06.04.1960
Efri deild: 55. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1948 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

111. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Sú hæstv. ríkisstj., sem nú situr að völdum, reynist hafa valið sér það einkennilega hlutverk að færa sem flest í þjóðfélaginu aftur á bak í tímann. Hún keppist við að rifa niður það, sem byggt hefur verið upp síðustu áratugina, og hún er furðu afkastamikil, þegar þess er gætt, hve skamman tíma hún hefur setið. Öll verk hennar til þessa tíma bera ótviræð merki afturhvarfsins til þessara löngu liðnu tíma. Nærtækt dæmi þessarar tilhneigingar hæstv. ríkisstj. er stefna hennar og aðgerðir í skattamálunum. Fyrir 40 árum stundi almenningur í þessu landi undir óbeinu sköttunum, sem lagðir voru jafnt á allar nauðsynjar og gerðu engan greinarmun á fátækum og ríkum. Þá komu fram ákveðnar óskir um allt land og urðu æ háværari um, að skattakerfinu yrði breytt, dregið yrði úr óbeinu sköttunum og upp tekinn beinn skattur, tekjuskatturinn, sem lagður yrði á eftir gjaldþoli hvers eins. Við þessum kröfum varð Alþ. fyrir tæpum 40 árum. Nú sýnist hæstv. ríkisstj. ætla að breyta um aftur og hverfa til gamla tímans. Hefur hún nýlega fengið lögfestingu á söluskatti, sem leggst jafnt á allt, varning og þjónustu og þarft sem óþarft, og gerir engan mun ríkra og fátækra. Þetta er þegar orðið að lögum, og er þá röðin komin að skerðingu eða afnámi tekjuskattsins, sem lagður er á eftir efnum og ástæðum skattþegnanna. Um það efni fjallar stjórnarfrv., sem hér liggur nú fyrir til umr. Það er í rauninni ekki nema framhald eða rökrétt afleiðing söluskattsfrv., sem var hér nýlega á ferðinni og þá samþykkt illu heilli, vildi ég segja.

Að efni til er þetta frv. um tekjuskatt ekki margbrotíð og aðallega felur það í sér tvö athyglisverð atriði. Hið fyrra er það, að þessi tekjustofn ríkissjóðs skuli nú skertur svo mjög, að hann verði litið meira en nafnið tómt. En hitt atriðið er, að hátekjumenn þjóðfélagsins eru látnir hagnast mest allra á skerðingu skattsins. Þessi stefna, að draga úr beinum skatti til hagsbóta efnamönnum, kemur engum á óvart, sem þekkir til Sjálfstfl. Sá flokkur vinnur fyrir sína menn, og er það ekki nema eðlilegt. Stighækkandi tekjuskattur hefur alltaf verið eitur í beinum þeirra, sem háar hafa tekjurnar, þótt þeir hafi ekki fengið rönd við reist fyrr en nú, er þeim hefur borizt hjálp úr óvæntri átt. Það er einkenni tekjuskatts, að hann er lagður á þegnana í samræmi við gjaldþol þeirra, þannig að skattbyrðarnar eru lagaðar eftir bökunum, sem bera þær. Með honum er þeim snauðu hlíft á kostnað hinna efnuðu, og það er þess vegna, sem tekjuskatturinn er í eðli sínu einhver réttlátasta skatttegund, sem til er. Hitt er annað mál, að í framkvæmdinni má spilla honum á ýmsa vegu og jafnvel gera hann með því almennt óvinsælan.

Árið 1921 voru skattamál til meðferðar á Alþingi. Þáv. fjmrh., Magnús Guðmundsson, taldi við það tækifæri það viðurkennt af flestum, að tekju- og eignarskattur væri einhver sanngjarnasti skatturinn að öllu samanlögðu, sem unnt væri að finna. Mönnum var ljóst þegar á þeim tímum, að miklu varðaði, hvernig til tækist um alla framkvæmd í sambandi við skattheimtuna. Stighækkandi tekjuskattur er óneitanlega mikilsvert spor í þá átt að jafna lífskjör þjóðfélagsþegnanna, og að því leyti er hann mótsetning neyzluskattanna, sem engan mun gera á aðstöðu eftir efnum og ástæðum. Þessi er og verður alltaf eðlismunurinn á beinum sköttum og óbeinum.

