24.03.1960
Neðri deild: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

65. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Báðir frsm. minni hl. heilbr.- og félmn. hafa látíð í ljós vantrú á því, að það lagaákvæði yrði framkvæmt að fella niður skerðingarákvæðin svonefndu í almannatryggingalögunum í lok þessa árs. Ég sé ekki neina ástæðu til að hnotabítast hér á þessum vettvangi við hv. þingmenn um þetta atriði. En reynslan mun skera úr því, hvernig fer um þetta mál, og ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um, eins og ég lýsti hér yfir í gær, að þessi lagaskylda verður framkvæmd.

Hv. 4. þm. Reykn. (JSk) flytur þá brtt. að fella niður það ákvæði 16. gr. l., að við ákvörðun fjölskyldubóta skuli ekki talin með þau börn í fjölskyldunni, sem eiga framfærsluskyldan föður utan hennar, og ég hygg, að í brtt. hv. 4. landsk. (HV) sé þetta ákvæði einnig. Það má vel vera, að réttlátt sé að fella þetta ákvæði niður. Hins vegar getur sú niðurfelling haft víðtækar afleiðingar, sem liggja ekki ljóst fyrir, og teljum við í meiri hl. n., að ekki sé fært að gera slíka breyt. að lítt athuguðu máli.

Þá minnti ég á það hér í gær í minni framsöguræðu, að hv. 4. þm. Reykn. flytur brtt. við 10, gr. l. um það að þar sem talað er um, að „heimilt“ sé að færa sveitarfélag á milli verðlagssvæða, þá skuli koma „skylt“. Þetta atriði breytir í raun og veru engu. Ég hef aflað mér upplýsinga um, að það hefur aðeins einu sinni komið fram ósk um að færa sveitarfélag á milli verðlagssvæða, það var Neskaupstaður, og við því var orðið. Hins vegar hefur mér verið bent á, að í sambandi við slíka millifærslu á milli verðlagssvæða geti risið upp ágreiningur milli sveitarfélaga, jafnvel svo, að til lögsóknar þurfi að koma, þannig að það geta verið nokkur vandkvæði á að framkvæma þetta lagaákvæði. En í sambandi við þetta atriði er það þýðingarmest, að hætt verði að skipta landinu í verðlagssvæði. Það mál ræddi hæstv. félmrh. mjög ýtarlega við 1. umr., og tel ég enga ástæðu til að endurtaka nú rökin fyrir niðurfellingu þessarar skiptingar. Verkefnin á sviði almannatrygginga, sem leysa þarf alveg á næstunni, eru fyrst og fremst niðurfelling skerðingarákvæðanna í lok þessa árs, og jafnframt þarf að afnema skiptingu landsins í verðlagssvæði. Það er ekki auðvelt að gera sér fulla grein fyrir, hversu mikil útgjöld þetta tvennt hefur í för með sér fyrir tryggingarnar, en mjög lausleg áætlun er 50 –60 millj. kr.

Þeir flokkar, sem ábyrgð eiga að bera á framkvæmd svo mikilla breyt., geta vitanlega ekki samþykkt þær, áður en þær hafa verið undirbúnar þannig, að fyrir liggi, hvar eigi að taka peningana, sem þetta kostar. Það eru aðeins hv. stjórnarandstæðingar, sem geta leyft sér að bera fram till. um tugmilljóna og jafnvel hundruð milljóna útgjöld án þess að hugsa á neinn hátt fyrir tekjuöflun, eins og hv. 4. landsk. þm. gerir að þessu sinni í brtt. sínum.

Ég sé enga ástæðu til að ræða brtt. hans hverja fyrir sig að þessu sinni. Þær snerta yfirleitt allan lagabálkinn um almannatryggingarnar og eru svo víðtækar, að það er ekki auðvelt að gera sér grein fyrir áhrifum þeirra í fljótu bragði. Færustu sérfræðingar, sem ég hef spurt, hvað tillögur hans, aðrar en kaflinn um heilsugæzlu, mundu kosta, hafa ekki treyst sér til að reikna þetta út á skömmum tíma, en lauslega ágizkuð tala er 120 millj. kr. Heilsugæzlukaflinn kostar varla minna, en um þá hlið málsins hefur hv. flm. ekki látið neitt uppi, eins og ég gat um í gær, og í till. hans hef ég ekki fundið neitt um það, hvernig afla skuli tekna til að framkvæma heilsugæzluna. Sjá væntanlega allir, hversu mikið mark er takandi á slíkum till. Þær eru til þess eins fallnar að slá öll fyrri met ábyrgðarlausrar stjórnarandstöðu.

