06.04.1960
Efri deild: 55. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1943 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

111. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Mér finnst satt að segja þau rök, sem færð eru fram fyrir því frv., sem hér er til umræðu, vera harla einkennileg. Hér hafa tveir hv. þm. talað af liði ríkisstj. Hv. 9. landsk. (JÞ) sagði, að styrkja- og uppbótakerfið væri orðið það rotið, að þörf væri á því að endurskoða það og afnema með öllu, að mér skildist, og ég held helzt, að honum finnist, að það sé þegar búið að komast fyrir rotnunina í styrkja- og uppbótakerfinu. En ég held, ef hv. 9. landsk. blaðar í fjárl., þá sjái hann, að hæstv. ríkisstj, er ekki búin að afnema styrkja- og uppbótakerfið, því að enn þá er lagður 5% skattur á allan útflutning landsmanna til þess að rísa undir þeim gjöldum, sem á hefur vantað, að útflutningssjóður, sem stóð sig með ágætum að hans dómi og annarra Alþýðuflokksmanna á s.l. hausti, geti staðið við sínar skuldbindingar. Og tæplega trúi ég því, að hæstv. ríkisstj. afnemi þennan skatt, heldur hygg ég, að hún muni halda honum áfram til þess að taka á sig þann halla, sem kann að steðja að atvinnulífinu vegna þeirra aðgerða, sem hæstv. ríkisstj. er nú og hefur verið að beita sér fyrir, frá því að hún tók völdin í landinu. Þessi sami hv. þm., 9. landsk., sagði, að beinu skattarnir, sem hefðu áður fyrr verið notaðir til þess að koma á nokkurs konar auðjöfnun í landinu, væru í raun og veru óþarfir nú, því að það væri á allt annan hátt séð fyrir þörfum þeirra, sem minna mega sín í landinu, en áður var, og benti á tryggingalöggjöfina og atvinnuleysistryggingasjóðinn í því sambandi. En ég vil spyrja hv. 9. landsk. að því, hver er munur á gerður hjá láglaunamanni með þrjú börn og hálaunamanni með þrjú börn að því er varðar fjölskyldubætur og að því er varðar það, sem að Tryggingastofnun ríkisins snýr. Ég hygg, að hann geti tæplega sagt með sanni, að þar sé nokkur munur á gerður. Það er nokkurn veginn sama, hvar maður blaðar í þeim frv. og þeim lögum, sem samþykkt hafa verið á þessu þingi, að þau miða í raun og veru öll í hina einu og sömu átt, þ.e. að auðga þá, sem auðugir eru.

Ein rökin fyrir því, að afnema beri beina skatta eða lækka þá verulega, eru þau, að framtöl séu svo misjöfn og óábyggileg. Ég hef verið að leita í þessu frv., af því að nú eru skattar ekki afnumdir algerlega, þar sem enn þá er látinn halda sér tekjuskattur og eignarskattur, hvort hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir því, að hjá þeim, sem eiga eftirleiðis að greiða þessa skatta, væri hægt að tryggja þann grundvöll, sem þessi framtöl byggjast á. En það er öðru nær, þar fyrirfinnst ekkert, þannig að hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar eru ekki neitt að gera til þess að tryggja hann, nema síður sé, og telja það þó eina af ástæðunum fyrir því, að þeir eru nú að beita sér fyrir breytingu á skattalögunum.

Og þá minntist hv. 9. landsk. á það, að fólkið greiddi söluskattinn. Það er alveg rétt. Fólkið greiðir söluskattinn. En er þá jafnmikil trygging fyrir því, að sá skattur, sem fólkið greiðir í gegnum söluskattinn, komi ríkinu til góða eins og áður var með tekju- og eignarskatt? Ég spyr hv. 9. landsk., því að mér finnst, að það sé glapræði næst af ríkisstj. að vera að beita sér fyrir því skattakerfi, sem á að þjóna almenningi í landinu, ef engar líkur eru fyrir því, að það kerfi, sem upp er tekið, sé á nokkurn hátt betra en það skattakerfl, sem ríkt hefur til þessa. Og ég er sannfærður um það, að um leið og verið er að stórlækka skatta á hátekjumönnum, hina beinu skatta, fá hinir sömu í enn þá ríkara mæli margir hverjir möguleika á því að stela undan söluskatti í stórum stíl. Þetta er hugsjón Alþfl. Ég lái sjálfstæðismönnum ekki þetta, vegna þess að þeir hafa aldrei viljað hafa neina heilbrigða brú í skattamálum landsins, þeir hafa ávallt viljað hafa skattana þannig, að flokksmenn þeirra gætu stungið þeim sem mest í eigin vasa og notað í eigin þjónustu í kosningabaráttu.

