23.03.1960
Neðri deild: 53. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

65. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þess frumvarps um breyt. á l. um almannatryggingar, sem nú er til 2. umr. í hv. deild. Við, sem skipum meiri hl. n., leggjum til, að frv. verði samþ. lítt breytt, eins og fram kemur í nál. okkar á þskj. 207, en minni hl. n. er tvíklofinn, og skila þeir báðir sérstökum nál. og brtt., hv. 4. þm. Reykn. (JSk) og hv. 4. landsk. þm. (HV). Út af fyrir sig hygg ég þó, eftir því sem fram hefur komið í n., að hvorugur fulltrúi stjórnarandstöðunnar sé í raun og veru mótfallinn frv. Hins vegar flytja þeir báðir till. um víðtækari breyt. á löggjöfinni um almannatryggingar en frv. gerir ráð fyrir, og mun ég víkja að þeim till. síðar.

Frv. þetta er stjórnarfrv. og hefur, eins og fram er tekið í grg., við samningu þess aðallega verið stuðzt við tvö frv. önnur, sem samin höfðu verið og undirbúin af tveim n. Hina fyrri skipaði þáv. félmrh. Guðmundur Í. Guðmundsson 16. apríl 1958, og var verkefni hennar, sbr. grg, frv.. aðallega að gera tillögur um hækkun elli-, örorku- og barnalífeyris. Hina síðari skipaði fyrrv. félmrh. Friðjón Skarphéðinsson 5. febr. 1959, og var verkefni þeirrar n. að gera till. um hækkanir slysabóta skv. III. kafla almannatryggingalaganna.

Frv. þau, sem þessar n. sömdu, fylgja með frv. því, sem hér er til umr., sem fskj. í og II, og er sjálft frv. í sinni núverandi mynd í höfuðatriðum byggt á undirbúningsstarfl umræddra nefnda.

Að því er bezt verður séð hafa þær báðar leyst af hendi ágætt starf, og leyfi ég mér af því tilefni að rifja upp, hverjir áttu þarna hlut að máli. Í fyrri n. voru þau Adda Bára Sigfúsdóttir veðurfræðingur, Gunnar Möller hrl., Helgi Jónasson formaður tryggingaráðs, Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri, Jóhanna Egilsdóttir formaður Verkakvennafélagsins Framsóknar, Ragnhildur Helgadóttir alþm. og Sverrir Þorbjörnsson forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins. Einnig störfuðu í þeirri n. frúrnar Þórunn Magnúsdóttir og Aðalbjörg Sigurðardóttir. Í síðari n. áttu sæti Björgvin Sigurðsson framkvæmdastjóri, Eðvarð Sigurðsson alþm., Guðjón Hansen tryggingafræðingur, Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri og Sverrir Þorbjörnsson forstjóri. Formaður beggja n. var Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri.

Störf þessara n. hafa haft mikla þýðingu fyrir undirbúning þessa máls, eins og þegar er fram tekið. En eftir að þær luku störfum, komu til greina ný viðhorf. Á ég þar við þá ákvörðun núv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar að auka stórlega bótagreiðslur almannatrygginganna, bæði til þess að bótaþegar fái meiri leiðréttingu en áður á þeirri skerðingu bóta, sem sívaxandi dýrtíð hefur valdið mörg undanfarin ár, og til þess einnig að draga úr áhrifum gengisfellingarinnar að þessu sinni í skerðingarátt.

Þau spor, sem þannig var ákveðið að stíga, sjást e.t.v. bezt með því að athuga áætluð heildarútgjöld lífeyristrygginganna á fskj. III. með frv. Þar sést, að ársútgjöld þessarar deildar trygginganna eru, skv. upphaflegri áætlun fyrir 1960, 18.3 millj. kr. Miðað við frv. nefndarinnar, sem samdi fskj. I, hefðu útgjöldin hækkað um 32.6 millj. kr., eða í 215.6 millj. kr. Og loks hækka þau skv. frv. því, sem hér er til umr., í 384.6 millj. kr., eða um 201.4 millj. frá upphaflegri áætlun, og er það 110% hækkun. Iðgjöld til sjúkratrygginganna hækka um 3.8 millj., miðað við óbreytt iðgjöld hinna tryggðu, og greiðir ríkissjóður af þeirri hækkun 2.6 millj. kr. Árleg útgjöld slysatrygginganna hækka um samtals 3 millj. 720 þús. kr., og að auki vegna eldri slysa um 7 millj. kr., skv. því, sem áætlað er á fskj. III.

