08.04.1960
Neðri deild: 66. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1997 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

111. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Eins og þegar hefur verið skýrt frá, hélt fjhn. fund í morgun klukkan 9, og því miður hefur mér ekki tekizt á þeim tíma, sem síðan er liðinn, að skrifa mitt nál. og skila því, þannig að það verður að bíða þangað til seinna í dag eða kvöld, og verð ég því að mæla hér fyrir afstöðu minni til frv., án þess að nál. liggi fyrir. En ég fer hins vegar ekki fram á neinn frest á þessu máli, þó að svona standi á, því að það var búið að lofa því að reyna að afgreiða þetta mál í dag.

Það hefur þegar af minni hálfu og af hálfu Alþb. verið gerð nokkur grein við 1. umr. þessa máls fyrir okkar afstöðu til þessa frv., og ég skal reyna að endurtaka hér sem minnst af því, sem þá var sagt. Það, sem eru höfuðmótbárurnar gegn frv., er, hve misskipt er þeim eftirgjöfin sem hér eru framkvæmdar, á milli þeirra, sem lítil efni hafa og lágar tekjur annars vegar, og þeirra, sem háar tekjur og mikil efni hafa.

Ég sýndi fram á það hér í gær samkvæmt þeim útreikningi, sem gerður hefur verið af hálfu skattstofunnar, að þá er það svo, að eftirgjöfin, sem 18 þús. gjaldendur í Reykjavík eða um 2/3 af öllum gjaldendum þar fá, er til samans um 20 millj. kr., — það, sem 18 þús. lægstu gjaldendurnir fá, er sem sé um 20 millj. kr., — en það, sem rúmlega 1900 hæstu gjaldendurnir í Reykjavík fá, er yfir 18 millj. kr., þannig að á hvern mann af hinum háu gjaldendum er það tífalt meira en á hvern mann af hinum lágu gjaldendum, sem veitt er þarna í eftirgjöf.

Þessar tölur marka ef til vill allra bezt stefnu ríkisstj. í þessum efnum. Ef það hefði verið meiningin hjá hæstv. ríkisstj. að létta af almenningi þeim álögum, sem leggjast á þurftartekjur, hefði hún átt að fara öðruvísi að. Það, sem hæstv. ríkisstj. er að gera með þessu frv., er að létta af almenningi þeim tekjuskatti, sem leggst á þurftartekjur, það út af fyrir sig er rétt. En á sama tíma, sem hæstv. ríkisstj. er að létta þannig tekjuskattinum af þeim, sem hafa þurftartekjur, er hún að auka alla tolla og nefskatta á almenningi, þeim, sem hafa þurftartekjur. Söluskatturinn, gengislækkunin, öll dýrtiðin kemur nú miklu þyngra en áður niður á þeim, sem hafa þurftartekjur, þannig að það er verið að íþyngja þeim, sem þurftartekjurnar hafa, með stefnu ríkisstj. í heild.

Það er rétt í þessu sambandi að benda á það, af því að þegar um söluskattinn og aðra slíka tolla er að ræða, þá er um að ræða svokallaða óbeina skatta, að meira að segja beinir skattar, beinir nefskattar, sem á eru lagðir nú án tillits til tekna manna, eru látnir haldast.