Þá minntist hv. 11. þm. Reykv. (ÓB), frsm. meiri hl. fjhn., á ýmislegt, sem hann taldi að gæfi þessu frv. ríkisstj, gildi, og talaði um ástæðurnar fyrir því, hvers vegna stjórnin hefði beitt sér fyrir þessari breytingu á tekjuskattslögunum, og hann taldi, að ein aðalástæðan væri sú, að launþegar yrðu jafnan að gera nauðugir, viljugir fulla grein fyrir þeim tekjum, sem þeir hefðu, á meðan ýmsir aðrir slyppu við það, eins og t.d. þeir, sem hafa á hendi ýmiss konar rekstur, sem væri ekki ávallt svo létt verk að fylgjast með, hvern hagnað gæfi, — að þessir menn hefðu möguleika á að taka út af framtali nokkurn hluta af þeim tekjum, sem í raun og veru væru skattskyldar, svo að hann komst að þeirri sömu niðurstöðu og hv. 9. landsk., að af þeim sökum væri nauðsynlegt að breyta þessu skattalagakerfi. En ég vil vekja athygli á því nú við þetta tækifæri, að sjálfstæðismenn hafa á undanförnum árum barizt fyrir því að koma inn ákvæðum í skattalögin, sem hafa gert það að verkum, að starf skattanefnda hefur verið miklu erfiðara en það var áður fyrr, og þessir erfiðleikar eru í því fólgnir og hafa verið nú síðustu árin, síðan spariféð var gefið skattfrjálst, að þá er útilokað að fylgjast með eignahreyfingum hjá mönnum, og jafnvel þó að aðili teldi sig hafa lið á ekki neinu eða ekki haft neinar tekjur eitt árið, gæti hann sagt sem svo, að hann hefði lifað á sínum innstæðum. Á þennan hátt hefur verið kippt því þýðingarmikla atriði út úr skattalögunum, að starfssvið skattanefnda hefur verið miklu minna virði en það var áður fyrr, og mér finnst því, að þegar sjálfstæðismenn eru að tala um, að framtölin séu svo misjöfn og óábyggileg, þá geti þeir fyrst og fremst nagað sjálfa sig í handarbökin fyrir það að hafa beitt sér fyrir ákvæðum sem þessum, að sparifé skuli ekki vera framtalsskylt. Látum vera, þó að það sé skattfrjálst, en það gat eigi að síður verið framtalsskylt fyrir því.

En þetta frv. gerir ráð fyrir því, að það verði safnað skattaskýrslum eftirleiðis eins og verið hefur. Og ég sé ekki betur en þau framtöl, sem verða í framtíðinni, verði jafnóréttlát og þau hafa verið og frsm. þessa máls virðast vilja vera láta að hafi átt sér stað á undanförnum árum. En hingað til hefur á skattaskýrslunum ekki einungis verið byggður tekju- og eignarskattur til ríkisins, heldur einnig í ríkum mæli víða á landinu útsvarsálagning til bæjar- og sveitarfélaga, og þess vegna eru framtölin náttúrlega ekki eða hafa ekki verið þýðingarlaus. Og ég vil benda á það, og ég held, að það sé enn þá prentað á skattaskýrslur, að framteljandi skrifi undir framtal sitt að viðlögðum drengskap, og hæstv. ríkisstj. og hennar frsm. hér leggja sannarlega ekki mikið upp úr þeim drengskap, og vera má, að þeir þekki sjálfa sig það vel, að ekki sé mikið upp úr honum leggjandi.

