06.04.1960
Efri deild: 55. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

111. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og nál. meiri hl. á þskj. 287 ber með sér, hefur n. ekki getað orðið sammála um afgreiðslu málsins, þannig að við þrír, sem að meirihlutanál. stöndum, mælum með því með einni litilfjörlegri breyt., sem er aðeins formsatriði. Við leggjum til, að smábreyting verði gerð á fyrirsögn frv. En tveir hv. nm., þeir hv. 1. og 5. þm. Norðurl. e., hafa haft sitthvað við þetta frv. að athuga og munu skila sérálitum.

Að því er snertir aðdraganda og undirbúning þess frv., sem hér liggur fyrir, hefur hæstv. fjmrh. gert því máli svo glögg skil við 1. umr. málsins, að ég sé enga ástæðu til þess að bæta neinu þar við. Hins vegar er með þessu frv. og öðrum þeim frumvörpum um skattamál, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþ. það, sem nú situr, gerð svo róttæk breyting á skattakerfinu í heild, að ég tel ástæðu til þess að fara um það nokkrum orðum, um leið og nál. þessu er fylgt úr hlaði.

Meginbreyt. er í því fólgin, að beinir skattar einstaklinga til ríkisins eru stórlækkaðir, en í stað þeirra eru söluskattar hækkaðir, eins og kunnugt er. Er þetta í fullu samræmi við þær yfirlýsingar, sem gefnar voru af báðum stuðningsflokkum núv. hæstv. ríkisstj. fyrir síðustu kosningar.

Hér á landi, eins og raunar einnig líka í nágrannalöndum okkar, hefur lengi verið deilt um það. eins og kunnugt er, hvort leggja skuli áherzlu á beina eða óbeina skatta. Hér skal ekki reynt að kryfja þetta mikilvæga mál, sem hefur svo margar hliðar, til mergjar. En þó vil ég leyfa mér að draga hér fram nokkur meginatriði, sem liggja til grundvallar þeim ákvörðunum í þessum efnum, sem teknar hafa verið. Áður en lengra er haldið, er rétt að taka það fram, að beinu skattarnir hafa marga kosti, sem engan veginn má loka augunum fyrir, ef ræða skal skattamálin sem heild. Er sá kosturinn mestur, að séu tekjuframtöl rétt, fullnægja engir skattar betur því sjónarmiði, að hver skuli greiða skatta í samræmi við efnahagslega getu sína, en einmitt beinu skattarnir, sem lagðir eru á nettótekjur eða nettóeignir. Á sínum tíma voru það því mjög mikilvægar félagslegar umbætur, þegar teknir voru upp skattar á nettótekjur og nettóeignir í stað hinna gömlu brúttóskatta og nefskatta, sem oft hvíldu á borgurunum í öfugu hlutfalli við efnahagslega getu þeirra. Hins vegar hafa beinu skattarnir einnig marga og stóra ágalla, sem hafa komið því betur í ljós sem þessir skattar hafa orðið stærri liður í skattakerfinu. Má þá í fyrsta lagi nefna það, að þegar skattstigarnir eru komnir yfir ákveðið mark, dregur slíkt mjög úr hvöt manna til þess að afla sér þeirra tekna, sem svo miklu þarf að skila af til hins opinbera. Skattaálögurnar draga þannig úr starfsvilja og framleiðsluafköstum. Þess má geta, að samkv. þeim skattstigum, sem til þessa hafa verið í gildi, ber einhleypum mönnum að greiða hér í Reykjavík samanlagt 65% í skatt til ríkis og bæjarfélags af tekjum, sem eru yfir 100 þús. kr. Og þetta fer upp í 70% samkv. núgildandi skattstigum, ef tekjurnar eru yfir 130 þús. kr. Nú er það, eins og kunnugt er, þannig, að útsvarsstigar eru yfirleitt lægri hér í Reykjavík en úti á landi, þannig að gera má ráð fyrir, að þessi skattaprósenta sé hærri þar og verði náð við lægri tekjur. En það er sýnt, að ef um fólk er að ræða, sem sæmilega er efnað, hefur það litla ástæðu til þess að afla tekna, sem um 70% af fara í skatt. Auðvitað verður ekkert almennt sagt um það, hve háir skattstigarnir megi vera til þess, að slíkra óhagstæðra áhrifa á starfslöngun og starfsvilja gæti. Slíkt er auðvitað mismunandi, hvað snertir mismunandi einstaklinga. En vekja má athygli á því, að sérstök hætta er einmitt á því, að hinir háu skattstigar muni valda því, að það verði einkum beztu starfskraftar þjóðfélagsins, sem vegna þeirra nýtast verr en ella mundi. Þetta er þó út af fyrir sig aðeins röksemd fyrir því, að skattstigarnir ættu að vera hóflegir, ekki fyrir niðurfellingu beinna skatta.

