30.03.1960
Efri deild: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1874 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

65. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna ummæla hv. 4. þm. Vestf. hér á undan. Hann sagði, að ég hefði ekki minnzt á, hvort bætur eða bótahækkanir, sem fyrirhugaðar eru, nægðu til að vega upp á móti væntanlegum verðhækkunum. Þetta er nú ekki alveg rétt hjá honum. Ég gat þess í minni framsöguræðu hér, og það kom reyndar fram hjá hæstv. félmrh. líka í hans framsöguræðu, að nokkur hluti af þeim bótahækkunum, sem fyrirhugaðar eru, er til þess að mæta þeim kaup- og verðlagsbreytingum, sem þegar eru komnar fram og voru komnar fram vegna þeirra verð- og kaupbreytinga, sem orðið hafa á undanförnum árum, m.a. á dögum vinstri stjórnarinnar. En nokkur hlutinn er ætlaður til þess að mæta þeim hækkunum, sem búast má við að verði nú á næstunni. Um þær hækkanir liggja fyrir áætlanir, sem hv. þm, getur sjálfsagt fengið eins og ég, og getur hann þá sjálfur reiknað það dæmi. En um það, hvernig þetta verður í framkvæmdinni, verður reynslan að skera úr.

Viðvíkjandi fyrirspurn hans um það, hvort ekki verði útgjaldahækkanir hjá sveitarfélögum, ríkissjóði, atvinnurekendum og þeim tryggðu vegna þeirra hækkana, sem hér eru fyrirhugaðar, þá get ég svarað því með fáum orðum. Það hefur reyndar komið fram í framsögu hæstv. félmrh. fyrir frv., að mjög verulegur hluti af þessum útgjaldahækkunum á að greiðast beint úr ríkissjóði, eins og ég veit að hv. þm. veit jafnvel og við öll. Nokkur hluti hækkananna kemur þó á aðra aðila, sem bera tryggingarnar. En eins og ég gerði grein fyrir í framsöguræðu minni fyrr í dag, þá er nokkuð breytt því hlutfalli, sem þeir aðilar, sem bera uppi tryggingarnar, bera eftir þau gjöld, sem eru ekki greidd núna beint úr ríkissjóði, eins og áður hefur verið getið um. Hlutfallinu er breytt þannig, að ríkissjóður greiðir nú 3% hærra en áður hefur verið í lögum, en hinir tryggðu, sveitarsjóðir og atvinnurekendur, 1% lægra hver en verið hefur af þeim hækkunum, sem lenda á sjálfum tryggingunum. Það hefur farið fram athugun á þessu hjá Tryggingastofnuninni, og það hefur komið í ljós, að á þessu ári kemur þessi hækkun ekki með fullum þunga niður á þessa aðila, vegna þess að tekjuáætlun trygginganna á s.l. ári hafði reynzt nokkuð rúm, þannig að það er nokkur tekjuafgangur, sem eins og þið vitið ber að nota á þessu ári til að jafna metin. Af þessum ástæðum verður gert ráð fyrir núna, að hjá sveitarfélögunum muni hækkunin verða hér um bil 8%, en hjá hinum tryggðu kringum 13%, hjá atvinnurekendum kringum 15% og hjá ríkissjóði hef ég því miður ekki töluna hér, en ég gæti trúað, að það væri kannske 10% eða svo, — ég þori ekki alveg að fara með, að sú tala sé ábyggileg. En þetta er sem sagt svo, að á þessu ári er ekki gert ráð fyrir að hækkunin þurfi að vera meiri en þetta. Það má búast við því í þessu sambandi, að gjald til almannatrygginganna fyrir hjón hér í Reykjavik, sem eru á fyrsta verðlagssvæði, hækki af þessum sökum úr 1250 kr., sem mig minnir að það sé núna, í hér um bil 1400 kr. Lengra fram í tímann er ekki hægt um þetta að segja, það fer eftir því, hvað sú áætlun, sem Tryggingastofnunin hefur gert, reynist nærri sanni. En á þessu ári sem sagt er búizt við, að það verði nálægt þessu.