30.03.1960
Efri deild: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1868 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

65. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Viðvíkjandi þeirri till., sem hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ) var að tala fyrir hér áðan, þá vil ég aðeins geta þess, að þessi till. var rædd við forstjóra Tryggingastofnunarinnar, sem lagði frekar á móti því, að hún væri samþ. Hann sagði að vísu, að það gæti náttúrlega alltaf verið álitamál, hvenær ætti að láta svona ákvæði öðlast gildi, einhvern tíma yrði að skera yfir og gera mun á, það væri ekki hægt að láta svona lög verka langan tíma aftur í tímann, og lét þess getið um leið, að það hefði alltaf verið leitazt við að hjálpa þessu fólki, sem líkt stendur á um eins og þá, sem hv. þm. talaði þarna um, eftír öðrum leiðum, þar sem ekki var hægt að hjálpa þeim að fullu með dánarbótum, eins og þær hafa verið mestar á hverjum tíma.

Þá vil ég aðeins fara nokkrum orðum um brtt. hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) á þskj. 252. Það var rétt, sem fram kom í ræðu hv. þm., að það geta verið nokkrir annmarkar á því að færa tryggingarumdæmi á milli verðlagssvæða. En ég vil þó leggja áherzlu á það, að ég minnist þess ekki, og ég hygg, að það hafi ekki komið fyrir, að slíkri beiðni hafi verið synjað. Það kom að vísu fram í upplýsingum, sem forstjóri Tryggingastofnunarinnar gaf n., þegar hann var á fundi með henni, að það gæti orsakað nokkurn ójöfnuð milli sveitarfélaga innan sama tryggingarumdæmis, ef eitt þeirra og kannske það stærsta færi fram á að vera flutt á milli. En hann taldi, að þá mundi Tryggingastofnunin ekki synja um flutninginn á milli verðlagssvæða, heldur mundi stofnunin reyna að beita sér fyrir því, að öll sveitarfélögin á tryggingarsvæðinu flyttust samtímis á milli.

Í öðru lagi tel ég víst, að breyt. á verðlagssvæðunum, þ.e.a.s. niðurfelling þess að skipta landinu í verðlagssvæði, verði samþykkt við þá endurskoðun, sem fram mun fara á þessum lögum fyrir næsta þing, og er þá enn minni ástæða til að vera að breyta þessu.

Um brtt. hv. 9. þm. Reykv. (AGI) vil ég aðeins segja það, að ég tel víst, að það mál muni verða tekið til athugunar við væntanlega endurskoðun. Við hv. 9. þm. Reykv. erum sammála um margar breytingar, sem æskilegar eru á lögunum. Hitt erum við ósammála um, hvort lögfesta eigi þegar í stað allt, sem okkur getur dottið í hug að kynni að vera til bóta, eins og hann vill gera, eða hugsa málið og rannsaka það niður í kjölinn, áður en endanlega er frá því gengið, eins og ég vil gera. Ég er ekki í neinum vafa um það, að vegna hinna tryggðu er betra, að breytingar séu svo vel undirbúnar, að líkur sé til, að þær standist dóm reynslunnar. Því miður hefur hitt komið fyrir bæði hér á landi og erlendis, að menn hafa flýtt sér einum of mikið í þessu efni og því neyðzt til að fara aftur á bak aftur. Ég vona, að til þess komi ekki um þær miklu kjarabætur, sem nú er verið að lögfesta, og vil a.m.k. gera mitt til að undirbúa svo vel næsta áfanga, að ekki komi heldur til þess um hann.