Ég sagði áðan, að ekki væri nema eðlilegt, að Sjálfstfl. hefði horn í síðu tekjuskattsins og teldi hann höggva of nærri efnamönnunum, enda hans að gæta þeirra hagsmuna. Öðru máli gegnir um þá stjórnmálaflokka, sem bera hag alls almennings fyrir brjósti. Þeir vilja ekki afnám þess skattforms, sem bezt tryggir jöfnun lífskjaranna í landinu, og þeir telja allsherjar söluskatt hæstv. ríkisstj. í eðli sínu ranglátari en tekjuskattinn. Alþfl. var stofnaður af jafnaðarmönnum, og árum saman vann hann ósleitilega að hagsmunamálum láglaunafólksins í landinu. Þá beitti hann sér gegn álagningu þungra skatta á lífsnauðsynjar hins fátæka manns, og þá taldi hann stighækkandi tekjuskatt til sanngirnismála. En flokkurinn breyttist, eins og kunnugt er. Í skattamálum hefur Alþfl. tekið heljarstökk. Það gerðist á einum flokksstjórnarfundi fyrir þrem árum. Sú skattstefna, sem flokkurinn hafði beitt sér fyrir um áratugi og talið alþýðu þessa lands horfa til heilla og hagsbóta, varð á einni kvöldstund alröng og með öllu óhæf í augum forkólfanna. Minna þessi snöggu sinnaskipti einna helzt á forkláraða opinberun heilagra manna og eru ámóta yfirskilvitleg. Síðan hafa leiðtogar flokksins ekki linnt látum í flutningi hins nýja boðskapar, þar sem hvítt er orðið svart og öfugt. Ákafastur allra í þessu nýja hlutverki hefur hæstv. viðskmrh. verið, og er enn í minnum höfð ákefð hans, er hann fyrir kosningar í haust þeysti fram á völlinn í ríkisútvarpinu með boðskap sinn: Engin skattsvik framar, tekjuskattar verða afnumdir með öllu og hundruðum manna í skattþjónustunni fengin önnur og þarfari verkefni. Var helzt svo á þessum hæstv. ráðh. þá að skilja, sem bæði skyldi afnuminn tekjuskattur og útsvar og allt skattstofufólk helzt sent til sjós. Þetta nýja fagnaðarerindi Alþfl. vakti víðast hvar furðu og jafnvel í Sjálfstfl. Andstæðingar stighækkandi tekjuskatts vissu tæpast, hvaðan á sig stóð veðrið, enda var þetta eins og að rétta hundi heila köku. En smám saman sjatnaði undrunin, og í hennar stað kom ánægjan með nýjan samherja.

Í ársbyrjun 1958 var rædd á Alþ. ályktunartill. Alþýðuflokksmanna um afnám tekjuskatts. Þá lögðu Sjálfstfl.-menn fátt til mála, þótt auðheyrð væri vinsamleg viðurkenning á stefnubreytingunni. Þó gat einn þeirra, hv. 11. þm. Reykv. (ÓB), ekki látið hjá líða að veita Alþýðuflokksmönnum væga áminningu og benda þeim á veilur í hinum nýja boðskap. Þetta gerði hann m.a. með þessum orðum:

„Það mun varla vera ágreiningur um það, að á tekjuskattinum eru margir og stórir ágallar. Þó er það þannig að mínu áliti, að þessir ágallar eru í ríkara mæli framkvæmdalegs eðlis en það, að slíkir skattar séu í sjálfu sér óréttlátir. Tilfellið er, að séu menn sammála um það, að skattana beri að verulegu leyti að leggja á eftir efnum og ástæðum, þá er erfitt að finna annan betri mælikvarða á efnahag manna en tekjurnar.“

Þessa ádrepu fengu Alþfl.-menn hjá hv. 11. þm. Reykv. En auðvitað var það eins og að stökkva vatni á gæs. Áminningarnar hljóðnuðu líka skjótt, enda sú skoðun ríkjandi í Sjálfstfl., að ekki beri að miða skattana að verulegu leyti við efnahag manna.

