06.04.1960
Efri deild: 55. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

111. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm, meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Hér hefur nokkuð borið á góma misritun eða prentvillu, — ég skal ekki skera úr því, hvort heldur er um að ræða, — sem slæðzt hefur inn í frv. Hv. 6. þm. Norðurl. e. (MJ) vakti athygli mína á þessu, eftir að ég hafði lokið framsöguræðu minni, og kom okkur saman um það í samráði við hv. 9. landsk. (JÞ), til þess að tryggja, að breyting á þessu kæmist inn við 2. umr. málsins, að meiri hl. birti um þetta brtt. Hefði ég verið búinn að taka eftír þessu, áður en umr. var hafin, hefði ég kallað saman fund í fjhn. og óskað eftir því, að hún flytti um það sameiginlega brtt. Það er auðvitað alltaf leitt, þegar svona kemur fyrir, og þegar fjhn. hélt fund sinn um þetta ásamt einum færasta skattamálasérfræðingi landsins, sást okkur yfir þetta atriði, enda vill það gjarnan ganga svo, þegar mál eru til meðferðar í þingnefndum, að því er treyst, að hinn tæknilegi grundvöllur lagafrv, sé eins og vera á, en þn. skoða það gjarnan sem fyrst og fremst hlutverk sitt að taka afstöðu til málanna efnislega, svo að það verður alltaf tilviljun, að slíkir tæknilegir agnúar uppgötvist þar. En auðvitað er engum sérfræðingum fyllilega að treysta, það leiðir af hinum mannlega ófullkomleika, og þess vegna hefur þetta komið fyrir. Hitt er svo vitanlega algerlega úr lausu lofti gripið, þegar sumir hv. stjórnarandstæðingar hafa gefið það í skyn, að það hafi verið af ásettu ráði gert af hæstv. ríkisstj. að lauma þannig orðalagi inn í frv., að af því gæti leitt, að tekjur yfir 110 þús. kr. yrðu skattfrjálsar. Sönnun þess, að svo er, er sú, að vitanlega hafa allar fjárhagsáætlanir, sem gerðar hafa verið í sambandi við þetta frv., verið á því byggðar, að það yrði 30% skattur af tekjum yfir 110 þús. kr. Sú firra hefur auðvitað ekki komið upp í höfði neins manns, að það kæmi til mála að gera skattinn stiglækkandi aftur, svo að hér er annaðhvort um ritvillu að ræða hjá þeim, sem hafa undirbúið frv., eða prentvillu.

Hitt er annað mál, að ýmis dæmi munu vera þess, að slíkt hafi komið fyrir. Ég man t.d. eftir því á s.l. vori, að það féll af vangá niður, þegar hv. Alþ. samþykkti skattafrv, þar, að setja þar nokkur ákvæði um skattskyldu samlaga og sameignarfélaga. Auðvitað hefur engum manni dottið í hug að túlka það þannig, að þetta þýddi það, að þessi fyrirtæki væru skattfrjáls, enda hafa þau verið skattlögð eftir sem áður samkvæmt gildandi reglum. Og ég býst nú við, að jafnvel þd að það hefði skeð, að þessi villa hefði verið áfram í frv., hefði það í framkvæmdinni auðvitað eftir sem áður orðið þannig, að tekjur yfir 110 þús. kr. hefðu borið 30% skatt. Hins vegar er auðvitað sjálfsagt að leiðrétta þetta, úr því að sú uppgötvun hefur verið gerð. Sú till., sem meiri hl. hefur lagt fram, og till. hv. 1. þm. Norðurl. e. eru samhljóða, þar eð við höfum uppgötvað þetta hvor í sínu lagi. Ég mundi nú vilja stinga upp á því, svo að við förum ekki sem stór börn að hnotabítast um það, hvora till. eigi að bera upp fyrr, — en ef út í það færi, þá býst ég við, að við værum í réttinum, þar sem okkar till. kom fyrr fram hér í d., — en til þess að við förum ekki að hnotabítast um það, þá mundi ég vilja stinga upp á því, að báðir brytu odd af oflæti sínu og drægju till. til baka, en flutt yrði sama efnis till. frá fjhn. í heild, ef hv. 1. þm. Norðurl. e. og hv. 5. þm. Norðurl. e. mundu vilja á það fallast. En verði slíkt samkomulag ekki, kemur slíkt auðvitað til úrskurðar hæstv. forseta, þótt efnislega sé þetta auðvitað hégómamál.

Ég vil að gefnu tilefni leiðrétta þann misskilning, sem fram kom hjá hv. 1. þm. Norðurl. e., að meiri hl. í fjhn. hefði tekið þá afstöðu eða jafnvel lýst því yfir, að engar brtt. frá minni hl. yrðu teknar til greina. Ég mun að vísu hafa sagt, að ég byggist við því, að erfitt yrði fyrir okkur stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. að ganga inn á brtt., sem hefðu í för með sér verulega röskun á þeim fjárhagsáætlunum, sem gerðar hefðu verið. En hefði t.d. ábending komið fram um þetta atriði í n., hefði að sjálfsögðu ekkert verið því til fyrirstöðu, að öll n. stæði að brtt. um þetta. Ég fjölyrði svo ekki meira um það.

