30.03.1960
Efri deild: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1871 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

65. mál, almannatryggingar

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. drap hér á eitt atriði, sem ég gerði að umtalsefni við 1. umr. þessa frv., það eru fjölskyldubæturnar með fyrsta og öðru barni. Ég skildi hv. þm. svo, að hann hefði litið svo á það, sem ég og kannske fleiri hafa sagt um þetta, að við værum á móti því, að greiddar væru fjölskyldubætur með fyrsta og öðru barni, eins og sagt er í frv. Ég vil leiðrétta þetta. Það er mjög fjarri því, að ég sé andstæður því, að þessar fjölskyldubætur séu greiddar með fyrsta og öðru barni. Þvert á móti, ég er alveg sannfærður um, að hjónum með eitt eða tvö börn veitir sannarlega ekki af bessum 2600 kr. bótum, sem þau eiga að fá með hvoru barni. Mér er það fullljóst, að sú upphæð bætir ekki upp að fullu þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið og verið er að gera af hálfu núv. hæstv. ríkisstj. Það er því misskilningur, ef þessi hv. þm. eða nokkur annar þm. hefur skilið orð mín á þann veg, að ég sé að vita þessar fjölskyldubætur, sem ákveðnar eru í frv. með fyrsta og öðru barni hjóna.

En það er annað, sem ég hef spurt um og spyr um enn og vil jafnvel beina til hv. 2. þm. Reykv., hvernig hann lítur á það mál. Það eru þær hækkanir á fjölskyldubótum, sem ætlaðar eru samkvæmt þessu frv. með börnum, eftir að börnin eru orðin þrjú í fjölskyldu, þ.e. með fjórða, fimmta, sjötta barni o.s.frv. Það er reikningsdæmi, sem ég hef ekki getað reiknað.

Gengislækkunin ein hefur þær verkanir, að hjón með eitt barn þurfa að fá 2600 kr. bætur, og það er tilgangurinn með þessum bótum og ekkert annað að mæta gengislækkuninni, samkv. grg., sem fylgdi efnahagsmálafrv. stjórnarinnar. Hvernig getur staðið á því, að hjón þurfa þessa upphæð með einu barni, en hjón, sem eiga 4 börn, þurfa ekki nema 269 kr. hækkun með fjórða barninu? Þetta hef ég aldrei getað skilið. Og af því að ég treysti því, að hv. 2. þm. Reykv. muni skilja þessi mál a.m.k. betur en ég og kannske flestir aðrir þm. í þessari hv. d., þá þætti mér vænt um að heyra álit hans á því, hvernig þessum reikningi er háttað, hvernig gengislækkunin ein getur lagt 2600 kr. byrðar a.m.k. á hjón með eitt barn, en ekki nema 269 kr. byrði á hvert barn, sem er umfram þrjú.

Hv. frsm, meiri hl. heilbr.- og félmn. ræddi hér allmikið ýmsar þær breyt. á tryggingalöggjöfinni, sem hann taldi að þyrfti að gera, og þær voru margvíslegar, og ég efast ekki um, þó að ég sé ekki nægilega vel að mér í þessum málum, að þar hefur hann bent á margt réttmætt. Hitt er miklu einkennilegra, að hann leggur til, að engar af þeim breytingum verði gerðar, heldur frv. samþ. eins og það er. Hann kom ekkert inn á það heldur í sinni framsöguræðu, að hve miklu leyti mundi takast að bæta upp hinum tryggðu þær byrðar, sem af efnahagsmálaráðstöfununum leiðir. Það hefði verið sannarlega fróðlegt að heyra frá manni, sem er allvel inni í þessum málum, enda mun hann eiga sæti í tryggingaráði, hversu þær bætur eða sú hækkun bóta, sem frv. gerir ráð fyrir, hrökkva til að mæta útgjaldaaukningu bótaþeganna vegna gengislækkunarinnar. Það er mikilsvert atriði í þessu máli, því að þá fyrst sér maður, hvort hér er um framfaraspor að ræða í tryggingamálum almennt, þegar maður hefur þennan samanburð sem gleggstan. Ef þessar hækkanir á tryggingabótum eru það miklar, að fjárhagslega er gróði fyrir hina tryggðu að fá þessar bætur, þótt með fylgi afleiðingar af gengislækkun, söluskatti, vaxtahækkun o.s.frv., þá eru þær til bóta. En ef þessar bætur hrökkva ekki nema fyrir broti af því, sem þetta fólk verður að taka á sig í auknum útgjöldum af öðrum ráðstöfunum hæstv. ríkisstj., þá fer framfarasporið að verða stutt, þrátt fyrir það að hæstv. félmrh. orðaði það eitthvað á þá leið, að aldrei hefði verið stigið slíkt framfaraspor í tryggingamálum á Íslandi sem gert er með þessu frv.