En beinu skattarnir hafa fleiri ókostl. Eins og ég hef þegar tekið fram, er það skilyrði fyrir því, að beinu skattarnir þjóni þeim tilgangi sínum, sem til er ætlazt, að tekjurnar séu rétt fram taldar. Á því er hins vegar mikill misbrestur, svo sem kunnugt er. Það hefur stundum verið sagt sem svo, að úr þessu sé auðvelt að bæta með því að efla eftirlit með skattaframtölum, og m.a. kemur þetta sjónarmið fram í nál. hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ), sem rétt núna var verið að útbýta hér í hv. d. En vandamálið er að mínu áliti djúptækara en svo, að það liggi í því, að þeir embættismenn, sem þetta eftirlit hafa með höndum, vanræki skyldu sína. Ég held, að það hafi yfirleitt ekki við rök að styðjast, að þessir embættismenn geri ekki það, sem með sanngirni verður af þeim heimtað. Það, sem er mergur málsins í þessu sambandi, er, að fjölmennar starfsstéttir í þessu þjóðfélagi hafa þá aðstöðu, að óframkvæmanlegt má telja að hafa með því virkt eftirlit, hverjar tekjur þær hafa. Má þar nefna sem dæmi öll smáfyrirtæki við iðnað, verzlun og þjónustustörf, sem eru ekki bókhaldsskyld, enn fremur bilstjóra, lækna, málflutningsmenn og ýmsa fleiri, sem svipaða atvinnu stunda. Þessum aðilum er í rauninni faliðsjálfdæmi um það, hvað þeir telja fram, og þá um leið, hvað þeir greiða í beina skatta. Það er rétt að taka það fram, að bókhaldsskylda er út af fyrir sig ekki heldur nein trygging fyrir því, að allar tekjur fyrirtækisins séu taldar fram, því að auðvitað er hægt að færa rangar tölur í bækurnar. Þeir einu, sem að jafnaði geta ekki komið því við að koma tekjum sínum undan skatti, eru launþegar, því að þar telur atvinnurekandinn tekjur þeirra fram. Þetta leiðir til þess, að það réttlæti í skiptingu skattabyrðarinnar milli þegnanna, sem gæti verið fyrir hendi, ef allar tekjur teldust rétt fram, verður það ekki lengur vegna þess, hve þessu hlýtur að verða ábótavant. Að vísu væri hægt að hugsa sér að koma upp mjög dýru og viðamiklu eftirliti til þess að komast eftir því á óbeinan hátt, hvaða tekjur þeir aðilar hafi, sem hægast eiga með að koma tekjum sinum undan skatti. Hjá milljónaþjóðum, eins og t.d. í Bandaríkjum Norður-Ameríku, er þetta framkvæmt á þann hátt, að komið er á fót á vegum skattayfirvaldanna sérstöku njósnakerfi til þess að komast á snoðir um heimilisútgjöld manna. Það eru teknir fyrir árlega t.d. allir læknar eða málflutningsmenn, sem eru fæddir í tilteknum mánuði eða viku ársins, og starfsmönnum skattaeftirlitsins falið að fylgjast með því, á hvaða veitingahús þeir fari, hvers konar bíl þeir keyra í, enn fremur gera sér erindi á heimili þeirra og komast þannig að því, hvað mikið sé borið í innbú þeirra o.s.frv. Þær skýrslur, sem þessir eftirlitsmenn svo gefa, eru síðan bornar saman við skattaframtöl hinna umsetnu og þeir kallaðir fyrir, ef misræmi kemur í ljós. Slíkar aðferðir er hægt að hugsa hér hjá stórþjóðum. En mundi nokkur í alvöru vilja leggja til, að slíkir starfshættir yrðu teknir upp hér í landi kunningsskaparins? Víst er um það, að yrði inn á slíka braut farið, mundi það ekki til þess fallið að bæta sambúð borgaranna innbyrðis né almennings og stjórnarvaldanna.

