26.03.1960
Efri deild: 47. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

65. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Báðir þeir hv. þm., sem hér hafa talað, bæði hv. 9. þm. Reykv. (AGI) og hv. 4. þm. Vestf. (SE), hafa viljað leitast við að gera lítið úr þeim breyt. á tryggingal., sem hér er lagt til að gerðar verði, vegna þeirra breyt., sem á efnahagsmálalöggjöfinni hafa verið gerðar, og telja, að þær bætur, sem nú er lagt til að gerðar verði, séu ekki nema lítill hluti eða nokkur hluti af þeirri skerðingu, sem almenningur verði fyrir af þeim sökum. Ég sagði í minni frumræðu, að vísitölufjölskyldan, sem eins og hv. síðasti ræðumaður sagði er reiknað með að hafi 4.2 menn í fjölskyldunni, mundi með þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið, ekki þurfa að bera nema þriggja stiga hækkun á verðlagi og hjón með þrjú börn og sömu tekjur og vísitölufjölskyldan hefur mundu sleppa skaðlaus. Þetta virtist hv, síðasti ræðumaður eiga erfitt með að skilja, og ég skal þess vegna leitast við að gera honum nánari grein fyrir því.

Hann lagði þann skilning í tekjuöflun manna, að verkamaður með Dagsbrúnarlaunum hefði ekki nema innan við 50 þús. kr. tekjur á ári, ef ég hef skilið hann rétt, eða 49 þús. kr. tekjur. Við skulum bara reikna með, að hann hafi 50 þús. kr. tekjur. Þá er það með 13 vísitölustiga hækkun á hans nauðsynjum 6500 kr. Nú er þetta ekki svo, að þessi 13 vísitölustig komi að öllu leyti á hann, vegna þess að niðurgreiðslurnar, sem ríkisstj. hefur tekið að sér að inna af höndum, og aðrar ráðstafanir, þær nema auk þess, sem í þessu frv. felst, um tveimur vísitölustigum, þannig að raunverulega er hér ekki um nema 11 vísitölustig að ræða, sem koma til greina í sambandi við athugun á þessu frv., eða 11 vísitölustig á 50 þús. kr., 5500 kr. En bara af tveimur börnum nema fjölskyldubæturnar 2600 kr. á barn eða 5200 kr. á tvö, og nú eru það ekki tvö, heldur 2.2, hvernig svo sem því er varið, sem reikna ber með í þessu sambandi, þannig að hækkunin á fjölskyldubótunum gerir í þessu tilfelli, — ef hann fer niður í 49 eða 50 þús. kr., hún gerir meira en vega á móti þeirri skerðingu, sem maðurinn hefur á sínum kaupmætti. En hv. þm. virtist ekki muna eftir eða vildi ekki muna eftir þeim bótum, sem koma fram í niðurgreiðslum og á annan hátt, sem ríkisstj. hefur gert ráðstafanir til að gera. Ef börnin verða þrjú, þá er auðsætt, að bæturnar, sem fyrir þau koma, eru ekki 5200 kr., heldur 6600 kr., sem fjölskyldan fær þá fyrir sínar fjölskyldubætur til þess að vega á móti skerðingunni, og virðist mér það vera hærri upphæð en 11% skerðing á 50 þús. kr. tekjum nemur, og jafnvel þó að reiknað væri á þær tekjur, sem vísitölufjölskyldunni eru reiknaðar, sem eru um 60 þús. kr.

Þetta er ekki nema önnur hliðin á málinu. Við skulum svo taka ellilífeyrisþega og öryrkja, sem eiga samkv. frv, að fá 44% bætur á sín ellilaun og sinn örorkulífeyri. Það er alveg tvímælalaust, að þessi 44% gera meira og miklu meira en að vega upp á móti þeirri skerðingu, sem þetta fólk verður fyrir af völdum gengisbreytingarinnar. Alveg sama er að segja um mæðralaunin og aðrar bætur, sem ég minntist á í minni frumræðu, að hækkunin á þeim er miklu meiri en sú skerðing, sem þetta fólk verður fyrir af völdum gengisbreyt., og var það ríkisstj. ljóst, að þetta var ekki eingöngu og alls ekki eingöngu miðað við afleiðingar gengisbreytingarinnar, heldur þvert á móti gert ráð fyrir, að þetta væri til þess að bæta þessu fólki þann halla, sem það hefði orðið fyrir að undanförnu vegna þeirrar breyt., sem orðið hefur á tilkostnaði við að draga fram lífið í landinu á undanförnum árum vegná breytts gildis íslenzkrar krónu. Það hefur nú átt sér stað svo lengi, að verðgildi íslenzkrar krónu hefur verið að minnka, og þess vegna hefur; þó að vísitölubætur hafi komið á þessi laun, þeirra hlutur farið minnkandi, og hefur þess vegna verið þörf á að breyta þar um til batnaðar.

