07.04.1960
Neðri deild: 63. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

127. mál, lánasjóður íslenskra námsmanna erlendis

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Gengisbreyting sú, sem hið háa Alþingi samþykkti nú fyrir skömmu, hækkaði verðið á þeim gjaldeyri, sem íslenzkir námsmenn erlendis kaupa hér í bönkum, um 79% meira en nemur hinni almennu hækkun á verði gjaldeyrisins, sökum þess að námsmenn höfðu áður notið sérstakra fríðinda að því er snertir verð á gjaldeyrinum, þ.e. gátu fengið hann keyptan. með álagi, sem nam 30%, þegar hið almenna álag á gjaldeyri var 55%. Þetta gerði það að verkum, að nauðsynlegt var að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að þessi hækkun á framfærslukostnaði íslenzkra námsmanna erlendis kæmi ekki of þungt við pyngju þeirra. Þess vegna var það, að þegar hið endurskoðaða fjárlagafrv. var lagt fram, var gert ráð fyrir því, að fjárveiting til námsmanna erlendis hækkaði í réttu hlutfalli við þá hækkun á gjaldeyri, sem varð gagnvart þeim. Hitt var svo látið bíða meðferðar Alþingis á fjárlagafrv., hvað gera skyldi til viðbótar.

Í hinum nýsamþykktu fjárlögum var fjárveiting til styrktar námsmönnum erlendis aukin úr þeim 2 millj., sem hún nam á fjárlögum s.l. árs, upp í 5.1 millj. kr.

Við nám erlendis munu hafa verið á s.l. árí 802 menn, eða réttara sagt 802 námsmenn fengu á s.l. ári yfirfærslu á hinu sérstaka gengi, þ.e. með 30% álagi. Styrks hjá menntamálaráði nutu hins vegar á s.l. ári 314 námsmenn, eða rúmlega þriðjungur þeirra, sem nutu hinna sérstöku námsmannagjaldeyrisfríðinda hjá bönkum eða innflutningsyfirvöldum.

Þegar Alþingi tók þá ákvörðun að auka framlag til íslenzkra námsmanna erlendis úr 2 millj., eins og það var í fyrra, í 5.1 millj. kr., hefur það að sjálfsögðu verið gert í því skyni, í fyrsta lagi að tryggja, að námsmenn gætu fengið sömu upphæð í erlendum gjaldeyri og þeir hafa fengið í styrk frá menntamálaráði, og svo í öðru lagi að gera menntamálaráði kleift að auka þau námslán, sem það hefur veitt nú um nokkur undanfarin ár. En menntamálaráð úthlutar þeirri upphæð, sem Alþingi veitir til námsmanna erlendis, og tekur ákvörðun um það, að hve miklu leyti það ver henni sem styrk til námsmanna og að hve miklu leyti til námslána.

Þegar eftir 2. umr. fjárlaga hér í hinu háa Alþingi leitaði ég álits menntamálaráðs á því, hversu mikið það kysi að auka styrkveitingar sínar og hversu mikið það kysi að auka lánveitingar til námsmanna erlendis, og ég fékk það einróma álit frá menntamálaráði, — og hin sama var skoðun nokkurra annarra embættismanna, sem um þetta mál fjölluðu, að eðlilegast væri að verja þeirri rausnarlegu viðbótarfjárhæð, sem Alþingi veitti til námsmanna erlendis, þannig, að styrkir til þeirra gætu haldizt óbreyttir í erlendum gjaldeyri, en það, sem þar væri umfram, gengi til þess að auka námslán til námsmanna erlendis. Síðan 1952 hefur menntamálaráð veitt námsmönnum erlendis nokkurt námslán. Fyrsta árið voru námslánin 275 þús. kr., en hafa síðan smávaxið, þannig að á árinu 1959 voru námslánin 400 þús. kr. Menntamálaráð hefur haft samráð um það við menntmrn., að endurgreiðsla þessara námslána mætti varðveitast hjá menntamálaráði og endurlánast til námsmanna erlendis.

Nú, þegar það er skoðun menntamálaráðs, að verja beri meginhlutanum af þeirri aukningu, sem Alþingi nú veitir til námsmanna erlendis, til námslána, er eðlilegt, að sett verði löggjöf um þessa lánastarfsemi. Fyrir um það bil áratug var stofnaður lánasjóður við Háskóla Íslands með framlagi frá Alþingi, og hefur hann starfað síðan. Hann starfar þannig, að endurgreiðsla lánanna hefst 2 árum eftir að námi lýkur, og eiga lánin þá að endurgreiðast á 10 árum og með 31/2% vöxtum. Menntamálaráð hefur fylgt sams konar reglum um sín námslán, og það er eðlilegt nú, er aukning verður á þeirri starfsemi, að hliðstæðar reglur gildi um þetta.