Ég býst við, að það sé óþarfi að taka það fram, að þegar ég hef nefnt hér sérstakar starfsstéttir, sem hafa þannig aðstöðu, að þær geta sjálfar ráðið því, hvað talið er fram til skatts og hvað ekki, þá liggur vitanlega ekki í því nein aðdróttun til þeirra, sem í þessum stéttum starfa, um það, að þeir séu í sjálfu sér óheiðarlegri í þessu efni en aðrir þjóðfélagsþegnar. Því fer auðvitað mjög fjarri, og auðvitað eru í þessum stéttum einstaklingar, sem þrátt fyrir það, þó að ekkert eftirlit sé hægt að hafa með tekjum þeirra, telja rétt fram. En hitt stendur óhaggað, og það er aðalatriðið, að þessir aðilar geta sjálfir í rauninni ráðið því, hvað þeir koma til að greiða í skatt, og eins og menn nú einu sinni eru, má auðvitað búast við, að slíkt verði misnotað, sér í lagi ef skattstigar eru orðnir svo háir sem raun hefur verið hér á landi að undanförnu, þannig að það verður fjárhagslega þýðingarmikið atriði fyrir hvern einstakan, að hann geti komið einhverju af tekjum sínum undan skatti.

En annað atriði má líka nefna í þessu sambandi, sem torveldar það, að tekjur séu rétt fram taldar. Það er sú staðreynd, að oft er ógerningur að draga markalínur á milli tilkostnaðar og persónulegrar neyzlu. Á þetta einkum við í smærri atvinnurekstri, sem einmitt setur svip sinn á lítið þjóðfélag eins og okkar. Maður notar t.d. sama húsnæðið til atvinnurekstrar og eigin íbúðar, bil sinn bæði í þágu fyrirtækisins og heimilisins o.s.frv. Koma í því sambandi fram margs konar vafaatriði, sem eðli málsins samkvæmt verða að jafnaði úrskurðuð skattgreiðandanum í vil. Þessir erfiðleikar á því að aðgreina tilkostnað og persónulega neyzlu hafa ekki eingöngu áhrif á skattgreiðslu atvinnurekendanna sjálfra, heldur einnig launþega í mismunandi starfsgreinum. Í sumum starfsgreinum, svo sem við iðnað, verzlun, þjónustustörf o.fl., er aðstaða til þess að greiða starfsfólki kaup sitt að meira eða minna leyti í ýmiss konar fríðindum, sem talin verða fyrirtækjunum til frádráttarbærs kostnaðar, svo sem bilastyrkjum, ferðakostnaði og ýmsu fleira. Í öðrum starfsgreinum er slík aðstaða ekki fyrir hendi, svo sem við sjómennsku, svo að dæmi sé nefnt, og t.d. hvað snertir flest störf; sem unnin eru hjá hinu opinbera. Nú er það auðvitað fjarri mér að halda því fram, að tilgreindu störfin séu ekki þjóðinni nauðsynleg eins og hin síðarnefndu. En hitt verður að teljast óeðlilegt, að skattaástæður einar verði til þess að skapa ákveðnum starfsgreinum miklu betri aðstöðu til samkeppni um vinnuaflið en öðrum.

