07.04.1960
Neðri deild: 63. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2021 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

113. mál, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. n. tók fram og nál. ber með sér, mælir n. öll með því, að þetta frv. verði samþ.

Það er engin ástæða til annars en að fagna því, að þetta frv. er fram komið. Ég vil þó segja það í því sambandi, að ef sveitarfélögin hefðu átt að taka á sig þá auknu útgjaldabyrði, sem þau hefðu óneitanlega fengið á sig og fá á sig vegna gengisbreyt., hefðu útsvör hjá þeim þurft að rjúka æðimikið upp á við og vafasamt, að gjaldgeta skattþegnanna í sveitarfélögunum hefði hrokkið til. Þess vegna er það af brýnni nauðsyn sprottið, að frv. um jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem ætlar sveitarfélögunum 1/5 af álögðum söluskatti, er fram komið sem nauðsynleg aðstoð við sveitarfélögin, alveg sérstaklega vegna þeirra auknu erfiðleika, sem á þeim hefðu skollið vegna gengislækkunarinnar. Ég hygg því, að það komi sér vel að fá þetta framlag, sem rennur nú til sveitarfélaganna af söluskattinum, vegna hinna þungu búsifja, sem þau verða fyrir af gengisbreytingunni. Við þurfum ekkert að fara í grafgötur með það, að alveg eins og fjárlög ríkisins stórhækkuðu af gengisbreytingunni, eins hefði fjárhagsáætlun hvers einasta sveitarfélags hlotið að gera það. Ég býst við því, að það fari víðast hvar svo, að þrátt fyrir þetta framlag. sem þau fá samkv. þessu frv., þegar það er orðið að l., muni það gerast óvíða, að útsvörin geti lækkað í krónutölu, heldur muni þau viðast hvar heldur fara upp á við þrátt fyrir þennan nýja tekjustofn, og sér maður þá, að þau standa ekki ýkjamiklu betur að vígi, að fengnum þessum tekjustofni, heldur en þau stóðu, áður en gengisbreytingin átti sér stað, að honum ófengnum.

Eins og frv. er núna, er augljóst mál, að sveitarfélög þau, sem eru í vanskilum gagnvart ríkinu vegna veittra ríkisábyrgða, hefðu, ef ábyrgðarskuldbindingarnar eru litlar, getað kannske um allmörg ár fram í tímann orðið að láta allt sitt framlag, sem þau hefðu fengið úr jöfnunarsjóði, upp í gamlar ríkisábyrgðir. Þetta leizt mér ekki á, og þess vegna varð um það samkomulag í n. að breyta upphafi 4. gr. á þann veg, að þessi greiðsluskylda sveitarfélaganna félli aðeins á gagnvart ríkisábyrgðum, sem til féllu eftir gildistöku þessara laga, en í 2. málsgr. 4. gr. er orðalagið nú svona:

„Nú er sveitarfélag í vanskilum með greiðslu vegna veittra ríkisábyrgða, og er ráðuneytinu þá heimilt að inna slíkar greiðslur af hendi af framlagi til sveitarfélagsins eftir því sem til vinnst.“

Ég sé ekki betur, og á það féllust meðnm. mínir, en að þetta orðalag gæti heimilað félmrn. að taka framlög sveitarfélaga algerlega upp í greiðslur gamalla skuldbindinga, og hefði svo getað orðið, ef skuldbindingarnar eru miklar, nokkuð mörg ár fram í tímann, þannig að þetta hefði ekki orðið til þess að létta útsvarsbyrðina á næstu árum.

En sem sé, till. n. er um það, að ef sveitarfélag kemst í vanskil með greiðslur vegna veittra ríkisábyrgða eftír gildistöku þessara l., þá sé rn. heimilt að inna slíkar greiðslur af hendi, meðan framlagið til sveitarfélagsins hrekkur til. Það eitt getur orðið nógu þungbært, en það virðist vera nauðsynlegt að heimila rn. nokkra aðstöðu til þess að innheimta smátt og smátt þessar áföllnu ríkisábyrgðir.