Um heilsugæzlukaflann er annars það að segja, að hann er nú orðinn 14 ára gamall. Á þeim tíma hefur vitanlega átt sér stað þróun í heilbrigðismálum okkar, sem gerir það að verkum, að óhugsandi væri að framkvæma heilsugæzlukaflann óbreyttan, eins og hv. 4. landsk. þm. leggur til, og ef hann hefði sjálfur setið í embætti heilbrigðismálaráðherra, eins og hann gerði fyrir eigi alllöngu, þá hygg ég, að honum hefði ekki dottið í hug að bera fram slíka till. á Alþ., þó að það hendi hann stundum að vera dálítið fljótfær. Má í þessu sambandi mínna á ástæðurnar fyrir niðurfellingu heilsugæzlukaflans 1956, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, vitna hér til grg. með frv. um breyt. á almannatryggingunum á því ári, en þar segir svo:

„Samkv. almannatryggingalögunum frá 1946, III, kafla, skyldi heilsugæzlan, þ.e. bæði heilsuvernd og sjúkrahjálp, falin Tryggingastofnun ríkisins í samráði við heilbrigðismálastjórnina. Eins og kunnugt er; hefur þessum ákvæðum stöðugt verið frestað. Sjúkrahjálpin hefur verið á vegum sjúkrasamlaga, sem nú starfa í hverjum hreppi í landinu, og sérstök lög um heilsuvernd voru sett á síðasta þingi. Eitt þýðingarmesta atriði, sem n. hafði til athugunar, var að gera till. um tilhögun heilsugæzlunnar framvegis. N. átti ýtarlegar viðræður við stjórnir Læknafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur um málið. Niðurstaða þeirra viðræðna var sú, að læknarnir tjáðu sig andvíga því, að sjúkrahjálpin yrði skipulögð á þann veg, sem lögin gera ráð fyrir, og töldu heppilegast, að sjúkrasamlögin önnuðust sjúkrahjálpina með svipuðum hætti og verið hefur. N. leitaði álits sveitarstjórnanna um þetta atriði. Svörin voru þannig, að um 30 sveitarstjórnir vildu leggja áherzlu á framkvæmd ákvæða almannatryggingalaganna um heilsugæzlu, nær 110 sveitarstjórnir voru ákvæðunum andvígar, en 25 svöruðu ekki þessu atriði. N. er þeirrar skoðunar, að mjög yrði torvelt að framkvæma lagafyrirmæli, sem eiga svo litlu fylgi að fagna sem raun virðist vera á um þessi ákvæði, og það því fremur sem læknarnir, er þessi ákvæði varða mest, voru þeim einnig gersamlega andvígir og töldu þau jafnvel óframkvæmanleg. Lækningastöðvar þær, sem lögin gerðu ráð fyrir að komið yrði upp í kaupstöðum, hafa hvergi verið reistar, og fullkominni heilsuverndarstöð hefur aðeins verið komið á fót í Reykjavík. Án slíkra stöðva er sú skipun, sem l. gera ráð fyrir á læknishjálp utan sjúkrahúsa og heilsuvernd, ekki framkvæmanleg.

Nefndin ákvað því að leggja til, að kaflinn um heilsugæzluna yrði numinn úr almannatryggingalögunum.“

Ég tel ekki, að ég þurfi að lesa meira af þessu nál. til þess að sýna fram á, að það getur ekki verið frambærileg till. nú frekar en 1956 að taka upp heilsugæzlukaflann óbreyttan, hvað sem menn annars álíta um það, hvað sé heppilegasta skipulag á þessum málum hjá okkur í landinu almennt. Það hlýtur að reka sig á ýmislegt, sem síðan hefur gerzt, sem er í þessum 14 ára gömlu lögum.

Það er rétt hjá hv. 4. landsk. þm., að Alþfl. hefur beitt sér fyrir almannatryggingunum frá upphafi. Það er líka rétt, að ýmsir andstæðingar Alþfl. hafa oft beitt sér gegn tryggingunum og endurbótum á þeim. En hitt er einnig rétt, að andstæðingar flokksins hafa átt þátt í því að koma þessu hugðarefni Alþfl. á það stig, sem það er nú komið, og er þess þá skylt að geta, að mestu breyt. á löggjöfinni um almannatryggingar hafa verið gerðar í samstarfi við Sjálfstfl., og er það að mínum dómi einn mesti pólitískur sigur, sem einn stjórnmálaflokkur getur unnið, að vinna andstöðuflokk eða flokka á sitt mál. Tryggingarnar eru nú orðnar svo rótgrónar, að engum stjórnmálaflokki mundi koma til hugar að afnema þær eða skerða stórlega. Um hitt er hins vegar deilt, hversu langt skuli gengið í þá átt að fullkomna tryggingarnar. Stjórnarflokkarnir hafa nú komið sér saman um að hækka bótagreiðslur trygginganna um rúmlega 200 millj. kr., en það er 110% hækkun frá því, sem verið hefur.

Þetta finnst hv. 4. landsk. þm. lítilfjörleg hækkun, og hann flytur till. um enn þá meiri hækkun. Þessar till. sé ég ekki ástæðu til að ræða frekar. Það má vel vera, að sumt í þeim sé réttmætt og sanngjarnt. En hér eru þær eingöngu fram bornar sem yfirboðstillögur ábyrgðarlauss stjórnarandstæðings, sem hélt að sér höndum í þessum málum, meðan hann sat sjálfur í stjórn og hafði góða aðstöðu til að bera þessi mál fram til sigurs, en segir nú, að hann varði ekkert um, hvað hlutirnir kosti. Það hefði hann áreiðanlega orðið að taka með í reikninginn, ef hann hefði sjálfur setið í stjórn.