30.03.1960
Efri deild: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1875 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

65. mál, almannatryggingar

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Menn verða vitanlega að meta það hver eftir sínu höfði, hvort þær umbætur, sem gert er ráð fyrir að verði á tryggingalöggjöfinni með því frv., sem hér liggur fyrir séu til endurbóta á henni eða ekki, og virðast vera nokkuð skiptar skoðanir um það, sem er kannske ekki óeðlilegt. En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er fyrst og fremst sú, að hv. 9. þm. Reykv. hefur flutt á þskj. 258 allmargar brtt., og í raun og veru eru þrjú atriði, sem eru veigamest í þessum brtt. hans. Mér sýnast vera veigamestu atriðin, að afnumin verði skipting landsins í tvö verðlagssvæði, að skerðingarákvæðin verði afnumin og bótagreiðslufjárhæðir skuli vera grunnupphæðir, sem greiða skuli vísitöluuppætur á. Og svo eru nokkrar fleiri till., sem hann leggur enn fremur til til breyt. Nú langar mig til að spyrja þennan hv. þm., hvort hann hafi gert sér ljóst, hvort þessar till. hans muni ekki kosta eitthvað? Ég held, að það geti ekki farið á milli mála, að þessar stórvægilegu breytingar, sem hann leggur þarna til að gerðar séu, hljóti að kosta allmikið fé. Og til þess að leysa það vandamál sýnist mér ekki vera til nema tvær leiðir, að breyta bótagreiðslunum eftir þeim tekjum, sem Tryggingastofnun ríkisins hefur nú yfir að ráða, og það ætla ég að hann hafi ekki í huga, að lækka þær bætur, sem greiddar eru, eða þá hitt að leggja á nýja skatta í einhverju formi til þess að mæta þessum hækkunum, sem ég ætla að séu margir tugir milljóna eða kannske hundruð milljóna. Nú get ég vel tekið undir það með honum, að margar af þeim till., sem hann leggur fram, séu mjög æskilegar, en mér finnst bara till. hans vera byggðar þannig upp, að það vanti gersamlega grunninn undir þær. Því hefur verið lýst yfir, að gert sé ráð fyrir því að skipa n., sem væntanlega lyki störfum fyrir næsta reglulegt Alþ., til þess að endurskoða tryggingalöggjöfina í heild, og ég held, að það sé einmitt verkefni slíkrar nefndar að finna viðunandi lausn á ýmsum þeim athyglisverðu atriðum, sem hv. þm. ber fram í þessum brtt. sinum. En ég álit, að á meðan ekki er búið að byggja þannig undir þessi mál, að það sé sæmilega mögulegt að framkvæma það, sem um er beðið, þá sé í raun og veru eingöngu um yfirboðstillögur að ræða, og það er nákvæmlega það, sem þær eru, eins og á stendur nú. Þessir sömu hv. þm, stjórnarandstöðunnar tala mjög um það, að skattar séu hækkaðir, og má það að vísu til sanns vegar færa, en mér sýnist eftir þessum brtt. vera beðið um það, að skattar séu enn meira hækkaðir til þess að mæta þeim atriðum, sem þar er bent á og eins og ég sagði eru mörg mjög athyglisverð. Við hv. 9. þm. Reykv. áttum sæti hér á þingi í tíð vinstri stj., og ég verð að segja það alveg eins og er, að ég man ekki eftir þessum ánægjulega áhuga hans fyrir tryggingalöggjöfinni á þeim árum.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. talaði um, að tryggingamálunum miðaði litið áfram, þetta væri nánast eins og hlaupabraut, þar sem ekkert miðaði áfram. Þessi hv. þm. veit náttúrlega mætavel, að þessum málum hefur einmitt miðað mjög mikið áfram á undanförnum áratugum hér á landi til farsældar og bóta fyrir allan almenning. Þetta er ein merkasta félagsmálalöggjöf, sem við eigum. Það er vitað mál, að það þarf alltaf að vera að gera breyt. á löggjöf eins og þessari. Það er ágreiningslaust á milli minni hl. og meiri hl. í heilbr.- og félmn., að það þurfi að gera ýmsar endurbætur, og einmitt þess vegna hefur verið ákveðið að skipa n., sem annist þessa endurskoðun. Varðandi till. hans, sem mér finnst í sjálfu sér eðlileg, vil ég aðeins segja það, að ég álít, að hún eigi að koma undir þá endurskoðun, sem væntanlega fer fram á þessum l. öllum, og sé mér þess vegna ekki fært að fylgja henni við þessa breytingu, sem nú er gerð. En ég ætla, að þeir, sem segja það alveg ófeimnir, að þessar breyt., sem nú er verið að gera, séu engin endurbót á tryggingalöggjöfinni, muni vita betur, eftir að hafa lesið frv. og kynnt sér það, sem stendur þar, og hvað á að gera.