En ýmsir hv. stjórnarandstæðingar, sem hér hafa talað, hafa vitnað mjög í þau ummæli mín, að beinir skattar gætu frá réttlætissjónarmiði jafnvel verið beztu skattarnir. Ég mun hafa sagt nokkuð í þá átt, og við það stend ég. En fyrir þessu voru tveir mikilvægir fyrirvarar, eða í fyrsta lagi sá, að skattstigarnir væru hóflegir, og í öðru lagi sá, að tekjurnar teldust rétt fram til skatts. En ég tók það einmitt fram, að hvorugu þessu skilyrði væri fullnægt, eins og skattalöggjöfin væri nú. Hvað fyrra atriðið snertir, hina óhóflega háu skattstiga, þá er það einmitt tilgangur þess frv., sem hér liggur fyrir, að bæta úr því. Hvað seinna atriðið snertir eru framkvæmdarörðugleikarnir á slíku öllu meiri og þess eðlis að mínu áliti, svo sem ég gerði grein fyrir í framsöguræðu minni, að úr því verður ekki bætt hvað einstaklingana snertir, af því að það leiðir af eðli málsins, að fjölmargir einstaklingar í þjóðfélaginu eru í þeirri aðstöðu, að það er ekki hægt, nema þá með aðferðum, sem enginn af þeim hv. þm., sem hér hafa tekið til máls, hefur viljað mæla með að teknar yrðu upp, að fyrirbyggja það, að verulegur hluti af slíkum tekjum komi ekki fram til skatts. Og einn þeirra hv. þm., sem hér töluðu, virtist nánast á þeirri skoðun, að það væri goðgá að halda því fram, að menn misnotuðu þá aðstöðu, sem þeir hafa til þess að koma tekjum sínum undan skatti. Það er nú bara það leiðinlega við þetta, að staðreyndirnar skera úr því, að þetta er svona.

Fyrir um það bil tíu árum var gerð á því athugun á vegum fjárhagsráðs, sem þá starfaði, hve miklu þjóðartekjurnar mundu nema, þegar þær væru gerðar upp eftir mismunandi aðferðum. Það kom þá í ljós, að ef sú aðferð var höfð til þess að gera upp þjóðartekjurnar að gera þær upp samkv. skýrslum um verðmæti framleiðslunnar, varð sú niðurstaða, sem þannig fékkst, 20% hærri en þegar skattaframtöl voru lögð til grundvallar. En hitt leiðir af sjálfu sér, að ef öll kurl kæmu til grafar, ættu þjóðartekjurnar auðvitað alltaf að vera þær sömu, hvernig sem þær eru gerðar upp. Þetta finnst mér ótviræð sönnun þess, að verulegur hluti af tekjunum komi ekki fram til skatts. Þetta er ekki annað en staðreynd sem verður að játa. Það er svo hægt að koma með siðferðisprédikanir um það, að menn skuli virða þann eiðstaf, sem er í skattaframtölunum, en svona er þetta nú einu sinni. Tölulegar upplýsingar sýna, að svo er.

Ég gerði grein fyrir því í framsöguræðunni, hvers eðlis örðugleikarnir væru á því að hafa eftirlit með tekjum þeirra aðila, sem þannig eru settir, og ég held, að það sé á misskilningi byggt, þegar hv. 1. þm. Vesturl. (ÁB) hélt því fram, að ákvæði það, sem sett var inn í skattalögin fyrir nokkrum árum um það, að sparifé væri undanþegið framtalsskyldu, hafi orðið til þess að kippa grundvellinum undan réttum skattaframtölum. Í því sambandi má í fyrsta lagi benda á það, að sú áætlun, sem ég nefndi og sannaði það, að þá var verulegur hluti teknanna dreginn undan skatti, var gerð löngu áður en þetta ákvæði kom til framkvæmda. Þegar það var ákveðið með gengislækkunarlögunum frá 1950, að sparifjáreigendur skyldu fá ákveðna uppbót á sparifé, var gerð sú áætlun á grundvelli upplýsinga um sparifjárinnstæður, að það fé, sem til ráðstöfunar var, mundi þýða það, að sparifjáruppbæturnar yrðu um 10%. En það var gert að skilyrði fyrir því að njóta þessara uppbóta, að spariféð hefði verið talið fram til skatts. Niðurstaðan varð hins vegar sú, að uppbæturnar urðu ekki 10%, heldur 70%, þannig að þetta bendir til þess, að það hafi aðeins verið 1/7 hluti af sparifénu, sem fullnægði því skilyrði, að það hefði verið talið fram á sínum tíma.

