07.04.1960
Neðri deild: 64. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1885 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

127. mál, lánasjóður íslenskra námsmanna erlendis

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Menntmn. hefur tekið frv. þetta til athugunar og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess og mæla einnig með því, að hv. deild verði við óskum menntmrh. um að afgreiða það fyrir þinghlé, til þess að hægt verði að byggja fyrstu afgreiðslu gjaldeyris til námsmanna erlendis samkvæmt hinu nýja gengi á þessu frv.

Menntmn. vill þó gera till. um þrjár breytingar við frv. Tími hefur ekki gefizt til þess að útbýta nál. með þessum brtt., og verður því að leggja till, fram skriflega við þessa umr.

1. till. er við 2. gr. frv. og hljóðar svo: „3. mgr. falli niður.“

Þessi 3. mgr. er á þá lund, að þeir námsmenn, sem njóta fulls styrks frá menntamálaráði eða jafnmikils styrks annars staðar frá, skuli að jafnaði ekki fá lán úr sjóðnum. Þó er sjóðsstjórninni heimilt að víkja frá þeirri reglu, ef sérstaklega stendur á. Menntamálanefnd er út af fyrir sig ekki ósamþykk þessari hugsun, en telur hentugra og æskilegra, að þetta verði reglugerðarákvæði.

2. brtt. hljóðar svo:

„Við 2. gr. 1. málsl. 4. mgr. orðist svo: Lántakandi skal enga vexti greiða, meðan á námstíma stendur, en greiða lánin upp með jöfnum afborgunum og 31/2 % ársvöxtum á 10 árum.“

Breytingin er aðeins sú að setja inn í lögin ákvæðið um 31/2 %, en það mun hafa fallið niður hjá þeim, sem samdi frv. Hins vegar er augljóst af grg., bæði af töflunni yfir lánasjóðinn á árunum 1960–1980 á bls. 4–5 og af kafla grg. á bls. 6, sem fjallar um vexti, að það er ætlun allra, sem að málinu standa, að þessi lán verði með 31/2 % vöxtum og á því verði engin breyting, en það eru sömu vextir sem eru lögbundnir við lánasjóð stúdenta við Háskóla Íslands. Hér þarf aðeins að leiðrétta til samræmis við lögin um þann lánasjóð og setja töluna 31/2 % inn í þessa grein.

3. brtt., sem við leggjum til, er við 3. gr. og er á þá lund, að í stað þess, að þar segir: „leggur sjóðnum árlega til 3 millj. og 250 þús. kr.“, komi: leggur sjóðnum árlega til a.m.k. 3 millj. og 250 þús. kr.

Nefndin telur skynsamlegra að hafa þetta orðalag vegna þess, að með þessu frv. er hugsað alllangt fram í tímann. Ógerningur er að segja fyrir um, hver þróun þessara mála verður, þó að tilraun sé gerð til þess að setja það upp í grg. En n. telur rétt að haga orðalagi þannig, að ekki þurfi lagabreytingu til þess að hafa þetta framlag hærra, ef Alþingi sýnist svo við aðstæður, sem kunna að skapast í framtíðinni.

Um þessa till. eru 4 nefndarmenn sammála, en fimmti nm., hv. 8. þm. Reykv. (RH), var fjarstaddur afgreiðslu málsins.

Ég vil því leggja þessar till. fram skriflega með meðmælum n. með samþykkt frumvarpsins.