Þegar menn greiða til almannatrygginganna, er greiddur ákveðinn nefskattur. Hann mun vera, ef ég man rétt, ég þori ekki alveg að fullyrða það, en líklega í kringum 800 kr. á einstakling eða eitthvað í kringum 1500 kr. eða upp undir það á hjón. Og í heild er þessi nefskattur, sem lagður er jafnt á þurftartekjur sem aðrar og er jafnhár hjá þeim, sem lægstu tekjurnar hafa, og hjá þeim, sem hæstu tekjurnar hafa, til samans áætlaður rúmar 70 millj. kr., sem skiptast jafnt niður á 93 þús. manns í landinu. M.ö.o.: hæstv. ríkisstj. er með þessum tekjuskattslögum að draga úr tekjuskattinum, þannig að þar sem hann var á síðasta ári 139 millj. kr., verður hann að líkindum eftir breytinguna, tekjuskattur einstaklinga, aðeins 22 millj. kr., tekjuskatturinn minnkar um 117 millj. Það var með þessum peningum, með þessum 117 millj, kr., sem tekjuskatturinn er minnkaður, hægt í fyrsta lagi að létta öllum þeim nefskatti, sem iðgjöldin til trygginganna eru, af öllum almenningi í landinu. Það hefði kostað 71 millj. kr., og þá var þar með allur sá skattur á þurftartekjur og í raun og veru aðrar tekjur afnuminn. Samt sem áður hefðu verið eftir um 46 millj. kr., sem hefðu nægt, held ég mér sé alveg óhætt að fullyrða, til þess að gera alla menn með undir 70 þús. kr. tekjum skattfrjálsa. Ég held áreiðanlega, að það sé rétt útreiknað. Og jafnvel hefði samt kannske verið rúm fyrir að draga ofur lítið, — en náttúrlega ekki nærri eins mikið og hér er gert, –úr tekjuskatti þeirra, sem hafa yfir 70 þús. kr. tekjur. M.ö.o.: með þeim peningum, sem nú fara að mjög miklu leyti til hátekjumanna í eftirgjafir, var hægt að afnema þá nefskatta, sem iðgjöldin til trygginganna eru, og létta samt sem áður öllum tekjuskatti af þurftartekjum, þannig að það er engum efa bundið, að hefði það verið vilji ríkisstj. að losa þá, sem hafa þurftartekjur, tekjur undir — 60–70 þús. kr., við slíka beina nefskatta, eins og bæði tekjuskatturinn og tryggingaiðgjöldin eru, þá var það hægt með því fé, sem ríkisstj. nú ráðstafar til lækkunar á tekjuskattinum. Þá hefði hins vegar náttúrlega tekjuskatturinn á hátekjumönnunum orðið að vera allmiklu hærri en nú er gert ráð fyrir. En þetta ætti að nægja til þess að sýna alveg ótvírætt, að það, sem fyrst og fremst er hér um að ræða hjá hæstv. ríkisstj., er vilji hennar til að draga úr tekjuskatti hjá hálaunamönnum, á sama tíma sem hún sýnir það með gengislækkuninni, tolla- og söluskattsaukningunni, að það er vilji hennar að koma á meiri óbeinum sköttum og tollum en verið hafa áður, — og meira og segja þeim beinu sköttum á þurftartekjur, sem tryggingaiðgjöldin eru, dettur henni ekki í hug að reyna að létta af þeim, sem þurftartekjur hafa.

Engu að síður er það staðreynd, sem stendur eftir, að með þessum tekjuskattslögum er létt af tekjuskatti á þurftartekjum, og sú staðreynd er út af fyrir sig góð. Sú staðreynd gerir það að verkum, að það er ekki hægt að vera á móti þessu frv. Ætlaði maður hins vegar að reyna að fara að breyta því, hefði það þýtt í fyrsta lagi að gerbreyta öllum skattstiganum. Það hefði þýtt, ef maður hefði viljað fara inn á þá leið, sem ég nú minntist á viðvíkjandi iðgjöldum almannatrygginganna, að taka það upp, — það hefði þýtt, að maður hefði þurft að breyta um leið öðrum lögum og tryggja samræmi á breytingum beggja þessara lagabálka í senn hér á Alþingi, og það hefði þýtt í þriðja lagi, að maður hefði þurft að breyta sjálfu skattkerfinu til að tryggja rétt framtal og gott skattheimtueftirlit. Þetta eru verk, sem varla eru á annarra færi en þeirra, sem stjórna á hverjum tíma. Svona samræmdar aðgerðir með breytingu á fleiri en einum lögum og að umbreyta eins gömlu bákni og skattanefndirnar og allt það er orðið, það útheimtir raunverulega undirbúningsstarf, sem hefði þá þurft að vinnast í þeirri nefnd, sem undirbjó þetta, og ég álít, að þegar ríkisstj. undirbýr svona lagabálka og er að undirbúa endurskoðun á svona gömlum og grónum fyrirbrigðum, eins og tekjuskatti, skattheimtu og öðru slíku, þá eigi það að vera venja ríkisstj. að hafa í þeim nefndum, sem slíkt undirbúa, annaðhvort fulltrúa frá öllum þingflokkunum eða þá menn, sem séu skipaðir af ríkisstj. með tilliti til þess, að þingflokkarnir geti að einhverju leyti litið á þá sem sína fulltrúa, þannig að það gæfist kostur á því í slíkum undirbúningsnefndum að geta komið fram með allt aðra útreikninga, látíð vinna þau störf, sem í því sambandi eru oft allumfangsmikil, þannig að þegar svona nefndir skila áliti, ef ekki næst samkomulag á milli þingflokka um það, þá klofni þær einfaldlega, þannig að það liggi fyrir meiri og minni hluti, þegar til Alþingis kemur. Þá er breyting á svona miklum lagabálkum miklu handhægari, þegar hvor aðili um sig er þá búinn að láta framkvæma alla þá undirbúningsvinnu, sem nauðsynleg er í því sambandi, og færa í ýtarlegri grg. rök fyrir sínu máli. Oft hefur það verið, þegar tekjuskattur og eignarskattur hefur verið endurskoðaður, að settar hafa verið milliþinganefndir í það. Stundum hefur það gefizt vel og stundum illa. En sem heild er það rétt stefna, að þegar verið er að undirbúa svona breytingar, þá sé öllum þingflokkum gefin aðstaða til þess að marka sína sérstöðu. Svo framarlega sem slíkt hefði verið gert, hefði máske líka verið hægt að afgreiða þetta frv. á eins skömmum tíma og við nú gerum, því að þá hefðu allar slíkar brtt. legið fyrir útreiknaðar með góðum rökstuðningi og öllu slíku. En á svona skömmum tíma er það ekki vinnandi vegur fyrir mann, svo að nokkur mynd sé á, að ætla að gera slíkt. Þess vegna höfum við ekki lagt í það fyrir okkar leyti, þingflokkur Alþb., að útbúa nú brtt. við þetta frv. og verðum að láta nægja að lýsa á þennan máta okkar afstöðu. Ég gerði það að nokkru leyti við 1. umr. og hef nú bætt ofur litlu við það.

