22.02.1960
Neðri deild: 34. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1893 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

60. mál, skipun prestakalla

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt að tilhlutan og beiðni biskups og fjallar um það, eins og segir í 1. gr., að biskupi verði heimilað að ráða prestvígðan mann sem æskulýðsfulltrúa þjóðkirkjunnar til þess að aðstoða og leiðbeina við æskulýðsstarfsemi í söfnuðum landsins, og er ætlazt til þess, að ráðningartími verði allt að 3 árum.

Staða þessi á m.ö.o. að verða svipuð stöðu þess ferðaprests, sem svo er nefndur, sem nú þegar er ráðinn hjá þjóðkirkjunni og hefur raunar fyrst og fremst það starf að gegna þjónustu þar, sem prestar eru forfallaðir eða hafa ekki fengizt í prestaköll. En starf hans hefur þótt gefa góða raun.

Þá hefur einnig reynsla fengizt af því hin síðari ár, að æskulýðsfulltrúi, prestlærður maður, sem hefur starfað, að því er ég hygg, á vegum Reykjavíkurbæjar að þessum málum, hefur þótt gera mjög mikið gagn og starf hans einmitt orðið til þess að ýta undir þær óskir frá biskupi, prestastétt og söfnuðum, að sams konar æskulýðsfulltrúi gæti tekið til starfa og verkahringur hans náð til alls landsins.

Það er ekki einungis reynsla héðan úr Reykjavík, heldur víðs vegar annars staðar að úti í heimi, sem þykir benda til þess, að slík starfræksla meðal ungs fólks muni verða kirkjunni og þar með æskulýðnum og þjóðinni í heild til góðs.

Því frekar hef ég talið rétt að stuðla að þessu, þar sem vitað er, að mörg prestaköll eru nú auð, þannig að laun til presta eru í raun og veru minni en ætlað er skv. gildandi l., og enn fremur er á það að líta, að prestafjölgun, einkanlega hér í höfuðstaðnum, Reykjavík, er ekki enn orðin jafnmikil og lög þó áskilja. Það má raunar deila um og er nokkuð deilt um, hvort prestum hér skuli fjölgað nánast af sjálfu sér, eftir því sem fjölgar í bænum og hinum einstöku prestaköllum, svipað og barnakennurum fjölgar, jafnóðum sem nýjar bekkjardeildir koma til, án þess að nokkra sérstaka stjórnarvaldsráðstöfun þurfi að gera, eða hvort samþykki kirkjumrh. og eftir atvikum Alþ. þurfi að koma til þeirrar prestafjölgunar, sem ráðgerð er í lögum, miðað við vaxandi mannfjölda. Hvað sem líður ákvörðunarvaldinu um þetta, verður ekki um það deilt, að lögin ætlast til þess, að veruleg prestafjölgun verði í Reykjavík, eins og nú er komið.

Það er hins vegar álit a.m.k. biskups, að kirkjunni sé ríkari nauðsyn á því að fá þennan nýja æskulýðsfulltrúa í sína þjónustu heldur en þótt hin ýtrasta prestafjölgun yrði í Reykjavík, eins og lögin virðast ætlast til. Við vitum, að það er verið að byggja hér nokkrar kirkjur og aðstæður með ýmsum þeim hætti, að það þarf að búa betur í haginn varðandi hina ytri starfsemi kirkjunnar, fyrr en fleiri prestar séu við þær tengdir. Fleiri atriði koma hér einnig til, eins og skyldan, sem talin er vera á byggingu prestshúsa, og enn önnur atriði. Að minnsta kosti er það sameiginlegt álit biskups og kirkjumrh., að það verði meira gagn af því, eins og nú til hagað, að verja fé til þess að útvega kirkjunni þennan nýja æskulýðsfulltrúa, sem biskup ráði, heldur en þótt þessari prestafjölgun yrði fylgt til hins ýtrasta, til viðbótar því, sem ég drap á áðan, að mörg prestaköll eru auð. Þess vegna verður ekki talið, að hér sé um óeðlilega fjárkröfu að ræða eða eyðslu umfram það, sem atvik standa til, heldur lýsir þetta frv. og undirbúningur þess skilningi æðstu manna kirkjunnar á því að fara varlega í óskum sínum um ný störf og sækjast ekki eftir stofnun þeirra, nema þar sem brýn þörf verði talin til og þau störf koma að sem mestu gagni.

Ég vonast þess vegna til þess, að þetta litla frv. fái greiðan gang í gegnum þingið, legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn., sem ég hygg að venju samkvæmt meðhöndli þau mál, sem þessa eðlis eru.