Það hefur alltaf verið stefna Alþb., að ekki ætti að leggja tekjuskatt á þurftartekjur. Í stjórnarfrv. er gert ráð fyrir afnámi skattsins á þær tekjur, og eru Alþb.-menn fyllilega samþykkir þeirri ráðstöfun út af fyrir sig. Hinu hafa þeir eindregið mótmælt, að í stað þessarar ívilnunar skuli hafa komið stórauknar álögur á láglaunafólk í formi neyzluskatta eins og söluskattsins. Það er ekki annað í rauninni en ósvífin blekking að gylla fyrir lágtekjumönnum afnám tekjuskatts, þegar jafnstór upphæð og raunar miklu stærri er tekin af þeim í formi nýrra skatta.

„Tekjuskattur afnuminn á almennum launatekjum.“ Þessi orð eru prentuð með feitu letri í áróðursriti því, sem hæstv. ríkisstj. gaf út sér til varnar og sendi öllum landsmönnum á þeirra kostnað. En í þeirri bók er öðru sleppt, sem þó hefði verið ástæða til að prenta með enn stærra letri, og það er, hverjir mest hagnast á tekjuskattsbreytingunni. Því er sem sagt algerlega stungið undir stól þar.

Á s.l. ári nam tekjuskattur á einstaklinga 139.7 millj. kr., en nú er hann áætlaður 22.5 millj. kr. Hér er því um mikla lækkun að ræða. En það fé, sem henni nemur, skiptist mjög misjafnt á einstaklingana, og gildir þar sú regla„ að því tekjuhærri, sem maðurinn er, því meiri skattlækkun fær hann. Þannig fær meðalstór fjölskylda með lágar tekjur 500 –1500 kr. eftir gefnar, en hátekjumaður með jafnstóra fjölskyldu fær tekjuskattslækkun, sem nemur 20–40 þús. kr. Í þessum mismun kemur fram það, sem athyglisverðast er í þessu frv., enda alveg einkennandi fyrir alla stefnu hæstv. ríkisstj. í skattamálunum. Með tekjuskattsbreytingunni eru láglaunamönnum fengnar nokkur hundruð krónur til að mæta nýjum álögum og ört vaxandi dýrtíð, en um leið og svo sem af tilviljun eru hátekjufólki réttir tugir þúsunda í sama skyni. Í þessu meginmáli frv. birtist stefna hæstv. ríkisstj., og á því sést, hverra hagur borinn er fyrir brjósti af Sjálfstfl. og af Alþfl., síðan hann tók sinnaskiptunum.

Ég skal ekki fjölyrða um hinn almenna söluskatt hæstv. ríkisstj., enda var hann mikið ræddur hér nýlega. Aðeins vil ég minna á, að hann er af flestum talinn í eðli sínu ósanngjarnastur allra skatta og í framkvæmd fyrir margra hluta sakir varhugaverður. En þetta er uppáhaldsskattur hæstv. stjórnar, og á honum héfur hún jafnmikið dálæti sem hún hefur andúð á hinum, er við efnahag manna miðar. Lýsir þetta hæstv. ríkisstj. vel, stefnu hennar og markmiði. Það er verið að hverfa frá tekjuskattinum, sem kröfur gerir til hins ríka, og taka upp þann neyzluskattinn, sem ranglátastur er og harðast bitnar á efnalitlu fólki. Þessarar staðreyndar er hvergi getið í áróðursritlingi hæstv. stjórnar, hvorki með smáu né stóru letri.