Að öðru leyti vil ég gera mjög lítið úr því, að framtalsskylda sparifjár auðveldi eftirlitið með skattframtölum. Það er að vísu lokað þeirri leið fyrir mönnum til þess að fela eignaaukningu að leggja sparifé inn á sitt eigið nafn í banka.. En sá möguleiki er fyrir hendi að leggja sparifé inn á dulnefni eða á nöfn barna, kaupa handhafaskuldabréf o.s.frv., fyrir utan þá ótakmörkuðu möguleika, sem eru á því að ráðstafa eignum, sem faldar eru, í eitthvað annað, svo sem í innbú, skartgripi og annað slíkt. Ég hef enga trú á því, hvað sem um það má segja að öðru leyti, hvort sparifé elgi að vera framtalsskylt, að með því væri komið á betra eftirliti með skattframtölum en áður. Ég held, að það sé lítilvægt atriði í því sambandi.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að fara hér út í almennar umr. um efnahagsmálin, en vil þó aðeins í tilefni af því, sem hv. 5. þm. Austf. (PÞ) sagði um þessi mál, þegar hann hélt því fram, að það, sem gert hefði verið af hálfu hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálunum, bryti mjög í bága við loforð og yfirlýsingar Sjálfstfl. fyrir kosningar, — þá vil ég leyfa mér aftur að víkja til flokksráðssamþykktarinnar, sem ég nefndi í framsöguræðu minni, þar sem einmitt segir, með leyfi hæstv. forseta: „Það er ótvírætt, að þjóðin notar meiri fjármuni en hún aflar og verður að taka afleiðingunum af því.“ Hér er fyllilega gefið í skyn, svo ótvírætt sem verða má, að þjóðin verði að vera búin við óþægilegum ráðstöfunum, sem óhjákvæmilegar séu vegna þess, hvernig fjárhag hennar sé komið. Síðan segir svo: „Til þess að tryggja efnahagsöryggi sitt í framtiðinni og koma í veg fyrir kjararýrnun, sem ella hlyti að verða“ o.s.frv. Með öðrum orðum, hér er það sagt, að þjóðin verði að taka á sig nokkra kjaraskerðingu í bili til þess að tryggja hag sinn í framtíðinni og geta horft fram á veginn til bættra lífskjara, svo að þetta er ekki í neinu ósamræmi við það, þó að talað hafi verið um leiðina til bættra lífskjara í kosningastefnuskránni.

Hv. 5. þm. Austf. kom líka með það, sem hv. framsóknarmenn hafa raunar mikið haldið fram, að Sjálfstfl, og ábyrgðarleysi hans í kaupgjaldsmálum hefði valdið því, að verðbólgan fékk lausan tauminn haustið 1958. Í þessu sambandi má í fyrsta lagi minna á það, að nokkurt ósamræmi var milli þess á sínum tíma, þegar hv. framsóknarmenn héldu því fram, að Sjálfstfl. væri ósamstarfshæfur vegna þess, hve veikur hann væri innan verkalýðssamtakanna, en síðar var blaðinu snúið við, þannig að sjálfstæðismenn áttu að vera orðnir svo sterkir í launþegasamtökunum, að allar kröfur þeirra um kauphækkanir hlytu að vera runnar undan rifjum sjálfstæðismanna. En þar að auki er það nú alveg úr lausu lofti gripið að Sjálfstfl, hafi boðað allt aðra stefnu í launamálum, meðan hann var í stjórnarandstöðu, en síðar var. Til sönnunar þessu vil ég leyfa mér að lesa hér upp nokkur orð úr leiðara Morgunblaðsins frá 18. september 1958, en þá stóð þannig á, að Dagsbrúnarverkfall var yfirvofandi, þar sem farið var fram á miklar kauphækkanir, sem síðan náðu að vísu að verulegu leyti fram að ganga. En í leiðaranum segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, eftir að aðdragandi þess ástands á vinnumarkaðinum; sem skapazt hafði, hefur verið rakinn með nokkrum orðum, undir undirfyrirsögn, sem ber nafnið „Tekst að bæta lífskjörin?“ Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„En er líklegt, að kauphækkanir, sem að vörmu spori leiða af sér nýjar verðhækkanir nauðsynja, feli í sér raunverulega kjarabót? Það er vægast sagt mjög hæpið. Þjóðin man reynslu sína af hinum pólitísku verkföllum; sem kommúnistar efndu til á árinu 1955 til þess að troða sér í ríkisstj. Á árinu 1955 hækkaði kaupgjaldið á Íslandi að meðaltali um 22%. En með þeirri kauphækkun var jafnvægisstefnan brotin niður og verðbólgunni hleypt af stað. Allt þetta verður hugsandi fólk að athuga.“

Þetta stóð í leiðara Morgunblaðsins 18. sept. 1958. Er hér verið að hvetja til verkfalla? Nei, þvert á móti er varað við þeim og afleiðingum þeirra alveg á sama hátt og flokkurinn hafði gert einnig á meðan hann var í ríkisstj. Það er því algerlega úr lausu lofti gripið og hefur ávallt verið, að Sjálfstfl. sem slíkur hafi hvatt til kaupkrafna og verkfalla. Hitt er svo annað mál, að einstakir sjálfstæðismenn í einstökum stéttarfélögum kunna að hafa staðið að slíkum kröfum, en á því ber Sjálfstfl. auðvitað sem slíkur enga ábyrgð frekar en aðrir flokkar mundu vilja bera ábyrgð á einstaklingum innan sinna vébanda í þeim efnum.