30.11.1959
Efri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það er nú þegar ljóst, þótt það hafi ekki verið sagt hér berum orðum, hvað hæstv. ríkisstj. ætlar að gera varðandi þau loforð, sem hennar flokkur, þ.e. a. s. Sjálfstfl., gaf fyrst í vetur sem leið, þegar lögin um niðurfærslu verðlags o.fl. voru til umr., og síðan margyfirlýst fyrir kosningarnar í haust, hvað flokkurinn vildi gera, hann vildi bæta bændum upp þessi 3.18%. Nú er það nokkurn veginn sýnt eftir ræðu hæstv. fjmrh., að flokkurinn ætlar að svíkja þetta allt saman, og það ætlar hann að gera á nokkuð finan hátt, eins og þessir finu menn innan þessa fina flokks gera yfirleitt. Hann ætlar að gera það með því móti, að þegar verið er að ræða um brtt. um, að bændum skuli bætt þessi 3.18%, þá á að leggja fram brbl. og segja: Ja, við tökum afstöðu til málsins í sambandi við brbl. Síðan verður þetta frv, afgreitt og þingfresturinn gefinn og ekki afstaða tekin til brbl., meðan þing situr núna, og svo endurnýjar hún brbl. á eftir. Á meðan ætlar hæstv. ráðh. að malla fjármálasúpuna fyrir þjóðina og endanlega þá, þegar þessi súpa verður á borð borin, svíkja allt, sem Sjálfstfl. hefur lofað í þessu máli, eins og fjöldamörgum málum áður, sem hafa varðað bændastétt landsins. Ég get vel skilið það, að búnaðarfræðsla og það, sem það varðar, láti ekki vel í eyrum hæstv. fjmrh., ekki sízt þegar ég minnist þess, að hann mun hafa sagt það hér í þessari d. nú á þessu ári, þegar verið var að ræða um kjördæmabreytinguna, að stefna okkar framsóknarmanna væri stefna óbyggðanna. Það er stefna óbyggðanna að halda uppi rétti héraðanna í landinu. Og þegar á að fara að halda uppí rétti héraðanna og þess fólks, sem þar býr, þá blöskrar hæstv. fjmrh. Sannarlega verða bændur landsins ekki öfundsverðir á meðan hæstv. ráðh. og hans flokkar fara með völdin í þessu landi.