25.03.1960
Neðri deild: 55. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (488)

65. mál, almannatryggingar

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og ég gat um hér við umr. í gær, hef ég leyft mér að flytja brtt. við 16. gr. frv., og einkanlega eftir þá atkvgr., sem fram fór, tel ég, að sé nauðsynlegt, að þetta nái fram að ganga. Það er tvennt, sem í þessu felst:

Í fyrsta lagi, að dagpeningar í slysatilfellum verði jafnir og hinir sömu fyrir einhleypinga og gifta. Ég fór um það nokkrum orðum í gær, hve nauðsynlegt ég tel, að þetta sé gert, og alveg sérstaklega með tilliti til þess, hve þær ráðstafanir, sem nú eru gerðar í efnahagsmálunum, koma einmitt hart niður á einhleypingum, sem verða ekki aðnjótandi þeirra uppbóta, sem koma eiga alveg sérstaklega með þessum lögum vegna þeirra skerðinga, sem almenningur verður fyrir sökum gengislækkunarinnar og annarra ráðstafana, sem hæstv. ríkisstj. nú hefur beitt sér fyrir. Ég tel það fyllsta réttlætismál, að þessi háttur verði á hafður. Það er ekki hægt í þessu tilfelli að bera því við, að tryggingarnar geti ekki staðið undir þessu. Þetta er lítill kostnaðarauki, mjög lítill, og það er ekki um að ræða, að afla þurfi ríkissjóði tekna til að standa undir þessum atriðum, heldur standa iðgjöld atvinnurekenda til trygginganna hér undir, og ég tel, að það muni vera svo lítið, að þau þyrftu ekki að breytast, þó að þetta væri haft á þennan veg.

Í öðru lagi felst í þessari breyt. það, að niður falli takmörkun við tvö börn, eins og er í frvgr. óbreyttri, sem greiða skuli dagpeninga, 8 kr. með hverju barni allt að þremur. Svo sem hv. þm. sjálfsagt er ljóst, á þetta við þann tíma, þegar fjölskyldubæturnar voru miðaðar við greiðslu með þriðja barni. Nú er þetta fellt niður, og er þá engin ástæða til að halda þessu formi í frv., nema síður væri; vegna þess að þá er mönnum bersýnilega mismunað. Það er eins með þetta. Þetta er áreiðanlega ekki stór kostnaðarauki, og í l. sjálfum eru takmörk sett, eins og menn sjálfsagt vita, þ.e.a.s. dagpeningagreiðslur geta aldrei orðið hærri en 3/4 af launum manna. Miðað við almenna verkamannavinnu, verkamannakaup, mundi þetta sennilega vera greiðsla með eitthvað 4–5 börnum. Ég vænti þess, að hv. þm. sjái, hve eðlilegar og nauðsynlegar þessar breytingar eru, og samþykki þær.