Í öðru lagi hafa fjallað um framtölin þrjár nefndir, öll framtöl á landinu. Það eru í fyrsta lagi undirskattanefndir í hreppunum og yfirskattanefndir og í síðasta lagi ríkisskattanefndin. Og ég verð að segja það, að mér finnst, með þeim málflutningi, sem hér hefur verið, hafa verið kastað nokkuð þungum steini að öllum þeim mönnum, sem innt hafa hlutverk sitt þar af hendi. En þó verð ég að segja það, að hæstv. ríkisstj. kórónar í raun og veru alla þessa hluti með því, sem hún lætur í ljós koma í því frv., sem þegar hefur verið lagt fram á Alþ. um breytingar á útsvarslögunum, þar sem eitt ákvæði í þeim lögum er á þann veg, að niðurjöfnunarnefndir bæjar- og sveitarfélaga séu alls ekki skuldbundnar til að taka tillit til framtalanna. Sem sagt, að að því leyti til er því lýst yfir af hæstv. ríkisstj., að framtölin séu algerlega óþörf og að niðurjöfnunarnefndir geti skapað hverjum og einum þegn í þjóðfélaginu þann grundvöll að útsvarsútreikningi, sem þeim sjálfum sýnist, sem með völdin fara. Og það er sama, þó að hvorki undirskattanefnd, yfirskattanefnd né ríkisskattanefnd hafi haft neitt við hin sömu framtöl að athuga, að þá getur niðurjöfnunarnefnd samt sem áður breytt því öllu saman. Hún getur kollvarpað sem sagt öllum grundvellinum, sem í raun og veru einstaklingarnir sjálfir leggja og skattanefndirnar og útsvörin hafa byggzt á til þessa. Og ég verð að segja það, að ákvæði sem þetta í lögum er nokkuð hættulegt, ef þannig menn fara með þessi völd, að þeir hafi hug á að misbeita valdi sínu. Þetta er kórónan á öllu því, sem hæstv. ríkisstj. hefur látið frá sér fara í þessum málum. Og vafalaust á margt eftir að koma upp í meðferð þessara mála hér á hv. Alþ., sem ég ætla ekki að ræða nú, fyrr en frv. um útsvör kemur til umræðu hér í hv. deild.

Það er ákaflega einkennandi fyrir það frv., sem hér liggur fyrir, hvert atgeirnum er beint, að honum er fyrst og fremst beint til þeirra, sem minna mega sín í landinu. Ég vil nefna hér þrjú dæmi, og í öllum tilfellunum eru hjón með 3 börn, sem í hlut eiga. Í fyrsta tilfellinu eru hjón, sem höfðu í skattgjaldstekjur árið 1959 30 þús. og greiddu í skatt 989 kr. Í öðru lagi eru hjón, sem höfðu í skattgjaldstekjur 60 þús. kr. og greiddu í skatt 3949 kr. Og í þriðja lagi eru hjón, sem höfðu í skattgjaldstekjur 90 þús. kr. og greiddu í skatt 11322 kr., en nú greiða hin sömu hjón í skatt samkvæmt því frv., sem hér liggur fyrir, 1670 kr. Þau græða því á þessari skattalagabreytingu 9652 kr., á meðan hvor tveggja hin hjónin, sem höfðu 30 þús. eða 60 þús. í skattgjaldstekjur, þurfa nú ekki að greiða skatt, en spara aðeins 989 kr. í öðru tilfellinu og 3949 kr. í hinu. Þetta talar sínu máli og sýnir, hversu misjafnlega hinir ýmsu aðilar í þjóðfélaginu spara við þá skattalagabreytingu, sem hér er lögð til.

Í þessum dæmum, sem ég nefndi, hafa þessar fjölskyldur allar jafnt í fjölskyldubætur, þær hafa 3 börn og fá jafnt, hver fjölskylda fær 7800 kr. í fjölskyldubætur. Það er ekki nokkur greinarmunur á því gerður, hvort fjölskyldan hefur 30 þús. í skattgjaldstekjur, 60 þús. eða 90 þús. Og ég ætla, að til allra nauðsynja greiði þessar fjölskyldur álíka mikið í söluskatt til allra brýnustu nauðsynja. Það eru líka mjög sterkar líkur til þess, að fjölskylda, sem hafði 90 þús. kr. í skattgjaldstekjur, hafi á undanförnum árum haft miklu meiri möguleika á að útvega sér sæmilegt húsnæði og þægindi og búa í haginn fyrir framtíðina en hinar fjölskyldurnar höfðu, sem höfðu miklu lægri tekjur. En þessar láglaunafjölskyldur eru nú miklu verr settar eftir þessa breytingu og þær breytingar, sem gerðar hafa verið í efnahagsmálum í vetur, — miklu verr á vegi staddar með að bjarga sér en áður var þrátt fyrir tekjuskattslækkunina, og það stafar af því, að verðhækkanir hafa orðið svo geysimiklar, að þessar fjölskyldur, láglaunafjölskyldurnar, geta bókstaflega ekkert veitt sér nema allra brýnustu lífsnauðsynjar, því að gengisbreytingin upp á 132.5%, söluskatturinn 8.8% plús 3% söluskattur og vaxtahækkunin allt upp í 12% og stórhækkun á öllum verðtollum, þetta gleypir allt svo mikið af tekjum fólks, að það er sannarlega hvergi, þar sem þörf er á, komið á móti til stuðnings, og sama þó að maður taki með í reikninginn fjölskyldubætur, skattalækkun og annað, vegna þess að láglaunafólkið hafði ekki skatta og sparar því ekkert í sköttum, og það fær jafnt í fjölskyldubætur og aðrir aðilar í landinu. Það verður því, hvernig sem þessu máli er velt fyrir sér, miklu verr á vegi statt en allir, sem hafa haft meiri tekjur í landinu. Þarna er því verulega gert upp á milli, þó að ekki séu teknar nema allra brýnustu lífsnauðsynjar í landinu.