Viðvíkjandi þeirri stefnu almennt, sem kemur fram í þessu frv. og öðrum ráðstöfunum ríkisstj. og hv. frsm. meiri hl., hv. 6. landsk. (BK), líka kom hér inn á, þá er það rétt, að það er stefnubreyting á ferðinni í sambandi við þetta frv. og í sambandi við önnur þau frv., sem nú eru orðin að lögum og ríkisstj. hefur lagt fram. Hitt er svo annað mál, hvernig maður vill líta á þá stefnubreytingu og skilgreina hana, og hv. frsm. meiri hl. fjhn. fór alllangt aftur í tímann, einmitt í því að gera grein fyrir slíku.

Það voru einu sinni, eins og við allir vitum, lifandi menn, sem voru lausir við alla skatta, og okkar forfeður höfðu upphaflega byggt þetta land til þess að losna við það, sem þeir kölluðu þá skattheimtu, og þótti mikið frelsi í því að vera lausir við, að yfirvöld legðu á þá skatta, og vildu flýja sína gömlu heimabyggð til þess að njóta hér skattfrelsis. Það samfélag, sem þeir sköpuðu hér, hafði að vísu enga skatta í upphafi, en hafði hins vegar samhjálp. Þau sveitarfélög, sem þeir mynduðu, höfðu samhjálp einstaklinganna, um leið og þau héldu við gömlum venjum um sameiginlega tryggingu og sameiginlega ábyrgð út af þeim skaða, sem menn gætu orðið fyrir, og þessari samhjálp var jafnað niður á menn á hreppsfundum eftir efnum og ástæðum. Það elzta fyrirkomulag hjá alþýðu manna, meðan menn enn voru frjálsir af álögum ríkisvaldsins, er að hjálpa hver öðrum, þegar menn eru misjafnlega fátækir eða ríkir eða einstakir verða fyrir ýmsum skakkaföllum. Þá var sá siður að jafna niður eftir efnum og ástæðum, — siður, sem átti rót sína að rekja til þess gamla sameignarþjóðfélags fortíðarinnar, sem jafnvel enn þá fram á þessa öld hefur lifað hjá eskimóunum, að þegar menn öfluðu einhvers og skortur var, þá skiptu menn jafnt á milli sín, svo að allir gætu lifað af því litla, sem aflaðist. Það var samhjálp mannanna, sem kom fram í þeirri reglu upphaflega að jafna niður eftir efnum og ástæðum. Það var aðferð frjálsrar alþýðu í þessu þjóðfélagi til þess að hjálpa hver öðrum. Þegar yfirvöld komu til, þegar farið var að mynda ríki og kúgunarvald þess, þegar útlendir konungar fóru að skipta sér af málum okkar Íslendinga, þá var þeirra fyrsta krafa að fá héðan frá Íslandi einn pening á hvert nef, og það hefur alltaf verið stefna yfirstéttar allt frá upphafi, nefskattur, að hver einstaklingur eigi að greiða jafnt, hvort sem hann er ríkur eða fátækur, hvort sem hann hefur vel efni á því eða ekki, þannig að það skuli taka af þeim fátæka það litla, sem hann hefur, og láta þann ríka einvörðungu leggja fram til jafns við hann. Þetta prinsip, þessi höfuðregla um pening á hvert nef, hefur verið regla yfirstéttar og afturhalds alla söguna, og afstaða yfirstéttanna hefur alltaf verið sú að reyna að leggja nefskatta á almenning eða tolla. Konungarnir héldu þessu við, meðan þeir máttu, og þegar Ísland fer smám saman að öðlast sitt fjárhagslega og síðan pólitíska sjálfstæði, þá byrja strax átökin um þetta hér á Íslandi.