Meginröksemdin, sú raunverulega röksemd fyrir þeirri stefnu að afnema tekjuskatt er einfaldlega sú í hugum hv. stjórnarliða, að slíkt afnám er tekjuháu fólki hagstætt. En slík rök eru ekki frambærileg á opinberum vettvangi, og það vita þeir vel, málsvarar efnamanna í Sjálfstfl. og Alþfl. Þess vegna verða þeir að bera tylliástæður á borð fyrir almenning, og þeim hefur ekki orðið skotaskuld úr því. Stjórnarliðið hefur ekki reynt að færa sönnur á, að tekjuskattur sé í eðli sínu ranglátur, til þess hefur það ekki treyst sér. Hins vegar gat það bent á ágalla á lögum um tekjuskatt og sérstaklega þó á veilur í framkvæmd þeirra. Eftirlit með skattframtölum er svo að segja ekkert í þessu landi, og hefur sá ágalli leitt til hins mesta misréttis. Í sumum starfsstéttum, svo sem launastéttunum, eru litlir sem engir möguleikar til skattsvika þrátt fyrir þetta slælega eftirlit, en í öðrum starfsgreinum og þá ekki sízt þar, sem miklu fé er velt, eru þessir möguleikar nær ótæmandi. Þetta hefur leitt til þess, að tekjuskatturinn hefur lagzt mjög misþungt á borgarana og jafnvel að þeir hafi sloppið ódýrast, sem mesta fjárhagsgetuna hafa. Þetta hefur öðru fremur gert tekjuskattinn almennt óvinsælan, og þær óvinsældir notfærir hæstv. ríkisstj. sér nú, er hún stefnir að afnámi hans. Virðist kenning hennar vera sú, að séu lög brotin, skuli þau afnumin. Það sýnist ekki flökra að hæstv. ríkisstj., að taka megi upp eftirlit með skattframtölum og gera það t.d. viðlíka öflugt og það er nú í Danmörku og í Bandaríkjunum. Á því sýnist hún engan áhuga hafa. Hún vill umfram allt og aðeins stýfa og síðan afnema tekjuskattinn. Eftirlitsleysið kærir hún sig kollótta um, en skattinn vill hún feigan.

Þá hampa stjórnarliðar því, að stighækkandi tekjuskattur, svo hár sem hann er hér, dragi úr framtaki og vinnusemi hinna tekjuháu. Í þessu kann að vera sannleikskorn, og skal ég ekki bera á móti því. En er þá ekki ráðið að lagfæra þetta í lögum, draga ögn úr stighækkuninni? Það eitt er víst, að ef virkt eftirlit með framtölum yrði upp tekið, mundi ríkissjóður einskis missa í af tekjum, þótt skattstigi yrði eitthvað lækkaður. En slíku ráði til úrbóta lítur hæstv. ríkisstj. ekki við. Hún hefur ekki hug á öðru en skerðingu og afnámi þessa skatts.

Því er einnig flíkað sem tylliástæðu af hæstv. ráðherrum, að innheimta tekjuskatts sé kostnaðarsamari en innheimta annarra skatta. En engar tölur munu þó til, er sanna þetta, og er því hér aðeins um órökstudda fullyrðingu að ræða.

Hvað sem annars má segja um þessa gagnrýni alla, snertir hún ekki tekjuskattinn sem slíkan, heldur aðeins einstök lagaákvæði og þá sérstaklega viss framkvæmdaratriði í sambandi við hann. Að þeim átti lagfæringin því að beinast að réttu lagi, en ekki sjálfum skattinum. Um lagfæringu í þá átt er ekki hirt, og sannar það bezt, að gagnrýnin, eins og hún leggur sig, þjónar annarlegum sjónarmiðum.

Ég minnist þess ekki að hafa heyrt nema aðeins einn hv. alþm. tala fyrir afnámi tekjuskatts með þeirri röksemd, að hann væri nú orðinn úreltur. Þessi hv. alþm. talaði að vísu óljóst um breytta tíma, meiri fjárráð almennings nú en áður, aukna vörufjölbreytni o.s.frv., og virtist hann af þessu öllu draga þá ályktun, að nú væri tímabært að afnema alla beina skatta og styðjast eingöngu við neyzluskatta. Ekki verkaði þessi ræða sannfærandi á mig, og mundi ég frekar ætla, að í nútíma þjóðfélagi færi einmitt bezt á tilvist beggja tegunda, beinna skatta og óbeinna, að það hæfði fjölbreytninni betur.