Allt þetta styður þá fullyrðingu, að með frv. sé verið að stíga stærra spor til hagsbóta fyrir hina tryggðu en stigið hefur verið í einum áfanga, síðan lög voru sett um alþýðutryggingar 1936. Og það er ætlun þeirra, sem að frv. standa, að þær breyt., sem nú verða gerðar á almannatryggingalögunum, verði til frambúðar, þótt þær beri hér að nokkru leyti að sem hliðarráðstöfun með víðtækum breyt. á efnahagskerfi þjóðarinnar.

Þar með er þó engan veginn sagt, að ekki þurfi fleira að gera á næstunni, heldur er einungis átt við það, að án frekari undirbúnings verði ekki meira gert í þessum áfanga, og skal ég síðar koma að þeim verkefnum, sem ég og aðrir telja að eigi að taka fyrir hið fyrsta, að loknum nauðsynlegum undirbúningi. Áður en ég vík að því, mun ég fara nokkrum orðum um helztu breyt., sem frv. gerir ráð fyrir frá gildandi lögum. Þær hugleiðingar verða þó hvorki ýtarlegar né tæmandi, því að hvort tveggja er, að í aths. og á fskj. með frv. er mikinn fróðleik að finna, og einnig gerði hæstv. félmrh. glögga grein fyrir breytingunum í framsöguræðu sinni við 1. umr.

1. gr. frv. gerir ráð fyrir þeirri breyt., að við Tryggingastofnun ríkisins starfi framvegis 2 læknar með fullt starf, í stað þess að áður hafði stofnunin í þjónustu sinni 1 lækni með fullt starf og 2 lækna með hálft starf. Þessa breyt. þykir heppilegt að gera nú, þar eð tryggingayfirlæknir hefur beðizt lausnar og sjúkramálastjóri hefur fengið annað embætti. Er mikið undir því komið, að í bæði læknisembættin veljist hinir menntuðustu og færustu menn.

Skv. 2. gr. verða fjölskyldubætur ekki látnar hafa áhrif á mismun iðgjalda á fyrsta og öðru verðlagssvæði, þar eð fjölskyldubæturnar verða að fullu greiddar úr ríkissjóði.

3.–10. gr. frv. fjalla um bótafjárhæðir lífeyristrygginganna skv. 13.–23, gr. l. um almannatryggingar. Helztu breyt., sem frv. gerir ráð fyrir, eru þessar:

Heildarhækkun ellilífeyris, örorkulífeyris og svipaðra bóta verður 45% frá því, sem verið hefur, og í sumum tilfellum meiri. Greiðsla til hjóna á 1. verðlagssvæði hækkar þannig úr 15927 kr. í 25920 kr., en það er 62.8% hækkun, og á sama verðlagssvæði hækkar einstaklingslífeyrir úr 9954 kr. á ári í 14400 kr., en það er 45% hækkun. Hjónalífeyrir verður þannig 180% af lífeyri einstaklinga, í stað 160% áður. Barnalífeyrir hækkar um 41% og fæðingarstyrkur um 24%, og álíka hækkun verður á 3 mánaða og 9 mánaða bótum til ekkju. Ekkjulífeyrir hækkar hins vegar í sama hlutfalli og elli- og örorkulífeyrir. Í þessu sambandi vil ég benda á, að fæðingarstyrkir og ekkjubætur hafa verið jafnhá á báðum verðlagssvæðum. Einnig verða fjölskyldubæturnar nú þær sömu um land allt, og er það fyrst og fremst hækkun þeirra, sem ber að líta sem hliðarráðstöfun í sambandi við gengisbreytinguna. Er fjölskyldubótunum ætlað að draga 81/2 % úr vísitöluhækkuninni, og verða þær greiddar þegar með fyrsta barni, hvar á landinu sem er, í stað þess að þær voru áður greiddar með þriðja barni. Greiddar verða 2600 kr. með hverju barni. Þetta jafngildir því, að þriggja barna fjölskylda á 1. verðlagssvæði fái 6634 kr. hækkun, en 3 barna fjölskylda á 2. verðlagssvæði fái 6924 kr. hækkun. Fjölskylda með 5 börn á að fá 13000 kr. í stað 5828 kr. á 1. verðlagssvæði og í stað 4370 kr. á 2. verðlagssvæði.