Það er eins og hv. frsm. meiri hl. rakti réttilega, þá er snemma tekið hér upp að athuga um tekjuskatta, og það var á þeim tíma róttækt fyrirbrigði. Meira að segja í Kommúnistaávarpinu frá 1848, þegar það kemur fram, þá er ein af höfuðkröfum þeirra kommúnistasamtaka, sem þá voru mynduð, að tekjuskattur, stighækkandi skattur, sé lagður á tekjur og eignir. Í Bretlandi er þetta tekið upp tiltölulega snemma, eins og hv. 6. landsk. þm. kom inn á. Hér er barizt fyrir þessu svo að segja strax og þjóðin fer að fá fjárhagslegt sjálfstæði, og það var vegna þess, að tollar voru hataðir af alþýðu manna sem afturhaldssamt fyrirbrigði og óréttlátt. Og meira að segja í Bretlandi, þar sem þó var ríkjandi voldug yfirstétt, þar leit sjálf burgeisastéttin svo á, að tolla skyldu menn varast og tollfrelsi skyldi hafa, og var það m. a. ein af þeim aðferðum, sem enska borgarastéttin hafði einmitt til þess að gera sina vöru ódýra og til þess að keppa úti um allan heim. Ég held, að ég fari rétt með það, sem einn fróður þm. sagði mér hér nýlega, að í fyrsta skipti, sem tollur var lagður hér á, og það ekki á nauðsynjavöru, heldur á brennivín, þá hafi séra Arnljótur Ólafsson einn manna greitt atkv. á móti því, á þeirri forsendu, að svo framarlega sem sá háttur væri upp tekinn að leggja slíkan toll á, þá mundi það brátt verða gert á allar nauðsynjavörur og þá væri illa farið, — og var þó Arnljótur Ólafsson allfjarri því að vera nokkuð nærri sósíalisma. Hann er einmitt einn af þeim forustumönnum fyrir kapítalistískri hagfræði, sem uppi hafa verið á Íslandi, en var í fullu samræmi við tollfrelsisstefnu borgarastéttarinnar, Manchesterstefnuna á þeim tímum. Hann hefur þó líklega aldrei órað fyrir því, að nokkur ríkisstj. ætti eftir að ganga svo langt — og það allra sízt í nafni frelsisins að leggja toll á soðningu, eins og núverandi hæstv. ríkisstj, hefur gert. En svona lengi geta nú hlutirnir versnað.

