06.04.1960
Efri deild: 55. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

111. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Tíminn er naumur, og skal ég taka tillit til þess. — Ég hef oftast gaman af því, þegar hv. 9. landsk. (JÞ) tekur til máls. Það fljóta nefnilega úr munni hans oft og einatt ýmsar skrýtnar skoðanir, sem eru ekki alltaf innbyrðis samhljóða, og svo hefur orðið í þessu máli. En þetta gerir það að verkum, að maður fyrirgefur honum frekar en öðrum mönnum, þó að hann fari með ýmislegt, sem stenzt ekki. Maður gerir ráð fyrir því, að hann sé að nokkru leyti stikkfrí í þeim efnum.

Hann gerði þá aths. við það, sem hv. 5. þm. Austf. (PÞ) sagði, að Framsfl. hefði verið óánægður og talið ástandið slæmt á tíma stjórnar Emils Jónssonar, en nú teldi hann það verra, og í þessu væri ekki samræmi. Í þessu er auðvitað fullt samræmi, því að lengi getur vont versnað. Það veit hv. þm.

Þá sagði hann, að við hv. 5. þm. Austf. hefðum ekki verið sammála um það, hvor stjórnarflokkurinn bæri meiri ábyrgð á þeim göllum, sem eru á stefnu þeirri, sem kemur fram í því frv., sem hér er til umr. Hann taldi, að ég hefði kennt Sjálfstfl. um höfuðgallana, en hv. 5. þm. Austf. hefði kennt Alþfl. Það er alveg rétt, að það mátti lesa þetta út úr orðum mínum, að ég kenndi Sjálfstfl. meira um, vegna þess að ég tel, að sú stefna, sem gerir sig gildandi í frv., sé miklu samboðnari flokki, sem hefur fengið orð fyrir það að vera auðvaldsflokkur. En eftir ræðu hv. 9. landsk., sem hann hélt hér áðan, skal ég lofa honum því að gera þetta ekki oftar. Ég skal kenna Alþfl. um þetta.

Þá furðaði hv. 9. landsk. sig á því, að ég skyldi hafa þau orð í niðurlagi nál. míns, sem hann las upp í sambandi við þá brtt., sem ég flutti, að ég skyldi gera ráð fyrir því, að það væri af ásetningi gert að loka skattstiganum að ofan. Það er rétt, að þetta kom ekki til athugunar í fjhn. N. hélt tvo fundi og sleit svo fundarstörfum sínum. Satt að segja hafði mig ekki grunað, að þessi galli gæti verið á frv., fyrr en eftir að n. hafði lokið fundum og ég fór í einrúmi að athuga frv. Hvernig átti mér svo að detta í hug, að meiri hl., sem stóð að þessu frv., víssi þetta ekki? Eru það ekki tveir lögfræðingar og einn prófessor í hagfræði? Var sennilegt, að þeir hefðu gert þá skyssu að gera stigann þannig úr garði, að hann væri öðruvísi en þeir hefðu ætlazt til og öðruvísi en allar fyrirmyndir að slíkum stigum eru, sem í Stjórnartíðindum eru, en nákvæmlega eins og skattstigi t.d. um stórgróðaskatt var byggður, nákvæmlega eins? Ég hélt, að þarna væri á ferðinni sú stefna að hlífa hátekjumönnunum sérstaklega, eins og gert var í raun og veru af sérstökum ástæðum, þegar stríðsgróðaskatturinn var lagður á og sá stigi saminn. Ég taldi þetta sjálfsagt og í fyllsta samræmi við frv. að öðru leyti, þar sem fjölskyldur með sömu ómegð, sömu fjölskyldubætur þar af leiðandi, eru þannig leiknar, að önnur þeirra fær 90 sinnum meiri bætur með frv. en hin. Er það í ósamræmi, þó að skattstiginn væri svona af ásetningi eins og ég áleit að hann væri? Ég spyr.

Þá benti hv. þm. á það, að skattstofan hefði reiknað út eftir honum þannig, að hann væri ekki lokaður, þrátt fyrir það, þó að hann væri það, lokaður að ofan, og hv. frsm. n. sagði, að fjárhagsreikningar í sambandi við þetta frv. hefðu verið miðaðir við það. Nú hefur það komið fyrir, að skakkt hefur verið reiknað, það kom fyrir að sögn í söluskattsmálinu. Gat maður ekki hugsað sér, að slíkt hefði komið fyrir hér, að misreikningar hjá þeim, sem stóðu ekki að sjálfum stiganum beinlínis, hefðu átt sér stað, að skattstofunni hefði sézt yfir það, áð þessi skattstefna var svona sterk í formi eins og stiginn hljóðaði um? Ég held að öllu athuguðu, að það hafi verið full ástæða til þess áð taka frv. að þessu leyti eins og það var orðað.

Og að því er snertir fram komnar till., þá vil ég segja það, að það er rétt, sem hv. frsm. meiri hl. fjhn. sagði, að þær væru efnislega alveg samhljóða. Ég lagði brtt. mína inn til skjalavarðar um það bil 5 tímum áður en skriflega brtt. var afhent forsetanum hér í þessari hv. d., og mín till. hafði verið skráð hjá skjalaverði Alþingis 5 tímum áður. Satt að segja finnst mér það nú hégómamál, hvor till. útaf fyrir sig verður samþ. Ég veit ekki, hvernig hæstv. forseti úrskurðar um það, hvor þeirra komi fyrr til atkvæða. Ég tel sjálfsagt, að hvor þeirra sem kemur fyrr til atkvæða verði samþ. Ég veit og hef kynnzt því, að hv. meiri hl. og stjórnarstuðningsmenn eru mjög viðkvæmir fyrir því, að brtt. frá stjórnarandstöðunni nál fram að ganga. Og það var alveg rétt, sem ég sagði, og hv. frsm. var þó að gera athugasemdir við lítils háttar og ekki frekar en hans er venja, að í n. var vikizt undan að ræða brtt. nokkuð verulega eða taka þær til afgreiðslu, með skírskotun til þess, að hér væri um bráðabirgðalöggjöf að ræða og skattamálanefnd væri starfandi, sem ætti að skila áliti fyrir næsta Alþ., heildartill. um skattamálalöggjöfina. Ég ofmælti ekkert í þeim efnum. En till., sem liggja fyrir, eru svo líkar, í raun og veru samhljóða, að hvor þeirra, sem verður þorin fram á undan, hlýtur að verða samþ., því að stjórnarandstæðingar munu a.m.k. ekki vilja láta loka skattstiganum að ofan, og stjórnarstuðningsmennirnir hafa sýnt það, að það fer fyrir hjartað á þeim, eins og nú er komið, að ætla þeim að hafa vitandi vits gert það, þó að þeir kenni ritvillu eða prentvillu um frekar en hugsunarvillu. Ég tel, að till. mín, sem lögð var fram eins snemma og ég lýsti, sé, hvor till. sem verður samþ., faðir og móðir brtt. frá meiri hl. fjhn., og sé enga ástæðu til þess að taka mína till. aftur og stofna til þeirrar hégómlegu breytingar, að við förum að halda fund í fjhn. nú og taka upp sömu till. saman; því að það skiptir mig engu máli, hvort mín till. er samþ. eða till. meiri hl., úr því að hann hefur séð sig um hönd.