Að þessu sinni hyggst hæstv. ríkisstj. stýfa tekjuskattinn. Síðar mun hún hugsa sér að afnema hann með öllu, enda er það margyfirlýst stefna annars stjórnarflokksins. Þetta árið a.m.k. verður farið yfir öll skattframtöl og skattur ákveðinn í samræmi við þau. Eftirlitsleysið verður hið sama og áður. Menn telja fram sem fyrr, sumir rétt og aðrir rangt, eftir innræti og aðstöðu. Það láta hv. stjórnarliðar sig engu skipta. Fastlaunamaður í þjónustu hins opinbera verður að telja hvern eyri fram, og sé hann sæmilega launaður, kemst hann ekki undan tekjuskatti nú. Nágranni hans, sem rekur atvinnu sjálfstætt og hefur hærri árstekjur, felur hluta af tekjum sínum og sleppur þess vegna með öllu við tekjuskattinn að þessu sinni. Misréttið ríkir þannig áfram, vegna þess að hæstv. ríkisstj. kærir sig ekki um að leiðrétta þá ágalla, sem hún þó sjálf gagnrýnir. Slík eru öll heilindin í þessum málum.

Það er líka hláleg staðreynd, að einmitt þeim aðilum, sem bezta aðstöðu hafa haft til að draga undan tekjuskatti, er nú trúað fyrir hinum nýja 300 millj. kr. skatti hæstv. ríkisstj. Hinn allmenni söluskattur verður innheimtur 100% hjá neytendum vöru og þjónustu, en þeir eru greiðendur þessa skatts. Innheimtumennirnir skipta hundruðum, ef ekki þúsundum, og þeir eiga að gera ríkissjóði skil samkvæmt sama bókhaldi og þeir nota við framtal til tekjuskatts. Þessir innheimtumenn söluskattsins eru sjálfstæðir atvinnurekendur og hafa flestir öðrum betri aðstöðu til skattsvika, hvort sem þeir nota sér hana eða ekki. Hafi vanhöld orðið við framtöl tekjuskatts, má búast við sömu vanhöldum hvað söluskattinn snertir. En hvað varðar hæstv. ríkisstj. um það? Þannig virðist mér allt á sömu bókina lært hjá henni.

Ég skal nú láta máli mínu lokið. Um einstök atriði þessa frv, er fátt að segja. Hér er ekki um neina heildarendurskoðun skattalaganna að ræða, heldur fáeinar breytingar, sem hæstv. ríkisstj. þótti henta að tina til nú til samræmis og fullkomnunar öðrum efnahagsráðstöfunum sínum. Aðalbreytingarnar eru tvær og báðar í 1. gr. frv. Er hin fyrri um, að enginn skattur skuli greiddur af lægstu tekjum. Hefur sú breyting lengi verið æskileg, en er nú orðin óhjákvæmileg nauðsyn vegna margháttaðra ráðstafana hæstv. ríkisstj. til dýrtíðaraukningar. Þessi breyting er því sjálfsögð. En jafnfráleit er síðari breytingin í sömu grein. Í henni er fólgin stórfelld lækkun á skatti hátekjumanna, og nemur hún svo miklu, að þeir einir munu skaðlítið komast gegnum allt dýrtíðarflóðið. Virðist mjög langt gengið í þessari ívilnun hinum tekjuhæstu til handa, eins og ég fyrr gat um, og einmitt vegna þess, hve langt er gengið í þessu efni á kostnað láglaunamannanna, er ógerlegt að samþykkja þessa grein í heild. Samþykkt síðari breytingarinnar í þessari gr. er jafnfráleit og samþykkt þeirrar fyrri er sjálfsögð.