Því er það, að baráttan á móti tollunum og sérstaklega tollum á nauðsynjavörum hefur verið baráttumál alþýðunnar á Íslandi frá upphafi vega, og var fyrst þegar alþýðan myndaði hér sín pólitísku samtök, Alþfl., 1916, eitt af aðalmálum á hans stefnuskrá. Þess vegna er það alveg tvímælalaust, að sú breyting, sem nú er að verða með þessu frv. og með þeirri stefnu, sem hæstv. ríkisstj. er að taka upp í skatta- og tollamálum á Íslandi, — sú breyting að leita aftur til þeirra tíma, sem verstir voru, þegar konungar hófu að skipta sér af álögum á Íslandi, að leggja pening á hvert nef, að gera nefskattana að aðalatriði, að gera neyzlutollana að höfuðtekjulind ríkissjóðs, sem leggjast hlutfallslega þyngst á þá, sem þyngstar hafa fjölskyldurnar og erfiðast eiga með að framfleyta þeim, en léttast á þá, sem mestar hafa tekjurnar, — þess vegna er það, að sú stefna, sem nú er verið að taka upp, er að hverfa aftur til þess, sem verst var í afturhaldi fyrri alda, en strika yfir þá róttækni, sem barizt hefur verið fyrir á síðustu 100 árum, að sköttunum til þarfa þjóðfélagsins sé jafnað niður á einstaklingana og félögin eftir efnum og ástæðum, eða m.ö.o.: því breiðari bök sem menn hafa til þess að bera slíkar álögur, því þyngri skuli þær vera. Og þessi afturhaldsstefna er tekin upp á sama tíma sem ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að svipta alþýðu manna þeirri vörn, sem vísitalan á kaupgjaldið var, þannig að nú lendir allur sá skattþungi, sem lagður er á almenning, á alþýðu varnarlausri, hvað það snertir. að dýrtíðarvísitalan verndar hana nú ekki að nokkru leyti af sjálfu sér, heldur verður hún að gripa til þeirra ráða, sem ýmsir annars hafa oft verið að harma að hún þyrfti að grípa til, sem sé kaupdeilanna og verkfallanna, til þess að rétta sinn hlut vegna þeirra álaga, sem á hana verða nú lagðar.

Þetta vildi ég aðeins segja í sambandi við þær hugleiðingar, sem hv. 6. landsk, þm. var með viðvíkjandi því, hvers konar stefnu væri hér verið að taka upp. Hér er sem sé verið að stiga spor langt aftur á bak, feta í fótspor illra konunga fyrr á tímum um nefskattsprinsipið, en hverfa burt frá því, sem róttækast og bezt hefur verið gert á allri síðustu öld, á síðustu 100 árum.

Þá kom hv. frsm. meiri hl. fjhn. inn á það. að skattakerfið, eins og það væri núna, gerði þjóðina fátækari og það væri þess vegna nauðsynlegt að mestu leyti að afnema það eða minnka það eins stórlega og nú er gert. Er þetta rétt? Er það rétt, að skattakerfið, eins og það hafi verið, hafi orðið til þess að draga úr vinnu manna? Hann kom inn á það sem vörn fyrir því að gefa svona mikið eftir af hátekjunum, að þegar menn væru búnir að vinna svo og svo mikið, þá segðu menn: Nú borgar sig ekki fyrir mig að vinna lengur. Það fer svo mikið af því í skatta. — Ég vil gera athugasemd við þessi rök. Það, sem menn fá í tekjur, er tvenns konar í eðli sínu. Það er annars vegar það, sem menn fá sem vinnulaun. Það er hins vegar það, sem menn fá sem gróða. Að svo miklu leyti, sem um er að ræða tekjur, sem menn fá fyrir sína vinnu sem vinnulaun, þá er fyllilega hægt fyrir þjóðfélagið að tryggja það, ef þjóðfélagið álítur það skynsamlegt, að menn vinni lengur en 8 tíma, sem heilsufari manna er hollast að hægt væri að halda við, ef það álítur nauðsynlegt að uppörva menn til lengri vinnutíma, að menn slyppu við skatt af því, sem menn vinna sér inn með lengri tíma en 8 tíma vinnu, og jafnt hvað snertir vinnu sjómanna sem vinnu þeirra manna, sem hafa ákveðinn 8 stunda vinnudag, en vinna svo og svo mikið eftirvinnu og næturvinnu þar að auki, væri hægt að skapa algert skattfrelsi, ef þjóðfélagið vill og ef það vill uppörva menn til slíkrar mikillar vinnu með því að skapa algert skattfrelsi á þeim launum, sem þar væru fram yfir. Ef það er það, sem vakir fyrir mönnum, að gera mönnum mögulegt að vinna langan vinnutíma og fá mikil vinnulaun fyrir það, þá er það hægt með þessu móti. Og vinnulaunin, sem menn fá fyrir 8 tíma, eru ekki það mikil, svo að segja ekki hjá neinni stétt á Íslandi, að bara með því að hafa mörkin við t.d. 60–70 þús. mundu allir sleppa þannig. Þess vegna væri það fyllilega hægt. Sú mikla eftirgjöf, sem í þessu felst gagnvart hátekjumönnunum frá hálfu ríkisstj., er ekki nauðsynleg til þess að uppörva menn til meiri vinnu. Það var hægt með því að gera alla eftirvinnu, alla vinnu fram yfir 8 tíma, hvort það er hjá sjómönnum eða öðrum, skattfrjálsa, ef það var það, sem menn vildu ræða um. Hvað snertir hins vegar gróða, sem menn hafa, tekjur, sem menn hafa af verzlun og öllum mögulegum slíkum atvinnurekstri, fram yfir þetta, þá ber að skatta hann. Það er allt annars eðlis sem tekjur, og er eðlilegt, að þjóðfélagið taki til sín nokkuð af þeim tekjum, sem fengnar eru sem gróði, og milli þessa tvenns verður að gera skarpan greinarmun. Þess vegna var ekki nauðsynlegt að fara inn á þá braut, ef menn vildu uppörva menn til meiri vinnu eða halda við þeirri miklu vinnu, sem menn nú vinna, að gefa hátekjumönnum eftir eins og hér er gert. Þetta vildi ég taka fram út af þeirri athugasemd, sem hv. 6. landsk. kom með.

