01.04.1960
Neðri deild: 60. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1898 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

60. mál, skipun prestakalla

Frsm. minni hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Í frv. því, er hér liggur fyrir um breyt. á l. um prestaköll, er gert ráð fyrir því, að biskupi sé heimilað að stofna innan þjóðkirkjunnar nýtt embætti, sem ríkið skuli greiða allan kostnað af, embætti prestvígðs æskulýðsfulltrúa þjóðkirkjunnar, sem leiðbeini um æskulýðsstarfsemi í söfnuðum landsins.

Um þörfina á aukinni almennri æskulýðsstarfsemi verður vart deilt. Æskufólkið er dýrmætasta eign þjóðarinnar, og á fáu ríður meir en vel takist um uppeldi og mótun ungmenna, að þau séu vernduð gegn spillingaráhrifum. Svo sem segir í grg. frv. þess, sem hér er til umr., krefjast breyttar þjóðfélagsaðstæður nýrrar árvekni um andlega aðbúð æskulýðsins í landinu. Ungt fólk kemst nú orðið í miklum mun nánari snertingu við dekkri hliðar hins borgaralega þjóðfélags en áður var. Og hvers vegna? Meðal annars vegna þess, að á meðan efnahagur almennings var lakari en nú, má segja, að unga fólkið hafi verið meir sjálfala í þjóðfélaginu. En þegar efnahagurinn er orðinn betri og æskan hefur sjálf orðið talsverð peningaráð, hefur hún vakið áhuga ýmissa þeirra afla í þjóðfélaginu, sem áður létu hana afskiptalausa. Og hvert beinist sá áhugi, sem nú er vaknaður vegna fjárráða æskufólksins? Í þjóðfélagi, þar sem gróðavonin er driffjöðrin, beinist áhugi ýmissa að æskunni, ekki vegna þess, að þeir ali með sér áhyggjur um andlega aðbúð hennar, það er ekki áhugi á því að auka manngildi og þroska æskumanna, áhuginn beinist alls ekki að því, sem býr í sál æskumannsins, heldur því, sem kynni að liggja í pyngju hans. Í þjóðfélagi gróðavonarinnar hefur hafizt nýr atvinnuvegur, eins konar útgerðarstarfsemi, og miðin, sem róið er á, eru vasar æskufólksins, sem er laust á fé og hugsar sig ekki alltaf tvisvar um, hvernig skotsilfrinu skuli varið. Til þess að ná því, sem í pyngjunni liggur, er ekki vænlegast að bjóða það, sem mest raunverulegt gildi hefur, það, sem menntandi væri, göfgandi eða þroskandi. Gróðinn er betur tryggður með framboði á öðru. Í þessum atvinnuvegi sem öðrum í þjóðfélaginu er það samkeppnin, sem ræður. Og í dag er rekin harðvítug samkeppni peningamanna, sem beina öllu sínu hugmyndaflugi og atorku til þess að ná til sín sem allra mestu af tekjum æskufólks, með tímaritaútgáfu, danshúsum, biljardstofum, knæpum og sjoppum.

Ég er þess vegna algerlega sammála því, sem í grg. þessa frv. segir, að breyttar þjóðfélagsaðstæður krefjast nýrrar árvekni um andlega aðbúð æskulýðsins í landinu. Og það kemur fleira til en áhrifin frá þeim, sem áhuga hafa á æskunni vegna fjármuna hennar. Í grg. segir, að skólar séu ekki einhlítir og heimilin standi frammi fyrir mörgum vandamálum. Það mun vera rétt, að skólar og heimili séu vanmegnug. En hver er þá sú andlega leiðsögn og fyrirmynd, sem æskan hlýtur hjá leiðtogum þjóðarinnar? Ungt fólk er næmt fyrir því, sem að því snýr, og verður fyrir áhrifum af því, sem fyrir því er haft. Það er því miður hætt við, að það láti sig þess vegna ekki án vitnisburðar, þegar unga fólkið kynnist hjá þeim, sem meira mega sín, þeirri fjármálaspillingu, sem sífellt verður lýðnum ljós. Og á sama tíma og skólarnir, sem eru ekki einhlítir, og heimilin, sem standa frammi fyrir mörgum vandamálum á uppeldissviðinu, eins og segir í grg., reyna þó að kenna ungmennum að ástunda heiðarleika og orðheldni, þá upplifir æskufólk í bláköldum veruleikanum, að æðstu menn þjóðarinnar, sem sýna áhuga á atkvæðum þess, líkt og peningamennirnir á skotsilfrinu, þykjast fyrir kosningar láta sér sérstaklega annt um bætt kjör ungs fólks, heita stóraukinni aðstoð til heimilisstofnunar, svíkja það svo, um leið og kosningar eru afstaðnar, með því ekki aðeins að bæta í engu kjör þess, heldur snúast beinlínís gegn æskunni með eindæma árásum, sem valda því, að einungis útvöldum meðal æskufólks er fært að eignast eigið húsnæði og fátækt námsfólk er hrakið frá námi. Skyldi nú svona orðheldni vera til leiðbeiningar æskunni og til aðstoðar heimilum og skólum í viðleitni þeirra?