Mæðralaun hækka jafnt og ellilífeyrir, en auk þess fær móðir með 3 börn nú full mæðralaun, í stað 2/3 hluta áður, og móðir með 2 börn fær skv. frv. hálf mæðralaun, í stað 1/3 áður.

Í 10. gr. frv. er gert ráð fyrir rýmkaðri heimild fyrir Tryggingastofnunina til að veita hækkun lífeyris á móti framlögum sveitarfélaga. Áður náði þessi heimild til 7% af 105 millj. kr., sem gerir 7 millj. 350 þús. kr. Frv. gerir ráð fyrir 10%, af 162.6 millj. kr., eða 16 millj. 260 þús. kr.

Eftir þær breyt., sem ég hef nú lýst, verður samanburður á greiðslum almannatrygginganna hér og á Norðurlöndum, miðaður við árslaun verkamanna þar og Dagsbrúnartaxta hér, þannig, að einstaklingar fá á Íslandi 281/2% af launum verkamanna, í stað þess að þessi hlutfallstala var 17% áður, Danmörk 30.2%, Svíþjóð 35%. Hjón fá á Íslandi 51:3%, í stað 27.3% áður, í Danmörku 45.4% og í Svíþjóð 46.7% .

11.—13. gr. frv. fjalla um tekjur lífeyristrygginganna skv. 24.–29. gr. laganna. Þar er þess helzt að geta, að ríkissjóður á nú að greiða fjölskyldubæturnar að fullu og sú breyting verður gerð á skiptingu annarra útgjalda, að þau skiptast nú þannig:

Ríkissjóður greiðir 36%, í stað 33% áður, hinir tryggðu 32%, í stað 33% áður, sveitarsjóðir 18%, í stað 19% áður, og atvinnurekendur 14%, í stað 15% áður.

Þetta þýðir það, að hækkunin, sem orðið hefði skv. frv. því, sem er á fskj. I, skiptist eftir reglunum, eins og þær eru nú í lögunum, en alla þá hækkun, sem síðan hefur verið ákveðin, greiðir ríkissjóður, þ.e.a.s. síðari 20% hækkunina og allar fjölskyldubæturnar, eins og áður var getið.

Árleg hækkun á greiðslu sveitarfélaga verður þannig t.d. um 6.4 millj. kr., en mun ekki öll koma fram á þessu ári vegna betri afkomu trygginganna 1958 og 1959 en áætlað hafði verið, og svipað er að segja um iðgjöld hinna tryggðu og atvinnurekenda.

Breyt. þær, sem frv. gerir ráð fyrir á 27. og 28. gr. l., eru eingöngu um breytt orðalag, sem leiðir af breyt. á lögum um tekju- og eignarskatt. Þar, sem áður hefur verið miðað við tekjuskattsgreiðslu og skattgjaldstekjur, er nú lagt til að miðað verði við útsvar og hreinar tekjur.

14.–18. gr. fjalla um slysatryggingarnar, og eru þær breyt. útskýrðar í grg. á fskj. II. Dagpeningar hækka úr kr. 47.80 í 68 kr. fyrir kvænta karla og giftar konur og úr kr. 41.35 á dag í 60 kr. fyrir einstaklinga, og fyrir hvert barn á framfæri, allt að þremur, hækka dagpeningar úr kr. 6.45 í 8 kr. Er þetta um 42% hækkun fyrir hjón, 45% fyrir einstakling, en 24% fyrir hvert barn á framfæri.

