08.04.1960
Neðri deild: 66. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

111. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Fjhn. þessarar d. hefur haft mjög skamman tíma til athugunar á því frv., sem hér liggur fyrir. Málinu var vísað til hennar seint í gær, og n. hefur haldið um það einn fund, klukkan 9 í morgun. Ég hef nú fyrir nokkru skilað nál. um frv., en það er ekki komið hér fyrir augu þm. enn þá, er í prentun nú, og ég býst við, að því verði útbýtt hér á fundi síðar í dag. Ég sé þó ekki ástæðu til að fara fram á við hæstv. forseta, að hann fresti meðferð málsins, þar til nál. hefur verið útbýtt, en vil með fáum orðum gera grein fyrir áliti mínu á þessu máli. Þar er ýmislegt öðruvísi en ég tel að átt hefði að vera, en mér er það ljóst, m.a. af umr. um málið, sem fram fóru í fjhn., að það er þýðingarlaust að flytja brtt. Það mun vera ætlun stuðningsmanna stjórnarinnar að afgreiða þetta mál óbreytt eins. og það nú liggur fyrir.

Þetta stjórnarfrv. er eitt af mörgum, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fyrir þetta þing viðkomandi efnahags- og fjármálum, og hæstv. stjórn lét þess getið í grg., sem fylgdi frv. hennar um efnahagsmál fyrr í vetur, að á þessi frv. öll bæri að líta sem eina heild.

Stjórnin lagði fyrir þingið frv. sitt um efnahagsmál þegar eftir að þing kom saman til framhaldsfunda eftir þinghlé í vetur, síðar frv. um söluskatt og breytingar á tryggingalögum og hefur nú nýverið lagt fyrir þetta frv. og annað um breytingu á útsvarslögum.

Með lögunum um gengisbreytinguna og lögunum um söluskatt hafa verið lagðar þungar byrðar á allan þorra landsmanna. Ég ætla ekki að hafa um það mörg orð, þar eð um þetta hefur verið rætt áður, en framfærslukostnaður hefur vegna þessarar lagasetningar á þessu þingi aukizt stórkostlega, framkvæmdamöguleikar manna hafa verið mjög skertir og margs konar hindranir og þröskuldar lagðir í veg þeirra, sem fást við atvinnurekstur. Þegar hæstv. stjórn lagði sitt efnahagsmálafrv. fyrir, sagði hún m.a. í athugasemdum með því, að þjóðin yrði að taka á sig nokkrar byrðar og það ætti að dreifa þeim sem réttlátast á þjóðarheildina. Ég mun ef til vill víkja að því nokkru síðar, hvernig hæstv. stjórn hagar þessari dreifingu á byrðunum.

Ég ætla ekki að rekja sögu skattamála hér á landi langt aftur í tímann. Hv. frsm. meiri hl. fór nokkuð út í þá sálma og fór aftur á 19. öldina í því ferðalagi sínu. Ég ætla ekki að fara svo langt aftur í tímann. Ég tel þó rétt að benda á það, að á árunum frá 1940 til 1950, þegar Sjálfstfl. fór með yfirstjórn fjármálanna hér á landi, voru skattar, beinir skattar, miklu hærri en þeir hafa verið í annan tíma. Eftir 1950 hafa beinir skattar verið lækkaðir mjög verulega.

Nýju lögin um tekjuskatt og eignarskatt, sem sett voru árið 1954, fólu í sér mjög verulega lækkun á tekjuskattinum.

Þá voru líka fyrir nokkrum árum sett lög um sérstaka skattalækkun á lágtekjum, og m.a. vegna þeirra laga hefur tekjuskattur til ríkisins hjá láglaunafólki síðustu árin verið tiltölulega léttbær, samanborið við aðrar greiðslur, sem á fólki hvíla.