Niðurstaðan af því, sem nú hefur verið sagt, verður óhjákvæmilega sú, að hinir háu, beinu skattar, sem við nú búum við, draga óhjákvæmilega úr starfsvilja fólks og um leið úr framleiðsluafköstunum, auk þess sem óhjákvæmilega leiðir af þeim ranglæti í skattaálagningunni. Þá má einnig á það benda, að Ísland hefur og til þessa haft þá sérstöðu samanborið við nágrannaþjóðirnar, að beinir skattar hafa til þessa verið nær eini skattstofn bæjar- og sveitarfélaganna, sem gert hafa beinu skattana í heild þyngri en víðast hvar annars staðar. Á hinum Norðurlöndunum munu t.d. varla þekkjast hærri útsvarsstigar en 15–20%. Því fer auðvitað fjarri, að með þeirri skattalöggjöf, sem ætlunin er að samþykkt verði á þessu þingi, séu beinir skattar beinlínis afnumdir. Það eru aðeins sniðnir verstu agnúar af framkvæmd þeirra. Þrátt fyrir þá breyt., sem gerð er á skatt- og útsvarsstigum með frumvörpum þeim, sem nú liggja fyrir, getur hámark skattgreiðslu, þegar lagt er saman útsvar og tekjuskattur, orðið allt að 70% af tekjum. Munurinn frá því, sem nú er, er aðeins í því fólginn, að það yrði við miklu hærra tekjumark en áður var, þannig að á þetta má benda þeim til huggunar, sem eru forsvarsmenn beinu skattanna, og eins og ég hef enga fjöður dregið yfir í því, sem ég hef sagt, þá er margt, sem færa má fram til stuðnings því sjónarmiði.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða hér í einstökum atriðum þá gagnrýni á þessu frv., sem fram hefur komið af hálfu hv. stjórnarandstæðinga við 1. umr. málsins. En tvö atriði í málflutningi þeirra þar og á öðrum vettvangi vil ég þó leyfa mér að drepa lítils háttar á. Annað þessara atriða er það, og á það virðist mér einmitt lögð rík áherzla í nál. 1. minni hl. fjhn., hv. 5. þm. Norðurl. e., að sú lækkun tekjuskatts, sem hér er um að ræða, sé meiri að krónutali, þegar um háar tekjur er að ræða en lágar. Hvað þetta snertir má í fyrsta lagi benda á það, að ef tekjuskattar eru stighækkandi, svo sem hér er, á það auðvitað við um allar ívilnanir í skattgreiðslu, einnig þær, sem ekki er ágreiningur um að sjálfsagt og sanngjarnt sé að veita, að þær lækka meira að krónutali og jafnvel einnig hlutfallslega skatt af háum tekjum en af lágum tekjum. Það t.d., að leyfður er persónufrádráttur og frádráttur vegna ómagaframfæris, lækkar meira skatt hátekjumanna en lágtekjumanna, og er þó enginn ágreiningur um það, að þetta beri að gera. Og það sjónarmið hefur ekki komið fram í sambandi við persónu- og ómagafrádráttinn, að með því að leyfa slíkan frádrátt sé verið að færa tekjur frá þeim fátæku til hinna ríku. Fyrir slíku er auðvitað hægt að færa fram alveg jafngild rök og hv. stjórnarandstæðingar nú bera fram því til stuðnings, að slíkar tilfærslur sé verið að framkvæma með frv. því, er hér liggur fyrir.

Annað dæmi má einnig nefna, sem ætti að bregða nokkru ljósi yfir þetta, en það er það, að ýmsir hv. stjórnarandstæðingar hafa gagnrýnt það, að hér er lagt til, að skattaundanþága sú vegna yfirvinnu í þágu útflutningsframleiðslunnar sem samþ. var á siðasta þingi, verði afnumin. Ég ætla nú út af fyrir sig ekki að gera þessa ráðstöfun að umtalsefni, en vísa hvað það snertir til greinargerðar frv. og grg. hæstv. fjmrh. fyrir þessu atriði við 1, umr. En hitt vildi ég aðeins benda á, að auðvelt er að reikna það út, að slík ráðstöfun, ef framkvæmd yrði, mundi létta í miklu ríkara mæli skatti af þeim, sem slíka yfirvinnu vinnur og hefur háar tekjur fyrir, heldur en hinum, sem hefur lágar tekjur.

Enn mætti nefna eitt dæmi, en það er það ákvæði skattalaganna, að vinna, sem menn vinna til að koma upp eigin íbúðum, er undanþegin skatti. Það hefur enginn ágreiningur verið um það á sínum tíma hér á hv. Alþ., að sanngjarnt væri að veita slíka undanþágu, og ég tel víst, að þeir hv. þm. Alþb., sem þá áttu sæti á Alþingi, hafi einnig stutt þessa tillögu. Hitt er auðvelt að reikna út, að ef hátekjumaður vinnur að byggingu eigin íbúðar, — og slíks munu mörg dæmi, — þá muni hann miklu meira um þennan skattfrádrátt í krónutali en þann, sem hefur lágar tekjur, svo að það mætti alveg eins segja um þessa ráðstöfun, að með henni væri verið að færa peningana úr vösum hinna fátæku yfir í vasa hinna ríku, því að það er nú einu sinni svo, að með skattalækkunum er ekki hægt að bæta hag þeirra, sem hafa svo lágar tekjur, að þeir hafa engan skatt greitt fyrir. Það ætti að liggja í augum uppi. Því fólki verður auðvitað að hjálpa með einhverju öðru móti, og sú leið, sem farin hefur verið í því efni af hálfu hæstv. ríkisstj., er sú breyting á tryggingalöggjöfinni, sem nýverið hefur verið afgreidd frá hæstv. Alþingi.