Ég tel, að frv. að fenginni þessari breyt. sé í því formi, að ég geti greitt því atkv. Fyrirvari sá, sem ég geri, er þó aðallega við það bundinn, að ég mundi óska, — og það skildist mér, að hv. 4. þm. Reykn. (JSk) óskaði eftir líka, — að framlag jöfnunarsjóðsins til sveitarfélaganna yrði greitt ársfjórðungslega, en ekki missirislega, af því að í 1. gr. er ákveðið, að ríkissjóðurinn fær söluskattsuppgjör ársfjórðungslega eftir á, og virðist þá, að þetta fé þurfi ekki að hafa neina langa viðdvöl þar, og sveitarfélögunum væri það óneitanlega nokkurt hagræði að fá þetta fjórum sinnum á ári heldur en tvisvar, ef teknískir möguleikar standa ekki í vegi fyrir því. Ég held, að strangleikinn á innheimtu söluskattsins tryggi það, að hann komi inn í þeim mánuði, sem hann á að innheimtast, og þá væri sem sé mjög æskilegt, að hann gæti komið viðstöðulaust út til sveitarfélaganna, þannig að þau fengju þessar greiðslur fjórum sinnum á ári. Skildist mér á meðnm. mínum, að þeir mundu gjarnan vilja athuga þetta atriði milli 2. og 3. umr., og vænti þess, að þeir geri það. En ég dvel aðallega við þetta af því, að hv. 3. þm. Sunnl.

(GuðlG) sagði áðan í ræðu sinni, að hann vænti þess, að þetta frv. yrði samþ. án frekari breytinga.

Þá er það viðvíkjandi skerðingarákvæðinu. Það er upplýst, að þetta skerðingarákvæði muni aðallega bitna á hinum smæstu, fámennustu sveitarfélögum. Til þess er vitnað, að ef skerðingarákvæðið væri ekki, gæti farið svo, að ýmis hin smærri sveitarfélög legðu engin útsvör á sína gjaldþegna, og það væri ástæðulaust að hafa lagasetninguna þannig. Ég játa, að það eru nokkur skynsamleg rök fyrir því að hafa skerðingarmark. Hins vegar tel ég þó vafasamt, að það sé réttmætt að hafa skerðingarákvæði, sem bitna á hinum fámennustu og getuminnstu sveitarfélögum, sem eiga raunverulega örðugast með að standa undir skyldum sveitarfélagsins sökum fámennis. Útsvarsupphæðirnar, sem lagðar hafa verið á að undanförnu, það má ekki eingöngu miða við þær, þær eru sprottnar af getuleysinu. Þær eru sprottnar af því, að sveitarfélögin hafa ekki treyst sér til að innheimta meiri útsvör. En ef þau hefðu haft möguleika á því, hefðu þau ráðizt í ýmsar framkvæmdir, sem þau hafa orðið að láta undir höfuð leggjast að ráðast í. Ég a. m. k. tel, að þetta orki tvímælis, að það skuli renna samkv. þessum lögum færri krónur — miðað við einstakling í smæstu sveitarfélögunum — til þeirra heldur en til hinna stærstu og getumestu sveitarfélaga, miðað við einstakling. Það verður eitthvað á fjórða hundrað króna, sem rennur til Reykjavíkur og annarra kaupstaða, en þetta skerðingarákvæði mun draga úr þeirri upphæð á einstakling í hinum fámennustu sveitarfélögum. Það tel ég vafasamt. Ég held, að það veitti ekki af að auka getu þeirra til þess að ráðast í meiri sameiginlegar framkvæmdir fyrir þegnana en þau hafa haft orku til að gera, einkanlega þegar ég hugsa til þess útsvarsstiga, sem nú er í útsvarslagafrv., sem gerir ráð fyrir því í hinum fámennustu sveitarfélögum, hreppunum, að byrja skuli að leggja útsvar á 3000 kr. árstekjur. Það finnst mér benda til þess, að það séu sveitarfélög í raun og veru í nauðum stödd, ef þetta er byggt á nokkru skynsamlegu viti, að það skuli eiga að leggja útsvör á 3000 kr. árstekjur, 200 kr. —10800 kr. er sú upphæð, sem nemur þeim ellilífeyri, sem er á 2. verðlagssvæði, 10800 kr. fær fólkið í þessum sveitahreppum. Hvað haldið þið, að það fái í útsvar? 920 kr. eftir skalanum, sem er í útsvarslagafrv. Það á að taka 920 kr. í útsvar af fólkinu í sveitunum af ellilífeyrinum, sem er 25% lægri en í kaupstöðunum. Er það á að lítast? Eru ekki líkur til þess, að þessum sveitarfélögum veiti ekki af að fá jafnháa upphæð á mann og kaupstöðunum? Ég held það: Ég vil vænta þess, að við afgreiðslu útsvarslaganna verði þetta athugað, hvort það er á nokkurn hátt forsvaranlegt að lögleiða útsvarsstiga í sveltunum, sem byrji á því að leggja útsvör á 3000 kr. árstekjur. Og ef það verður niðurstaðan, að það sé nauðsynlegt að ganga svona að þeim mönnum þar, aukast efasemdir mínar mjög um, að það sé réttlætanlegt að hafa slíkt skerðingarmark um framlagið úr jöfnunarsjóði til þessara veiku sveitarfélaga.

