25.02.1960
Neðri deild: 36. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1762 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

65. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er nú ekki mjög margt, sem ég þarf að svara þessum hv. þm., sem talað hafa. Ég er þeim þakklátur fyrir það, sem þeir hafa sagt jákvætt um afgreiðslu frv., og ég get tekið undir að verulegu leyti þær aths., sem þeir hafa haft að flytja.

Það var í fyrsta lagi um verðlagssvæðin og skerðingarákvæðið. Ég lét þess getið í minni frumræðu, að ég teldi, eins og nú væri orðið högum háttað á þessu landi, að þá væri grundvöllurinn fyrir skiptingu landsins í verðlagssvæði að mínu viti að verulegu leyti a.m.k. fallinn í burtu. Og ég er þeirrar skoðunar líka, að það sé ekki eða a.m.k. tæpast grundvöllur fyrir því að halda þessari skiptingu landsins í verðlagssvæði áfram. En eins og hv. 4. landsk. þm. gat hér um í sinni ræðu, þá mun málið á sínum tíma hafa verið borið undir sveitarfélögin og þeim gefinn kostur á að láta skoðun sína í ljós um það, hvort ætti að halda þessari skiptingu áfram, og verulegur hluti þeirra, sem svöruðu a.m.k., hafa verið á þeirri skoðun, að þetta bæri að gera. Ég held þess vegna, að það væri ekki rétt að fella niður þessa skiptingu, sem þó er enn í tvö svæði, án þess að hafa á einhvern hátt leitað álits þeirra, sem við þessa löggjöf eiga að búa, og heyra, hvað þeir segja, og hlusta á þeirra rök. Það má vel hugsa sér það náttúrlega að fella niður þessa skiptingu og gera landið að einu verðlagssvæði, þó að sveitarfélögin séu mótfallin, en ég tel rétt, að á þau verði hlustað og þeim gefinn kostur á að segja sína skoðun á málinu.

Hv. 4. landsk. þm. endurtók það oft, að hér væri um allsherjar breytingu að ræða og allsherjar endurskoðun á tryggingalöggjöfinni. Það skilst mér, að ekki hafi verið. Hér var nefnd á miðju árinu 1958 falið að endurskoða sérstakan þátt úr tryggingalöggjöfinni, og það sýnir sig bezt á því, að það var ekki um allsherjarendurskoðun að ræða þá, að árið eftir er annarri n. falinn annar þáttur úr löggjöfinni, og báðar þessar n. voru þess vegna með takmarkað verkefni, og við það var þeirra starf bundið og þeirra breytingar. Bæði frv., sem þessar nefndir sömdu, hafa verið lögð til grundvallar við samningu þessa frv., sem hér er borið fram, en það útilokar ekki, að það hafi ekki verið um neina allsherjar endurskoðun að ræða. Og ég er þeirrar skoðunar, að allsherjar endurskoðun þurfi nú að gera á l., einmitt taka þau öll fyrir.

Báðir hv. þm. minntust á skerðingarákvæðið. Ég tel ekki þörf að gera nú neinar ráðstafanir út af skerðingarákvæðinu. Það hefur verið sett í lög, að skerðingarákvæðið falli úr gildi við áramótin næstu, og við það vil ég láta sitja. Ef ekkert skeður, fellur það af sjálfu sér niður, og mér finnst ekki ástæða til þess að fara á þessu stigi að hrófla við því, það er ekki nema tæpt ár þangað til að því kemur. Og annað, sem ég held að geri það enn minna nauðsynlegt nú en áður að nema þetta úr gildi, er það, að með hækkun á bótunum nú verður sjálfsagt einhver hópur manna, sem áður átti ekki rétt til þess að fá lífeyri, sem fær hann, vegna þess að sú upphæð, sem þarf til þess, að af honum verði tekinn rétturinn, verður að vera miklu hærri, eftir að bæturnar eru hækkaðar eins mikið og hér er gert. Mér finnst þess vegna, að það beri að afgreiða þessar breyt., sem í frv. felast, nú, taka síðan allt kerfið til gagngerðrar endurskoðunar á næstunni og ræða þá kannske fyrst og fremst um skiptingu landsins í svæði. Það er mikil breyting, sem af því leiðir, ef verðlagssvæðaskiptingin verður afnumin, og þarf mikla undirbúningsvinnu, og sérstaklega þarf hún að rökræðast við sveitarfélögin, a.m.k. þau, sem áður hafa beitt sér á móti henni.