Alls staðar blasir við sama sagan, að lamb fátæka mannsins er lagt á borð ríka mannsins, og hann virðist gleypa það af mikilli áfergju og af samvizkuleysi.

Það er líka eftirtektarvert í sambandi við þetta mál og raunar fleiri, sem hér hafa verið lögð fram á þingi af hæstv. ríkisstj., að bændastétt landsins, sem hefur ekki haft á undanförnum árum betri kjör en það, að hún hefur ekki getað greitt nema sáralítið í beinum sköttum, fær nú í staðinn stóraukna skatta, þar sem er söluskatturinn og aðrir óbeinir skattar, sem á hafa verið lagðir eða auknir. Meira að segja verða bændur að borga söluskatt af eigin framleiðslu, eins og kjöti og alls konar kjötvörum, sem þeir kaupa í verzlunum, og hafa gert upp á síðkastið, síðan niðurgreiðslur urðu það miklar, að þær námu meira en dreifingarkostnaði á sömu vöru. Það er því ekki hægt að segja, að því er varðar bændastétt landsins, að þessi skipti á skattafyrirkomulagi séu henni hagstæð.

Þessi skipti á skattafyrirkomulagi eða tilfærsla á gjöldum, eins og hæstv. fjmrh. hefur oft talað hér um í vetur, eru mjög óhagstæð fyrir alla framleiðsluaukningu í landinu og þá ekki sízt á sviði landbúnaðarframleiðslu, sem hlýtur nú að dragast mjög saman sakir þess, hversu stjórnarsinnar hækka allt mikið í verði, sem til þarf til framleiðslunnar, ef hún ætti fyrir sér að vaxa, því að öll tæki varðandi landbúnaðinn nú hækka svo mikið í verði, að það er útilokað fyrir bændur að veita sér neitt að ráði af þeim tæknilegu áhöldum, sem landbúnaðurinn nauðsynlega þarf, svo að séð frá því sjónarmiði getur tæplega nokkur framleiðsluaukning átt sér stað, en miklar líkur fyrir samdrætti, þegar þessi mál eru athuguð niður í kjölinn, enda að því stefnt að stórhækka vexti og skapa verulega lánsfjárkreppu í landinu, sem fyrst og fremst kemur niður á þeim, sem sinna einhverjum framleiðslustörfum. Og það er synd að segja, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, auki eða bæti aðstöðu þessara aðila frekar en annarra. Það eru fyrst og fremst þeir, sem betur mega sín, sem á þessu græða á kostnað hinna, og það er hér sem viðar, það er ráðizt á garðinn þar, sem hann er lægstur. Það er ráðizt á þá aðila í landinu, sem til þessa hafa átt afkomu sína undir sól og regni og getað bjargazt án þess, að til kæmi stór styrkur þess opinbera. En nú er fótum brugðið fyrir þessa aðila í landinu, þannig að þeir eiga sannarlega ekki bjarta daga fram undan.

En ég vildi að lokum leyfa mér að varpa einni spurningu fram fyrir hæstv. ríkisstj. og þá fyrst og fremst hæstv. fjmrh., sem virðir þó þessa deild það, að hann er hér viðstaddur nú, og spurningin er þessi: Á ekki eftir að koma neitt frv. frá hæstv. ríkisstj. fyrir Alþ., sem bætir um fyrir þeim aðilum í landinu, sem verst eru á vegi staddir eftir allar þær löggjafir, sem ríkisstj. hefur lagt fyrir þingið og beitt sér fyrir til þessa á því þingi, sem starfað hefur? Er ekki neitt í uppsiglingu, sem hugsanlegt er að geti bætt um fyrir þessum aðilum í landinu? Ef svo er ekki, þá sé ég ekki fram á annað en voðinn sé vís hjá fjölda af hinu lægst launaða fólki í landinu.