Það er sem sagt nauðsynlegt eða a.m.k. eðlilegt, að nú, er menntamálaráð hyggst verja rúmlega 3 millj. kr. á ári til námslána, að það gerist ekki með heimild í venjulegu ráðherrabréfi, heldur að um það séu sett lög af Alþingi, og þess vegna hefur þetta frv. verið samið og er nú lagt fram. Meginefni þess er, að stofna skuli slíkan lánasjóð. Í 2. gr. eru almennar reglur samhljóða þeim, sem nú gilda um námslán menntamálaráðs og lán í lánasjóði stúdenta, og enn fremur ákveðið, að stjórn sjóðsins skuli vera í höndum menntamálaráðs. Í 3. gr. er ákveðið, að ríkissjóður leggi sjóðnum til árlega 3 millj. og 250 þús. kr., en það er sú upphæð, sem menntamálaráð óskaði að veita til námslána af 5.1 millj., sem það hefur fengið til umráða á fjárlögum yfirstandandi árs.

Meginefni þessa frv. er sem sagt að löggilda námslánastarfsemi menntamálaráðs og kveða á um, að í framtíðinni skuli ríkissjóður leggja til þessarar starfsemi 3 millj. og 250 þús. kr. Minni upphæð mun áreiðanlega ekki duga eða þykja forsvaranleg í þessu skyni á næstu árum. En þegar Alþingi telur sér fært að auka við þessa upphæð, er hægt að gera það með einföldum ákvæðum í fjárlögum, þ.e.a.s. með einfaldri fjárveitingu, svo sem átt hefur sér stað um lánasjóð stúdenta við Háskóla Íslands.

Það mæla mjög mörg rök með því að verja mestum hluta þeirrar aukningar, sem Alþingi hefur nú lagt fram til námsmanna erlendis, til námslána, en ekki til aukinna styrkja umfram það, sem því nemur að halda styrkjunum óbreyttum í erlendum gjaldeyri frá því, sem þeir voru á s.l. ári. Raunar munu styrkirnir aukast nokkuð. Grundvallarreglan er samt sú, að þeir haldast óbreyttir í erlendum gjaldeyri, en viðbótarfjárveitingin að öðru leyti fer til aukinna námslána. Höfuðrökin fyrir því að verja meginhluta fjárins til aukinna námslána eru, að með því móti vex þessi námslánasjóður af sjálfu sér og getur aukið útlán sín í framtíðinni mjög ört.

Tölfræðilegir útreikningar, sem gerðir hafa verið um þetta efni, sýna, að árið 1963, eða eftir 3 ár, gætu lánin, miðað við óbreytt ríkisframlag, aukizt um fjórðung úr milljón, eða upp í 3 millj. og 500 þús., 1964 gætu þau aukizt upp í 3 millj. 750 þús. og 1965 upp í 4 millj. kr. Síðan mundu lánin að óbreyttu ríkisframlagi geta aukizt um 400 þús. kr. á hverju ári, þ.e. um 2 millj, kr. á hverjum 5 árum, ef gert er ráð fyrir því ríkisframlagi, sem hér er byggt á, og miðað við ákveðnar forsendur um vexti af eigin fé og fastan árlegan rekstrarkostnað sjóðsins. Með þessu móti er augljóst, að sjóðurinn getur byggt sig mjög ört upp, og tafla, sem fylgir frv., sýnir, að árið 1980 mundi vera hægt að lána 1.0 millj. kr. til námsmanna erlendis, þó að fjárframlag Alþingis yrði ekki aukið frá því, sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Þetta tel ég vera veigamikil rök fyrir þeirri stefnu, sem hér er mörkuð, að veita meginhluta fjárins, sem veitt er til námsmanna erlendis, til námslána, en ekki til aukinna styrkja.

Þar sem nú er rétt nýhafinn annar ársfjórðungur á yfirfærslum á gjaldeyri til námsmanna erlendis, og það er í raun og veru fyrsti ársfjórðungurinn, sem gengislækkunin bitnar að fullu á námsmönnunum, vegna þess að þeir fengu rétt til þess að nota leyfi sín fyrir fyrsta ársfjórðung á gamla genginu, er mjög aðkallandi, að þeir styrkir, sem nú verður hægt að veita, og þau lán, sem hægt verður að veita, séu veitt sem allra fyrst. Þess vegna er það ósk mín til þeirrar hv. n., sem þetta mál fær til meðferðar, að hún taki það sem allra fyrst fyrir og helzt, ef mögulegt er, ljúki störfum sínum í dag, þannig að þessi hv. d. gæti afgreitt málið í dag. Og þeim tilmælum beini ég til hæstv. forseta, ef nefndin lýkur störfum, að hann geri kleift, að d. afgreiði málið frá sér í dag, þannig að efri deild geti tekið það til meðferðar á morgun, áður en þingið fer heim í páskaleyfi.

Ég á ekki von á því, að þetta mál verði deilumál á milli flokka, heldur að gangur þess í gegnum nefndir og deildir Alþ. geti orðið greiður.

Að svo mæltu legg ég til, að frv. verði vísað til hv. menntmn.