Eftir þessar breyt. verður af Íslands hálfu fullnægt samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 102 frá 1953, þar sem ákveðið er, að lágmark dagpeninga skuli vera 50% af launum.

Í 18. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að ráðh. verði heimilt að breyta dagpeningum og bótum, sem greiðast í eitt skipti skv. 38. gr. l., að fengnum till. tryggingaráðs, til samræmis við breyt. á dagvinnukaupi verkamanna.

Dánarbætur til ekkju verða nú jafnháar fyrir alla, 90 þús. kr., en voru áður 87130 kr. fyrir lögskráða sjómenn og 19143 kr. fyrir aðra.

21. gr. frv. gerir ráð fyrir nokkurri aukningu á framlagi ríkissjóðs til sjúkratrygginganna, þannig að fyrir hverjar 100 kr. í hækkuðum iðgjöldum sjúkrasamlaga fá þau nú 260 kr. í tekjur í stað 179 kr. áður, og er þá miðað við, að framlag lífeyristrygginganna hafi numið 12% af iðgjöldum. Er þátttökuhlutfall ríkissjóðs og sveitarsjóða þannig ákveðið í gr., að byrðar þessara aðila verði sem næst hinar sömu og þær eru nú, sbr. grg. frv.

23. gr. frv. hefur inni að halda breyt. á ákvæðum um skyldu sveitarsjóða til að greiða almannatryggingaiðgjöld vegna skattleysingja, sem áður hétu svo. Þetta ákvæði þarf að breytast vegna fyrirhugaðra breyt. á l. um tekjuskatt, og er lagt til í frv., að viðmiðunin verði sú sama og s.l. ár, þ.e. að þeir, sem væru skattleysingjar að óbreyttum lögum, eigi rétt til þess, að sveitarsjóðir greiði iðgjöld fyrir þá.

Skv. upplýsingum skattstofunnar þarf að leiðrétta í gr. tvær tölur. Þar sem standa 7700 kr., á að koma 11150 kr., og þar sem stendur 15400 kr., á að vera 20350 kr., og mun ég leggja fram skriflega brtt. við þessa umr. varðandi þetta atriði.

Um 24. gr. leyfi ég mér að vísa til grg. með frv., þar sem útskýrt er, hvað þar er um að ræða. Eru í grg. athyglisverðar ábendingar um það, að tryggja beri öllum landsmönnum jafnan rétt til lífeyris, en lífeyrissjóðir einkafyrirtækja og stofnana eigi síðan að vera viðbótartrygging. Er hér um stórmál að ræða, sem á vafalaust eftir að koma aftur á dagskrá til úrlausnar.

Ég hef nú hér að framan gert nokkra grein fyrir frv. og helztu breyt., sem það hefur í för með sér, þegar það hefur öðlazt lagagildi. Tvennt er það einkum, sem menn hafa látið í ljós óánægju með, að ekki skyldi gert jafnframt þeim breyt., sem nú verða gerðar. Á ég þar við niðurfellingu skerðingarákvæðanna og afnám verðlagssvæðaskiptingarinnar, en þetta eru tvö höfuðatriði í brtt. háttv. stjórnarandstæðinga.

Um skerðingarákvæðin, sem vissulega eru úrelt, er það að segja, að þau falla burt skv. gildandi I. í lok þessa árs. Það mun vera tiltölulega einfalt að fella þau niður hvað ellilífeyri snertir, en gagnvart örorkulífeyri kemur ýmislegt til, sem gerir málið flóknara. Þarf þetta þess vegna nokkurn undirbúning, þótt l. mæli svo fyrir, að skerðingarákvæðin falli niður í lok þessa árs. Er ég ekki í neinum vafa um, að sá undirbúningur verður framkvæmdur í tæka tíð og ákvæðum laganna fullnægt. Í þessu sambandi vil ég einnig benda á, að skerðingarmarkið hækkar við þær breyt., sem nú verða gerðar, sbr. töflu, sem birt er í nál. okkar. Getur einstaklingur þannig haft samtals í lífeyri og tekjur 36 þús. kr., í stað tæplega 25 þús. kr., áður en kemur til skerðingar, hjón komast nú upp í samtals 57600 kr., í stað tæplega 40 þús. kr. áður.