Hitt atriðið í málflutningi hæstv. stjórnarandstæðinga, sem ég sé ástæðu til að gera að umtalsefni, eru útreikningar þeir, sem þeir í sífellu hafa verið að gera, síðan skattafrumvörpin voru lögð fram, og ekki síður, þegar tryggingamálin voru hér til meðferðar, en þessir útreikningar hafa átt að sanna, að með þessum aðgerðum sé engan veginn bætt upp sú kjaraskerðing, sem leitt hafi af efnahagsmálalöggjöfinni og söluskattinum. Þessu liggja aftur til grundvallar beinar og óbeinar staðhæfingar um það, að því hafi verið lofað af hálfu þeirra flokka, er styðja hæstv. ríkisstj., að engar ráðstafanir skyldu gerðar, er skertu hár á höfði nokkurs manns. Þessu hafi fyrst og fremst verið lofað fyrir kosningarnar á s.l. hausti, en þegar efnahagsráðstafanirnar svo voru lagðar fram, hafi jafnhliða verið lofað að bæta upp þær verðhækkanir, sem af þeim leiddi, með einhverju öðru móti og þá fyrst og fremst auknum tryggingum og lækkun beinna skatta. Það hefur verið talað um það, sem einhver alveg ný viðhorf, sem enginn hafi boðað eða jafnvel látið sér detta í hug fyrir síðustu kosningar, að þjóðin þyrfti að taka á sig einhverjar byrðar vegna ástands efnahagsmálanna. Þetta hafi verið óvænt uppgötvun þeirra hagspekinga, sem ríkisstj. hafi kvatt sér til ráðuneytis, þegar hún tók við völdum, og síðan hafi ríkisstj. gert það glappaskot að gleypa við flugunni og framkvæma að óþörfu óþægilegar ráðstafanir í efnahagsmálum í samræmi við það. Það er vitanlega alveg úr lausu lofti gripið, að kenningin um nauðsyn kjaraskerðingar um stundarsakir sé eitthvað, sem hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti yfir þjóðina að afloknum kosningum. Það eru ekki eingöngu núverandi stjórnarflokkar, heldur jafnvel ekki síður núverandi hv. stjórnarandstæðingar, sem búið höfðu þjóðina undir slíkt, jafnvel alllöngu fyrir síðustu kosningar.

Ég ætla í þessu sambandi að leyfa mér að rifja upp, hvað sagt var um ástand efnahagsmálanna af hv. núv. stjórnarandstæðingum haustið 1958, skömmu áður en vinstri stjórnin lét af völdum. Á þingi Alþýðusambands Íslands í nóvember 1958 var útbýtt skýrslu um ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar, og var sú skýrsla samin af Torfa Ásgeirssyni, sem um langt skeið hefur starfað sem efnahagsmálaráðunautur Alþýðusambands Íslands, en var auk þess einn helzti efnahagsmálaráðunautur þáverandi ríkisstj. auk Jónasar Haralz. Engum manni dettur í hug, að slíkri skýrslu hefði verið útbýtt þar öðruvísi en beinlínis að undirlagi stjórnar Alþýðusambandsins og ríkisstj., þannig að þar var ekki sagt annað en það, sem báðar þessar stjórnir voru sammála um. Ég ætla nú, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp örfáar línur úr þessari skýrslu, þar sem að mínu áliti er brugðið upp einkar skýrri mynd af efnahagsmálaástandinu eins og það var þá að dómi stjórnar Alþýðusambandsins, ríkisstj. og efnahagsmálaráðunauta þessara aðila. Eftir að gerð hefur verið grein fyrir hinni miklu erlendu lánsfjárnotkun Íslendinga, frá því að seinni heimsstyrjöldinni lauk, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sé horft fram á við, þá er það augljóst mál, að þetta lántökuskeið er senn runnið á enda og við blasir tímabil, þar sem þjóðin, í stað þess að hafa til ráðstöfunar allt verðmæti sinnar eigin framleiðslu og að auki 5–10% af erlendu fé, aðeins hefur til umráða eigin framleiðslu að frádregnum vöxtum og afborgunum hinna erlendu lána.“

Enn fremur segir svo:

„Samkvæmt áætlun, sem gerð var í árslok 1957, nema vextir og afborganir erlendra lána, ef miðað er aðeins við þau lán, sem þá var að fullu gengið frá, um og yfir 160 millj. kr. á ári hverju næstu árin. Hér er miðað við núverandi gengi og yfirfærslugjöld. Séu meðtalin þau lán, sem síðar hafa verið tekin og eru í undirbúningi, eykst skuldagreiðslubyrðin að sjálfsögðu enn meir. Í stað þess“ — það er niðurstaðan af þessu — „að hafa til ráðstöfunar þjóðarframleiðsluna alla, hver sem hún verður, og að auki 5–10% , verðum við að leggja til hliðar vegna greiðslu á vöxtum og afborgunum erlendra lána 3–4% framleiðslunnar.“

Hér er það alveg umbúðalaust brýnt fyrir þjóðinni á grundvelli staðreynda, sem hingað til hafa ekki verið vefengdar af neinum, að þjóðin verði að draga úr fjármunanotkun sinni alveg á næstunni um 8–14%. Þetta þarf auðvitað ekki að þýða kjaraskerðingu sem þessu nemur, því að að einhverju leyti má mæta þessu með því að draga úr fjárfestingu og notkun erlendrar rekstrarvöru. En engin leið er að draga af þessu aðra ályktun en þá, að talsverð kjaraskerðing fyrir þjóðarheildina sé óhjákvæmileg í bili. Það er einnig tekið fram í sömu skýrslu, að þetta þýði ekki, að nauðsyn sé á því að skerða kjörin, sé litið yfir árabil, því að aukin framleiðsla geti þá vegið á móti, en það er önnur hlið á því máli.

Nokkrum dögum síðar, eða rétt um það bil sem stjórnin var að fara frá völdum, var svo útbýtt hér á borð hv. þm. skýrslu Framkvæmdabanka Íslands um hina vaxandi skuldasöfnun síðustu ára og þar af leiðandi fyrirsjáanlega vaxandi greiðslubyrði. Voru niðurstöður þeirrar skýrslu í meginatriðum þær sömu og lýst hefur verið.

Af þeim staðreyndum um ástand efnahagsmálanna, sem vinstri stjórnin lagði fyrir bæði Alþýðusambandsþing og Alþ. um það bil, sem hún fór frá völdum, varð því dregin ein og aðeins ein ályktun: sú, að óhjákvæmilegt væri fyrir þjóðina að sætta sig við nokkra kjaraskerðingu, a.m.k. um stundarsakir. Það er fullkomin blekking, ef því er haldið fram, að núverandi stjórnarflokkur hafi á nokkurn hátt á þeim tíma, sem síðan er liðinn, reynt að dylja þessar staðreyndir fyrir þjóðinni og lofa henni því, sem hlyti þá að vera gegn betri vitund, að ekki þyrfti til neinnar kjaraskerðingar að koma í bráð eða lengd. Og hvað okkur sjálfstæðismenn snertir, vil ég — með leyfi hæstv. forseta — leyfa mér að lesa hér upp nokkur orð úr flokksráðssamþykkt Sjálfstfl. um þetta efni eða efnahagsmálin, sem gerð var fyrir jólin 1958. Þar segir svo:

„Það er ótvírætt, að þjóðin notar meiri fjármuni en hún aflar og verður að taka afleiðingunum af því til þess að tryggja efnahagslegt öryggi sitt í framtíðinni og koma í veg fyrir kjararýrnun, sem ella þyrfti að verða.“ Enn fremur segir svo í sömu ályktun:

„Stefnt verði að því að afnema uppbótakerfið með því að skrá eitt gengi á erlendum gjaldeyri og gera útflutningsatvinnuvegunum kleift að standa á eigin fótum án styrkja. Verði þannig lagður grundvöllur að frelsi í atvinnurekstri og viðskiptum.“