Hæstv. ríkisstj. túlkar þetta frv. þannig, að það sé aðaltilgangur þess að afnema skatt af almennum launatekjum. En það er mikil blekking í því fólgin, að láglaunafólki verði að verulegu leyti bættar upp þær verðhækkanir, sem nú leggjast á það, með breytingum á tekjuskattslöggjöfinni. Því er ekki að neita þó, að í þessu frv. felast dálitlar uppbætur handa fólki, sem helzt þarf á slíku að halda vegna þeirra byrða, sem á það hafa verið lagðar að undanförnu, nú á þessu þingi. og þess vegna tel ég rétt að snúast gegn þessu máli. En þessi skattalækkun hjá þeim, sem hafa tiltölulega lágar tekjur, segir vitanlega ákaflega lítið upp í álögurnar.

Það, sem þetta frv. hefur að geyma, er fyrst og fremst skattalækkun hátekjumanna og hún mjög mikil. Til að sýna þetta nægir að vísa til þess, sem greint er frá í nál. frá 2. minni hl. fjhn. í hv. Ed., sem lagt var fram, þegar þetta frv. var þar til meðferðar. Það álit er á þskj. 299. Þar kemur það t.d. fram, að hjón með þrjú börn á framfæri, sem hafa 50 þús. kr. nettótekjur, sleppa samkvæmt frv. við tekjuskatt að upphæð 236 kr., hjón með jafnmörg börn á framfæri. sem hafa 150 þús. kr. nettótekjur, fá hins vegar skattlækkun, sem nemur 14518 kr., og ef hjón með þrjú börn hafa 200 þús. kr. nettótekjur, þá nemur skattaafslátturinn til þeirra yfir 20 þús. kr.

Ég held því ekki fram, að það geti ekki verið rétt að lækka nokkuð skattgreiðslur allra. En þegar verið er að leggja þungar byrðar á allan fjöldann, eins og nú hefur verið gert með ráðstöfunum hæstv. stjórnar og stjórnarflokka á þessu þingi, þá tel ég óverjandi að ganga svo langt sem hér er gert í að lækka beina skatta á hátekjumönnum. Þeir eru vitanlega færastir um að bera byrðar ríkisstj. að sínum hluta. En þeir eru ekki látnir gera það. Þeir fá svo mikinn afslátt af sköttum, að afslátturinn gerir í sumum tilfellum meira en að mæta álögunum af öðrum efnahagsmálaaðgerðum stjórnarinnar.

Þessir menn sleppa því raunverulega við að taka á sig nokkurn hluta af byrðunum og geta, þeir af þeim, sem mestar tekjur hafa, haft nokkurn afgang, meira að segja. Ég sé ekki, að það sé hægt að greiða atkvæði með frv., sem inniheldur slíkt.

Um leið og hæstv. stjórn lagði þetta frv. fyrir þingið, lét hún verða því samferða annað frv., sem er um breytingar á útsvarslögunum. Það er eins og þetta mál, sem hér liggur fyrir, einn þáttur í heildarráðstöfunum ríkisstj. En eins og ég sagði áður, telur stjórnin, að það eigi að líta á þetta allt í einni heild, og vitanlega er útsvarslagafrv. mjög nátengt þessu. Ég ætla ekki að fara að ræða mikið um það, því að það kemur hér á dagskrá síðar, en í því kemur fram alveg sama stefnan hjá hæstv. stjórn og í þessu frv., og er það út af fyrir sig ekkert einkennilegt. Þar er t.d. lagt til, að greidd útsvör megi draga frá tekjum, áður en útsvar er á þær lagt. Hefði þá verið eðlilegt, finnst mér, að tilsvarandi ákvæði hefði verið í þessu frv., viðkomandi álagningu tekjuskattsins. En þetta ákvæði um, að menn megi draga greidd útsvör frá tekjum, áður en tekjuútsvar er reiknað af þeim, hefur vitanlega fyrst og fremst áhrif á útsvarsgreiðslur hátekjumanna. Þeir fá þar mjög mikla lækkun á sínum útsvörum, og það kemur í ofanálag á tekjuskattsafsláttinn samkvæmt þessu frv. Það er raunar að tölunni til ekki stór hluti þjóðarinnar, sem hefur svona háar tekjur. En þó eru þetta allmargir menn, sem segja má að hafi háar tekjur og fá hér ákaflega mikinn afslátt af tekjuskatti og útsvari samkvæmt frv. um það efni. Þetta verður mikið til samans, sem þeir þannig fá frá hæstv. stjórn. Þeim er skammtað af rausn. En það eru líka vafalaust einu mennirnir í þjóðfélaginu, sem geta sagt við hæstv. ríkisstj.: Kæra þökk fyrir viðskiptin — þegar hún er búin að koma fram öllum sínum efnahagsmálafrv. hér á þingi.

