24.03.1960
Neðri deild: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

65. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hv. síðasti ræðumaður fór að blanda inn í þetta mál afstöðunni til efnahagsmálanna og þeim hlut, sem Alþfl. ætti þar að. Ég skal ekki fara að skattyrðast við hann um þá hluti. Ég vil aðeins benda á, að Alþfl. sagði ekkert fyrir kosningarnar, sem hann hefur ekki staðið við eftir kosningarnar. Hann taldi það nauðsynlegt það ár, sem hann fór með stjórn landsins, að reyna að halda verðlagi og dýrtíð niðri í landinu, og honum tókst það og honum tókst það svo, að á s.l. ári, frá 1. marz 1959 til 1. marz 1960, hefur dýrtíðin í landinu ekki vaxið um eitt einasta stig, en það var nauðsynleg undirstaða undir það, að hægt væri að gera þær efnahagsráðstafanir, sem nú hafa verið gerðar, á þann hátt, sem þær hafa verið gerðar, því að hefði sá undirbúningur ekki farið fram, sem Alþfl. hafði uppi, þá hefði vissulega verið öðruvísi viðfangs nú. Ég tel þess vegna, að það sé sízt Alþfl. láandi, hvernig hann hefur að þessum málum staðið, og hann sagði fyrir kosningarnar og tók það mjög skýrt fram, að vandi framtíðarinnar væri enn óleystur.

Út af afstöðu flokkanna til tryggingamála lét ég þau orð falla, að flokkarnir hefðu staðið að því máli þannig, að Framsfl. hefði ekkert síður verið andvígur tryggingalöggjafarafgreiðslunni á stundum heldur en Sjálfstfl. hefur verið, og ég held, að það sé ekki hægt að mæla því í gegn. Tryggingalögin 1946 voru afgreidd með Sjálfstfl. og beinlínis í andstöðu við Framsfl. Hann bar fram till. um að vísa málinu frá, en hún var felld og málið afgreitt á þann hátt, sem lýst hefur verið. — Annars skal ég ekki, þó að miklu meira mætti um þetta segja, taka upp deilur við hv. þm., hvorki um tryggingalögin né um efnahagsmálaafgreiðsluna, en það verður kannske tækifæri til þess síðar.