26.03.1960
Efri deild: 47. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1851 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

65. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég held, að ég hafi skrifað nokkurn veginn rétt upp það, sem hv. 9. þm. Reykv. sagði um það, sem hann taldi fyrir neðan virðingu þjóðfélagsins. Ég skildi það svo, að það væri ekki, a.m.k. ekki einasta, að launagreiðslur væru svo lágar eins og þar kom fram, heldur einnig hitt, að það þyrfti að greiða fjölskyldubætur með fyrsta barni. En ég held við það, sem ég áður hef sagt um þetta efni, að hver sem rökin eru hjá þeim þjóðum, sem taldar eru lengst komnar í þessum málum, þá greiða þær þó fjölskyldubætur með fyrsta barni. Ég skal ekki segja, hvort það er í mannfjölgunarskyni, eins og hv. þm. vildi vera láta, eða hvort það er af einhverjum öðrum annarlegum ástæðum, en þær gera þetta, og ég tel, að við verðum ekki sakaðir um að vera fyrir neðan það siðferðislega réttlætanlega, þó að við gerum þetta líka, þegar þeir, sem fremstir eru taldir í flokki, gera það.

Út af sjúkradagpeningunum skal ég aðeins segja það, að þeir hafa verið lægri en slysadagpeningarnir, og það má vel vera, að hv. þm. hafi rétt fyrir sér í því, að þarna sé nokkurt ósamræmi á milli. Ég hef ekki kannað það til hlítar. En ég teldi, að þá væri rétt, að sú n., sem þessi mál fær til athugunar og allsherjarendurskoðunar nú fyrir næsta Alþ., fái þetta atriði líka til endurskoðunar, og vil vænta þess, að hún athugi það mjög gaumgæfilega og hvort möguleikar séu ekki til þess eða rök til þess að færa þetta meira til samræmis.