Ég vil í því sambandi benda á, að það kemur nokkuð greinilega í ljós af þeim skýrslum, sem við þegar höfum fengið um, hvernig tekjurnar skiptast. Ég held, að á því svæði, sem vélar skattstofunnar ná yfir, séu þeir menn í kaupstöðum og sýslum úti á landi, sem greiða tekjuskatt af yfir 150 þús., svo sem 32 menn alls. Hins vegar í Reykjavík eru um 219 manns, sem eru í þessum hátekjuflokki. Og þessar tekjur eru ekki af vinnu, þær eru fyrst og fremst af gróða. Ef þær eru af vinnu, þá er það að hverfandi litlu leyti. Þarna er þess vegna um það að ræða, að það er verið að hlífa gróðanum við skatti. Hitt var, ef menn vildu uppörva menn til meiri vinnu, þá var hægt að gera það með þessu móti, sem ég hef þegar rætt um.

Ég hef nú gert að umtalsefni bæði almennar og sérstakar athugasemdir, sem fram hafa komið við þessa umr., og bætt nokkru við þau rök, sem ég flutti fram gagnvart frv. við 1. umr. Og niðurstaðan í okkar afstöðu, þingflokks Alþb., gagnvart þessu frv. verður sú, að sökum þess að létt er með því tekjuskatti af þurftartekjum, er ekki hægt að vera á móti því, sökum þess hins vegar, að ríkisstj. um leið gefur gífurlega eftir hátekjumönnunum alveg að óþörfu, þá er ekki hægt að vera með þessu frv. Með því hins vegar, að ríkisstj. hefur ekki gefið okkur né stjórnarandstöðunni yfirleitt tækifæri til þess að taka þátt í undirbúningi þessa máls í þeirri n., sem bjó það undir þingið, hefur okkur ekki gefizt tækifæri til þess að láta vinna þá undirbúningsvinnu, sem þurfti að vinna, ef hér áttu að koma fram vel rökstuddar og skynsamlegar brtt. um svona frv., — brtt., sem annaðhvort hnigu að því að létta af öllum nefskattinum, sem felst í iðgjöldunum til trygginganna, sem hefði verið hægt, eins og ég hef sýnt fram á, og gera samt sem áður þurftartekjur skattfrjálsar. Þetta hefði allt saman verið hægt að gera og hefði getað legið hér fyrir, svo framarlega sem við hefðum átt fulltrúa í þeirri n., sem undirbjó þetta. Og þá hefði verið hægur vandi líka á svo skömmum tíma, sem þetta frv. nú er sett í gegnum þingið, að koma fram með ýtarlegar brtt. og rökstyðja þær vel. En sökum þess að á þessu hefur ekki gefizt kostur og við hins vegar höfum ekki viljað tefja fyrir framgangi þessa máls, af því að skattanefndir bíða nú og hvers konar óþægindi mundu af því hljótast, þá verður okkar afstaða sú gagnvart 1. gr. þessa frv., sem er aðalgreinin í því, því að um hitt geta menn að mörgu leyti verið sammála, að greiða ekki atkv. um hana, og vona ég, að ég hafi rökstutt það þannig, að sú afstaða okkar sé skýr, miðað við þær aðstæður, sem skapazt hafa og við höfum ekki haft aðstöðu til að geta ráðið við.