30.03.1960
Efri deild: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1876 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

65. mál, almannatryggingar

Frsm. 2. minni hl. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Hv. 5. landsk. þm. (PP) lýsti till. mínum hér rétt í þessu sem yfirboðstillögum. Nú geri ég ráð fyrir því, að hann sé þessum till. í raun og veru samþykkur. Hann vill gjarnan, að flestar þeirra komist í framkvæmd, en hann kallar þær yfirboðstill. samt, af því að ég hef ekki, samtímis því að ég gerði grein fyrir till., gert grein fyrir því, hve mikinn kostnað þær hefðu í för með sér og hvernig ætti að fá það fé.

Þetta er alveg rétt. Þetta hef ég ekki reiknað út og ekki haft aðstöðu til að reikna út, en ég taldi málið það mikils um vert, að ég vildi ekki láta það liggja í þagnargildi, og þess vegna þar ég till. fram þrátt fyrir það.

Nú er ýmislegt annað í þessu máli. Það hefur nýlega verið gengið frá fjárl. hér á Alþ. Margir hv. alþm. eru þeirrar skoðunar, að frá þeim fjárl. sé þannig gengið, að ef ekki verði beint kreppuástand hér á þessu ári og atvinnuleysi, þá muni mikill tekjuafgangur verða á fjárlagafrv., og hef ég heyrt hv. alþm. gizka á, að sá afgangur gæti orðið allt að 100–200 millj. kr. Ef ég ætti í skyndi að benda á tekjuöflun til þess kostnaðar, sem mínar till. hefðu í för með sér, ef samþ. yrðu, þá gæti ég bent á þetta. Annað má líka benda á í þessu sambandi. Við erum hér að ganga frá samþykkt lagafrv., sem hefur mikinn kostnað í för með sér. Sérstaklega ef brtt. mínar yrðu samþ., þá er um að ræða talsverðan óvissan kostnað í sambandi við samþykkt frv. En þetta er ekki einsdæmi á þessu þingi nú. Við eigum eftir að afgreiða hér sjálf skattalögin. Það er mál, sem varðar afkomu og fjárhag ríkissjóðs mjög mikið. Þó er búið að ganga frá fjárlagafrv. og samþ. það, en eftir að ganga frá breyt. á skattal., sem hæstv. ríkisstj. hefur boðað og hefur í för með sér geysilega mikla breytingu á tekjuskattinum.

Við gerum ráð fyrir því, að við lifum í lýðfrjálsu landi, og þar af leiðandi getum við vænzt þess, að einhverjar breytingar verði gerðar hér á Alþingi á þessu frv., sem enn er ókomið, sem ríkisstj, hefði ekki reiknað með. Hún hættir á það samt og yrði undir öllum kringumstæðum að bjarga málum við, þó að slíkar óvæntar breyt. yrðu samþ. Hér hallast því ekki svo mjög á hjá stjórnarliðinu og andstæðingum þess að mínum dómi.

Fyrst ég er staðinn upp, vildi ég aðeins fara örfáum orðum um ummæli hv. 2. þm. Reykv. (AuA) hér í ræðu áðan. Ég las upp samþykkt fyrr í dag frá mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, samþykkt, sem var gerð á fundi þar með shlj, atkv. og síðan send hinu háa Alþ. sem erindi. Þessi samþykkt liggur hér sem erindi til Alþ. ásamt grg., sem nokkrar nefndarkonur hafa samið. Nú er svo að heyra á hv. 2. þm. Reykv., sem einhver afturkippur hafi komið í félagskonur, eftir að þetta var gert, og að jafnvel hafi verið hóað saman fundi til þess að reyna að ógilda þessa samþykkt. Til þess þekki ég ekki og get ekki um dæmt. Það breytir engu í þessu máli, að frá mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur er komin fullgild samþykkt sem áskorun til hins háa Alþingis um vissar umbætur á almannatryggingalögunum, umbætur, sem felast í till mínum.