Hæstv. félmrh. ræddi ýtarlega við 1. umr. um verðlagssvæðin og afnám þeirra, og hef ég þar litlu við að bæta. En vegna þeirra, sem finnst ekki nóg að gert í þessu efni í frv., má einnig benda á, að skv. 20. gr. l. nr. 24 1956, um almannatryggingar, er heimilt að færa sveitarfélag milli verðlagssvæða, en það kostar það, að sveitarfélag, sem vill flytjast af 2. verðlagssvæði yfir á 1. verðlagssvæði, verður að taka á sig að greiða að sínum hluta hækkað framlag til trygginganna, en mismunur á þessum framlögum mun nú vera um 22 eða 23%.

Um þetta fjallar annað aðalatriðið í brtt. hv. 4. þm. Reykn. (JSk). Hann flytur þar þá till., að í stað þess að þessi millifærsla skuli heimil, skuli vera skylt að færa á milli. Ég tel ekki þessa brtt. hafa neina verulega þýðingu, því að ég hygg, að í öllum tilfellum, þegar farið hefur verið fram á slíka millifærslu á milli verðlagssvæða, hafi það verið gert.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða um brtt. hv. 4 þm. Reykn., því að hitt aðalatriðið í hans till. er um skerðingarákvæðin, sem ég hef þegar gert að umtalsefni.

Aftur á móti eru brtt. hv. 4. landsk, þm. (HV) miklu viðameiri en brtt. Jóns Skaftasonar, því að hann leggur til, að í flestum tilfellum hækki bæturnar frá því, sem frv. gerir ráð fyrir. Hann Leggur til, að skerðingarákvæðin falli niður nú þegar, og að verðlagssvæðaskiptingin verði niður felld, og enn fremur felst í hans till. að taka upp heilsugæzlukaflann svonefnda, sem var felldur niður úr tryggingalöggjöfinni fyrir nokkrum árum. Þessar brtt. allar eru svo umfangsmiklar, að það er nokkrum erfiðleikum bundið að gera sér fullkomlega grein fyrir, hvað þær mundu hafa mikinn kostnað í för með sér, og ég hef ekki getað fundið í þessum till., t.d. varðandi heilsugæzlukaflann, að þar væri gert ráð fyrir því, hvernig afla ætti tekna til þess að standa undir þeim kostnaði, sem sú samþykkt mundi óhjákvæmilega hafa í för með sér.

Um þessar till. hefur ekki orðið samkomulag í heilbr.- og félmn. og munu fulltrúar minni hl. að sjálfsögðu gera nánari grein fyrir þeim, og sé ég ekki ástæðu til að svo stöddu að fara um þær fleiri orðum.

Ég vil að endingu láta það í ljós, að ég tel, að með þessari lagasetningu muni vel til takast, að með henni verði stigið stórt spor í þá átt að leiðrétta þá skerðingu, sem bótaþegar trygginganna hafa orðið fyrir á liðnum árum vegna sívaxandi dýrtíðar. Og það er vitanlegt, að það er með bótaþega almannatrygginganna alveg eins og með sparifjáreigendur. Það er fyrst og fremst þeirra hagsmunamál, að sú dýrtíðarþróun, sem undanfarið hefur átt sér stað hér í landinu, verði stöðvuð. Aðgerðir þær, sem nú hefur þurft að gera í efnahagsmálum, hafa nokkra hækkun í för með sér í svipinn á framfærslukostnaði og koma þess vegna niður á bótaþegum almannatrygginganna eins og öðrum, en með þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið, er stefnt að því að stöðva hina óheillavænlegu dýrtíðarþróun. Ég vil að lokum láta í ljós þá von, að það takist, ekki sízt til þess að bótaþegar almannatrygginganna fái eftirleiðis notið óskertra launa.