23.03.1960
Neðri deild: 53. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

65. mál, almannatryggingar

Frsm. 2. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hygg, að það sé rétt, að á þessu ári séu rétt 30 ár liðin, síðan fyrst var borin fram hér á hv. Alþ. till. til þál. um alþýðutryggingar. Till. var á bessa leið:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að skipa 3 manna milliþn. til þess að undirbúa og semja frv. til l. um alþýðutryggingar, er nái yfir sjúkra-, elli-, örorku-, slysa-, mæðra- eða framfærslutryggingar og atvinnuleysistryggingar.“

Flm. þessarar till. var Haraldur Guðmundsson, þáv. þm. Ísaf., og hafði hann framsögu fyrir málinu f. h. Alþfl.

Þetta leizt Sjálfstfl. ekki á í þann tíð. Hann lagðist því fast og ákveðið gegn því, að n. yrði skipuð til að semja lagafrv. um alþýðutryggingar, og svo óralangt var Sjálfstfl. á þessum árum frá því að geta fallizt á almennar tryggingar til öryggis fátæku fólki í þjóðfélaginu, að hann barðist meira að segja ákaft á móti þeirri lagfæringu á fátækralöggjöfinni, að veittur sveitarstyrkur skyldi ekki svipta menn almennum mannréttindum, svo sem eins og kosningarrétti. Um það atriði sagði foringi íhaldsmanna, Jón Þorláksson, á Alþingi 1927: „Ég er mótfallinn brtt. á þskj. 468. Þar er farið fram á að fella burt það skilyrði fyrir kosningarréttinum, að menn séu ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. Mér sýnist ekki rétt að fara að breyta þessu. Það virðist ekki rétt að setja inn það ákvæði, að breyta megi því skilyrði fyrir kosningarrétti, að menn hafi ekki þegið af sveit, með einföldum lögum.“

Þetta var skoðun flokksforingjans Jóns Þorlákssonar. Hann var flokksforingi Íhaldsflokksins, ég skal taka það fram. En þó kvað einn af merkustu þm. íhaldsins, Jóhannes Jóhannesson bæjarfógeti, enn þá fastar að orði um þetta atriði, því að hann sagði m.a. þetta í þingræðu: „Það er mér mjög ógeðfelld tilhugsun, að menn, sem ekki geta séð fyrir sér og sínum, eigi að fara að sjá fyrir og stjórna okkur hinum.“ Og hann bætti við: „Ef veittur endurkræfur sveitarstyrkur hefur ekki réttindamissi í för með sér, mun það verða rothögg á sjálfsbjargarviðleitni margra og auka sveitaþyngslin að miklum mun, og ætti það að vera tryggt með stjórnarskránni, að slíkt kæmi ekki fyrir, alveg eins og það er tryggt með henni, að þjófar og bófar hafi ekki kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis.“

Það átti sem sé að vera jafnvel frá réttleysi fátæklinganna gengið í sjálfri stjórnarskrá Íslands að áliti þessa íhaldsmanns og réttleysi dæmdra óbótamanna.

Nærri því má geta, að menn, sem slíka afstöðu höfðu til félagsmálalöggjafar, voru víðs fjarri því að geta fallizt á setningu almennrar tryggingalöggjafar, enda fór það svo, að þegar Haraldur Guðmundsson hafði, eins og fyrr segir, lokið framsöguræðu sinni um alþýðutryggingarnar, kvaddi einn af mestu mælskumönnum Sjálfstæðisflokksins, Magnús Jónsson dósent,síðar guðfræðiprófessor, sér hljóðs og sagði þá m.a. þetta: „Hv. frsm. (þ.e. Haraldur Guðmundsson) sagði eitthvað á þá leið, að þetta mál væri eitt af beim nútímamálum, sem við Íslendingar værum lengst á eftir í. Ja, aumingja Ísland,“ sagði Magnús. Þarna beitti talsmaður Sjálfstfl., eins og menn heyra, hinu naprasta háði, begar á það var bent, að Íslendingar væru orðnir á eftir öðrum þjóðum í tryggingamálum: Aumingja Ísland! Síðan hélt Magnús áfram og sagði: „Eitt af þeim málum, sem sósíalistar nota til agitasjóna, eru tryggingamálin. Eftir því sem sósíalistar eru sterkari í löndunum, eftir því er meira um alls konar tryggingar, allt fjötrað og flækt í eintómum tryggingum, tekið stórfé af atvinnufyrirtækjunum, og mun ég því greiða atkv. á móti þessari till.

En niðurstaðan varð samt sú í það sinn, að till. var samþ., líklega með eins atkvæðis mun, og milliþn. fékkst skipuð, þrátt fyrir harða mótspyrnu Sjálfstfl. í þessum kapítula tryggingamálanna.

Á næstu tveimur þingum flutti Alþfl. frv. um alþýðutryggingar, en í hvorugt skiptið náði það fram að ganga vegna andspyrnu Sjálfstfl. og ýmissa framsóknarmanna. Í þriðja sinni var málið svo flutt á þinginu 1935, að þessu sinni með árangri, og tóku lögin um alþýðutryggingar gildi 1. febr. 1936. [Frh.]