Sú kynslóð, sem nú er á æskuárum, hefur verið svipt ýmsu því, sem rótfesti fyrri kynslóðir. Þær, sem næstar standa æskunni í dag, hlutu traust þjóðernislegt uppeldi, sem efldi þær til hugsjónalegra átaka. En þeir, sem eru ungir í dag, hafa hlotið þá reynslu, að þegar þeir voru að koma til vits, þá hljómaði enn fögnuður þjóðarinnar eftir sigur í aldalangri sjálfstæðisbaráttu. En sú sama kynslóð, sem hlotnaðist að vera krýnd sigurkransi fyrir samanlagða frelsisbaráttu þjóðarinnar og þar vissulega að skila Íslandi óskertu og óflekkuðu í hendur hinnar nýju kynslóðar, bjó sjálf erlendu herliði aðsetur á Íslandi, svo að erlendir hermenn skyldu deila landinu með þeirri kynslóð, sem átti að erfa það ein og fyrst allra kynslóða um aldir hefði ella erft alfrjálst Ísland.

Síðan hefur sá æskulýður, sem nú þarfnast nýrrar árvekni um andlega aðbúð, eins og segir í grg. frv., mátt fylgjast með niðurlægingunni, mátt horfa á æðisgengið kapphlaup athafnamanna þjóðfélagsins við að ná í sinn vasa sem mestum fjárhagslegum gróða af hernáminu. Spillingaráhrif hernámsins eru margháttuð: Þau, sem stafa frá hernum sjálfum, þau, sem hljótast af hinni almennu þjóðfélagslegu smán, sem hernámið er, og þau, sem blygðunarlausum fordæmum hermangaranna fylgja.

Það steðja ýmis óheillavænleg áhrif að unga fólkinu í þessu þjóðfélagi, og því segi ég það enn, að það er sannarlega ekki vanþörf á því, að æskan sé vernduð gegn þeim áhrifum, og það er varla að undra, þótt góðviljuðum mönnum þyki vera orðin þörf á einum presti til viðbótar.

Ég er hins vegar sannfærður um, að þótt hvert einasta ungmenni í landinu fengi heils mánaðar einkameðferð hjá sálusorgara, hversu ágætur sem hann væri, þá orkaði það margfalt minna til góðs um hugsunarhátt og siðahugmyndir ungmennisins heldur en þau brigðmæli öll verka til ills, sem æskan nú verður fyrir hjá ráðamönnum þjóðarinnar, — sú spilling, sem hernáminu fylgir og þeim fjáröflunartækjum, sem beitt er við æskuna til þess að ná frá henni sem mestu af fjármunum hennar.

Fyrir mitt leyti hef ég ekki trú á því, að því fé, sem þjóðin ætlar að veita til menningar- og uppeldisstarfsemi meðal æskunnar, verði bezt varið með því að beina því til jafnþröngra samtaka og einangraðrar starfsemi sem þjóðkirkjan í rauninni er, þó að svo muni ekki eiga að vera á pappírnum, heldur eigi slík starfsemi, kostuð af almannafé, fyrst og fremst að vera í höndum almennra félagssamtaka og bæjar- og sveitarfélaga. Víða í bæjar- og sveitarfélögum er víðtæk æskulýðsstarfsemi rekin í samvinnu bæjarfélaganna við hvers konar félagssamtök, og ætti þjóðkirkjan að geta verið þar þátttakandi. Æskulýðsstarfsemi einstakra félaga og stofnana ber að styrkja og styðja, þegar sýnt er, að starfið er þess vert, en fráleitt að mínu viti, að ríkið bæti nú á sig nýju embætti innan þjóðkirkjunnar sérstaklega.

Æskulýðsstarfsemi þarf að vera almenn, og almenningur á hverjum stað á að eiga þess kost að hafa áhrif á það, hvernig farið er með almannafé, sem til hennar er varið. En hví skyldi það hvarfla að nokkrum manni að fé til æskulýðs- og menningarstarfsemi sé á annan hátt betur varið en fá það þjóðkirkjunni? Það hvarflar að mér m.a. vegna þess, að mér eru dæmin kunn, að þjóðkirkjan hefur jafnvel beitt sér gegn menningarviðleitni, ef henni hefur fundizt hún skyggja á þrönga starfsemi kirkjunnar, og á ég hér ekki við aldagömul dæmi, sem alkunn eru.