Skýrar er að mínu áliti ekki hægt að segja það, að óhjákvæmilegt sé, að þjóðin verði að taka nokkrar fórnir á sig í bili, og það er enn fremur skýrt tekið fram í meginatriðum, hvaða leið eigi að fara í þessu efni. Og því fer fjarri, að frá þessari samþykkt, sem ég nú gerði grein fyrir, hafi á nokkurn hátt verið vikið fyrir þær tvennar kosningar, sem síðan fóru í hönd. Þvert á móti, þá var þetta einmitt kjarni þess, sem við þá boðuðum þjóðinni, og var þessi samþykkt í meginatriðum endurnýjuð bæði á landsfundi sjálfstæðismanna, sem haldinn var í marzmánuði 1959, og aftur í kosningastefnuskrá, sem gefin var út fyrir þær kosningar. Að efni til voru þessi atriði undir öllum kringumstæðum óbreytt, þó að einhver breyting kunni að hafa verið gerð á orðalagi. Því fer þannig fjarri, að það sé nokkuð, sem hafi komið þjóðinni alveg á óvart eftir kosningarnar, að hún þyrfti eitthvað að herða að sér ólina. Grundvöllur kjaraskerðingarinnar er sá, eins og fram hefur líka komið í umr. um efnahagsmálin, að gert er ráð fyrir því, að innflutningur minnki um 150–200 millj., eða 3–4% af ráðstöfunarfé þjóðarinnar, ef reiknað er á gamla genginu, en allt að 5–6%, ef reiknað er á því nýja.

Það ber auðvitað engan veginn að dylja eða vanmeta þau óþægindi, sem af því leiðir fyrir þjóðina að verða að draga úr fjármunanotkun sinni sem þessu nemur. Á hitt má þó minna, að það er engan veginn óþekkt eða nýtt fyrirbrigði, að þjóðin hafi þurft að sætta sig við svipaða kjaraskerðingu. Það þarf meira að segja ekki að fara mjög langt aftur í tímann til þess að finna þess dæmi. Í fyrrnefndri skýrslu til þings Alþýðusambands Íslands er það upplýst, að neyzlan á einstakling hafi minnkað úr 16780 kr. árið 1956 í 15590 kr. árið 1957. Nú er verðmæti neyzlunnar á einstakling talið bezti mælikvarðinn á lífskjörin og þá breytingu þeirra, sem verður. Á fyrsta valdaári vinstri stjórnarinnar rýrnuðu þannig lífskjör þjóðarinnar um rúmlega 7% samkvæmt þessari skýrslu, eða um meira en nokkrar líkur eru til að kjaraskerðingin nemi fyrir þjóðina í heild vegna þeirra ráðstafana, sem nú hafa verið gerðar. Skal það fúslega viðurkennt, að umrædd 7% kjararýrnun orsakaðist ekki eingöngu af óskynsamlegum efnahagsmálaráðstöfunum þeirrar ríkisstj., þó að það muni að vísu hafa vegið þar þungt. En annað kom hér líka til, nefnilega aflabrestur á vetrarvertíðinni 1957, sem dró bæði úr innflutningi og neyzlu og átti þannig sinn þátt í kjaraskerðingunni. En það breytir engu um það, að ekki þarf að fara langt aftur í tímann til þess að finna dæmi kjaraskerðingar, sem sambærileg er við það, sem nú hefur átt sér stað. Og það er von okkar, sem að þessum ráðstöfunum höfum staðið, að komi ekki ófyrirsjáanleg óhöpp fyrir, muni það taka þjóðina skamman tíma að vinna þessa kjaraskerðingu upp vegna aukinnar framleiðslu. En hvað sem því líður, hefur engu verið lofað um það, að öllum yrði bætt upp kjaraskerðingin, sem leiða hlýtur af minni gjaldeyrisnotkun, enda auðvitað óhugsandi, að þær tekjutilfærslur, sem framkvæmdar eru með auknum bótagreiðslum á vegum trygginganna og breytingum á skattakerfinu„ geti bætt heildinni það upp, að minni verðmæti eru til ráðstöfunar. Því hefur aðeins verið lofað, að tilteknum aðilum, svo sem elli- og örorkustyrkþegum og ómagafólki, skuli að mestu eða öllu bætt upp kjaraskerðing af völdum efnahagsaðgerðanna, og það loforð álit ég að hafi verið efnt með tryggingalögunum, sem afgreidd voru hér í hv. d. fyrir nokkrum dögum. Jafnframt er það fyrirætlun hæstv. ríkisstj. að greiða sem unnt er fyrir því, að aukin framleiðsluafköst megi á sem skemmstum tíma létta af þjóðinni þeirri byrði, sem hún hefur tekið á sig í bili, og vinna að auknu félagslegu réttlæti. Skattafrv. það, sem hér liggur fyrir, ber að mínu áliti að skoða sem lið í þeirri viðleitni.