Ég vil einnig í þessu sambandi benda á þann mismun, sem á þessu varð 1958 og nú. 1958 var gengi íslenzku krónunnar fellt, þó að dulbúin væri sú gengisfelling, — það vitum við öll, — þegar 55% almenna yfirfærslugjaldið var upp tekið og miklu hærra yfirfærslugjald af nokkrum vörum, þó að einstaka vörur væru þar með lægra yfirfærslugjaldi. En hvað fengu ellilífeyrisþegarnir þá? Hvað fengu þeir þá? Þrátt fyrir það, þó að gengisfellingin 1958 væri ekki ósvipuð því, sem hún er nú, þá fengu ellilífeyrisþegarnir samkv. þeim lögum, sem þá voru sett, 5% hækkun, en nú 44%. Ef nokkur sanngirni er í mati á þeim aðgerðum, sem nú er verið að reyna að gera, og þeim aðgerðum, sem þá voru gerðar, þá ætla ég, að hlutur þeirra, sem að þessum aðgerðum standa, verði a.m.k. ekki minni en 5% stjórnarinnar 1958.

Hv. 9. þm. Reykv. taldi, að fjölskyldubætur á fyrsta barn væru fyrir neðan virðingu siðaðs þjóðfélags, því að með því væri verið að viðurkenna, að lífskjörin í þjóðfélaginu væru svo léleg, að það væri ekki unnt að komast af án þess, að fyrsta barn í fjölskyldu væri styrkt. Ég vildi nú biðja þennan hv. þm. að líta til einnar — ja, ég vil segja bezt stæðu þjóðarinnar í Evrópu: Svíþjóðar. Það hefur enginn kvartað undan því, að í Svíþjóð væru mönnum búin mjög léleg skilyrði, enda er sú þjóð talin ein sú bezt megandi allra Evrópuþjóða. Hvað gera þeir? Þeir leyfa sér þetta sama. Þeir leyfa sér að veita fjölskyldubætur með fyrsta barni. Af hverju? Af því að þeir telja, að sú breyting, sem í fjölskyldunni verður við það, að hún eignast barn, valdi því, að tekjumöguleikar fjölskyldunnar undir þeim kringumstæðum minnki svo verulega, að það þurfi að styðja hana. Í mörgum tilfellum er það svo, að eftir að fyrsta barn í fjölskyldu er fætt, hefur konan ekki aðstöðu til þess að vinna úti á sama hátt og hún hafði áður á móti þessu hafa Svíarnir talið, að þessum erfiðleikum fjölskyldunnar væri rétt að mæta með því að veita styrk, jafnvel með fyrsta barni, og það sem meira er, þetta félagsmálakerfi og sú félagsmálaþróun, sem á þessu byggist, hefur verið til fyrirmyndar, og þeir, sem að þessu standa, hafa verið taldir í röð fremstu þjóða á þessu sviði, enda þótt hv. 9. þm. Reykv. telji það fyrir neðan virðingu siðaðs þjóðfélags að fara svona að.

Ég skal nú ekki fara frekar út í að ræða þetta, en mér finnst, að annaðhvort kenni hér hjá þessum hv. þm., sem hér hafa talað, mjög mikils misskilnings eða þá þeir að yfirlögðu ráði eru að reyna að gera tortryggilegar þær aðgerðir, sem hér er verið að reyna að framkvæma til þess að endurbæta íslenzka tryggingakerfið. Ég neitaði því ekki og ég tók það alveg sérstaklega fram í minni frumræðu, að þetta væri gert í sambandi við þær efnahagsráðstafanir, sem nú er verið að gera. En ég tel líka, að með fjölskyldubótunum sé mætt þeim afleiðingum, sem efnahagsráðstafanirnar valda, að mjög verulegu leyti hjá þeim, sem hafa mesta þörfina fyrir það, en í leiðinni eru líka teknar bætur handa öðrum, sem teljast ekki með í okkar vísindalega vísitöluútreikningi, eins og ellilífeyrisþegum, öryrkjum, einstæðum mæðrum, slysabætur og annað þess háttar. Allt þetta er verulega hækkað í leiðinni, og ég tel það mikinn ávinning. Og ég vil líka láta í ljós þá von, eins og ég sagði í minni frumræðu, að þær breytingar aðrar, sem hér eru gerðar, eins og fjölskyldubæturnar, sem beinlínis eru — mér dettur ekki í hug að bera á móti því — settar í sambandi við efnahagsaðgerðirnar, þær haldist, hvað sem um efnahagsaðgerðirnar verður.