Í þeim bæ, þar sem ég þekki bezt til, tóku nokkrir ungir menn sig saman um það fyrir fáum árum að lífga upp á daufa menningarstarfsemi í bænum með því að stofna til bókmenntakynninga fyrir æskulýðinn og allan almenning. Til þessarar starfsemi var ekki leitað fjár frá opinberum aðilum, og til þátttöku voru fengin mörg þekktustu skáld og rithöfundar þjóðarinnar. Það er rétt að taka það fram, að skáld þessi og rithöfundar voru ekki valin eftir pólitískum skoðunum, og minnist ég þess, að þar voru t.d. Gunnar Gunnarsson, Þórbergur Þórðarson, Kristmann Guðmundsson, Kristján frá Djúpalæk, Helgi Hjörvar og margir aðrir. En hvernig tók nú almenningur þessari viðleitni? Í þau tvö skipti, sem bókmenntakynningarnar voru haldnar, troðfyllti hann stærsta samkomustað bæjarins, en aðeins í tvö skipti. Bókmenntakynningarnar voru ekki haldnar nema í þessi tvö skipti. Þjóðkirkjan sá um það. Samkomuhúsið hafði fengizt kl. 1.30 á sunnudögum, og það var nóg til þess, að kirkjan lét til sín taka og bannaði starfsemina í krafti laga um almannafrið á helgidögum, og vissi þó enginn til þess, að þeir 20–30 menn, sem sótt höfðu messur að jafnaði, kæmu ekki til kirkju eftir sem áður, ótruflaðir af þeim 300, sem sóttu bókmenntakynningarnar hvoru sinni.

Mér þætti því líklegra, að meiri og almennari árangur fengist af menningarstarfsemi meðal æskunnar, ef fjármagn, sem ætlað væri í því skyni, væri fengið víðtækari samtökum en þjóðkirkjan í reyndinni er. Ég hef þó ekki lagt til, að frv. þetta verði fellt, þar sem það liti svo út sem Alþ. væri út af fyrir sig andvígt því, að stofnað væri starf æskulýðsfulltrúa innan kirkjunnar. Ég tel það ekki óeðlilegt í sjálfu sér, en er hins vegar á þeirri skoðun, að kirkjan geti auðveldlega séð sjálf fyrir þeim æskulýðsfulltrúa, sem hún óskar eftir. Svo sem hv. 1. þm. Vestf. benti á við 1. umr. um frv. þetta, á þjóðkirkjan ráð á prestakallasjóði, en sá sjóður nemur nú um 2 millj. kr. Sá sjóður er einmitt ætlaður til starfsemi viðlíka þeirri, sem æskulýðsfulltrúi mundi hafa með höndum, og væri því ekki óeðlilegt, að hluta af vöxtum sjóðsins yrði varið til að launa æskulýðsfulltrúann, ef þjóðkirkjan telur sig svo mjög þurfa á honum að halda. Það kom hér fram áðan, að biskupinn á Íslandi telur það fjarstæðu, að æskulýðsfulltrúinn taki laun úr prestakallasjóði. Það undrar mig ekki sérlega, og ég tel það léttvæg rök, að biskup landsins telji það fjarstæðu, að kirkja landsins kosti sjálf fjárhagslega af þeim tekjum, sem hún hefur fyrir, til eflingar æskulýðsstarfsemi í söfnuðum landsins. Fyrir fáum árum þótti forustumönnum kirkjunnar líka fjarstæða annað en að ríkið kostaði sérstaklega fundi, sem prestar og leikmenn héldu með sér í Reykjavík, og þá voru sett lögin um kirkjuþing, en til þeirrar samkomu er nú varið 120 þús. kr. á fjárlögum 1960. Ég minnist þess frá umr. um kirkjuþing, að svo merkur þingmaður sem Páll Zóphóníasson dró þá mjög í efa, að það fé, sem þá var verið að ráðstafa úr ríkissjóði, kæmi að því gagni, sem af var látið, og ég er á þeirri skoðun, að því fé hefði mátt verja betur. Og ég er líka á þeirri skoðun, að það fé, sem nú er ætlunin að verja til æskulýðsfulltrúa þjóðkirkjunnar, kæmi æskulýðnum í landinu að betri notum á annan hátt. Mér sýnist og sem þjóðkirkjan geri minna að því en flest önnur samtök að hafa uppi viðleitni til almennrar fjáröflunar. Það er einfalt og útlátalítið að fá afhent fé úr ríkissjóði. En nú á þessum þrengingatímum hjá alþýðu manna, sem greiðir af naumum launum sínum svo mikið til ríkisins í tolla og skatta, að margir heimilisfeður ugga um afkomu fjölskyldu sinnar, þá tel ég fara illa á því, að þjóðkirkjan geri kröfur til ríkissjóðs um nýtt embætti, hversu gagnlegt sem hún kann að telja það, þegar hún að mínu áliti er fær um að kosta það sjálf eða ætti að geta aflað fjár til þess á annan hátt en að sækja það í ríkiskassann.