Eins og allir vita, er verið að stíga geysistórt spor í dýrtíðaraukningu í landinu, og það er það spor, sem gleypir þetta spor og miklu meira en það. Þá sér maður, að þetta eru ekki út af fyrir sig framfarir í tryggingamálunum. Það eru aðeins bætur eða léttir á þeim byrðum, sem önnur lög og aðrar ráðstafanir hafa lagt á þessa sömu menn, og fjölskyldubæturnar, sem mér hefur orðið alltíðrætt um, eru að mínum dómi ekki heldur nema nokkur léttir á þeim byrðum, sem efnahagsráðstöfununum fylgja. En sérstaklega er sá byrðaléttir lítilfjörlegur, þegar um barnmargar fjölskyldur er að ræða.

Ég endurtek tilmæli mín til þeirra, sem eru forsvarsmenn fyrir þessu frv., að þeir leitist við að skýra það fyrir mér, því að ég hef engin svör fengið við því enn, hvernig séð er fyrir þeim fjölskyldum, sem eiga mörg börn, en eiga ekki að fá meiri hækkanir á fjölskyldubótum en frv. gerir ráð fyrir, eftir að börnin eru orðin 3 eða fleiri. Mig hefur grunað, að það kynni að vera einhver misreikningur við undirbúning þessa frv. Þó er ekki vinsælt að tala um misreikning hér, hvorki um þetta frv. né annað. En þá dettur mér í hug önnur ástæða, og hún er sú, að þetta hafi alls ekki verið reiknað, eins og ein upphæðin var í fjárlagafrv., þ.e. söluskatturinn. Það hafði nefnilega aldrei verið reiknað út, hvernig ætti að ná þessum 280 millj. Það er kannske eitthvað líkt um útreikninga á fjölskyldubótunum, þær hafi ekki verið reiknaðar. Það kemur ekki til mála, að nokkur fjölskylda fái bætta dýrtíðina með einum 269 kr. hækkun á fjölskyldubótum fyrir hvert barn, sem er umfram þrjú.

Þá langar mig til þess að beina því til hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn., hvort ekki megi búast við, að gjöld hækki hjá bæjarog sveitarfélögum til Tryggingastofnunarinnar við samþykkt þessa frv. Það kann að vera, að svar við þessu leynist einhvers staðar í grg. eða útreikningum, en ég hef ekki komið auga á það í fljótu bragði. En honum er vafalaust kunnugt um það. Mér sýnist, að það hljóti að verða einhverjar hækkanir í útgjöldum fyrir bæjar- og sveitarfélög vegna þessarar samþykktar. Jafnframt vil ég spyrja, hvort ekki megi búast við hækkunum á gjöldum einstaklinganna líka vegna ákvæða þessa frv. Ef hann hefði þessar upplýsingar tiltækar, þætti mér vænt um að heyra þær.

Og loks vil ég endurtaka þau tilmæli mín til hv. frsm. heilbr.- og félmn., hvort hann sé þeirrar skoðunar, að fjölskyldubæturnar hrökkvi fyrir þeirri dýrtíðaraukningu, sem t.d. hjón með fimm börn verða fyrir, eftir að efnahagsmálaráðstafanirnar eru komnar til framkvæmda. Mér sýnist, að hækkun fjölskyldubóta til hjóna, sem eiga fimm börn á fyrsta verðlagssvæði, sé 7172 kr. Hitt vitum við líka, að hagstofan reiknar með, að lífsnauðsynjar vísitölufjölskyldunnar kosti, áður en viðreisnarráðstafanirnar hófust, tæpar 61 þús. kr., og að ríkisstj. gerir grein fyrir því í grg. með efnahagsmálafrv., að búast mætti við, að þessar nauðsynjar hækkuðu um ein 13%, áður en söluskatturinn kom til. Mér sýnast því allar horfur á því, að ef þessi fjölskylda á annað borð hefur haft efni á því að kaupa lífsnauðsynjar fyrir 61 þús. kr., þá verði 13% hækkun á þá upphæð allverulega hærri en hækkun fjölskyldubótanna, að maður nú ekki tali um, hvað þessar nauðsynjar þurfa að vera meiri, ef um 7 manna fjölskyldu er að ræða, heldur en þegar um vísitölufjölskyldu er rætt, sem er aðeins 4.2 menn. Ég held, að það fari ekki hjá því, að jafnvel þessar miklu fjölskyldubætur á fyrsta og annað barn hrökkvi skammt til að bæta upp þá útgjaldaaukningu, sem af viðreisnarráðstöfununum leiðir í heild, og alveg sérstaklega, ef um barnmargar fjölskyldur er að ræða. Ég þori nú ekki að nefna fleiri en fimm börn, því að dæmið versnar, eftir því sem lengra er farið í þá áttina.