afgreiðslu þess verði hraðað, svo sem frekast eru föng á, svo að ekki þyrfti til undanþágu að koma, vegna þess að málið hafi ekki verið afgreitt nægilega tímanlega. Ég leyfi mér svo að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr, vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.