Hv. 1. þm. Vestf. taldi eðlilegra að gera sérstaka frv. vegna efnahagsráðstafana, þ.e.a.s. að mér skildist halda því í sérstökum kafla. Því er ég algerlega andvígur. Ég held, að það væri óæskilegt að miða þessar ráðstafanir, þó að þær séu kannske að einhverju leyti afleiðing af efnahagsráðstöfununum, við þær alveg sérstaklega og binda þær sérstaklega þeim, því að ég, eins og ég sagði í minni frumræðu, hef verið að vona, að þær bætur, sem við hér gefum þeim bótaþegum, sem í hlut eiga, þó að það sé vegna efnahagsráðstafananna nú, þá megi þær verða varanlegar og til varanlegra bóta fyrir þetta fólk.

Hv. 4. landsk. þm. lét í ljós mjög einkennilega skoðun á fjölskyldubótunum. Hann tók ekki fram, hvort flokkur hans væri þessarar skoðunar eða hvort þetta væri hans persónulega skoðun. Hann sagði fyrst, að það mætti deila um það sem félagsmálalega aðgerð að greiða fjölskyldubætur með fyrsta og öðru barni, og síðar herti hann á og sagði, að hann teldi enga þýðingu hafa að taka upp þessar greiðslur.

Nú skal ég ekki fara að deila við hann um þetta, en ég vil aðeins benda honum á það, að þeir, sem lengst eru komnir á þessu sviði, bæði Svíar og Finnar, hafa þennan hátt á, — kannske hafa þeir ekkert vit á, hvað sé félagslega heppilegt að gera, og það sé hv. þm. einn, sem situr inni með þá vizku. En ég bendi á það a.m.k., að þeir menn, sem taldir eru vera komnir lengst á þessu sviði, hafa haft þennan hátt á, og eftir því er þetta sniðið. Mér hefur verið tjáð, að fjölskyldubæturnar sænsku, séu ívið hærri en þær íslenzku verða á þennan hátt, en þær byrja með fyrsta barni og halda síðan áfram jöfnum upphæðum á hvert barn, og þetta hefur mér verið sagt að væri líka í gildi í Finnlandi, þó að upphæðirnar væru þar lægri en í okkar till. er gert ráð fyrir.

Þá vildi hv. þm. gera lítið úr því í sambandi við einmitt þetta, að hækkanirnar yrðu þeim mun minni, eftir því sem börnin væru fleiri.

Ég held, að hjá þeim, sem eiga mörg börn, verði hækkunin á fjölskyldubótunum eins og hún getur mest orðið hjá nokkrum, því að þeir, sem eiga mörg börn, eiga líka eitt og tvö og fá þá hækkun, sem aðrir fá á sín fyrstu þrjú börn, — hana fá þeir náttúrlega að fullu. Það má segja, að hækkunin í fjölskyldubótunum vaxi ekki neitt að ráði með fjölgun barnanna, þegar komið er upp fyrir visst mark, og þó hækkar hún svolítið. En hækkunin verður náttúrlega hjá barnmörgu fjölskyldunum sú mesta, sem hún getur orðið hjá nokkrum.

Ég held, að það hafi ekki verið neitt að ráði fleira, sem ég vildi taka fram. Ég veit, að það eru mörg atriði í frv., sem sjálfsagt orka tvímælis, og ég er tilbúinn til þess að ræða bæði við hv. nefnd, sem fær þetta mál til afgreiðslu, og aðra þm. um ýmis atriði málsins. En ég held, að það væri ekki rétt að taka inn í þessa afgreiðslu núna að þurrka út verðlagssvæðin, og að fara að gera ályktun um skerðingarákvæðið. Ég hef hins vegar alveg ákveðnar skoðanir um það hvort tveggja. Ég vil fyrir mitt leyti segja það sem mína persónulega skoðun, að skerðingarákvæðið verði látið gilda, eins og það nú er tímabundið í lögum, og ekki afnumið, og ég er líka þeirrar skoðunar, að afnema beri verðlagssvæðin. En ég tel heppilegra að gera það ekki nú, þar sem hér er ekki og hefur ekki verið um aðalendurskoðun á lögunum að ræða, heldur í fyrra skiptið um endurskoðun á fjórum efnisatriðum, í síðara skiptið endurskoðun á slysatryggingakaflanum einum, og hjá ríkisstj. nú um hækkun á lífeyrisgreiðslunum og fjölskyldubótunum — eða lífeyrisgreiðslunum getur maður sagt. Og þetta er svo sannarlega langt frá því að vera öll efnisatriði almannatryggingalaga, þannig að ég tel rétt, að það verði haldið áfram að reyna að fara ofan í þetta og taka þá þetta ákvæði með verðlagssvæðin upp, en skerðingarákvæðið þarf ekkert að segja um, það kemur sjálfkrafa til framkvæmda, vegna þess að það er í lögum, og fyrir árið 1960 er minni þörf á að breyta því en árin áður, vegna þess að það tekur ekki núna til eins lágra tekna og það gerði áður vegna hækkunarinnar á bótagreiðslunum.