Þá eru það aðeins tvö atriði önnur. Í d-lið 3. gr. eru ákvæði um aukaframlög til þeirra sveitarfélaga, sem ekki fá nægileg útsvör á lögð samkvæmt l. um bráðabirgðabreyt. á útsvarsl. Oft og tíðum getur það verið svo, að sveitarfélag komist í mikil fjárhagsleg vandræði, kannske þrot, tímabundið, vegna sérstakra ástæðna. Nú gæti svo farið, að eitt og sama sveitarfélag væri búið að fá aukaframlag, meðan þessi vandkvæði gerðu þessu sveitarfélagi erfitt fyrir, tvö skipti, þrjú skipti, kannske fjögur ár í röð, en hefði síðan fengið bætta aðstöðu og rétt við og stæði e.t.v. eftir nokkur ár með blóma. Þá finnst mér koma til álita um aukaframlögin, sem þá væru búin að raska raunverulega öllum hlutföllum milli þessa sveitarfélags og annarra sveitarfélaga að því er snertir styrk úr jöfnunarsjóðnum, hvort endurgreiðsluskylda ætti að koma til, ef sveitarfélag hefði margsinnis fengið aukaframlag og síðan orðið fyrir því happi að rétta vel og myndarlega við. Ekki legg ég neina áherzlu á þetta, en ég skýt þessu fram, að ég hefði ekki talið það utan við það að vera athugandi.

Þá vildi ég víkja að e-liðnum, þar sem stendur, að eitt af hlutverkum jöfnunarsjóðsins sé að styrkja eftir ákvörðun ráðh. tilraunir til að koma betra skipulagi og meira samræmi á framkvæmdir sveitarmálefna og samstarf sveitarfélaga. Ég hef ekki getað fengið það upplýst í n., hvort miklu fjármagni sé ætlað að verja til þessarar starfsemi né í hverju hún eigi að vera fólgin. En eitthvað af fé jöfnunarsjóðs er ætlað til þessarar starfsemi, sem þarna er orðuð á þennan hátt, að koma betra skipulagi og meira samræmi í framkvæmdir sveitarmálefna og samstarf sveitarfélaga. Sennilega er þarna ætlunin að láta eitthvert fé renna til Sambands íslenzkra sveitarfélaga, til starfsemi þess sambands. En ég vænti þess, að það verði ekki neinn verulegur hluti af tekjum jöfnunarsjóðsins, sem fari í þetta, því að ég býst við, að hin verkefni hans, sem talin eru í bókstafsliðunum á undan, muni verða ærin og hann hafi varla stórfúlgu aflögu til þessarar samræmingarstarfsemi sveitarfélaganna.

Þetta voru sem sé þau atriði, sem ollu því, að ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, en eins og áður er sagt, greiði ég frv. atkv.