Það er fleira nýstárlegt í frv. hæstv. stjórnar um útsvörin, og ég vona, að hæstv. forseti misvirði ekki, þótt ég nefni það aðeins, — ég hef ekki um það mörg orð, en eins og ég sagði, er þetta svo nátengt hvað öðru, því að það skiptir höfuðmáli fyrir gjaldendur, hvað þetta er til samans, tekjuskattur og útsvar, sem þeir þurfa að greiða.

Í útsvarslagafrv. er ákveðið, að í sveitarfélögum utan kaupstaða skuli skylt að leggja tekjuútsvör á ellilífeyri manna. Gömul hjón, sem hafa aðeins ellilífeyri, engar aðrar tekjur, sleppa samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir, við að greiða af honum tekjuskatt. En þau eiga samkvæmt útsvarslagafrv. að borga yfir 1400 kr. í tekjuútsvar, ef þau eru búsett utan kaupstaðanna, á öðru verðlagssvæði. Lífeyririnn, sem þau fá samkvæmt lögum, sem nýlega voru um það sett, er 19440 kr., en af því eiga þau að borga yfir 1400 kr. í tekjuútsvar, og það er meira að segja ákveðið í þessu útsvarslagafrv., að það skuli leggja tekjuútsvar á enn lægri tekjur.

Fyrir nokkrum áratugum, þegar þjóðin var miklu fátækari en hún er nú og oft var hart í ári og þröngt í búi hjá mörgum, kom það oft fyrir, að vel vinnandi fólk hafði ekki annað fyrir sína vinnu en fæðið og kannske eitthvað af fötum. Þeir voru kallaðir matvinnungar. Aldrei heyrði ég þess getið, að á þá væri lagt útsvar eða önnur slík opinber gjöld, ef þeir voru eignalausir. Það kemur oft fyrir, einnig nú á tímum, að menn hafa fæði hjá þeim, sem þeir vinna hjá, fyrir utan kaupgreiðslu með öðru móti, og þá er það reiknað þeim til tekna við skattframtal. Ég held, að það sé nálægt því rétta, að skattanefndir meti fæði eins manns nú þannig, að það sé talið 10 þús. kr. virði, fæði yfir árið, en samkvæmt útsvarslagafrv. leggur hæstv. stjórn til, að af þessari upphæð greiði menn 830 kr. í tekjuútsvar.

Það er vissulega svo, að ýmis sveitarfélög hafa oft þurft að ganga nokkuð langt í því að leggja útsvör á menn. En aldrei hefur það verið í lögum hér á landi, að skylt væri að leggja tekjuútsvör á matvinnunga. Það verður algert nýmæli í lögum, ef stjórnarflokkarnir samþykkja frv. stjórnarinnar um útsvörin, það sem nú liggur fyrir þessari hv. deild, ásamt því frv., sem hér er á dagskrá. Þannig er skattamálastefna ríkisstj., sem nú er að birtast í frv. hennar. Ég tel, að þessum málum eigi að haga með allt öðrum hætti.